Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2010

Hvar er hæstiréttur Íslands staddur ?

Sú var tíðin að hæstiréttur var nokkuð fastur í sessi í vitund þjóðarinnar sem slíkur. Efasemdir um hæfni og heilindi þeirra sem þar sátu virtust ekki miklar og staða dómstólsins virkaði nokkuð traust í augum almennra borgara.

En þetta breyttist mikið á Davíðstímanum. Fjöldi manna fór þá að fá miklar efasemdir um hæstarétt því margir litu svo á að innsetning nýrra manna í dómstólinn hefði verið gerð með það fyrir augum að tryggja það að rétturinn " mældi rétt " eins og eitt sinn var sagt af yfirvaldi við drenginn Skúla Magnússon !

Og þegar fjöldi manns fer að líta svo á að menn sem settir hafa verið inn í hæstarétt séu þar til að gæta ákveðinna sérhagsmuna, þá er ákaflega líklegt að traustið sé á förum og fjandinn laus !

Nýuppkveðinn dómur hæstaréttar varðandi greiðsluaðlögun, að bjargarráð til handa illa stöddum einstaklingum í almennri stöðu séu andstæð stjórnarskráratriðum, ýtir enn undir vaxandi grunsemdir manna um að rétturinn þjóni í rauninni öðru en hagsmunum alþjóðar. Mennirnir sem nú sitja í hæstarétti minna óneitanlega í verkum sínum allnokkuð á suma hæstaréttardómarana sem vildu halda því fram á sínum tíma (1937), að veigamikil atriði í New Deal stefnu Franklins Roosevelts Bandaríkjaforseta væru ekki í takt við stjórnarskrána.

Þar reyndi afturhaldsfrosinn hæstiréttur að bregða fæti fyrir framgang einnar bestu framfarastefnu sem komið hefur fram í Bandaríkjunum.

Roosevelt sagði um þessa menn að þeir lifðu enn á tímum hestvagnanna.

Hann sagði líka að framkvæmdavaldið og löggjafarvaldið væru eins og tveir hestar sem væru að berjast við það að draga þjóðina upp úr kreppufarinu, en þriðji hesturinn, hæstaréttur, streittist á móti.

Ennfremur sagði Roosevelt : " Hæstiréttur er orðinn þriðja deildin í þinginu !

Hann er yfirlöggjafarvald eins og einn af dómurunum sjálfum hefur komist að orði. Hann les úr stjórnarskránni það sem ekki stendur þar og hefur aldrei átt að standa þar. Sem þjóð erum við því komin í þá aðstöðu, að við verðum að aðhafast eitthvað til að bjarga stjórnarskránni frá hæstarétti og bjarga hæstarétti frá sjálfum sér........Við þörfnumst hæstaréttar, sem lætur stjórnarskrána ráða, en reynir ekki að ráða yfir stjórnarskránni. "

Jafnframt undirstrikaði Roosevelt það, að erfiðleikarnir í sambandi við hæstarétt stöfuðu ekki af réttinum sem stofnun, heldur af þeim mönnum sem skipuðu hann.

Roosevelt skrifaði síðar um þetta deilumál er hann leit yfir farinn veg :

" Kjarni deilunnar árið 1937 var þessi. Átti hæstiréttur að vera yfirlöggjafi eða ekki ? Ef honum átti að leyfast það, var fólkið áhrifalaust og gat ekki krafist þess af þinginu að það leysti vandamál þjóðarinnar. Áttu örfáir menn í krafti virðingar sinnar að geta komið í veg fyrir allt það, sem stjórnin vildi gera fyrir verkalýðinn, fyrir atvinnuleysingjana, fyrir hina sjúku, fyrir gamla fólkið og börnin og fyrir atvinnuvegi landsmanna ? "

Þetta sagði Franklin D. Roosevelt fyrir um 70 árum og ég spyr:

Sjá menn ekki samlíkinguna ?

Sjá menn ekki hverjir eru að gæta sérhagsmuna í nafni almannahagsmuna ?

Hverskonar hæstarétt erum við með að störfum í þessu landi ?

 

 

 

 

 


Höldum áfram verkinu frá 1944

Í kjölfar hrunsins hefur sú ömurlega staðreynd komið skýrt í ljós, að borgaralegt öryggi hefur í raun og veru verið á brauðfótum hérlendis alla tíð.

Það má segja að aldrei hafi verið haldið áfram að byggja á þeim grunni sem lagður var 1944 með lýðveldisstofnuninni. En grunnurinn var lagður í góðum anda fyrir þá samfélagsbyggingu sem þar átti síðan að rísa. Teikningar af byggingunni voru hinsvegar aldrei útfærðar sem slíkar og því varð skakkturn norðursins að veruleika - upphróflaður á skammsýnisforsendum stjórnvalda frá degi til dags.

Lagaverndin sem sett var um líf og velferð þjóðarinnar hefur af þessum ástæðum og öðrum reynst ákaflega vanmáttug, svo við höfum í raun og veru lifað undanfarna áratugi að miklu leyti í fölskum veruleika hvað öryggi og almenn mannréttarmál snertir.

Nú liggur það hinsvegar fyrir að flestir eru búnir að átta sig á því að stjórnarskráin okkar er ófullkomið plagg, plagg sem var aldrei unnið í upphafi með það fyrir augum að það ætti að gilda óbreytt um alla framtíð.

Það var lagt fram 1944 í sínum byrjunarbúningi og gengið út frá því að áfram yrði síðan unnið að skýrari gerð þess fyrir hagsmuni lands og lýðs.

Stjórnarskráin átti sem sagt að verða miklu fyllri og greinarbetri leiðarvísir fyrir íslenskt samfélag í komandi tíð. En það gekk hinsvegar ekki eftir.

Stjórnarskráin varð þess í stað gerð að hornreku og afgangsmáli í allri stjórnmálaumræðu komandi ára og enginn virtist telja það ómaksins vert að huga eitthvað í alvöru að áframhaldandi vinnu við hana.

Menn voru svo uppteknir í skotgröfum og skæruhernaði flokksmennskunnar að einhver smáatriði, eins og borgaraleg öryggismál, komust aldrei að.

Og vegna þess að það kom ekkert upp á sem leiddi ótvírætt í ljós þennan mikla samfélags-ágalla, liðu árin svo að stjórnarskráin var bara áfram það ófullkomna upphafsplagg sem lagt var fram við lýðveldisstofnunina.

En svo kom efnahagshrunið með sínum hrikalegu afleiðingum fyrir þjóðlífið.

Allt í einu gerðu menn sér grein fyrir því að íslenska þjóðríkið hafði verið rænt, fótunum verið kippt undan velferð þjóðarinnar og borgaralegt öryggi landsmanna augljóslega í þeirri stöðu að hanga í lausu lofti.

Og þó að það lægi skýrt fyrir hverjum heilvita manni, að tilteknir menn í tilteknum hagsmunaklíkum, hefðu farið ránshöndum um ríki og þjóð, virtist ekki stafur fyrir því að slíkt væri í nokkru saknæmt eða nokkur viðurlög við slíku framferði ! Stjórnarfarslegar varnir reyndust þannig meira og minna í skötulíki, enda virðist aldrei hafa verið gert ráð fyrir þeim möguleika að kerfið yrði rænt innanfrá.

Fólkið í landinu, í líki friðsamra dúfna, hafði í grandaleysi sínu fallið í þá gryfju, að láta gráðuga hauka passa upp á líf og velferð þjóðarinnar !

Frjálshyggjan var þeim haukum boðorð þess frelsis, að þeir ættu og mættu deila og drottna að vild. Leiðin til auðs og valda byggðist í þeirra hugsun á því að troða sem mest á réttindum annarra og því flugu þeir í ætið hver sem betur gat.

Og þá kom í ljós sem fyrr getur, að engin stjórnarskrá eða eðlilegt lagaumhverfi var til sem verndaði samfélagið með haldbærum hætti gegn slíkum ófögnuði !

Samfélagslegt varnarkerfi var í rauninni ekki til, borgaralegt öryggisnet var bara nafnið tómt, réttarverndin lítil sem engin.

Samt hafði gangandi kostnaður ríkisins vegna slíkra varna verið mikill en sýnilega aðeins til þess að halda hundruðum manna uppi á launum í kerfinu og það hreint ekki lágum. Eftirlitið hafði þannig bara verið til að sýnast og árangurinn var náttúrulega eftir því.

Þjóðin stóð eins og þvara og hver spurði annan í forundran : " Höfum við virkilega búið við svona hráar forsendur í öll þessi ár og talið okkur í góðum málum ?"

Já, því miður, þá höfum við gert það !

Það dugir nefnilega ekki að byggja grunninn einan í samræmi við góð og fögur gildi. Samfélagsbyggingin þarf að rísa upp af grunninum og hún verður að vera heilsteypt og heilnæm fyrir þá sem þar eiga að búa. Sú byggingarvinna þarfnast aðkomu okkar allra.

Við verðum hinsvegar að byrja á því að fjarlæga skakkturninn - fílabeinshöll forréttindanna - af grunninum. Þar á ekkert rangindabákn heima !

Svo verður að koma fram með stjórnarskrá sem reynist svara til þess mannréttar-samfélags sem við viljum sjá og búa við á Íslandi.

Það verður að setja þjóðhagsleg viðurlög gegn samtryggingar-spillingu óhæfra pólitíkusa og  tryggja það að íslenskt samfélag verði hér eftir í takt við hugsun og réttlætisvitund þjóðarinnar.

Eftir það getum við farið að byggja á grunninum frá 1944 þá samfélagsbyggingu sem alltaf var ætlunin að reisa á honum.

Vonandi mun kosið stjórnlagaþing bera gæfu til þess að leggja fyrstu steinana í þá byggingu, svo hún geti orðið sú varða lýðræðis og mannréttinda sem vísað getur okkur - og öðrum - veginn fram á við, til betri tíma.

 

 

 

 

 

 

 

 


Syndakvittanir og aflátsbréf alþingis

Landsdómsmálið var, eins og ég hef komið inn á áður, afgreitt með þeim hætti frá alþingi að skömm var að og traust fjöldans á þingmönnum féll niður fyrir núll. Að sjálfsögðu átti að heimila málshöfðun vegna embættisfærslu allra ráðherranna sem greidd voru atkvæði um og jafnvel fleiri úr hrunstjórninni.

Rannsóknarskýrsla alþingis ein gaf nægar forsendur fyrir slíku réttarhaldi, en þegar á hólminn kom hlupu þingmenn eins og halaklipptir hundar í skotgrafir flokksmennskunnar og gleymdu því alfarið að þeir höfðu skyldum að gegna gagnvart þjóðinni.

Og þar með voru gefin út aflátsbréf á kaþólska vísu fyrir þrjá ráðherra, en bréfin þau eru gjörsamlega gildislaus við prófborð réttlætisins og sannleikans. Þau eru bara pólitískar syndakvittanir sem eru prentaðar á ómerkilegan lygapappír samtryggingarkerfis " besta klúbbsins í bænum ! "

En með þessum aflátsbréfum sýndi alþingi svo ekki varð um villst að það er enganveginn að vinna eftir forskriftum nokkurs hreinleika í uppgjörsmálum efnahagshrunsins.

Við getum spurt okkur að því hvernig Jóhanna Sigurðardóttir átti að fara að því að setja Ingibjörgu Sólrúnu undir landsdóm ? Menn geta sagt sér það sjálfir, að henni hafi verið það innst í huga að bjarga sínum fyrri foringja frá þeim örlögum og kannski hefur Ingibjörg getað minnt hana á að þær ættu nú ýmislegt sameiginlegt frá fyrri tíð ?

Og úr því að kratar ákváðu að gefa Ingibjörgu aflátsbréf, lá það í kortunum að Björgvin fengi að fljóta með. Og til þess að það væri ekki svo einhæft og áberandi hvernig Samtryggingin sá um sína, var þegjandi samkomulag um að bjarga Árna Matt frá eigin örlögum svona til þess að sýna að það væru ekki kratar einir sem hlytu grið !

Og svo má nú minna á það að Össur var líka á kafi í því að útvega Árna vinnu erlendis, út á alla hæfileikana sem hann sparaði svona mikið hér heima í þágu eigin landsmanna. Það hefði því getað spillt þeirri bræðralagsvinnu mikið ef landsdómur hefði tafið fyrir afkastagetu Árna utanlands !

En þegar þarna var komið, voru Samtryggingarmenn eiginlega orðnir svo skömmustulegir vegna eigin ræfilsháttar, að þeir töldu að Geir yrði að fá landsdóm yfir sig því hann hefði jú verið höfuð hrunstjórnarinnar. En þeim gleymdist að höfuð þeirrar stjórnar voru tvö og þeir voru þegar búnir að sýkna annað. En auðvitað er það löngu ákveðið að Geir verði aldrei dæmdur sekur og allt er þetta bara leikrit sett á svið til að láta fólk halda að réttlæti nái líka yfir þá sem sitja í hæstu stólum kerfisklíkunnar.

Staðreynd málanna er hinsvegar sú að spillingarhugsun íslenskra pólitíkusa er hreint með ólíkindum. Þetta fólk, sem situr á alþingi og víðar í valdastöðum, hefur sýnilega enga heilbrigða tengingu við mannlífið í landinu.

Eftir að Ingibjörg, Björgvin og Árni voru leyst undan landsdómi með pólitísku moldvörpustarfi, láta þau eins og þau séu þvegin af allri synd.

Bæði Björgvin og Árni láta nú frá sér bækur sem eiga að sýna hvílíkir englar þeir séu í raun og veru. Og þar eiga að birtast einhver vísindi varðandi hrunið og pólitíkina sem rekin var í kringum það !

Auðvitað er ekkert að marka það sem þessir menn eru að segja um þessa hluti. Þeir eru bara að hvítþvo eigin feril og sýna fram á að þeir hafi eiginlega bara verið píslarvottar aðstæðnanna.

En aflátsbréf þeirra frá alþingi og fölsk syndakvittun frá óhæfu löggjafarvaldi og gerspilltu ríkisvaldi mun duga þeim skammt. Hvorki kaþólska kirkjan né alþingi geta gefið út slíkar synda-aflausnir - fólk sér í gegnum slíkt prump og sagan mun fella sinn dóm um þessi mál og réttlætið mun segja sitt þegar það fær að komast að.

Það sjá það nefnilega flestir, að eins og málin hafa verið afgreidd, voru hvorki réttlætið eða sannleikurinn vottar þess sem gert var. Ógildin ein voru kölluð þar til vitnisburðar. Samspillingin ein var viðstödd verknaðinn !

Það er löngu sannað mál, að íslenska þjóðin tapar á öllu því sem fram fer í skítugum skotgröfum flokksmennskunnar !

 

 

 


Hjartað slær til vinstri - kynning á bók

hjartad2.pngNú hef ég sent frá mér bók sem ber nafnið - Hjartað slær til vinstri  -, þetta er saga sem gerist í litlu þorpi á landsbyggðinni upp úr 1960.

Ég skrifaði þessa sögu um aldamótin þegar dansinn kringum gullkálfinn var að færast upp í  trylling og sem óðast að taka á sig mynd geggjunar, gróðafíknar og siðleysis í samfélaginu okkar.

Mér fannst afturförin orðin slík í siðrænum efnum að mig hryllti við því. Íslandið mitt góða var að breytast í einhverja Mammons-ófreskju sem ég hélt að ég myndi aldrei sjá hérlendis. Það var varla talað um neitt lengur nema peninga !

Ég fór mér til hugsvölunar að skrifa um það Ísland sem ég hafði fyrir augum þegar ég var að komast á legg. Ég skrifaði um þær hugsjónir sem ættu stöðugt að vera leiðarljós í lífi manna. Ég skrifaði um frelsi og sameiginlegan rétt manna til að fá að lifa á þessari jörð. Ég skrifaði um fólk sem hafði hjarta fyrir samfélagi sínu og lifði ekki bara fyrir sig. Í stuttu máli sagt - ég skrifaði mig frá þeim viðbjóði sem var að eitra þjóðlífið og óð yfir allt samfélagið fyrir spillingaráhrif þeirra sem með völdin fóru.

Í árslok 2001 var ég búinn að skrifa þessa sögu sem rann á móti straumnum.

Og það kom fljótt í ljós að enginn vildi gefa hana út. Það hafði enginn útgefandi áhuga á henni, hún þótti ekki gróðavænleg og var sannarlega ekki eins og menn vildu hafa hana. Mér var stundum sagt, að það væru punktar í henni, en ég þyrfti að stytta hana, fella úr henni kafla og málsgreinar, breyta hinu og þessu og gera hana allt öðruvísi úr garði.

Og það þurfti svo sem ekki að segja mér hvað var að. Ég skildi auðvitað að það var sálin í sögunni sem mátti ekki vera þar. Hún var ekki í takt við tíðarandann. Hún virkaði þvert á móti sem óþægilegt veisluspjallafyrirbæri gegn ráðandi veltutíma Mammons. Boðskapur hennar var alls ekki frá Babylon heldur miklu frekar frá Jerúsalem og það þótti hreint ekki gott.

Og ég sá fljótlega að það var til lítils að ganga með þetta handrit milli gróðafíkinna útgefenda og hlusta á endalausar breytingatillögur þeirra og ágenga íhlutun gagnvart mínum skrifum.

Þeir gátu bara sagt annaðhvort já eða nei. Ég fór ekki fram á annað.

Að lokum stakk ég sögunni minni niður í skúffu. Þar lá hún í nokkur ár en bjó mér samt í hjarta og sinni. Hún var áfram hluti af hugsanalífi mínu og meðgöngutíminn lengdist þar sem útgáfu-fæðing var ekki í sjónmáli.

Enginn áhugi virtist vera hjá útgefendum á umfjöllun um fólk og háleitar hugsjónir, um mannlegt frelsi og þá baráttu sem alltaf hefur orðið að heyja fyrir því í þessum heimi. Enginn skilningur virtist á því að þörf væri að leiða hugann að ýmsum kyndilberum frelsis og manndáða í leit að heilbrigðum fyrirmyndum og meðtaka frásagnir af íslensku alþýðufólki sem átti sínar tilfinningar og sitt líf.

Enn virtist sú ranghugsun lifa góðu lífi hjá mörgum, að söguhetjur þyrftu að tilheyra yfirstétt og mættu ekki vera " bara venjulegt fólk " !

Ekki veit ég hvað olli því að ég sendi Vestfirska forlaginu handritið mitt að lokum. Sennilega eitthvert bjartsýniskast eftir hrunið, einhver vonarglæta um að annað hugarfar væri í uppsiglingu, samfara þeim skilningi á brotlendingu bankanna, Mammons-musteranna, sem gerði fólki fært að sjá og viðurkenna vitleysuna sem í gangi hafði verið.

Og Vestfirska forlagið hugsaði málið - óþarflega lengi fannst mér reyndar - en þar var hugsað og spáð í verkið. Og að lokum var ákveðið að gefa söguna mína út - óbreytta - eins og hún var hugsuð og skrifuð af minni hendi.

Það var helst við slíku að búast af litlu landsbyggðarforlagi - sem byggir á þjóðlegum grunni og metur mál út frá fleiru en bara peninga-sjónarmiðum.

Eftir nærri tíu ára ferli er þessi bók mín því að koma á markað. Hún segir frá þroskaferli unglings, frá viðvarandi sársauka vegna þjáninga annarra, frá baráttu kynslóðanna, frá vonum um betri heim og hugsun fyrir samhjálp og samvinnu, frá trú á forsjá Guðs vors lands.

Ég vona að menn lesi þessa sögu út frá þeirri forsendu, að þeir vilji opna hjörtu sín fyrir hugsjónum frelsis og manndáða, að þeir vilji verða meiri og betri Íslendingar en þeir hafa kannski verið, að þeir vilji græða sár þjóðarinnar og bæta samfélagsheildina, að þeir vilji leiða hinn frjálsa íslenska anda í öndvegi sitt á ný, til blessunar fyrir heill og hamingju Íslands.  

Okkur er öllum skylt að fylgja því sem rétt er og reyna að vera þær manneskjur að samfélagið sem við lifum í verði betra fyrir okkar framlag hversu smátt sem það kann að vera !

Hjartað slær til vinstri - í okkur öllum - meðan við lifum.

Ég leyfi mér að skora á ykkur að kynna ykkur hvernig ég tengi þá líffræðilegu staðreynd við þann veruleika sem við búum við - í þeirri von að við getum gert hann manneskjulegri og betri ? Lesið þessa sögu mína og kryfjið hana sem hugsandi manneskjur - til mergjar !

 


ÞEGAR FÓLKIÐ RÍS UPP ............ !

Það er greinilegt að það þarf að gera samtryggingar-yfirvöldum þessa lands það fullkomlega ljóst, að það er sígild staðreynd að samtakamáttur fólks er mesta afl hvers þjóðfélags. Það er nefnilega eins og þessi marghöfða pólitísku yfirvöld sem hér er vísað til, hafi sofnað frá þessari staðreynd og viti ekki lengur af henni.

En íslenska þjóðin má ekki leyfa að yfirvöld hundsi almenn lýðréttindi í landinu og neiti að leysa úr þeim vandamálum sem stór hluti þjóðarinnar stendur frammi fyrir vegna þess að handhafar sömu valda, ráðherrar og þingmenn íslenska þjóðríkisins, sviku varnarskyldur sínar gagnvart þegnum þessa lands.

Þessvegna er fólk út um allt í djúpum skít - vegna þess að það var svikið og blekkt, rænt og svívirt og skilið eftir á köldum klaka - af þeim sem áttu að telja það skyldu sína að verja það og rétt þess til að fá að lifa við þjóðhagslegt öryggi.

Einkavæddu bankarnir urðu að skrímslum fyrir atbeina fyrri stjórnvalda og sviku og rændu þjóðina með þegjandi samþykki þeirra sem áttu að gæta þess að hér væru siðleg sjónarmið í heiðri höfð. Og eftir að þessi ómannvænu græðgisvé höfðu verið rænd innan frá og síðan fjármögnuð á ný með almannafé, kom fljótt í ljós að hugsunarhátturinn hafði ekkert breyst. Græðgin er sjáanlega enn til staðar og margt í sama óheillafarinu gagnvart hagsmunum alþjóðar.

Þessir bankar eru því ekki að endurheimta neitt traust, ekki frekar en þingið, sem er algerlega ónýtt að áliti margra.

Við - almennt fólk þessa lands - byggðum upp verkalýðshreyfinguna gegn vilja stjórnvalda sem vildu ein fá að ráðskast með almannahag, við byggðum einnig upp samvinnuhreyfinguna og ungmennahreyfinguna og til hvers ?

Til að styrkja heilbrigt mannlíf í landinu okkar. Við höfum byggt upp allt það sem best hefur verið gert í þessu landi.

Við gerðum þessar þrjár hreyfingar að afli fólksins - bárum þær fram til sigrandi stöðu í þjóðlífinu - þessar þrjár félagslegu systur !

En þegar sigurinn var að komast í höfn, þegar baráttan fyrir auknum tilvistargæðum var farin að skila sér betur en nokkru sinni fyrr, söðluðu kolkrabbafylgjendurnir, - hinir sívirku andstæðingar almannaheilla um og hættu opinberlega að vera fjandsamlegir. Þess í stað  fóru þeir að hreiðra um sig innan þessara varnarsamtaka fólksins.

Þá komu óheillakrákurnar, svörtu fuglarnir, leðurblökur myrkranna, fram úr skúmaskotum skítlegheitanna - og til hvers ?

Jú, auðvitað eins og alltaf, til að sjúga blóðið úr fólkinu !

Þessi fimmta herdeild settist að í verkalýðshreyfingunni og hefur nánast eyðilagt hana, hún gerði samvinnuhreyfinguna óvirka með launráðum, baktjaldamakki og niðurrifs-starfsemi, hún eyðilagði ungmennafélags-andann og setti arðránsmerki Mammons á þetta allt saman, stimplaði græðgistákn auðvaldshyggjunnar á allt sem hún komst í færi við.

Þannig var verkalýðshreyfingin rænd hugsjónum sínum - innanfrá.

Eins var farið með samvinnuhreyfinguna, hún var myrt af myrkraöflum.

Og ungmennafélagshreyfingin var gerð að hugsjónalausu og steingeldu rekstrar-apparati sem gerði aðeins út á svokallað afreksfólk. Fyrri stefnu um ræktun lands og lýðs var varpað út í hafsauga.

Það hafa eyðingaröfl verið að verki á Íslandi, jafnt gegn þjóðinni sem landinu !

En einu sinni var til mikið hús eða virki sem kallað var Bastilla. Það varð tákn fyrir hið illa vald sem kúgaði fólkið og greifar valdsins héldu það óvinnandi.

En þegar hefndarþorsti fólksins var kominn í fullan mæli, reif það þetta virki niður, stein fyrir stein. Flóðbylgjan skall á Bastillunni og hún hætti að vera til sem tákn um hið illa vald og afturhald.

Það skiptir ekki máli hvert húsið er sem hýsir slíkt vald, hvort sem við tölum um þinghús, stjórnarráð eða banka. Það er alltaf á valdi fólksins að rífa niður, stein fyrir stein, aðsetur  valds sem sýnir sig vera illt.

Fólkið í þessu landi þarf nú að sameinast um eina kröfu - mannsæmandi líf !

Stjórnvöldin í landinu og fjármálafyrirtækin verða að skila aftur til fólksins öllu því sem stolið hefur verið af því með siðlausri verðtryggingu og hagfræðilega útreiknuðu hruni !

Annars verður enginn friður í þessu landi, því farið getur að líða að því að yfirvöld megi sannarlega fara að óttast þjóðina.

Hvert það yfirvald sem hundsar þjóð sína og svíkur hagsmuni almennings er vald sem ekki verður við unað.

Eina skjaldborgin sem reist hefur verið til þessa, er skjaldborg lögreglunnar um þinghúsið - en sú skjaldborg mun ekkert geta varið, ef halda á áfram að ofbjóða fólki með þeim hætti sem gert hefur verið.

Þegar búið er að svipta fólk öllu - ræna það og svívirða á allan hugsanlegan máta, þá er hefndin ein eftir og í flóðbylgju-hamförum slíkrar hefndar munu allar bastillur illveldis og kúgunar verða jafnaðar við jörðu !

Þegar fólkið rís upp - sameinað í reiði sinni - munu græðgisvéin falla !

Ætla yfirvöldin og endurreist fjármálaskrímsli virkilega að halda áfram að skapa forsendur fyrir því að til slíks uppgjörs komi á Íslandi ?

 


Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 21
  • Sl. sólarhring: 70
  • Sl. viku: 590
  • Frá upphafi: 365488

Annað

  • Innlit í dag: 18
  • Innlit sl. viku: 503
  • Gestir í dag: 18
  • IP-tölur í dag: 18

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband