Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2011

Um lýðræði og þjóðarþarfir

Hvað er lýðræði ? Hvað felst í þessu hugtaki sem er svo mikið haft á orði í heiminum og þá ekki síður af þeim sem í raun eru algerlega andvígir þeim gildum sem þar standa að baki ?

Lýðræði er í stuttu máli þjóðfélags-fyrirkomulag þar sem sú grundvallar-forsenda mannréttinda er viðurkennd að kosið skuli um mál og hver hafi þar rétt til að segja já eða nei, eftir því sem hann hefur sannfæringu til.

Sagan greinir samt frá margskonar þvingunaraðgerðum gagnvart kjósendum til að fá þá til að kjósa eftir vilja annarra og er ekkert lýðræðisríki með hreinan skjöld í slíkum málum. Einræðistilburðir ýmissa valdamanna og flokka er nokkuð sem þekkist nánast alls staðar í þessum heimi, en vörn fólksins, almenningsréttarins, gegn slíku brölti, er yfirleitt fólgin í því að fylkja sér um lýðræðið og virkja samtakamáttinn.

Baráttan fyrir lýðræðinu er því ekki bara einskorðuð við þá hluta heimsins sem búa á afgerandi og augljósan hátt við einræði. Sú barátta er með einhverjum hætti í gangi alls staðar og þarf að vera alls staðar. Hin duldu kúgunaröfl yfirlýstra lýðræðislanda eru nefnilega oft einna verst við að eiga.

Almannahagsmunir hafa alltaf þurft að verjast ágangi sérhagsmunanna og á síðustu árum höfum við orðið vitni að því hér á Íslandi hvernig fer þegar  þjónustufulltrúar sérhagsmunanna yfirtaka algjörlega landsstjórnina og setja almannahagsmuni út í kuldann. Deila síðan út þjóðareignum til útvalinna með yfirlýsingum um að almenningur muni njóta góðs af breyttu fyrirkomulagi, vaxandi samkeppni o.s.frv.

En það er auðvitað aldrei nefnt að vaxandi samkeppni þýðir í raun og veru vaxandi samráð hagsmunaaðila, sem beinist oftast að því að arðræna almenning.

Það hefur verið vont að upplifa það að sameiginlegar eignir okkar hafi verið hirtar af okkur með fyrrgreindum hætti, síðan notaðar til að ræna okkur og hlunnfara, og svo séu peningar þjóðarinnar settir í það að endurfjármagna og byggja upp með það fyrir augum að afhenda svo allt nýjum hákörlum til afnota.

Ef þetta er lýðræðið sem boðað er frá hinu gildisrýra alþingi vil ég sem minnst af því vita. Það er þá lýðræði sérhagsmunanna en ekki lýðræði sem tekur mið af þjóðarheill.

Þjónustumenn sérhagsmunanna eru eins og við vitum víða staðsettir í kerfinu og hafa fært það á fáum árum af sæmilega heilbrigðum grundvelli yfir á svikadý hræsni og blekkinga. Ekkert helst eða getur staðið á slíkri undirstöðu.

Á síðustu árum hafa menn jafnvel þóst sjá það að fulltrúar annarlegrar hagsmunagæslu séu jafnvel komnir í hæstarétt. Sé það þannig í raun er illt til þess að vita og ef svo er getum við auðvitað ekki vænst þess að dómsorð þaðan verði grundvölluð á viðhorfum til almannaheilla.

Við vitum sennilega flest að upphaflega var barist til lýðræðis frá vinstri en hægriöflin vörðu sérhagsmunina og gera það auðvitað enn. En til er það líka að pólitískir forustumenn til vinstri geta orðið svo spilltir og svikulir við málstað lýðræðis, jafnaðar og félagshyggju, að þeir gerist þar flestum hægri mönnum verri. Þá getur jafnvel svo farið að raunsæir og greindir hægri forustumenn taki þeim fram í heilbrigðum viðhorfum til þjóðlegrar farsældar. Það er því ekkert algilt í þessum efnum, en samt ber að hafa það í huga að lýðræðið er í eðli sínu vinstrisinnað, þar sem það miðast við að virða mannréttindi hvers og eins.

Þar á ekki að gera út á neinn meðfæddan aðalsrétt, mannfélagsleg tignarstig frá tímum fyrri stjórnarhátta, ríkidæmi eða nokkra stöðuhagsmuni.

Hver manneskja á að hafa sinn rétt til að greiða atkvæði um þau þjóðfélagslegu áhrifamál sem taka til eigin örlaga. Þjóðaratkvæðagreiðslur eru því sjálfsagðar í hverju örlagamáli sem þjóð stendur frammi fyrir og að hindra framgang slíkrar niðurstöðu er nauðgun á lýðræðinu.

Íslensk saga sýnir það ljóslega hverjir hafa jafnan haft mesta tilhneigingu til að knýja í gegnum alþingi pólitískar niðurstöður sem gengið hafa gegn þjóðarhagsmunum.

Lýðræðið hefur aldrei komið frá hægri !

Það hefur svo sem ýmsu verið haldið að fólki af hálfu yfirvalda sem eiga ekki skilið traust almennings eftir það sem á undan er gengið. Og þegar ég segi það, er öll hin pólitíska elíta landsins fyrir sökum höfð.

Því það virðist sannarlega liggja fyrir, að öll hin flokkspólitísku öfl hafi sameinast um það að þegja rannsóknarskýrsluna okkar  í hel, eftir að það kom í ljós að hún var betur og ærlegar unnin en nokkur hafði búist við og fletti ofan af miklu meiri og útbreiddari spillingu en talið hafði verið að hér væri til staðar.

Skýrslan beit svo nærri grenjum flokkanna, að pólitísku refirnir sáu að þau og þeir og öll þeirra skollabrögð voru í hættu ef taka ætti til á þeim slóðum.

En ef þjóðin á að lifa við heilbrigð skilyrði verða spilltir flokkar að heyra sögunni til. Lýðræðið er í hættu hvar sem spilling er fyrir hendi og hérlendis er spilling fyrir löngu komin á alvarlegt og þjóðhættulegt stig.

Ef við viljum varðveita það góða og heilbrigða sem ávannst fyrir þjóðina með fullveldinu 1918 og lýðveldisstofnuninni 1944, verðum við hvert og eitt að stuðla að virkara lýðræði á Íslandi og afneita öllu því sem vill múta okkur til fylgis við ranglæti og spillt sjónarmið.

Tiltekinn forsætisráðherra bað á sínum tíma Guð að blessa Ísland, þegar hann sá að hann réði ekkert við þau þjóðarógæfuöfl sem hann hafði sjálfur tekið þátt í að koma á legg. En Guð blessar ekkert sem er spillt og ranglátt og því verðum við Íslendingar að ganga í okkur og leita uppi götur heiðarleikans og hefja gömlu gildin til vegs og virðingar á ný.

Það er eina leiðin til þess að við sem þjóð endurheimtum okkar fyrri stöðu í samfélagi þjóðanna og getum í sannleika staðið áfram í þeirri trú  -  að Guð vors lands sé með okkur í lífi okkar og starfi.

 

 

 

 


Icesave ánauðin

Nú liggur fyrir að þjóðin, venjulegir Íslendingar, eiga að kjósa um það hvort þeir séu reiðubúnir til að bera ábyrgðina á frjálshyggjufylleríi einkavæddra banka og fjármagnseigenda, sem viðgekkst hérlendis með allri sinni svívirðu árin fyrir hrunið -  með velþóknun og veislustuðningi íslenskra yfirvalda.

Lýðræðið er svo dásamlegt á Íslandi, að fólk á að fá leyfi til að samþykkja sína eigin hengingu. Íslenskum almenningi er ætlað að gefa fordæmi um undirgefni í vaxandi auðvaldsheimi nútímans, svo fjármagnsöflin geti haldið áfram að spila frítt sitt glæfraspil og sturta öllum ófarnaði yfir alþýðu manna.

Og það er ekki bara verið að fara fram á það að við hengjum okkur heldur börnin okkar líka - í fjötrum skulda sem aðrir hafa stofnað til !

Þetta eru afleiðingar einkavæðingarinnar sem átti að lyfta hér öllu til hærri og betri lífskjara. Rekstur á vegum ríkisins, í þágu fólksins, var bannsunginn af öllum sem trúðu á íhaldið og frjálshyggjuna, og slíkir fuglar fundust svo sem í öllum flokkum - allur einkarekstur átti að vera svo miklu betri - fyrir fólkið !

En hvað gerðist ?

Gullkálfarnir mökuðu krókinn hver í kapp við annan, rændu og stálu hver sem betur gat og ekkert raunhæft eftirlit var í gangi. Forseti, ríkisstjórn og þing voru svo hrifin og upptekin af útrásarliðinu, að þjóðin gleymdist gjörsamlega eða það höfuðverkefni þessara aðila að standa á öryggisvakt fyrir ríkið og almannahag.

Allar hættubjöllur glumdu og allt vitnaði um voðann en engu var sinnt. Og svo kom hrunið og þá ákvað frjálshyggju-ríkisstjórn Geira og Imbu að ríkisvæða alla bankana sem höfðu verið " einkavæddir til góðs fyrir alla ", að sagt var, fáum árum áður. En þá voru bankarnir auðvitað orðnir gjaldþrota vegna græðginnar ofsalegu sem þar réði og ránanna sem höfðu verið látin viðgangast átölulaust. Einkavæðingarmafían sá því að það varð að fjármagna þá á ný og auðvitað með peningum úr ríkiskassanum, peningum fólksins. Svona er sagan og ljót er hún og öllu íslenska stjórnkerfinu til ævarandi skammar og svívirðu !

Ráðamenn brugðust skyldu sinni og sviku þjóðina með hryllilegum hætti.

Markaðurinn var löngu orðinn sjúkur og beinlínis gerður sjúkur til að koma fyrirhuguðum eignaþjófnaði í gegn. Ofþenslan hefði löngu áður átt að leiða til inngrips stjórnvalda til tryggingar almannahagsmunum. En það var ekkert gert af slíku því að í augum þeirra sem með völdin fóru var markaðurinn heilagur og eina mælistikan á rétta þróun. Og yfirvöld og fjármálageirinn mættust því í heilagri einingu í því að arðræna fólkið í landinu með svívirðilegasta hætti.

Þjófnaður allra þjófnaða Íslandssögunnar var framinn á þessum forsendum - af þeim sem áttu skyldu sinnar vegna að koma í veg fyrir hann.

Skuldatryggingarlög voru látin ganga í gegnum alþingi á sínum tíma, af allra flokka mönnum, til að koma því í gegn að þeir sem væru lánadrottnarar hefðu alltaf sitt á þurru. Og hverjir eru þeir, hverjir eru svo aflögufærir á hverjum tíma að geta lánað - auðvitað fjármagnsöflin, bankarnir, þeir sem í raun og veru skapa forsendurnar fyrir verðsveiflunum og vítunum sem á okkur skella.

Þeirra hag þurfti að tryggja svo þeir væru nú aldrei í hættu með sitt fjármagn gagnvart afleiðingum gerða sinna.

Þessvegna var verðtrygging skulda leidd í lög, því sumir eru nú einu sinni þannig gerðir að þeir vilja alltaf láta það heita svo að allt sé gert samkvæmt lögum - þó um raunverulega samfélagsglæpi sé að ræða.

Og þingmenn hlupu upp til handa og fóta í þessu máli til að þjóna fjármálavaldinu sem vildi níðast með þessu móti á almennum mannréttindum íslensku þjóðarinnar.

Það var enginn að hugsa um það, að á sama hátt væri þá jafn nauðsynlegt að setja lög um eignatryggingu, að eignir væru tryggðar til jafns við skuldir. Því hver eru veðin á bak við skuldirnar - það eru eignirnar ?

Fjármagnsöflin vildu hinsvegar bara verðtryggingu skuldanna því þau voru kröfuhafar þeirra, en eignirnar sem stóðu að baki máttu verðfalla þeirra vegna og voru látnar verðfalla beinlínis fyrir þeirra tilverknað.

Þannig var hægt að draga fjölda fólks inn í þrælahaldið sem arðránsöflin byggja líf sitt á um allan heim. Útsendarar þeirra afla eru búnir að taka öll sín próf í þessum efnum. Þeir vita fullkomlega hvernig þeir eiga að vera böðlar sinna eigin þjóða.

Arðránsfléttan felst í því að byggja upp hátt markaðsverð á lognum forsendum, skapa falska umgerð um hlutina, svo eru veitt lán út á allt of hátt og rangt skráð eignaverð. Svo eru réttir aðilar látnir vita í tíma svo þeir geti selt sitt á hæsta verði og síðan er markaðurinn sprengdur !

Í framhaldinu stendur svo allt venjulegt fólk uppi með eignir á hálfvirði en  margfaldaðar skuldir. Fólk sem treysti því að yfirvöldin með allt sitt dýra eftirlitskerfi  " í almannaþágu " sæju til þess að verðlagning fasteigna væri eðlileg og eignir stæðu undir þeim skuldum sem stofnað væri til.

Eftir að gildran hefur verið látin smella með þessum hætti, fara svo fjármagnsöflin fljótlega að herða þumalskrúfurnar, að innheimta blóðpeningana með dyggri aðstoð yfirvalda því verðtrygging skulda er jú með lögum sett !!!

Þetta er samkvæmt mínum skilningi glæpurinn sem yfirvöld og bankar frömdu á fólkinu í landinu !

Verði Icesave samþykkt í þjóðaratkvæði, mun verða hamrað á því við alþýðu manna í öðrum ríkjum, að fólk verði að fara að dæmi Íslendinga og sýna almenna ábyrgð. Það á sem sagt að láta okkur ryðja brautina fyrir stefnumörkun sem gengur út á viðurkenningu á ábyrgðarfríum forréttindum fjármagnseigenda, -  gróði eigi að tilheyra þeim og tap eigi að vera á ábyrgð almennings.

Icesave gjörningurinn gengur út á þetta. Það á að hengja þjóðina með lögleiddum skuldafjötrum.

Slík þrælahaldslög samþykki ég ekki sem Íslendingur.

Ég segi NEI !

 

 

 


Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 26
  • Sl. sólarhring: 75
  • Sl. viku: 595
  • Frá upphafi: 365493

Annað

  • Innlit í dag: 23
  • Innlit sl. viku: 508
  • Gestir í dag: 23
  • IP-tölur í dag: 23

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband