Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2014

"Upplýsingar frá CIA !"

Flestir eru nú farnir að átta sig á því hvað getur verið á bak við hlutina þegar því er flaggað að upplýsingar hafi verið fengnar frá CIA. Og reyndar er nú svo komið, að jafnvel innmúraðir Natósinnar og Pentagonistar, já, harðsvíraðir haukavinir, vita það sér til mestu ógleði, að það er enginn gæðastimpill lengur á upplýsingum frá CIA og reyndar best að hafa ekki hátt um þær sem slíkar.

Þeir eru líka ófáir sem hafa farið flatt á því að hafa hátt um upplýsingar frá CIA í skilyrðislausu trausti á sannleiksgildi þeirra, allt frá Svínaflóa-innrásinni til gereyðingarvopnanna í Írak. Svínaflóamálið þótti á sínum tíma alveg einstakt klúður og það varð bandarískum stjórnvöldum til mikillar hneisu.

Sérfræðingar CIA höfðu talið það öruggt að almenningur á Kúbu myndi rísa upp sem einn maður og steypa Castro af stóli, um leið og kúbönsku útlagarnir gengu á land við Svínaflóa, sem var staður sem CIA valdi sem ákjósanlegastan innrásarstað.

Málið var undirbúið af Eisenhower-stjórninni en John F. Kennedy erfði það og lagði blessun sína yfir ráðagerðirnar, enda nógir til að fullvissa hann um að allt myndi fara á besta veg og eftir þeim áætlunum sem gerðar höfðu verið.

Kennedy trúði á upplýsingar CIA og treysti öllum sérfræðingunum sem töluðu fyrir málinu. Enginn hafði uppi nein andmæli í eyru Kennedys nema William Fulbright, sem þó gagnrýndi vinnubrögðin og það sem verið var að gera, fyrst og fremst af hugsjónaástæðum. Kennedy sat svo uppi með skömmina af klúðrinu og vafasamt er að hann hafi nokkru sinni endurheimt fyrra traust sitt á upplýsingum frá CIA.

Af þessum ástæðum rak Kennedy hinn volduga forstjóra CIA Allen Dulles við fyrsta tækifæri og sagt er að Kennedy hafi eitt sinn látið þau orð falla „ að hann vildi helst splundra CIA í þúsund agnir og láta þær dreifast með vindinum !" Þá hefur karl sýnilega verið svo reiður að írska skapið hefur blossað upp í honum !

Allen Dulles hafði verið yfirmaður CIA allan Eisenhower-tímann og þar sem eldri bróðir hans John Foster var utanríkisráðherra Eisenhowers, þótti mörgum nóg um völd þessara bræðra sem kölluðu nú ekki beint á vinsældir eins og þeir voru.

Síðar þótti það dálítið sérstakt að Johnson forseti skyldi tilnefna Allen Dulles í Warren-rannsóknarnefndina varðandi morðið á Kennedy, ekki síst í ljósi þess að Kennedy hafði rekið Dulles úr forstjórastöðunni í CIA.  

Warren-nefndin sendi frá sér lokaskýrslu upp á 889 blaðsíður um forsetamorðið og líklega er þar um að ræða eitt af mörgum alræmdum dæmum um langt mál og lítil skil. Það þykir hinsvegar mörgum skiljanlegt, einkum í ljósi hinnar nöturlegu niðurstöðu skýrslunnar, að það hafi þurft að hafa „valinn mann" í hverju sæti í þessari mjög svo undarlegu nefnd !

 Það er löngu orðin útbreidd skoðun að morðið á Kennedy hafi verið stórfellt samsærismál sem hugsanlega hafi teygt anga sína víða um bandaríska stjórnkerfið og Lee Harvey Oswald hafi frá upphafi verið ætlaður til að bera þar sökina - af þeim sem stóðu að baki morðinu. En hið sanna mun líklega aldrei koma í ljós !

En eftir situr þó, að John F. Kennedy ávann sér víða óvinsældir innan bandaríska stjórnkerfisins og meðal ýmissa áhrifamanna. Hann vildi breyta mörgu, hafði nýjar og ferskar hugmyndir gagnvart ýmsu, var sem sagt maður nýrra tíma !

Voldug möppudýr í kerfinu voru hreint ekki hrifin af því hvernig hann tók á ýmsum málum. Það er því nokkuð ljóst að ýmsir af þeim sem kusu að hafa allt í óbreyttu fari töldu hann afar óæskilegan forseta og vildu hann beinlínis feigan !

Upplýsingar frá CIA þykja ekki trúverðugar í dag og skilningur hefur aukist mikið á því að bandaríska leyniþjónustan er engin sannleiks-stofnun. Hún er fyrst og fremst að þjóna ákveðnum hagsmunalegum markmiðum, meðal annars með því upplýsingaefni sem hún sendir frá sér. Það hefur nákvæmlega ekkert með það að gera hvað er rétt og sannleikanum samkvæmt.

Nýlega las ég fræðibók um tungumál og þar voru settar fram staðhæfingar sem byggðu á upplýsingum frá CIA ? Ég get ekki með nokkru móti talið það faglegu efni til framdráttar hvað trúverðugleika snertir, að stuðst sé þar við upplýsingar frá svo breyskum aðila sem CIA er. En upplýsingar þaðan geta legið ótrúlegustu hlutum til grundvallar og það jafnvel með sakleysislegasta hætti.

Leyniþjónustur ríkja eru stofnanir sem vinna með þeim hætti að fæst af því sem gert er af þeirra hálfu myndi þola dagsins ljós. Leyniþjónusta Bandaríkjanna er þar kannski ekkert verri en samsvarandi stofnanir annarra ríkja, en hún ætti hinsvegar að vera betri. Og hversvegna þá ?

Vegna þeirrar frelsisarfleifðar sem hún var stofnuð til að vernda ! Þær forsendur hefðu átt að leiða starf CIA til virðingar, viðurkenningar og trausts í veröldinni, en ekki til þeirrar illræmdu og mjög svo andstyggilegu vegferðar um heim allan sem liggur fyrir sem staðreynd á okkar dögum.

Það ætti því að vera flestum ljóst að þessi umdeilda stofnun ber á engan hátt þeirri frelsishugsjón sem varð kveikjan að stofnun Bandaríkjanna nokkurt vitni með sómasamlegum hætti.

Og það er sannfæring mín, að menn eins og Franklín, Washington, Adams, Jefferson og aðrir frumherjar sjálfstæðisbaráttunnar vestra, myndu aldrei hafa getað hugsað sér að leggja blessun sína yfir það starf sem CIA hefur unnið síðustu áratugina, því þá væri allt það hrunið sem þeir stóðu fyrir !

Sá aðili sem gerir kröfu til þess hlutverks í samfélagi þjóðanna, að taka sér stöðugt þann rétt að siða aðra til, verður að sýna og sanna að hann hafi réttlætislega og siðferðilega burði til þess. Bandaríkin hafa löngum viljað vera í því hlutverki, en þau hafa hvorki haft siðferðisstig eða réttlætisstöðu til að uppfylla eðlilegar skyldur þar og ein af meginástæðum þeirrar vöntunar er spillt stjórnkerfi og ennþá  spilltari leyniþjónusta - CIA !

 

 

 


Karlafrídagurinn 24. október 2015 ?

Dagurinn í dag er merkur dagur í þjóðarsögunni og þess hefur vissulega verið minnst mörg undanfarin ár og þess ber að minnast áfram þó dagurinn geti hugsanlega fengið enn meira gildi í sögu okkar og öllu jafnara gildi en verið hefur !

Þann 24. október 2015 verða 40 ár frá hinum mikla kvennafrídegi þegar íslenskar konur lögðu niður vinnu til að minna á tilvist sína og þýðingu þeirrar tilvistar fyrir þjóðfélagið ! Væri það ekki tilvalið mál að við þessi tímamót gerðu íslenskir karlmenn hið sama ? Er tilvist karla ekki fullt eins mikilvæg og tilvist kvenna ? Er ekki tímabært að sýna að samfélagsvélin stöðvast ekki síður ef karlar leggja ekki hönd að verki ? Er það ekki jafnréttismál að bæði kynin sýni mikilvægi sitt ?

Hvað myndi gerast í þjóðfélaginu ef 90% karla legðu niður vinnu þennan dag og sameinuðust í því að minna á það að karlmenn væru enn til á Íslandi, en ekki bara væflur og veimiltítur ? Eða er karlmennskan orðin af svo skornum skammti hérlendis sem víðar að það sé ekki hægt að sameinast um svo lítið - nú á dögum ?

Hvað ef að hlutirnir snerust alveg við frá því sem sagt er að hafi gerst á umræddum degi árið 1975, að konur þyrftu að ganga í störf karla, oftar en ekki óvanar til verka, að ungar konur yrðu „værságo"  að sitja yfir börnum sínum heima, að þjóðin sæi jafngóða samstöðu karla er þeir minntu á tilvist sína eins og hún sá hjá konum 1975 ?

Upphaf kvennafrídagsins mikla átti að miklu leyti rætur sínar í þeim gjörningi að Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna lýsti því yfir 18. desember 1972 að árið 1975 skyldi verða alþjóðlegt kvennaár, helgað málefnum kvenna og barna undir yfirskriftinni - Jafnrétti, framþróun, friður !

Fagurt var fyrirheitið og ekkert út á það að setja í sjálfu sér. En það var hinsvegar ekkert minnst á þann hluta mannkynsins sem telst ekki til kvenna eða barna. Hvernig stendur á að heimsstofnun sameinaðra krafta gefur yfirlýsingar sem fela í sér mismunun gagnvart hluta mannkynsins ?

Skyldi það aldrei hafa flögrað að fulltrúum á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna að tilefna eitthvað ár eftir 1975 sem alþjóðlegt ár karla og barna ? Hefði ekki falist í þeim gjörningi töluverður skammtur af jafnrétti ? Eru börnin ekki sameiginlega getin af föður og móður. Yfirskriftin hefði þá sem best getað orðið -  Jafnrétti, samþróun, sigur ! Er ekki samvinna og samstaða karla og kvenna höfuðforsenda samfélagslegrar velferðar og jafnframt öryggis barna um allan heim - forsenda fyrir mannkyns-sögulegum sigri ?

Hversvegna er verið að segja konum í gegnum allskyns áróður að þær verði að vera sem líkastar körlum og hversvegna er verið að segja körlum að þeir verði að vera sem líkastir konum ? Er það konu helst til framdráttar í heiminum í dag að vera sem karllegust ? Og er það virkilega körlum ávinningur í dag að vera sem kvenlegastir ?

Sumar „konur" geta verið svo karl-legar og sumir „karlar" geta verið svo kven-legir að það þyrfti helst að nota aðferð krókódíla-Dundees til að vita hvort kynið er um að ræða !  Og spurningin er, ef karl og kona eru að öllu leyti eins - og það sama gilti um bæði í öllum hlutum, eins og oft er sagt nú á tímum, væri þá kynið ekki bara eitt ? Hvað að vera að dröslast með tvö kyn ef það gildir nákvæmlega það sama um bæði ?

Auðvitað er slíkur málflutningur tóm vitleysa því skiljanlega hefur karlinn ákveðna kosti umfram konuna og konan ákveðna kosti umfram karlinn. Karlinn getur sumt betur en konan og konan sumt betur en karlinn. Og það gerir það að verkum að saman og með samvinnu mynda þau mjög yfirgripsmikla og samfélagslega fullnægjandi hæfniseiningu !

Hinn mikli kvennafrídagur undirstrikaði vissulega samfélagslegt gildi kvenna en ég verð að segja að margt sem gert hefur verið síðan, að sögn - í anda þess atburðar, er að mínu viti lítið annað en öfugsnúinn eftirleikur. Kannski þarf einmitt að koma hinum mikla karlafrídegi á kortið til að jafngild sýn fáist á gildi karlkynsins fyrir samfélagsheildina !

Hvernig væri að halda upp á 40 ára afmæli hins mikla kvennafrídags 24. október 2015 með því að gera daginn að samsvarandi allsherjar frídegi karla til að minna á  að tilvist karla sé að sama skapi nauðsynleg fyrir samfélagið og það jafnvel í nútíma þjóðfélagi ?  Ég leyfi mér að leggja þá hugmynd fram sem tillögu í jafnréttispottinn mikla, sem stendur víst alltaf á hlóðum í okkar samfélagi, þó suðan komi aldrei upp !

 

 

 

 

 

 


Innblásnar ræður !

Það er nokkuð einkennilegt hvað fjölmiðlum hefur verið tíðrætt um orð og umsagnir ætlaðra sakborninga í spillingarmálum þeim sem embætti Sérstaks saksóknara hefur verið að rannsaka allar götur frá því eftir hrunið. Jafnvel ríkisútvarpið fer þar sömu slóðina og það er eins og ekkert skipti máli í þessu sambandi nema það sem meintir sakborningar segja.

Nýverið var því lýst með nokkuð hástemmdum hætti hvernig einn fyrrverandi bankastjóri sem ákærður hefur verið, hefði flutt  „innblásna ræðu" í réttinum og afgreitt starf embættis Sérstaks saksóknara sem moðreyk og vitleysu. Hann og aðrir, sem væru bara venjulegt fjölskyldufólk í þessu landi og að reyna að hafa í sig og á, væru ofsóttir af öflum sem virtust búa yfir ótæmandi fjárráðum og ætla að láta kné fylgja kviði. Í þessum dúr skilst mér að andinn hafi verið í þessari „innblásnu ræðu" umrædds fyrrverandi bankastjóra, venjulegs fjölskyldumanns og óbreytts borgara í þessu landi !!!

Það eru greinilega fleiri en lögfræðingar á kennslusviði sem eru með töffarastæla hérlendis og væri betur að menn í þeirri stöðu sem hér um ræðir hugleiddu svolítið þjóðarógæfuna sem hrunið orsakaði og sýndu með því það sem kalla mætti sæmilega þroskaða ábyrgðarkennd gagnvart samfélagi sínu.

Og við getum spurt okkur sjálf að því fyrir hvern embætti Sérstaks saksóknara sé að vinna ? Er það ekki að vinna í þágu þjóðarinnar, í því skyni að hreinsa til eftir hrunið ? Er það ekki innblásinn vilji mikils meirihluta þjóðarinnar að það liggi fyrir hvað gerðist og hvernig það átti sér stað að þjóðinni var ýtt fram á ystu nöf í efnahagslegum skollaleik ábyrgðarlausra manna ?

Var umræddur maður ekki bankastjóri Landsbankans á þessum tíma, var hann ekki að höndla með milljarði króna, var ekki fjöregg Íslands hoppandi milli handa hans og annarra fjármála-toppa hérlendis á útrásartímunum miklu, var hann ekki einn af þeim sem hleyptu Ice-save af stokkunum, var hann ekki á talsvert öðrum launakjörum en þorri manna í landinu, - eða var hann bara og er óbreyttur fjölskyldumaður, í sömu baráttunni og aðrir í þessu landi við að hafa í sig og á - eins og hann vill meina ? Svari því hver fyrir sig !

Þegar fjallað er um miklar ræður er oft sagt að þær hafi verið innblásnar, þannig var það með Gettisburgar ræðu Lincolns, ræðu Daniels Webster um Adams og Jefferson látna, einnig ræðu hans sem kennd er við 7.mars, o.s.frv.o.s.frv. En að tala um varnar-ávarp bankastjórans fyrrverandi sem hér hefur verið nefnt, sem innblásna ræðu, eins og hún væri eitthvað af slíku tagi, er náttúrulega bara hrein og bein vitleysa !

Auðvitað hefur viðkomandi fyrrverandi bankastjóri fullan rétt til að verja sig og sínar gerðir og auðvitað telst hann ekki sekur fyrr en sekt hans hefur verið sönnuð, en að gera hann og aðra - sem stóðu sem lykilmenn fjármálavaldsins í bankakerfinu þegar það hrundi - að einhverjum píslarvottum og ofsóttum sakleysingjum - nær að minni hyggju ekki neinni átt.

Ef það næst aldrei botn í þessi mál hvað mikið sem rannsakað er, mun það þýða að þeir sem fyrir sökum eru hafðir munu aldrei geta hreinsað sig, svo það er öllum fyrir bestu að sannleikurinn komi fram og þeir sem saklausir eru verði hreinsaðir og þeir gjaldi fyrir sakir sem til þess hafa unnið. Þannig á réttlæti í sæmilega lagastýrðu samfélagi að virka.

En tiltrú almennings á réttarkerfið í landinu er hinsvegar orðin vægast sagt mjög löskuð og margir líta svo á að réttarkerfið sé fyrst og fremst orðið að varnarkerfi fyrir forréttindaliðið, ríka fólkið, en ekki lengur neitt sem hægt sé að segja að þjóni réttlætinu á réttlætisins forsendum. Ef svo er, þarf víst engan að undra þó að slíkt varnarkerfi verji sína sauði og komi því í gegn að þeir séu sýknaðir !

Bankastjórinn fyrrverandi kom inn á það í sinni  fjölmiðlameintu „innblásnu ræðu" að ætlaðir ofsækjendur hans og félaga virtust hafa úr nógu fé að spila. Það er athyglisverð umsögn í ljósi þess að núverandi stjórnvöld sýnast sjá hag sinn bestan í því að draga úr fjárveitingum til embættis Sérstaks saksóknara, svo þar er nú ekki aldeilis um slíkt fjármagnsflæði að ræða sem bankastjórinn fyrrverandi virðist telja á sinn innblásna hátt. Skilningur hans á því atriði virðist ekki bera vott um þá fjármálasnilli sem sumir telja að hann búi yfir. En umræddur maður veit vafalaust gjörla hverjir eru við völd um þessar mundir og telur sig greinilega geta sýnt fulla kokhreysti við þær aðstæður !

Ég skal ekkert um það segja hver staða mannsins hafi verið sem sakbornings, en  í ljósi þess hvaða störfum hann gegndi og hver lykilmaður hann var í bankakerfinu á því tímabili sem verið er að rannsaka, tel ég að mjög afgerandi sannanir fyrir sýknu hans verði að liggja fyrir svo ég geti trúað því að hann hafi ekkert af sér brotið. Og ég vil spyrja, er það ekki í þágu hans og annarra sem fyrir sökum hafa verið hafðir, telji þeir sig saklausa, að ærleg rannsókn fari fram og öll kurl komi þar til grafar ?

Og þar fyrir utan getum við öll spurt okkur þeirrar spurningar, er í raun og veru vilji fyrir hendi í þjóðfélaginu til að gera upp við efnahagshrunið og orsakir þess ? Virðist ekki augljóst að áhrifamikil öfl í flokkum og fjármálaklíkum vilja ekki að það sé verið að rannsaka þar eitt eða neitt ? 

Hvernig á ærleg rannsókn að fara fram við slíkar aðstæður ?

Af hverju eru fjölmiðlar svona mikið á bandi þeirra sem fyrir sökum eru hafðir og viljugir til að enduróma öll þeirra orð, af hverju tala þeir um  „innblásnar ræður" eins og t.d. í umræddu tilfelli, eins og viðkomandi fyrrverandi bankastjóri sé hreinlega Alfred Dreyfus endurborinn - sannkallaður píslarvottur í samfélaginu ?

Hverjir eiga fjölmiðlana og skoðanir hverra er verið að enduróma þar ?

Allt eru þetta spurningar sem þegnar þjóðfélagsins ættu að hugleiða. Væru fjölmiðlarnir í sama gír gagnvart meintum sökudólgum ef í hlut ættu venjulegir launþegar út í bæ ?

Nei, það er skoðun mín að þá væru vinnubrögðin allt önnur, að þá væri andinn annar og harðskeyttari og þá væru sakborningar ekki faðmaðir af slíkri fjölmiðla-umhyggju sem umræddur fyrrverandi bankastjóri og aðrir af sama sauðahúsi !

Alltaf sést að skeggið er skylt hökunni og að sumir eiga sér varnarlið sem aðrir eiga ekki og auðvitað sýknar slíkt varnarlið sína sauði hvað sem tautar og raular !

En hvað þá um réttlætið ?  -  Jahá, réttlætið ! Er það nokkuð annað en innihaldslaust hugtak á Íslandi - nú til dags !

 

 


Borg græðginnar !

„Ef hæst gala raddirnar ágirndar óðar

og ofbeldið ræður um götur og torg,

þá sést það er ógæfa íslenskrar þjóðar

að eiga sér þvílíka höfuðborg !"

Margar borgir heimsins eru kenndar við einhver sérkenni sín og við Íslendingar sem erum þó það gæfusamir að ekki skuli vera nema ein borg í landinu, ættum trúlega að geta séð fyrir okkur ýmislegt sem gæti sem best verið sérmerking á Reykjavík !

Einhverjum gáfnaljósum á „hámenningarsvæðinu syðra", og þá á ég við Reykjavíkurtorfuna eins og hún leggur sig, hefur víst helst hugnast að tala um höfuðborg Íslands sem Sódómu og vel má vera að það heiti geti verið einna markvissast til að undirstrika sérkenni þessa eina óðaþéttbýlisstaðar landsins. Á árunum fyrir hrunið þótti líka sumum veglegt og við hæfi að tala um Davíðsborg eða Babylon norðursins en eftir hrunið var mörgum efst í huga að tala um höfuðborgina sem borg óttans !

Bæði var þar vísað til þess að borgin væri full af óttaslegnu fólki sem væri hrætt um sinn hag fyrir óþjóðlegum yfirvöldum og siðspilltum skíthælum í fjármálalífinu, sem að sið ofalinna gulldrengja glefsuðu í allar áttir - og svo til þess - að fólk um allt land væri hrætt við það hvað ráðandi öfl í Reykjavík gerðu af sér næst þjóðinni til óþurftar og skammar !

Við skulum nefnilega ekki gleyma því að efnahagshrunið var að öllu leyti afsprengi þess valds sem hefur hreiðrað um sig í stofnunum og sorabælum kerfisins syðra, í krafti spillingar þeirrar sem vex og hefur vaxið þjóðinni til vansa í Reykjavík og sendir enn þann dag í dag hugarfars-eitrun sína eins og andlega gasárás út um Íslands byggðir frá þessari alræmdu tauhálsatorfu landsins !

Það Holuhraungos spillingarandans í Reykjavík er búið að vera þjóðinni dýrt, enda hefur það umsnúið heilbrigðum gildum í þessu landi svo hrikalega á tiltölulega skömmum tíma, að það er vandséð hvenær sá skaði verður bættur að einhverju marki í manngildislegum skilningi.

Allt þjóðfélagið er nú - sem lengi undanfarið - svínbeygt í þá stöðu, að þjóna undir reykvíska spillingu, þannig að landsbyggðin er í raun stöðugt arðrænd til að hægt sé að metta þá blóðsuguhít sem þenst sífellt út í höfuðborginni og er þegar orðið siðvillumein og andlegt krabbameinsæxli á þjóðarlíkamanum !

Ég sem Íslendingur er því hreint ekki stoltur af Reykjavík og þeim anda sem þessi höfuðborg okkar gengst fyrir. Ég fyrir mitt leyti gæti helst hugsað mér að Reykjavík væri nefnd eftir einu helsta framkomu-sérkenni sínu, því hún er sannarlega réttnefnd borg græðginnar !

Það er skrítið að í höfuðborg landsins skuli nánast alfarið ráða þau óþjóðlegustu öfl sem þekkjast hérlendis og ég vil meina að þar ríki á valdsins vegum -  óíslenskur andi !

Sú var tíðin að Íslendingar voru ein þjóð og samhjálp og samstaða voru boðorð sem mikils voru metin. Í árdaga fullveldis og síðan sjálfstæðis voru menn almennt samhuga um það að hafa bæri heiðarleg og réttsýn gildi að leiðarljósi og kristin sjónarmið varðandi breytnina við náungann. Nú er öldin önnur !

Dansinn í kringum gullkálfinn sem leiddi til efnahagshrunsins og skipbrots hags þúsunda landsmanna, virðist ekkert hafa kennt þeim sem með völdin fara í þessu landi. Ýmis spillingarmerki græðginnar eru sýnilega á uppleið á ný og enn sem fyrr er ljóst að andavaldinu í Reykjavík er stýrt og stjórnað frá ónefndum stað. Og þrátt fyrir slíkan ófögnuð eru dæmin til um það, að ráðamenn slegnir blindu biðji - og það fyrir augum þjóðarinnar - Guð að blessa allt svínaríið !

Hinn ráðandi andi í höfuðborginni er sýktur af yfirgengilegri græðgi, óþjóðlegri hugsun sem gengst fyrir sálarlausri fíkn í peningalegan hagnað. Það snýst allt um arð og ávinning í borg græðginnar. Sanngirni í viðskiptamálum er þar á sextugu djúpi. Traust verður fljótt óþekkt fyrirbæri þar sem græðgin ríkir og aldrei hefur traust á milli manna verið minna hér í þessu landi en það er nú í innmúruðum og innvígðum heimareit höfuðborgarhrokans !

Venjulegt fólk sem býr í Reykjavík fær engu um þetta ráðið. Það er í sömu stöðu og allir aðrir sem verða fórnarlömb græðgisandans, kerfishrokans og banka-blóðsuganna. Það vill vafalaust fá að lifa í heilbrigðu umhverfi, en það er bara ekki boðið upp á slíkt í Reykjavík - á handrukkunar siðleysusviðinu syðra !

Hin svörtu höfuðborgaröfl  æpa stöðugt - í algleymi frjálshyggjunnar - á meira fé og meiri gróða, kalla á annað hrun og aðra kollsteypu. Við þær aðstæður sjá þau sér til fagnaðar og hagnaðar skapast forsendur fyrir meiri eignatilfærslur en nokkurntíma væri unnt að framkalla við eðlilegar forsendur. Eftir slíku tækifæri horfir hákarlamafían allar stundir með augun rauð af ágirnd og blóðþorsta !

Þá er hægt að ræna og rupla og ganga frá almennum fjárhag venjulegs fólks í eitt skipti fyrir öll. Mammonsvald markaðshyggjunnar skal öllu ráða og tryggja það að fjármagn sé þar sem það á að vera - að áliti hinnar svörtu mafíu. Þar er ekkert þjóðlegt eða gott á ferðinni !

Er hægt að breyta þessu ? Er hægt að skapa á ný þjóðlegar og heilbrigðar stoðir mála í höfuðborg þar sem svartnætti græðgi og ótta ríkir, þar sem ekkert traust er til staðar í samskiptum og enginn kærir sig um að þekkja annan á stigagangi í fjölbýlishúsi, þar sem sú skoðun virðist orðin ríkjandi að samskipti við aðra bjóði aðeins upp á vandræði ?

Ég veit það ekki, en ég veit að við verðum að reyna allt til að breyta þessu, því hugarfar græðginnar má ekki ráða í höfuðborginni með gjörspilltum anda sínum og eitra frá sér út um allt land eins og verið hefur. Það væri bein ávísun á endanlegt hrun íslensku þjóðarinnar !

Reykjavík má ekki halda áfram að vera eitt allsherjar arðránskýli á líkama þjóðarinnar. Það verður að skera á meinið og rista hið illkynjaða æxli burt með þeim sársauka sem því mun óhjákvæmilega fylgja. Íslendingar verða að endurheimta höfuðborg sína sem fyrst úr höndum hinnar svörtu hákarla-mafíu !

Þjóðarheill er í veði !

 

 

 

 


Atgervismál í skötulíki !

Joe Biden heitir maður sem gegnir því vansæla hlutverki nú um stundir að vera varaforseti Bandaríkjanna. Hefur hann þó líklega ekki staðið sig neitt verr í því embætti en ýmsir forverar hans og jafnvel hugsanlega eitthvað betur en sumir. Joe er að vísu ekki talinn neitt sérlega sterkur til höfuðsins, en hverju skiptir það. Fyrir embættisins hönd hafa heldur ekki verið gerðar neinar sérstakar kröfur varðandi vitsmuni til þeirra sem þurfa að gegna því, að minnsta kosti ekki í seinni tíð !

Stjórnkerfi Bandaríkjanna er satt að segja orðið þannig að margra áliti, að það  hefur ákaflega lítið með það að gera að þarlendir stjórnmálamenn þurfi að vera sterkir til höfuðsins. Aðalatriðið er að þeir skilji hverjir ráða bandaríska stórríkinu í raun og veru og hafi það í sér að hlýða þeim öflum út í eitt - og þar eru náttúrulega risa auðhringirnir efstir á blaði.

Þó þau öfl teljist strangt tekið vera utan stjórnkerfisins eru þau innan þess líka og fara þar nánast með öll völd þegar grannt er skoðað. Menn sem gegna háum embættum í bandaríska stjórnkerfinu þurfa því að vita hvernig þeir eigi að fjalla um mál þannig að þeir fylgi þeirri línu sem þeim er uppálagt - bak við tjöldin -  að halda sig á !

Sumir virðast hinsvegar ekki kunna allskostar þann línudans og virðast í þokkabót jafnvel halda að þeir eigi að tala út frá einhverri sannfæringu. Kannski er Joe Biden einn af þeim, því hann á það til að tala nokkuð frjálslega og það svo að stundum þarf hann að útskýra eftir á hvað hann meinti og stundum er útskýringin þá afskaplega þvert á það sem hann sagði - eins og hafi verið hnippt í hann í millitíðinni !

Ég er viss um að Joe karlinum þykir það leiðinlegt þegar þannig tekst til, því hann er í raun alls ekki eins ómerkilegur og sumir kunna að halda. Hann vill eflaust vera trúr því sem hann tengir sig við og friðarverðlaunahafinn mikli í Hvíta húsinu á ábyggilega hollustu hans í hvívetna, en Joe á það sem sagt til að missa út úr sér ýmislegt sem væri líklega betur ósagt. Þeir aðilar eru að vísu til sem vilja kannski líta á slíkt sem sjarmerandi breyskleika og sönnun fyrir því að viðkomandi maður sé bara svona hjartahreinn, en það á þó líklega ekki við í umræddu tilfelli !

Veruleikinn í Washingtonborg er nefnilega sagður einstaklega vel til þess fallinn að þvo úr mönnum allan hjartahreinleika og það á tiltölulega skömmum tíma. Það hefur heldur enginn Mr. Smith farið til Washington í háa Herrans tíð til að flytja þar vakningarræður um þjóðleg gildi, enda mun varla nokkur maður þar í borg skilja hvað þjóðleg gildi eru á nútíma-mælikvarða. Það þarf líklega einhverja sem eru sæmilega sterkir til höfuðsins til að skilja slíkt og þeir finnast varla í höfuðborg Bandaríkjanna og allra síst í alríkis-stjórnkerfinu þar !

Annars kippa Bandaríkjamenn sér svo sem ekki mikið upp við það þó varaforseti þeirra - eða aðrir æðstu menn þeirra - eigi það til að tala skringilega, því þeir eru ýmsu vanir í þeim efnum frá fyrri tíð. George Bush yngri forseti átti það nú til að verða æði oft fótaskortur á tungunni og Dan nokkur Quayle sem var varaforseti í eina tíð, talaði oft þannig að menn áttu stundum erfitt með að átta sig á því hvar hann hefði eiginlega verið fæddur og enn erfiðara með að átta sig á því hvar hann hefði eiginlega verið uppfræddur !

Geta menn sem best fundið ýmis gullkorn þessara manna á netinu enn í dag og glaðst yfir þeim einfalda frumleika sem þar kemur fram -  að því er virðist - algerlega án tengsla við mannlega vitsmuni !

Og þegar hugsað er til þess, að Bandaríkjamenn eru um 312 milljónir talsins og að úr þeim fjölda hafi ekki verið hægt að skila hæfileikameiri mönnum upp í efstu valdastóla bandaríska alríkisins en heimsbyggðin hefur þurft að þola undanfarinn aldarfjórðung eða svo, fer maður að skilja dálítið betur - á jöfnum forsendum -hversvegna forustulið Íslendinga er jafn yfirmáta ömurlegt og raun ber vitni !

 

 


Á vinsældaveiðum !

Það var löngum talið mönnum til gildis hér á árum áður að þeir stæðu fyrir eitthvað uppbyggilegt, eitthvað sem tók mið af heiðarleika, skyldurækni, réttlætiskennd og sannleiksást !

Nú er helst að heyra á mörgum að slíkt sé gamaldags og úrelt. Það sem gildi nú á tímum sé að vera í takt við það sem er að gerast. Þetta mjög svo breytta hugarfar hefur leitt til þess að siðferðisleg gildi hafa fallið þvers og kruss og mörg þjóðfélög á Vesturlöndum virðast núorðið nánast ganga fyrir afbrigðilegum, skoðanalegum rétttrúnaði.

Og þessi undarlegi rétttrúnaður sem á að vera afskaplega víðsýnn og frjálslyndur og standa gegn öllum svokölluðum fordómum manna,  gengur í mörgu alveg þvert á þau gildi sem áður voru mest metin og byggðu líklega best upp mannleg samfélög !

Að ganga í takt virðist meðal annars fela það í sér að gera þurfi málamiðlun varðandi  alla hluti, menn eiga ekki að vera bókstafstrúar í neinu, þeir mega  ekki vera ósveigjanlegir, ekki staðfastir og þeir verða að kunna að taka sönsum - í stuttu máli sagt - að vera færir um að hlýða tíðarandanum, alveg sama hve vitlaus og afbrigðilegur hann reynist vera !

Í þeim stéttum sem leggja helst til valdamikla einstaklinga - á þjóðfélagslegum mælikvarða - er að finna fólk sem leggur sig út fyrir að vera sérstakir fulltrúar þessa rétttrúnaðar. Og slíkt fólk á það yfirleitt sameiginlegt að það gengst mikið fyrir athygli og vinsældum. Það gerir sér sérstakt far um að reyna að segja alltaf það sem við á hverju sinni og brosir framan í heiminn og vill að hann brosi við sér.

Þetta fólk er augljóslega á stöðugum vinsældaveiðum og heiðrar engin þau gildi sannferðuglega sem nefnd eru í upphafi þessa pistils.  Slíkar veiðar fólks, sem er annast um það eitt að bæta við skrautblómum í ferilskrá sína, felast í því að styggja engan. Fólk kappkostar að vera slétt og fellt og umfram allt að festa sig ekki í einhverju hugsjónaneti svo það þurfi aldrei að svara fyrir eitthvað íþyngjandi vandamál.

Það sérhæfir sig bókstaflega í því að vera alltaf „stikkfrí" gagnvart ábyrgð og skellir jafnan skuldinni af öllu sem illa fer á aðra. Þetta er fólkið sem skapar mest tíðarandann í dag og gengur best í takt við hann !

Það er fólk sem er fært um að snúa tilgangi hlutanna á hvolf og ganga í takt við sjálfskapað gildisleysi meðan öndin þöktir í vitunum og skaða samfélagið um leið !

Oft hef ég heyrt í fólki af þessu tagi í fjölmiðlum og aldrei mér til ánægju. Þó þykir mér einna verst að heyra til presta sem fylla þennan flokk. Þeir eru hreint ekki svo fáir og vandséð er hvað þeir sækja til Meistarans sem þeir telja sig  þó vera að þjóna. Í rauninni eru nefnilega slíkir kennimenn ekki kennimenn Krists heldur kennimenn tíðarandans og þess rétttrúnaðar sem hann flytur með sér og fæðir af sér. Gagnvart því þrýstingsafli er þjónustulundin greinilega alltaf á vísum stað !

Ég hef hvað eftir annað getað spáð nákvæmlega fyrir afstöðu slíkra presta gagnvart ýmsum álitamálum sem komið hafa upp í samfélaginu áður en þeir hafa tjáð sig um það. Það er svo fyrirséð hvar þeir muni taka sér stöðu þegar maður hef áttað sig á því hvað knýr þá áfram. Tilgangurinn helgar meðalið og vinsældir eru þeim fyrir öllu. Þeir taka sér stöðu með tíðarandanum í sérhverju máli og myndu aldrei láta sér til hugar koma að standa á móti straumi !

En hvað þá um kenninguna - hina kristnu kenningu, um að fylgja því sem rétt er og bera sannleikanum vitni í lífi og starfi ? Um það er það eitt að segja, að henni er einfaldlega fórnað þegar þannig stendur á, enda stendur hún oftastnær þvert í vegi fyrir þeim sem leitar vinsælda og frama. Það er nú svo að stundum verða  aðalatriði mála að aukaatriðum og einkum á það sér stað hjá þeim sem aðhyllast grundvöll í fljótandi fari. Málamiðlunin við heiminn fer enn illa með marga og saddúkear eru víða á sveimi enn í dag !

Vinsældaprestar - sem annað fólk sem hungrar eftir hylli heimsins, eru golusveipur tíðarandans. Á morgun eru þeir horfnir og eftirtekjan verður engin. Þeir skilja ekki eftir sig neinn arf, hvorki í kenningarlegu né köllunarlegu framlagi. Þeir bárust bara með straumnum alla sína tíð og andæfðu aldrei.

Og straumurinn bar þá út í hafsauga hins algjöra tilgangsleysis og þeirrar glötunar sem felst í því að hafa lifað til lítils gagns eða einskis. Sannur prestur í kristnu samfélagi veit hinsvegar hverju hann á að þjóna og hvernig. Prestshlutverk í þeim anda sem þar er til staðar er vissulega eitt göfugasta starf sem hægt er að taka að sér í þessari veröld okkar manna.

En það er áskrift að fullum ósigri hins rétta lífstilgangs að vera á vinsældaveiðum !

 

 

 


Brotalamir í menningargeiranum ?

Við Íslendingar teljum okkur trúlega lifa á miklum menningartímum og vera mikið hámenningarfólk, að minnsta kosti á sú lýsing við allmarga af þeim sem nú lifa. Við erum líklega talsvert hrokafull og merkileg með okkur og þykjumst vita allt betur en áður var vitað. Samt er ekkert nýtt undir sólinni og flestar hugsanir manna í dag eiga sér gamlar hliðstæður, til dæmis í Grikklandi hinu forna.

„Þekkingin er undirstaða dyggðarinnar" sagði Sókrates forðum og gott væri ef svo væri í raun, en miðað við reynslu sögunnar síðastliðin 2000 árin, hefði honum verið nær að segja „ Dyggðin er undirstaða þekkingarinnar," því líklega hefur það aldrei verið augljósara en á okkar tímum hvað þekking mannanna er brotakennd og leiðir oft í villu. Og síst er það sjálfgefið að þekkingin ein leiði menn til gæsku !

Ef svo væri mætti spyrja, hvers vegna var Sókrates dæmdur til dauða og hversvegna er grimmd og mannvonska uppi um allan heim í dag, í yfirflæðandi mæli ? Ef yfirlýst aukin þekking mannsins á okkar tímum er forsenda gæsku, ætti heimurinn að vera betri í dag en hann hefur verið, en því er síst að heilsa. Menn nota nefnilega þekkingu sína að mestu leyti til að hlaða undir eigið sjálf en samfélagið má eiga sig !

Maðurinn býr samt sannarlega yfir mörgum hæfileikum, hann er listhneigður, og skapandi, þyrstur í að heyra um sögur og ævintýri allskonar, forvitni hans er takmarkalaus og hann vill helst vera með nefið niðri í öllu. En hann lifir í veröld sem er komin nánast alveg á fljótandi ferli hvað siðagildi varðar og þarf ekki að líta langt til baka til að sjá afturförina í þeim efnum !

Flest sem maðurinn gerir og framkvæmir, er og hefur verið flokkað á ýmsa vegu. En sú flokkun sem virðist gilda í þeim efnum í dag hefði líklega ekki verið mikils metin fyrir 50 árum, hvað þá einni öld !

Til dæmis er mat manna á listum í dag komið svo óralangt frá því sem áður gilti, að fjölmargt er talið til listaverka nú á tímum sem hefði verið álitið einskisvirði hér áður og tilheyra rusli frekar en list. Og listfræðingarnir, sem eiga náttúrulega að vera fróðustu menn samtímans um það hvað sé list, eiga stóran þátt í því hvernig málum er komið. Þeir einir vilja fá að túlka og tjá listaverkin og eftir þeirra umfjöllun er oft svo, að enginn er meira klumsa en „listamaðurinn" sjálfur !

En fólk með allar hugsanlegar listagráður endasendist í dag um heiminn á styrkjum frá háskólum og menningarstofnunum, og er að eigin sögn og annarra að vinna að list sinni, þó árangurinn sé oft og tíðum mjög svo undarlegur að margra dómi.

En það virðist ekki vanta menningarstyrkina og oftar en ekki eru slíkir fjármunir teknir af skattborgarafé og geta menn rétt ímyndað sér hvort ekki væri hægt að nýta þá fjármuni með skynsamari hætti í þágu náungans og samfélagsins í blæðandi heimi !

Í okkar landi er menningin með ýmsu móti en auðvitað fyrst og fremst sköpuð af fólkinu sjálfu með einum eða öðrum hætti. Samt er kerfið farið að styðja við menninguna með ýmsum fjárfrekum leiðum. Það hafa verið byggð menningarhús á landsbyggðinni um leið og steypt hefur verið undan eðlilegu atvinnulífi þar.

Svonefndir menningarfulltrúar eru á launum um land allt og þeir hafa líkast til allra manna mest að gera. Án þeirra væri menningin víst dauðadæmd. Þeir telja sig áreiðanlega standa undir menningarmeiðnum, eins og Atlas átti að gera undir hnettinum samkvæmt fyrri tíma trú, en reyndin er auðvitað allt önnur !

Það er svo undarlegt með allskyns fulltrúa kerfisins, í menningarlegu tilliti sem öðru, já, og ýmsa aðra sem skipaðir hafa verið vegna ætlaðra þarfa heildarinnar, að sýn þeirra á menningarverðmæti sem annað, virðist geta verið afskaplega sjálfhverf og er það býsna oft.

Það sem þeir meta kannski mikils, ef skyldmenni eða jábræður eiga í hlut, kann að vera dæmt dautt og ómerkt ef um einhvern er að ræða  sem ekki hefur hegðað sér rétt gagnvart hágöfugri menningarnáðinni. En staðreyndin er auðvitað sú, að menning þarf á flestu öðru frekar að halda en einhverri stýrandi stórabróðurs hönd af kerfisins hálfu !

Og eins og dæmin sanna, getur stundum verið „starfað" með mjög svo einkennilegum hætti  - „í þágu okkar allra og menningarinnar í landinu", af slíkum svartálfum menningarljósakerfisins !

Það er ekkert nýtt í sögunni að menn misnoti vald sitt og beiti því með öðrum hætti en heiður og sanngirni geta mælt með, en alltaf er það þó hvimleitt að sjá dæmi um slíkt. Ég gæti alveg hugsað mér, af eigin nauðsyn og annarra, að taka saman ritgerð þar sem tíunduð væru dæmi um vinnubrögð af því tagi sem hér er talað um. Ég get séð það fyrir mér, að sú ritgerð gæti verið framlag til seinni tíma og upplýsing um það hvernig stundum hefur verið staðið að verkum í nafni menningar og lista !

Ég tel mig eiginlega hafa fullar forsendur til að skilgreina nokkur dæmi um mismunun af umræddu tagi í slíkri ritgerð og myndi auðvitað fjalla þar umbúðalaust um þennan vanda, sem ég tel að geti hugsanlega verið nokkuð víða til staðar í svokölluðum menningargeira, ekki síst við þær undarlegu geðþótta aðstæður sem þar virðast oft talsvert mikið ráðandi og leiða mál til verri vegar.

Það er sennilega margt sem getur komið til sem ástæða þegar sumum er hyglað og hampað og reynt að þagga aðra í hel. Stundum er það líklega vegna þess að viðkomandi menningarpostula eða áhrifamanni hefur ekki fundist sér sýnd nægileg virðing af einhverjum og því þurfi að hegna þeim sem þar á í hlut ; svo getur bara ómerkileg hefnigirni verið undirrótin, vegna einhvers sem áður hefur gerst og þá geta dvergsmáar útgáfur af Hriflu-Jónasi verið víða á ferð !

En hver sem ástæðan kann að vera fyrir sýnilegri útilokunarstarfsemi og mismunum í valdsviðhorfum gagnvart einstaklingum á menningarsviði sem öðru, er ljóst að þar er þá á ferðinni einhver sálræn brotalöm sem gerir þá sem haga sér með slíkum hætti, óhæfa til að gegna störfum samkvæmt eðlilegum og réttum viðmiðum í almannaþágu !

Það er stundum sagt um mál sem hafa ekki fengið fullt ferli, að ekki séu öll kurl komin til grafar. Í þeim efnum sem ég þekki til varðandi svona mál, fyndist mér rétt að ég legði mitt til að einhver kurl kæmu þar til grafar - þó síðar verði !

Það er alltaf óviðunandi að menn sem eru í vinnu hjá okkur öllum, haldi á málum með þeim hætti að mismuna mönnum og þar með auðvitað hluta af þeim sem borga þeim laun. Slíkt gera bara menn sem eiga við andlegar brotalamir að stríða !

Menning er það sem fólkið sjálft skapar, í gegnum  listhneigð sína og fegurðarþrá. Þar sem fólk getur lifað við örugga afkomu og eðlileg vaxtarskilyrði huglægrar mennsku, mun heilbrigð menning alltaf eiga sitt góða athvarf.

Opinber afskipti af menningu eru sjaldan til góðs og síst til lengdar. Þau enda oftast með því að snúast bara um fjárframlög og hyglingar sem snúa menningu fljótt upp í andstæðu sína eins og dæmin sanna !

 

 

 


Kerfissamfélag vafninga og vélráða !

Fréttir eru með ýmsu móti og sumt af því sem varpað er út fyrir almennings eyru og augu eru í raun engar fréttir. Þar er oftar en ekki á ferðinni hugsunargelt uppfyllingarefni sem er eingöngu sett fram til að fylla dagskrár-ramma.

Það er gömul sögn að vitleysa ríði ekki við einteyming og það er hreint ekki sjaldan sem manni kemur það í hug þegar boðið er upp á geldar frétta-uppskriftir um ekki neitt. Það er að segja um hluti sem eru svo augljósir oft og tíðum að þeir hafa í raun ekkert fréttagildi.

Þarf það til dæmis að teljast einhver frétt, að núverandi fjármálaráðherra skuli í tillögum sínum um fjárlagagerð skera niður hjá embætti Sérstaks saksóknara ?

Ég hefði talið það fyrirfram alveg borðliggjandi mál og það vafningalaust !

Það hefur ekki nokkur maður sem tilheyrði þeim hákarlaklíkum sem mynduðu stormsveitir frjálshyggjunnar fyrir hrun, verið hlynntur því að verið sé að rannsaka - og þá meina ég rannsaka - fjármálaferil einkavæðingargullkálfanna og annarra sem hlunnfóru íslensku þjóðina meira en nokkur dæmi eru til um fram til þessa.

Þegar embætti Sérstaks saksóknara var sett á fót, álitu margir og meðal þeirra ég, að þar væri fyrst og fremst verið að búa til eitthvað sem róað gæti almenning, eitthvað sem gæti látið menn halda að eitthvað yrði gert. Svo yrði apparatið bara blásið af þegar óróinn væri að baki.

Og ég er enn þeirrar skoðunar að þannig hafi kerfið og pólitíkusarnir staðið að þessu embætti og auðvitað hafi aldrei verið ætlast til að eitthvað kæmi þar út úr málum. Ekki fremur en með Landsdóminn sem átti bara að vera öryggisúrræði í kerfinu - til skrauts - en ekki notkunar !

Og nú er fjármálaráðherra, í krafti þeirrar ríkisstjórnar, sem mynduð er af sömu stjórnmálaöflum og hönnuðu hrunið, að draga úr ætluðum umsvifamætti þessa embættis Sérstaks saksóknara og auðvitað er það fyrsta skrefið í því ferli að láta embættið hverfa á næstunni, helst náttúrulega eins þegjandi og hljóðalaust og hægt er !

Arftakar hrunforingjanna líta sem sagt svo á að nú sé lag, nú sé búið að róa almenning niður og slá það miklu ryki í augu fólks, að hægt sé að taka upp fyrri siði eins og ekkert sé.

Og þegar litið er til þess hvað umrætt embætti hefur lítið getað afrekað varðandi það að koma lögum yfir fjársvikarana og landráðahyskið sem hér lék lausum hala fyrir hrun, þykir manni furðulegt að margreyndir, pólitískir blekkingameistarar skuli ekki leyfa embættinu að baksa eitthvað áfram enn um sinn, því ekki ætti eftirtekjan að þurfa að hræða þá, því hún gæti varla verið öllu rýrari ?

Það virðist nefnilega vera svo á Íslandi, að það sé ekki nokkur leið að koma lögum yfir menn sem eru verulega loðnir um lófana. Þeir virðast standa ofar lögunum og það virðist ekki skipta neinu máli hvað þeir gera af sér, þeir eru sýknaðir af öllu og beðnir auðmjúklegast afsökunar og réttarkerfið stendur á haus gagnvart slíkum greifum hátignar og hroka - hér í þessu stéttlausa samfélagi !

En venjulegur plebeji, mannræfill sem hnuplaði kannski einum milljónasta af því sem gullgreifarnir hafa stolið úr þjóðareign - hann myndi fá að finna fyrir því að það væru sko lög í landinu ! En þau lög virðast bara hafa verið sett sem víti fyrir almenna þegna þessa lands, hina lágu, en þau ná ekki til þeirra háu og hafa líklega aldrei átt að gera það !

Embætti Sérstaks saksóknara hefur í raun ekkert að gera með að vera til þegar það á bara að vera eitthvað sýndarverkfæri í allri spillingarfor stjórnkerfisins  -  en ef því væri ætlað að starfa með skilvirkum hætti og fengi að starfa með slíkum hætti - þá væru verkefnin sannarlega yfirfljótandi og fyrirliggjandi hreinsunarstarf hreint ekki svo lítið !

En það á ekkert að rannsaka, það á ekki að hreinsa neitt upp, og skilgetnir, pólitískir erfingjar valdablokkarinnar sem olli hruninu, vita það manna best. Landsdómur og embætti Sérstaks saksóknara eru bara uppsett kerfisatriði til að láta fólk halda að lýðræði sé ástundað af ráðamönnum hér í bananaríkis-spillingu  norðurhjarans.

Það er vafningalaust sagt - ekki neinar fréttir fyrir almenning að valdamenn hegði sér í samræmi við þá hagsmunaútgerð sem að baki býr og gerir þá út !

 


Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 3
  • Sl. sólarhring: 130
  • Sl. viku: 809
  • Frá upphafi: 356654

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 641
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband