Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2012

Að syngja Landsbjargarlagið !

Á Íslandi er það oft svo að erfitt er að skapa samstöðu, jafnvel um hin bestu mál.Einn vill þetta og annar hitt og sundurlyndisfjandinn virðist alltaf vera til staðar í einhverri mynd. Það liggur fyrir, eins og sagan sýnir okkur, að samfélagskennd Íslendinga hefur aldrei verið neitt sérstök og allra síst á síðustu sérgæskutímum.

Allt of lengi hafa ráðið í landinu stjórnmálaöfl sem hafa stöðugt ýtt undir það viðhorf að hver sé sjálfum sér næstur og náungakærleikur sé sama og heimska.Sérgæskan á sinn eigin flokk og hann hefur skiljanlega aldrei átt samleið með velferð þjóðarinnar. Sá flokkur er í raun og veru hrollvekja íslensks samfélags og elur að mínu mati á þeim tilhneigingum mannseðlisins sem hvað verstar eru og  hvimleiðastar, svo sem ágirnd botnlausrar eigingirni og sjálfselsku.

Við Íslendingar þurfum á lifandi landsbjörg að halda sem nýtur trausts og virðingar þjóðarinnar og veitir hjálp þegar höfuðskepnurnar fara hamförum og hættur ógna lífi manna á landi og sjó. Við þurfum að geta treyst á gott skipulag í þeim efnum, fórnfýsi, dyggðir og drengskap í hvívetna.

Við búum við þjóðarþing sem veitir landsmönnum litla öryggiskennd og hefur sannarlega ekki verið nein landsbjörg fyrir okkur !

Við höfum búið við ríkisstjórnir sem hafa síður en svo hlynnt að öryggi okkar og fjöreggi og þar hefur landsbjörgin heldur ekki fyrirfundist sem nokkru nemur !

Við búum við dómstóla sem auka hvorki borgaralegt öryggi né efla vissu um gott réttarfar eða stuðla almennt að neinum landsbjargargildum í lífi okkar !

Við búum við fjármálakerfi sem virðist bera Júdasarmerkið gagnvart þjóðinni í öllu sem snertir hagsmuni hennar, þar á meðal bankakerfi sem engin orð ná yfir. Þar hefur öll landsbjörg sjáanlega lengi verið undir öfugum formerkjum !

Allt þetta tel ég að hafi, einkum þó í seinni tíð, unnið þjóðinni meira og minna í óhag og brugðist þar öllu sem gott er og göfugt. Enginn ærlegur Íslendingur getur glaðst yfir því landsbjargarleysi sem dunið hefur yfir þjóðina í gegnum hrun og yfirgengilegt fjármálamisferli undanfarinna ára. En alla þá ógæfu má skrifa á reikning óhæfra yfirvalda og samviskugeldra eftirlitsstofnana.

En þótt við virðumst sjaldan bera gæfu til þess að taka verulega höndum saman og styðja góða hluti til framgangs, gerist stundum það ævintýri að allir standa saman, að allir virðast sjá þörfina á átaki til ákveðins máls. Það er yndislegt að upplifa slíka samstöðu og þannig varð hin sanna Landsbjörg til !

Og við getum því og þrátt fyrir allt glaðst yfir þeirri staðreynd að það er Landsbjörg til í landinu og það Landsbjörg sem stendur fyrir sínu, Landsbjörg sem vinnur þjóðinni í hag og á samleið með öllu því sem gott er og göfugt.

Og einmitt þessvegna er það sem allir eru fúsir til að styðja starf Landsbjargar, björgunarsveitanna okkar, hinna fórnfúsu framvarðasveita okkar í stríðinu við óblíð náttúruöflin, í baráttunni fyrir heill og hamingju íslensku þjóðarinnar !

Það starf sem Landsbjörg vinnur er unnið fyrir okkur öll. Það skilja það allir og fólk virðir af alhug hið ómetanlega framlag Landsbjargar til lífsins í landinu.

Stuðningur við Landsbjörg er stuðningur við þjóðina, stuðningur við þann hugsjóna-anda sem segir í öllum gjörðum sínum heilshugar eins og skytturnar þrjár - Einn fyrir alla og allir fyrir einn !

Við erum á sama báti, við erum á þjóðarskútunni ! Við þurfum öll á hvert öðru að halda, við eigum samleið og við byggjum öll þetta þjóðfélag !

Og sem betur fer, er margt enn gott við samfélag okkar og eitt það besta sem við eigum er hin sanna LANDSBJÖRG !

Syngjum því Landsbjargarlagið einum rómi og látum það hljóma eftirfarandi:

 

Landsbjargarlagið

 

Það vitnar um manngæsku marga

á mannfólksins fjölbreyttu leið,

að hafa þá hugsjón - að bjarga

og hjálpa í hverskonar neyð !

 

Það leysir svo víða úr vanda

og veitir hin sönnustu skil,

að meta hvern lifandi landa

og leiða hann öryggis til !

 

Við hyllum því hamingju slagið

sem heilindum samkenndar nær.

Og syngjum öll Landsbjargarlagið

því Landsbjörg er þjóðinni kær !

 

Það vitnar um manngæsku marga

á mannfólksins fjölbreyttu leið,

að hafa þá hugsjón - að bjarga

og hjálpa í hverskonar neyð !

 

Við styðjum og stuðninginn þiggjum,

sem stöðugt er öryggishlíf.

Á grundvelli gæskunnar byggjum,

þar gildir hvert einasta líf !

 

Við hyllum því hamingju slagið

sem heilindum samkenndar nær.

Og syngjum öll Landsbjargarlagið

því Landsbjörg er þjóðinni kær !

 


Gleymdi örninn !

John Peter Altgeld ( 1847-1902) var bandarískur stjórnmálamaður á síðari hluta 19. aldar, en réttsýnn og heiðarlegur þrátt fyrir það. Hann var árin 1893-1897  ríkisstjóri í Illinois og varð fyrir miklum árásum vegna þess að hann vildi ekki staðfesta dauðadóm yfir þrem sakborningum í svonefndu Haymarket sprengju-máli í Chicago. Hann hafði farið vandlega yfir málsgögnin og neitaði að því loknu að fallast á hengingu þessara manna vegna þess að honum þóttu sannanir fyrir sekt þeirra alls ekki liggja fyrir og réttarhaldið yfir þeim hafa verið hlutdrægt og ósanngjarnt. Altgeld lýsti því síðan yfir að hann teldi menn þessa saklausa af þeim verknaði sem þeir höfðu verið dæmdir fyrir og náðaði þá !

Honum var bent á það af leiðandi mönnum í Demókrataflokknum, að honum væri fyrir bestu að gleyma þessum sakborningum ef hann hugsaði sér að halda sæti sínu í öldungadeildinni, en miklar múgæsingar voru í gangi varðandi umrætt mál. Þá svaraði Altgeld, að persónulegur metnaður manns hefði engan rétt til að standa í vegi fyrir framgangi réttlætisins.

Og þegar formaður Demókrataflokksins í ríkinu spurði hann hvort 18000 orða náðunarskjal hans væri " gott stefnumál " , þrumaði Altgeld : " Það talar fyrir réttlætið " !

En hann átti við ofurefli að etja og var úthrópaður og bannfærður fyrir afstöðu sína í þessu máli. Blöðin réðust á hann og völdu honum hin verstu nöfn.

Hann var kallaður stjórnleysingi, sagður afsaka morð og standa fyrir framgangi lögleysis og jafnvel vera sósíalisti. Eldhríðin stóð á honum dag eftir dag, en hann lét engan bilbug á sér finna og varði einbeittur sína afstöðu, þó þeir væru næsta fáir sem voru tilbúnir að hlusta.

Menn vildu fá þessa sakborninga hengda og það sem fyrst og fjölmiðlarnir ýttu undir galdrafárs-æsinginn eins og löngum bæði fyrr og síðar. Þrátt fyrir að þegar væri búið að fremja nokkur réttarmorð út af þessu máli, átti að halda áfram og heimta meira blóð. Borgaralegar hægri klíkur ætluðu af göflunum að ganga og hrærðu í almenningsálitinu með öllum ráðum og í slíkra augum var Altgeld ríkisstjóri óalandi og óferjandi. Það var sem sagt allt sett í gang til að grafa undan honum.

Samt gerðu margir sér grein fyrir réttsýni Altgelds og heiðarleika og stóðu með honum, en hinir voru margfalt fleiri sem létu trylla sig með linnulausum áróðri og trúðu þeim fáránlegu ásökunum sem hrúgað var upp gegn ríkisstjóranum.

Altgeld var þannig felldur úr ríkisstjórastöðunni við fyrsta tækifæri.  Honum var meira að segja neitað um að flytja kveðjuræðu við innsetningu eftirmanns síns í embættið, eins og þó var löng hefð fyrir.

" Illinois hefur fengið nóg af þessum anarkista " hreytti hinn nýi ríkisstjóri vonskulega út úr sér við það tækifæri. Það lá svo sem fyrir hvaða afstöðu sá maður hafði til málanna. Hann vildi bara vera eins og honum var uppálagt að vera, samkvæmt boði þeirra sem komu honum í embættið.

John Peter Altgeld hvarf af vettvangi stjórnmálanna og lést 5 árum síðar, aðeins tæplega hálfsextugur að aldri, líklega gleymdur af flestum - og þó !

Ljóðskáldið Vachel Lindsay orti um hann kvæðið The Eagle That Is Forgotten.

 

Sleep softly, eagle forgotten, under the stone,

Time has its way with you there and the clay has its own.

Sleep on, O brave-hearted, O wise man, that kindled the flame -

To live in mankind is far more than to live in a name,

To live in mankind, far, far more ...... than to live in a name.

 

Í öðru kvæði eftir Lindsay - Bryan, Bryan, Bryan, Bryan -, er tekið á pólitískum línum á þessum tímum og þar er Altgelds líka lofsamlega getið. Hægt er að sjá og lesa þessi miklu kvæði Lindsays á netinu.

Hinn kunni bandaríski rithöfundur Howard Fast skrifaði svo á sínum tíma bókina - Ríkisstjórinn - um ævi John Peter Altgelds. Það er góð bók og gagnleg fyrir hvern og einn sem vill lesa bækur sér til þroska, vaxtar og viðgangs í vitrænum skilningi. En því miður virðist svo vera að þeir séu að verða nokkuð fáir sem það gera núorðið - hérlendis.

Fyrir allmörgum árum var þessi ágæta bók nefnilega þýdd á íslensku af hinum góðkunna þýðanda Gissuri Ó. Erlingssyni, en þá kom í ljós að enginn fékkst til að gefa hana út. Hún þótti ekki nógu söluvænleg að mati útgefenda og við það situr enn.

Það er engin Menningarsjóðsútgáfa lengur til sem gefur út slíkar bækur og Þýðingarsjóður er víst ekki burðugur til að styðja að slíku nú til dags.

Og hvað skyldi nú vera orðið af Menningar og fræðslusambandi alþýðu sem gaf út margar merkar bækur hér áður fyrr ? Skyldi Gylfi Arnbjörnsson vita hvað staðnaða verkalýðshreyfingin hefur gert af því sem og mörgu öðru sem starfsama verkalýðshreyfingin stofnaði ?

Nú virðast nefnilega fáir huga að því að auðga íslenska bókaútgáfu með þýðingum á verulega góðum ritverkum erlendis frá, því peningasjónarmiðin  ráða nánast öllu. Við sitjum því uppi með einfaldar spennusögur og  allskyns morðaskræður, bækur sem eru einlesnar og fara svo í glatkistuna.

Þær eru auglýstar grimmt í mánuð eða svo, keyptar talsvert út á það, lesnar í hvelli og svo fara þær flestar á hauga gleymskunnar - fyrir fullt og allt.

Hvar er sú bókmenntaþjóð stödd sem er hætt að lesa uppbyggileg ritverk og vill ekki sjálfri sér til fóðurs annað en einfaldar morðsögur í færibanda-framleiðslu ?

Við þurfum bókmenntir, en ekki andlegt ruslfæði. Við þurfum bókmenntir sem lyfta sál og anda, en ekki einhverja glæpasögureyfara, sem hugarfarslega skaða jafnt höfunda sína sem og hina spennufíknu lesendur !

Við þurfum andlegt fóður sem getur þroskað og göfgað hugsun okkar og kennt okkur að virða Guð og góða siði. Þannig rækjum við það hlutverk okkar að vera menn !

John Peter Altgeld var MAÐUR ! Bandaríkin hafa alið marga mikla menn, ekki síst fyrstu 100 árin, menn sem gerðu mikla og góða hluti, menn sem hugsuðu ekki eingöngu um sjálfa sig, menn sem voru að byggja upp þjóðfélag af hugsjón fyrir því sem gott er og göfugt.  Í hópi slíkra manna eru og verða, auk John Peter Altgelds, George Washington, Benjamín Franklin, John Adams, Samuel Adams, James Madison, Thomas Jefferson, John Quincy Adams, John Rutledge, Daniel Webster, Samuel Houston, Abraham Lincoln, Clarence Darrow, Franklin D. Roosevelt, o.fl.o.fl., og það má með fullum rétti segja, að heimurinn hefur ekki efni á því að láta slíka menn verða gleymda erni !

Við þurfum að lesa um líf slíkra manna og læra af breytni þeirra og veita slíkum mönnum stuðning meðan þeir lifa með okkur, svo samfélög okkar megi blessast og dafna við hugsun og hlynningu að sameiginlegri velferð.

Tökum afstöðu til allra lífsmála sem til okkar taka út frá sömu forsendu og Altgeld ríkisstjóri gerði þegar hann sagði um náðunarskjal sitt :

" Það talar fyrir réttlætið !

 

 

 

 

 

 


Um sanna Guðsmenn og " sjálfstæða guðsmenn " !

Þegar William Marrion Branham, hinn víðkunni bandaríski lækningaprédikari  slasaðist illa í bílslysi í Texas 18. desember 1965 og lést síðan þann 24. sama mánaðar, barst fréttin með eldingarhraða um öll Bandaríkin og síðan til annarra landa. Það var ekkert undarlegt því William Branham var vissulega maður með einstakan orðstír sem Guðs þjónn og margir töldu hann spámann 20. aldarinnar. Mörgu hefur verið haldið fram sem ólíklegra er !

Margir spurðu : " Hvernig gat Guð látið þetta viðgangast ? Og sumir þóttust svo sem vita svarið við því, einkum kirkjuleiðtogar sem höfðu aldrei verið Branham velviljaðir og þóttust sjá í þessu einhverskonar refsingu af hálfu Guðs gagnvart þjóni sem hefði brotið af sér !

En hver hefur verið saga sannra Guðs manna í þessum heimi ? Sagði ekki Kristur sjálfur : " Þannig ofsóttu þeir spámennina sem voru á undan yður !"

Og hvað segir Hebreabréfið í 11. kaflanum um spámenn Guðs og sendiboða, að þeir hafi verið kvaldir og píndir, ofsóttir á alla vegu og líflátnir og að heimurinn hafi ekki átt þá skilið !

Og hvernig var það, var Jóhannes skírari ekki hálshöggvinn ? Fyrir hvað skyldi Guð hafa verið að refsa honum ? Voru ekki postular Krists, þeir sem prédikuðu boðskap hans fyrstir manna, teknir af lífi með einum eða öðrum hætti, allir nema Jóhannes  ?

Hvað var undarlegt við það að William Branham skyldi deyja ? Var hann ekki bara búinn að skila sinni þjónustu og hans tími kominn ?

Var dauði hans eitthvað frábrugðinn dauða svo margra annarra Guðs manna ?

Átti hann kannski að deyja háaldraður á sóttarsæng, umvafinn kærleika afkomenda og vina ? Er það hugmyndin sem sumir menn hafa um örlög og endalok Guðs manna í þessum heimi ? Því miður þá hefur það sjaldnast verið svo og skýringin er einföld ef menn hafa fyrir því að lesa Guðs Orð með opnum huga. Menn himinsins hafa aldrei átt vinsældum að fagna til lengdar á syndum spilltri jörðinni. Allra síst þegar þeir fara að flytja þann boðskap sem felst í því að menn taki sinnaskiptum, að menn breyti háttum sínum og snúi sér til Guðs í iðrun og auðmýkt hjartans. Þá er bara sagt að menn séu orðnir leiðinlegir, sama hvað mikil tákn og undur hafa átt sér stað í kringum þá !

Hvað segja menn um örlög annars mikils Guðs þjóns, David Wilkersons, sem lést í bílslysi í apríl 2011 og það líka í Texas ? Var líka verið að refsa honum ?

Af hverju deyja þessir tveir miklu prédikarar Guðs Orðs á sama hátt, og í sama fylki, sama lands ? Var dauði Wilkersons í fyrra kannski ábending til þeirra sem sáu dauða Branhams sem refsingu frá Guði, að fara sér hægt og vera ekki að dæma  um það sem þeir hefðu ekki hugmynd um ?

Og hver var William Branham og hversvegna var hann og er svo alkunnur og umdeildur sem raun ber vitni ?

Branham var ómenntaður alþýðumaður og ekkert af þessum heimi mælti með því að ferill hans yrði slíkur sem hann varð. Þegar hann taldi sig hafa fengið vitrun um það að hann ætti að fara með gjöf guðlegrar lækningar til þjóða heimsins, fór hann og ræddi málið við yfirmann sinn í Baptistakirkjunni, dr. Roy Davis, mann sem hann taldi sig geta borið óskorað traust til.

En dr. Davis brást þannig við, að hann gerði bara grín að menntunarleysi hans og spurði hæðnislega : " Hvernig heldur þú að þú getir staðið í slíkum sporum, algerlega ómenntaður maðurinn ? Heldur þú að þú getir mætt menntuðum heimi með slíka guðfræði um guðlega lækningu ? Þetta er bara rugl og vitleysa í þér, farðu heim og leggðu þig. Kannski verðurðu skynsamari þegar þú vaknar ! "

Þetta voru viðtökurnar sem Branham fékk hjá þessum " upplýsta manni ! "

En hvar var þessi hámenntaði prestur staddur þarna í sinni hugsun ? Vissi hann ekki að lærisveinar Krists sem síðar urðu postular hans, voru aðeins óbrotnir fiskimenn ? Sá eini þeirra sem talið er með vissu að hafi verið menntamaður var Judas Ish-Kariot, sá þeirra sem sveik hann ?

Hvaða máli skiptir jarðneskt menntunarstig þegar Guð tekur mann í sína þjónustu ?  Er ekki öll viska hjá Guði ?

Af hverju hefur Guð nánast aldrei getað notað leiðandi menn og menntaða innan kirkjudeilda sem sína talsmenn ?

Af því að menntun þeirra hefur staðið þar í vegi, heimsleg sannfæring þeirra um eigið ágæti ! Slíkir menn bera yfirleitt ekki í sér auðmjúkan anda, þeir eru orðnir allt of miklir sjálfshyggjumenn - eða í stuttu máli sagt - Farísear !

Þannig hefur það alltaf verið frá upphafi kirkjualdanna og kannski lengur. Ekkert fjarlægir lifandi mann jafnmikið Guði og sjálfselska og hroki !

En sumir menn sjá að lokum yfirsjónir sínar, iðrast og bæta fyrir ranga hluti og það er skylt að geta þess að fimm árum eftir samtal þeirra Branhams, sendi dr. Davis frá sér bréf sem hann óskaði eftir að birt yrði opinberlega í tímaritinu The Voice of Healing. Þar baðst hann afsökunar á framkomu sinni gagnvart Branham og sagði: " Ef ég hefði verið einlægari og rannsakað Biblíuna mína með nákvæmari hætti, hefði ég skilið meira varðandi sýnir og kraft Guðs !"

Dr. Davis var maður að meiri að viðurkenna að hann hefði haft rangt fyrir sér varðandi William Branham. En margir hafa haldið áfram þar sem hann hætti.

Ýmsir kirkjuleiðtogar, og það jafnvel forustumenn innan hreyfingar hvítasunnu-manna, hafa gagnrýnt Branham harðlega og talað um kenningavillur sem hann hafi gert sig sekan um, o.s.frv.

En meðan undur og stórmerki gerðust á samkomum Branhams og Guðs Andi starfaði þar með þvílíkum krafti að annað eins hafði ekki gerst síðan á dögum frumkirkjunnar, höfðu þessir menn ekki hátt og ýmsir þeirra störfuðu meira að segja um tíma með Branham. En síðan sneru þeir sumir við honum baki og fóru að tala um kenningavillur hjá honum. Þá kom andi Faríseans upp í þeim !

Skýringin er aðallega sú, að þegar Branham fór að koma með boðskap til kirkjunnar á síðustu árum sínum, þoldu þessir menn ekki ádeiluna sem kom fram í máli hans. Þeir vildu hafa sínar skipulögðu kirkjur áfram og enga breytingu á þeim. Þeir gátu þegið lækningu fyrir sig og sína í gegnum mann sem þeir viðurkenndu að gengi fram í Guðs krafti, en hann átti ekkert að vera að angra þá með því að prédika um þörfina á breyttu hugarfari gagnvart Almættinu.

Þá hlupu þeir í vörn fyrir sín heimagerðu kirkjukerfi og vildu bara fá að hafa sínar kirkjur áfram í friði á sínum einkaforsendum. Ekki er hægt annað en að álykta að sumir þessara manna hafi beinlínis öfundað William Branham af smurningu hans og því hvað Guð gat notað hann kröftuglega í sinni þjónustu.

Af þeim sökum fóru þeir kannski í þessar skotgrafir ósæmilegrar breytni gagnvart honum og byrjuðu að baknaga hann og grafa undan trausti fólks á honum sem Guðs þjóni. Þá byrjaði umræðan um kenningavillur Branhams því eitthvað urðu þessir aumingja menn að finna sér til, því þeim var ómögulegt að taka við því sem hann boðaði.

Boðskapur hans gekk nefnilega þvert á tíðarandann, og þar sem þeir voru flestir á höttunum eftir vinsældum og hylli og vildu byggja musteri utan um eigið ágæti sem prestar og trúboðar, hugnaðist þeim enganveginn hvernig hann talaði.

Þeir sáu í boðskap hans einhverja ógn sem raskaði þægilegheitum þeirra og gullinni framtíðarsýn um stöðuga uppbyggingu. Þeir komu því fram við Branham eins og Hananja kom fram við Jeremía !

Og aðrir hafa síðan fylgt í fótspor þessara sjálfhverfu Farísea kirkjudeildanna sem hafa étið upp eftir þeim gagnrýnina á Branham án þess jafnvel að vita í hverju hún felst. Ég hef sjálfur kynnst mönnum í kristnum söfnuðum sem hafa verið mjög andsnúnir Branham en hafa þó ekki getað með nokkru móti útskýrt hversvegna. Það virðist bara sem einhverju hafi verið spýtt í þá sem þeir gleyptu við hugsunarlaust !

Jafnvel Benny Hinn, sem er að margra mati Guðs þjónn og álitinn undir smurningu sem slíkur, hefur fallið í þá gryfju að gera lítið úr William Branham. Ég veit ekki almennilega hvað ég á að halda um Benny Hinn, en ég er viss um það, að þegar hann var að tala dómsorð sín um feril Branhams var hann bara að tala fyrir eigin munn en ekki á Drottins vegum.

Benny Hinn ætti að geta haft um nóg að tala sem þjónn Guðs þó hann sleppi því að hnýta í William Branham. Skyldi hann hafa gert það sökum persónulegrar öfundar eða vegna einhvers sem hefur verið spýtt í hann ?

Roberts Liardon fjallar um marga merka þjóna á akrinum í bókum sínum " God´s Generals ", og gerir það að mörgu leyti vel, en kafli hans um William Branham er illa saminn. Þar koma fram ádeiluskrif sem byggjast á trúarlegum fordómum og því er kaflinn höfundi sínum ekki til sæmdar.

Kannski hefur Roberts Liardon líka reynt það síðan á eigin skinni að það er auðveldara að leggja dóm á feril annarra en gæta að eigin málum ?

William Branham var slíkur Guðs þjónn að þar komast ekki aðrir í neinn samjöfnuð á síðustu tímum. Og ég spyr hversvegna var hann það ?

Hversvegna hafa þessir menn sem hafa verið að níða hann niður, ekki getað gengið fram í þeim krafti sem var yfir honum ? Svarið hlýtur að vera, að Guð gat ekki notað þá á sambærilegan hátt því þeir voru ekki þannig menn.

Menntunargráður þeirra margra hverra og háar hugmyndir um eigið sjálf, stóðu þar kannski fyrst og fremst í veginum. Guð getur ekki notað menn sem eru orðnir hrokafullir, hann vill auðmjúkan anda sem gengur fram í hlýðni.

William Branham var ómenntaður maður. Hann var auðmjúkur Drottins þjónn og vissi að hann hafði ekki af neinu að státa í eigin mætti. Hann var eins og fiskimennirnir sem Drottinn valdi, óbrotinn alþýðumaður. Guð gat því mótað hann og notað hann með voldugum hætti.

Frá því á dögum frumkirkjunnar hefur líklega enginn maður gengið fram í trú og fyrirbæn á þessari jörð með sambærilegum kraftaverka-árangri og William Marrion Branham. Saga hans er slík að hver maður þyrfti að heyra hana !

Benny Hinn hefur ekki haft smurningu í neinni líkingu við William Branham og það hafa heldur ekki haft neinir þeirra prédikara og kirkjuleiðtoga sem hafa síðustu áratugina verið að gera lítið úr þessum óvenjulega Guðs manni.

Ég held að þeim væri nær að huga að raunverulegum skyldum sínum, ef þeir eru þá þeir Drottins þjónar sem þeir væntanlega telja sig vera !

 

 


Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 82
  • Sl. sólarhring: 129
  • Sl. viku: 651
  • Frá upphafi: 365549

Annað

  • Innlit í dag: 78
  • Innlit sl. viku: 563
  • Gestir í dag: 78
  • IP-tölur í dag: 76

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband