Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2015

Vesturlönd eru í hættu !

Þrátt fyrir margháttað keðjubundið rugl í fjölmiðlum og fullt af svæfandi yfirlýsingum leiðtoga og pólitískra rétttrúnaðarsinna í öllum flokkum, er staðreyndin í veruleika nútímans sú, að Vesturlönd í heild eru í hættu. Þau eru í hættu fyrir síauknu aðstreymi annarra sjónarmiða en þeirra sem eiga samleið með gildum þeim sem við Evrópumenn höfum fylgt um aldir !

Þetta aðstreymi skapast fyrst og fremst fyrir ört stækkandi hópa innflytjenda í Evrópulöndum, vaxandi vægi hópa sem munu seint eða aldrei fallast á okkar gildismat í málum og vilja breyta löndum okkar í útibú frá sínum fyrri heimalöndum, breyta þjóðlífsmálum okkar í það horf sem þeim líkar og verða allsráðandi aðilar á þjóðarheimilum okkar !

Ég leyfi mér að fullyrða að í dag séu fleiri óþjóðhollir þegnar innan marka nánast allra Evrópulanda en nokkru sinni fyrr í Sögunni. Í álfunni okkar eru margir önnum kafnir við að grafa undan stoðum viðkomandi þjóðlanda og með hugmyndir um nýja Evrópu álfuna Evrabíu, sem er hugsuð sem heilalaus hundskinnsútnári frá boðuðu heimsveldi hins heilaga stríðs !

Goðsögnin um hófsama múslima er pólitísk blekking, áróðursbragð sem hefur virkað vel til þessa fyrir þá sem halda því á lofti. Hófsamir múslimar eru bara hófsamir meðan þeir eru í minnihluta, þeir breytast langflestir fljótt við vaxandi styrk og fjölda í harðlínu múslima. Og það eru öfgamennirnir sem ráða og leiða hina í einu og öllu. Fyrr eða síðar verða Vesturlönd, vegna eigin öryggis, að átta sig á því að heilagt stríð er ekki innantómt slagorð. Það er beinharður veruleiki í augum milljóna múslima víða um heim !

Og það eiga múslimar, að þeir virða sín gildi miklu meira en við virðum okkar gildi. Þeir taka sína trú miklu alvarlegar en við okkar og verja hana og hennar boðskap af miklum móði. Evrópa og Vesturlönd væru líklega ekki í þeirri hættu sem við blasir nú, ef við hefðum verið jafn trú okkar gildum. Það er fyrst og fremst undanlátssemi okkar við stöðugan ágang múslima sem hefur skapað þá hættu sem fer vaxandi með ári hverju. Og múslimar munu eignast Evrópu að lokum, ef fer sem horfir !

Leyniþjónustur Vesturlanda og gjörvallt öryggisnet okkar verður að fara að virka og það afgerandi. Það blikka hættumerki á æ fleiri stöðum. Nokkur þúsund múslima hafa farið frá Evrópu til að berjast í Sýrlandi og víðar sem vígamenn undir gunnfánum heilags stríðs, menn sem eru fullgildir borgarar evrópskra landa. Þessir menn snúa síðan flestir aftur og hvaða viðhorf munu fylgja þeim og hvaða jarðveg munu þeir síðan erja í viðkomandi löndum ? Þarf nokkur að velkjast í vafa um það ?

Margir leiðtogar Evrópu í dag eru druslur meðalmennskunnar ! Francois Hollande er enginn Karl Martel, David Cameron er enginn Oliver Cromwell, þessir menn eru enganveginn sterkir leiðtogar ! Hvorugur er til þess fær að verða heilsteypt leiðtogaímynd fyrir kristin lífssannindi, samþætt aldagömlum evrópskum heimspeki og hugsjónagildum og gjörvöllum menningararfi álfunnar !

Því miður virðast málamiðlunarmennirnir alls staðar sitja í valdastólunum, heil álfa er því, – á augljósum hættutímum, - algerlega án afgerandi forustu !

En við þurfum að verja Evrópu, líf okkar og þann arf sem okkur hefur verið falinn í hendur af liðnum kynslóðum. Það er orðið knýjandi mál að uppræta grundvöll fimmtu herdeildanna í Evrópu og skapa borgaralegt og lýðræðislegt öryggi á ný í álfunni sem enn er okkar – annars endar það óhjákvæmilega með því að hún hættir að vera okkar og við verðum annars flokks borgarar í eigin löndum, ef við fáum þá að lifa !

 

 


Þenkingar um þrælahalds-handboltamótið í Qatar !

Sú var tíðin að sannkallaður ungmennafélagsandi réði ríkjum í íslenskri íþróttahreyfingu og kjörorðið var ræktun lands og lýðs. Fjölmargir ágætir leiðtogar komu þá fram í hreyfingunni sem voru allt í senn, brennandi hugsjónamenn, félagar sem voru öðrum góð fyrirmynd, menn sem voru umfram allt þjóðræknir Íslendingar, menn eins og Aðalsteinn Sigmundsson. Slíkir menn höfðu hjarta fyrir ungmennafélagshreyfingunni og andi hreyfingarinnar brann þeim lifandi í brjósti !

En nú er öldin önnur og allt snýst þetta núorðið um peninga. Það gengur allt út á afreksfólk í dag, ekki ræktun lands og lýðs. Einn forsvarsmaður í íþróttahreyfingunni sagði það nánast berum orðum í viðtali í útvarpi fyrir nokkrum árum, að það þyrfti að einbeita sér að því fólki sem væri líklegt til afreka, að vera að eyða peningum í aðra væri bara sóun og vitleysa ! Ég held að ég gleymi þeim ummælum seint því lengi vel reyndi ég nú að þráast við að standa í þeirri meiningu að íþróttahreyfingin væri hugsjónahreyfing fyrir ræktun lands og lýðs !

Ég er náttúrulega löngu hættur að líta svo á núna, enda væri það jafnvel þrákálfi eins og mér um megn að reyna að halda slíku fram eins og málin horfa við núorðið. Íþróttahreyfingin er nefnilega fyrst og fremst peningamaskína í dag eins og nánast allt annað. Þar er enga hugsjón fyrir félagslegum ávinningi að finna lengur eða nokkra heildarhugsun mannræktar. Þar snúast málin einungis - og umfram allt - um medalíur og metnað, money og more money !

Nú er t.d. þetta handboltamót í gangi í Qatar og allir vita að yfirvöld þar hafa beitt svívirðilegum aðferðum þrælahalds og mannfyrirlitningar gagnvart því erlenda verkafólki sem unnið hefur þar við byggingu mannvirkja vegna þessa íþróttaviðburðar. Þetta fólk er á lúsarlaunum, vegabréfum þess er haldið og það hefur vikum og mánuðum saman verið þrælkað út miskunnarlaust. Fjölmargir hafa týnt lífi vegna þess að öryggi á vinnustað er greinilega eitthvað sem virðist ekki vera þekkt innan landamæra ríkisins. Og öll brot virðast vera grafin í sandinn þarna, enda nóg af honum !

Og hvað gera hin mannréttindasinnuðu Evrópuríki þegar þau standa frammi fyrir þessum blóðugu staðreyndum um nútíma þrælahald ? Sameinast þau um mótmæli og neita að mæta á íþróttamót sem er haldið með þessum hætti ? Nei, ekki aldeilis !

Mannréttindi í þeirra skilningi eiga bara við Evrópumenn ! Þarna er bara um einhverja þriðja heims aumingja að ræða sem engin ástæða er til að fórna heilu íþróttamóti fyrir og öllum þeim glans sem því fylgir. Mannréttindi eiga ekki við fólk sem er svo fátækt að það getur ekki einu sinni staðið á löppunum eins og almennilegt fólk !

Andi gömlu íslensku hreppstjóranna drottnar yfir sandbreiðum Qatar en íþróttahugsjónina, ungmennafélagsandann, er þar hvergi að finna, hvorki hjá yfirvöldum þar eða keppendum hinna ýmsu þjóða sem þar eru að skemmta sér !

Nútíminn á sér sýnilega sérstakan íþróttaguð og hann heitir Mammon og hann er greinilega orðinn allsráðandi í hreyfingu sem hann átti lítið sem ekkert heimaland í hér áður fyrr. Það sér á að menn eins og Aðalsteinn Sigmundsson eru löngu dauðir og enga slíka að finna lengur.

En blóð píslarvotta hrópar víða um heim á réttlæti, ekki síst vegna tvöfeldni Evrópuríkja, og það hrópar einnig frá Qatar og sú blóðskuld mun verða innheimt með eldi þegar þar að kemur !

 

 

 


Álfan sem snýst um sjálfa sig !

Evrópubúar virðast nokkuð almennt vera mjög sérkennilegur lýður og einstaklega sjálfhverfur í veruleikaskynjun sinni. Evrópa hefur notið mikilla sérgæða í margar kynslóðir, ekki síst vegna yfirgengilegs arðráns í öðrum heimshlutum. Evrópuveldin voru á yfirlýsta nýlendutímanum blóðsugur út um allar jarðir og meðan yfirstéttin gat og þorði píndi hún eigin alþýðu líka. Og þetta blóðsugueðli er enn til staðar og enn er dulin nýlendustefna í gangi víða og enn snýst meginmálið um auð og völd !

Margir tala hátt og mikið um mannréttindi, réttlæti og sannleika, en hjá ákaflega mörgum sem þannig tala er engin meining á bak við slíkt tal, það er aðeins verið að nota áferðarfalleg hugtök í pólitískum tilgangi fyrir eigin frama, fyrir eigin flokk eða einhvern afskaplega efnishyggjubundinn ágóða.

Og fyrir mörgum virðist Evrópa og mannfólkið í Evrópu vera yfirstétt á heimsvísu. Þar á fólk að hafa það best og þar eiga allir að eiga mestan rétt til stærstu gæðasneiða lífsins. Það virðist skipta svo óendanlega litlu máli hvaða óáran er á ferð, bara ef það er í öðrum heimsálfum, hjá öðru fólki, það þarf bara að vera allt í lagi hjá hinni blómlegu og sællegu Evrópu !

Á sínum tíma þegar Kosovomálin voru í fullu ferli og Albanir þar að reyna með aðstoð Nato og hins svokallaða alþjóðasamfélags að innlima ríkishluta sem um aldir hefur tilheyrt Serbíu, yfirgnæfðu þau mál allt annað á „frjálsu fréttastöðvunum“ ! Allmargir menn féllu í róstum þar og þar sem það átti sér stað í Evrópu skyggði það algjörlega á hin hrikalegu fjöldamorð á Tútsum og friðsömum Hútúum í Rúanda.

Það virtist ekki skipta svo miklu máli þó einhver svertingjalýður suður í Afríku týndi verulega tölunni, en líf hvers Evrópumanns virtist hinsvegar metið í margföldum mæli. Svo fjöldamorð á hátt í einni milljón af Rúandamönnum eða þar um bil, mátti þessvegna fara um gleymskugáttir alþjóðasamfélagsins og allra hinna fölsku mannréttindagoða nútímans, en það varð að hjálpa vesalings Albönunum í Kosovo sem hinir illu Serbar voru miskunnarlaust að kúga og kvelja eins og það hét á máli heimspressunnar.

En það sem gerðist á svæði gömlu púðurtunnunnar var einfaldlega á hinu stórpólitíska sviði hluti af þeim fyrirfram ákveðna gjörningi að lima Júgóslavíu í sundur í smáar, áhrifalitlar einingar sem auðvelt væri að ráðskast með, og heimspressan þjónaði af lífi og sál undir þau öfl sem þar stjórnuðu á bak við tjöldin. Enginn sannleikur réði ferð í þeim fréttaflutningi sem þá tröllreið heimsbyggðinni varðandi málefni Balkanskagans og hlóð lygi á lygi ofan !

Og Bandaríkin undir Clinton-stjórninni voru svo áfram um að hjálpa Albönum í Serbíu, að þau vörpuðu fyrir róða áratuga fastri stefnu í pólitík sinni, að einhliða úrsögn landshluta úr sambandsríki væri ólögleg nema samþykkt kæmi til varðandi það á þingi sambandsríkisins sjálfs. Ef Bandaríkin hefðu haft þetta viðhorf árið 1860 hefðu Suðurríkin bara mátt sigla sinn sjó og komast hefði mátt hjá borgarastyrjöldinni sem kostaði meira en 600.000 Bandaríkjamenn lífið og olli yfirgengilegum hörmungum fyrir landsfólkið !

Serbar áttu sem sagt ekkert að hafa um það að segja að tiltekinn landshluti þeirra, sem er að hluta vagga menningar þeirra, yrði yfirtekinn af Albönum sem voru að mestu afkomendur innflytjenda á svæðið. Ég segi bara, takið eftir, takið eftir, svona er hægt að eignast land. Innflytjendurnir taka völdin !

Og áfram varðandi hin mjög svo dýrmætu, evrópsku líf ! Boko Haram hermdarverkahreyfingin hefur að því sem best er vitað nýlega rústað heilum þorpum í Nígeríu og drepið þar fjölda manns. En enn er allt við það sama. Nokkur mannslíf í París vega miklu þyngra ! Það er ekkert rúm í fréttum fyrir blóðtökur í Afríku jafnvel þó þær séu meiriháttar. „Hverjum er ekki sama um þessa svertingja“ virðist heimspressan segja af fullkomnu kæruleysi ?

Og það virðist stutt í gamla hugtakið úr landi frelsisins, „eini góði indíáninn er dauður indíáni !“ Dauðir svertingjar eru sennilega ekki heldur vandamál í augum alhvítrar Evrópupressu, sem byggir hroka sinn og hleypidóma á aldagömlum hefðum nýlendukúgunar og óheyrilegs yfirgangs gagnvart svörtu fólki.

Og nú liggur fyrir þrælahaldsmeðferðin á verkafólki í kringum byggingu íþróttamannvirkja í Qatar, en enn sem fyrr er áhuginn lítill fyrir að afhjúpa slíkt og fordæma, það er bara horft á yfirborðið og svikulan glansinn, því – jú, þetta er bara þriðja heims fólk, ekki fólk frá Evrópu !

En hvernig geta evrópskar þjóðir sagt sí og æ að þær séu til varnar góðum gildum, mannréttindum og réttlæti, þegar þær hvað eftir annað hegða sér með þessum og þvílíkum hætti ?

Þetta er í mínum huga glæpsamleg tvöfeldni ! Þetta er hugarfarsleg sýking frá nýlendutímanum, sem sýnir að í raun hefur ekki margt breyst. Evrópubúar eru enn þannig sinnaðir að þeir eru gráðugir í gæði sem veitast þeim fyrir blóð og svita annarra. Það er rómverski andinn í þessu, það er hugsunin að vera í þeirri stöðu enn og áfram að deila og drottna, ráðskast með líf og hamingju annarra að eigin vild ! Það er ekki af engu sem hatur á Evrópu og evrópska stór-afleggjaranum í vestri hefur nóg til að nærast af, það hefur lengi verið séð til þess að forsendur fyrir slíkt hatur séu og verði nægar !

Það hafa verið vaktar upp margar ófreskjur í Sögunni, og þeir hinir sömu sem vöktu þær upp hafa stundum þurft að fórna milljónum mannslífa til að kveða þær niður. Bretar og Frakkar dældu fjármagninu í Hitler og byggðu hann upp á sínum tíma og bandarískir auðhringar og milljónamæringar létu þar ekki sitt eftir liggja. Og tilgangurinn - jú, að siga nazistaríkinu á Sovétríkin, en þessum kaupmönnum dauðans yfirsást það að djöfullinn sem þeir vöktu upp lét ekki lengi að stjórn !

Hversu oft er þetta sama ferli ekki inntakið í þjóðsögunum okkar ? Maður með illan tilgang í huga vekur upp draug, draugurinn snýst gegn honum og eltir afkomendur hans í marga ættliði. Hvað eiga slíkar sögur að kenna okkur ? Hin ævagömlu sannindi, „Sér grefur gröf þótt grafi“, „menn uppskera eins og þeir sá“ o.s.frv.

Sáning Evrópu hefur verið afspyrnu slæm í ljósi Sögunnar. Því verður ekki neitað með nokkrum hætti. Kannski er upphafskafli uppskerutímans þegar að skrifast á spjöldin ? Hvað mikið hatur skyldu evrópskar þjóðir vera búnar að kalla yfir sig með blóðsugu-framferði sínu og arðráni gagnvart svo til varnarlausum þriðja heims ríkjum ? Það er eins og Haile Selassie standi enn frammi fyrir heyrnarlausum leiðtogum í Þjóðabandalaginu og biðji þá um hjálp ? Hvað hefur breyst síðan það var ?

Ég væri enganveginn hissa á því að þær hatursöldur hermdarverka og ógnar sem eiga eftir að skella á Evrópu, muni brátt sýna okkur að það sem hefur gerst í þeim efnum til þessa er ekki neitt miðað við það sem á eftir að gerast og sú framvinda mun skaða alla og eyðileggja fleira í mannheimi en nokkur getur ímyndað sér !

 

 


"Og þakka heiminum fyrir nýjan dag !"

Fyrir nokkrum vikum heyrði ég í útvarpi texta nokkurn sunginn. Ekki tók ég sérstaklega eftir því hver söng og hef ekki hirt um að kanna málið nánar, en ég verð að játa að ég velti nokkuð vöngum yfir þeirri tjáningu sem virðist búa í umræddum söngtexta !

Í textanum var nefnilega fyrirsögn þessa pistils sungin fram og þótti mér undarlega til orða tekið. Það er að vísu tímanna tákn að heiminum sé þakkað margt sem Guði ber, en að maður þakki heiminum fyrir það sem hann nýtur í hérvistinni, meðal annars fyrir það að fá að vera til, finnst mér skrítið viðhorf !

Á sínum tíma benti Guðmundur á Sandi Jóhanni Sigurjónssyni á það að það væri ekki rétt að segja „úti regnið grætur !“ „Regnið grætur ekki“, sagði Guðmundur, „ það er himinninn sem grætur regninu !“

Og Jóhann var nógu mikill maður til að viðurkenna þetta og sagði: „ Já, það er alveg rétt, slæmt að ég skyldi ekki hugsa út í það, en enginn hefur bent mér á þetta fyrr !“

En það sem ort hafði verið í hita augnabliksins stóð og stendur, því enn er sungið af stakri tilfinningu „ Sofðu unga ástin mín, /úti regnið grætur !“

Að segja að regnið gráti og þakka beri heiminum fyrir nýjan dag, er auðvitað hugsunarvilla, en ekki er víst að menn í dag séu jafn fúsir að viðurkenna slíka villu og Jóhann Sigurjónsson var forðum í nokkuð sambærilegu tilfelli ?

Þar að auki virðast sumir menn þannig gerðir nú á dögum að þeir myndu aldrei þakka Guði fyrir eitt eða neitt, því svo mikil er uppreisn sálna þeirra gagnvart Skapara himins og jarðar. Það eru til menn í dag sem eru orðnir svo menntaðir og miklir í eigin sjálfi að það virðist beinlínis fara í taugarnar á þeim að heyra að einhver hafi skapað þá !

Í mikilleika sínum telja þeir sig líkast til vera algjörlega sjálfskapaða menn og enginn og ekkert sé þeim í raun og veru æðra !

Það er sérstaklega leiðinlegt að horfa upp á menn sem verða menntun sinni og uppfræðslu til skammar með slíkum hætti. Sú var tíðin að sagt var, að menntun og uppfræðsla leiddi menn sjálfkrafa til auðmýktar gagnvart Almættinu og hógværðar gagnvart samferðamönnunum, því með upplýsingunni skildu þeir betur stöðu sína gagnvart Skaparanum og skyldur sínar við náungann !

En það er löngu liðin tíð að hlutirnir séu meðteknir með þeim hætti og nú til dags er hroki miklu algengari fylgifiskur samfara menntun en hógværð !

Samt er það nú svo, að tilveran er enn sama fyrirbærið og hún var og Guð er til og verður til og hann er ekkert óvanur því að horfa upp á hrokagikki sem telja sig ekkert þurfa á honum að halda og hefja sig yfir hann – í augnablikinu !

Slíkir sjálfbirgingar hafa allt frá upphafi vega vanhelgað yfirborð þessarar jarðar með orðum sínum og gjörðum og framferði þeirra býr oftast ekki yfir neinu öðru en guðlasti. Andi Kóra og Datans er enn víða á sveimi !

En auðvitað er Drottinn Skapari allra manna og þeirra líka sem fullir eru af hroka og yfirlæti. Og þó svo virðist sem þeir hafi afhent öðrum aðila lyklana að sálum sínum og séu að heyra hinir hreyknustu yfir því – í augnablikinu, kemur að því að svigrúmið verður ekki meira til að ástunda uppreisn og niðurrif gagnvart hinum ævarandi gildum.

Gömul vísa hljóðar svona:

„Þó að blási stundum strangt

stormur rauna frekur.

Ekki þarf að þykja langt

það sem enda tekur !“

                          Og það er málið ! Að lokum er liðin hver stund í lífi hvers manns og líka hver stund ævi sem var full af óvild til Guðs og hafði aldrei tíma fyrir hann og vildi ekkert af honum vita !

Þá er komið að skuldadögunum og þá mun sannast að lítil vörn verður í hrokanum og yfirlætinu, þegar guðleysinginn horfir móti því óumflýjanlega.

Því hvar og hvernig er sá maður staddur á sínu banadægri - sem aldrei vildi í lífinu kannast við Skapara sinn ?

Tilvist öll er eins og slys,

eydd til fulls við hjómið.

Þar til dautt og fallið fis

feykist út í tómið !

 

 

 


Lögmál líknar og lögmál fíknar !

Það er sjálfsagt flestum fagnaðarefni að læknadeilan sé að öllum líkindum leyst, en ýmsar spurningar hafa vaknað meðan þessi deila hefur staðið yfir og ekki síst í siðfræðilegum atriðum. Það þarf ekki að undirstrika mikilvægi lækna í samfélaginu og þörfina á tilvist þeirra fyrir okkur öll. En einhvernveginn hefur það samt snert mann illa að hafa stöðugt þurft að heyra í fréttum þá hótun - að ef læknar fái ekki verulega kjarabót séu þeir bara farnir !

Já, farnir, fluttir burt frá þessu landi og þessu þjóðfélagi, sem reynist þeim að sögn verulega illa og kemur að þeirra mati afar takmarkað til móts við þarfir þeirra. Og við vitum að mannlegar þarfir geta verið býsna miklar og ekki síst nú til dags þegar margir virðast þurfa allt til alls !

Og við vitum trúlega líka, að læknar eru engin láglaunastétt og þó ég efist ekki um að álagið sé oft mikið og jafnvel meira en það í þeirra starfi, þá verða nú fleiri en læknar að þræla mikið á Íslandi og það meira að segja fyrir töluvert lægri launum !

Annað hlutskipti hefur ekki verið boðið þeim erfiðisvinnustéttum sem undanfarna áratugi hafa fengið loforð um það fyrir alla kjarasamninga að þeirra hlutur skuli réttur, en eins og flestir vita hérlendis, hefur það orðið hin siðlausa höfuðregla að svíkja það loforð !

Fyrir nokkru heyrði ég viðtal sem haft var í fjölmiðlum við íslenskan lækni sem er víst að gera það gott í Bandaríkjunum. Hann er eftirsóttur þar og hefur nóg að gera og náttúrulega rífandi tekjur. Hann virtist mjög sáttur við allt þarna vesturfrá, en svo kom að því að hann sagði : „ Ég á svona 10 - 15 góð ár eftir og svo ætla ég að koma heim !“

Hann var spurður frekar út í það. „Jú,“ sagði hann, „það er ekkert gaman að vera gamall hér í Bandaríkjunum !“

Hann ætlaði sem sagt að vinna þarna úti þar til hann færi á eftirlaunaaldur og þá ætlaði hann að koma heim og njóta góðra aðstæðna í þjóðfélagi sem hann hafði ef til vill sjálfur þjónað að mjög takmörkuðu leyti. Réttindin voru greinilega skýr í hans huga en skyldurnar ekki !

Og hverjir áttu að halda í horfinu hér heima svo hann gæti gengið að góðum hlutum þegar honum þóknaðist að koma HEIM ? AÐRIR áttu líklega að gera það !

Það er oftast heldur ankannalegt hvernig sumir menn geta horft svona - í almætti sjálfsins - á marga hluti og fundist ekkert athugavert við það. En slíkur hugsanagangur byggir hvergi upp samfélög heldur hið gagnstæða og í því sambandi kemur manni í hug það sem samið var forðum fyrir John F. Kennedy í ræðunni frægu : „ And so my fellow Americans, ask not what your country can do for you, ask what you can do for your country ?“

Læknar hafa löngum verið taldir einna trúfastastir allra stétta við það lögmál sem hefur verið kennt við líkn, en eins og við vitum hefur íslensk samfélag um nokkurt skeið verið meira og minna á valdi allt annars lögmáls sem á meira skylt við fíkn og þá ekki hvað síst peningalega fíkn, eða það sem í eina tíð var kallað fyrirlitleg auragræðgi en kallast víst núna á máli frjálshyggjunnar „eðlileg sjálfsbjargarviðleitni !“

Það má telja víst að þetta seinna lögmál sé farið að vinna sér drjúga vegleið inn í allar stéttir þjóðfélagsins og jafnvel þær sem helst hafa hneigst hingað til að andstæðu lögmáli. Það er ekki af því góða, þó hér sé enganveginn verið að ætlast til þess af einhverjum sérstökum hópum að þeir sýni meiri fórnfýsi en aðrir. Það þurfa allir þegnar samfélagsins að hafa það í sér að sýna fórnfýsi, en hennar hefur hinsvegar iðulega verið krafist meira af sumum en öðrum. Og eins og sagt er hér að framan, hafa allir kjarasamningar, í þessu vaxandi ójafnaðarríki okkar, undirstrikað það til fleiri ára, hvaða stéttir það hafa verið sem alltaf hafa verið sviknar og settar hjá. Og þar erum við hreint ekki að tala um læknastéttina, með allri virðingu fyrir henni !

Svo er það líka farin að verða mikil spurning hvaða aðilar á þingi séu með hagsmuni venjulegs launafólks á sinni stefnuskrá ? Verkalýðsflokkar eru ekki lengur til og það er margt sem virðist segja að það fólk sem situr nú á þingi hafi það svo gott sjálft efnalega, að því sé gjörsamlega fyrirmunað að skilja aðstæður þeirra sem búa við skarðan hlut lífsgæða í landinu, en þeim virðist hafa fjölgað nokkuð ört og skyldi engan þurfa að undra það eins og haldið hefur verið á málum. Það liggur við að maður heyri það svara eins og frönsk drottning á að hafa gert varðandi brauðleysið hjá fólkinu forðum !

Verkalýðshreyfingin svokallaða er líka með forustulið í hálaunaflokki sem á ekkert sameiginlegt með kjörum þeirra sem það þykist vera að berjast fyrir, enda eru svik við láglaunafólk sígild staðreynd í okkar samfélagi sem fyrr segir og ekki síst af hálfu siðvilltrar forustu hinnar veglausu verkalýðshreyfingar !

Og varðandi lækna vil ég líka segja það hreint út, að þeir eru engin goð á stalli í mínum augum. Þeir eru menn og skeikulir eins og aðrir. Mér eru dapurleg örlög frænda míns Páls Hersteinssonar allt of fersk í minni, til að ímynda mér eitthvað annað og meira í því sambandi !

Og það má líka spyrja, hver er munurinn á því fyrir venjulegan launamann á Íslandi að drepast vegna læknaleysis eða vera læknaður og settur algerlega á hausinn um leið vegna yfirgengilegs lyfjakostnaðar og okurdýrrar sérfræðiþjónustu ? Er maðurinn ekki gott sem dauður í báðum tilfellum ?

Það er nú svo komið á Íslandi að margir eru farnir að telja í fúlustu alvöru að það stefni í það, að venjulegt launafólk á Íslandi muni ekki hafa nein efni á því að njóta þjónustu lækna í náinni framtíð ! Þeir verða því kannski á komandi árum flott starfsstétt sem þjónar bara þeim ríku – íslenska aðlinum, og heilbrigðiskerfið okkar verður þá liðið undir lok, að minnsta kosti sem sú þjóðargersemi sem það vissulega var - áður en byrjað var með sérgæðingshætti að eyðileggja það utanfrá sem innan !

Og eins og margoft hefur verið bent á, er fleira fólk í íslenska heilbrigðiskerfinu en læknar. Þar er líka fólk í ýmsum stéttahópum sem hefur haft til að bera mikla fórnfýsi í sínu starfi í áranna rás, þrátt fyrir léleg launakjör ! Ég vil spyrja, hvernig á að koma fram við það fólk eftir þá samninga sem nú hafa verið gerðir við lækna og fara að sögn talsvert fram úr öllum samningaviðmiðum, sem sett hafa verið að undanförnu, varðandi launahækkanir ?

Fyrir nokkru gerði þáverandi heilbrigðisráðherra - sem alkunnugt er - þau mistök að bjóða forstjóra Landsspítalans einum sérstök viðbótarforréttindi í launakjörum til að halda honum í starfi. Það mæltist eðlilega illa fyrir og ráðherrann fékk mikla ádeilu á sig fyrir þetta og fær jafnvel enn !

Nú virðist niðurstaðan eiga að vera sú að allir læknar fái hliðstæð forréttindi svo þeir haldist við störf, en gengið sé út frá því að annað starfsfólk í heilbrigðiskerfinu sætti sig samt sem áður við óbreyttan hlut ! Ég held að það komi ekki síður til að mælast illa fyrir og núverandi heilbrigðisráðherra verði að hugsa þetta betur, ef hann hefur þá nokkuð hugsað í þessu sambandi !

Lögmál líknar og lögmál fíknar munu eflaust aldrei eiga samleið, en það er jafnljóst að það getur heldur aldrei verið stefnumál í þjónustu réttlætis að hygla einum aðila á kostnað annarra. Það þarf ásættanlega heildarlausn sem tryggir starfsfrið á þeim stað sem á og þarf að vera okkar sameiginlega líknarheimili. Vandamálin í heilbrigðiskerfinu leysast ekki við það að læknum sé lyft upp í fullkomnu ósamræmi við þann launalega veruleika sem hlýtur að blasa við öðrum sem starfa þar !

Ef til vill er sá tími kominn, að hin gamla, gráglettna palladómavísa Sveins frá Elivogum um læknastéttina eigi betur við en nokkru sinni fyrr:

„Ljót er gáfan læknanna,

limi flá og afskera.

Taxtann háa tvöfalda

til að ná í peninga !“

 

 

 

 

 


Sagan endurtekur sig !

Flestir vita að Bandaríkin eignuðust einn sinn frægasta son í þeirri atburðarás sem átti sér stað í aðdraganda borgarastyrjaldarinnar og meðan á þeirri mannskæðu styrjöld stóð. Abraham Lincoln var ekki bara einhver forseti þarna fyrir vestan, hann var stórbrotinn persónuleiki og göfugmenni af bestu gerð. Það hafa ekki margir setið á forsetastóli í Bandaríkjunum sem hafa verið jafn miklir menn í sjálfum sér sem þessi maður sem ólst upp meðal alþýðunnar, þekkti venjulegt fólk og elskaði það af öllu hjarta og fann sig best á meðal þess.

Lincoln var mannvinur í eðli sínu, en sú ógnarþunga byrði var lögð á hans herðar að vera stríðsleiðtogi og það í borgarastyrjöld. Hann þjáðist því mjög á sál sinni þann tíma sem styrjöldin stóð og beið þess stöðugt að upp birti og hægt væri að binda um sárin og græða þau og leiða þjóðina inn á sameinaðan sáttaveg.

Flestir vita hvernig framvindan varð. Andlega sjúkur ofstopamaður myrti Lincoln í hefndarskyni fyrir ósigur Suðurríkjanna, en drap þar með einu vonina um manneskjulega meðferð á uppreisnarríkjunum og gerði Suðurríkjunum það mesta ógagn sem hægt var að gera á þessum tíma. Þegar Lincoln var ekki lengur til staðar, réðu stríðsgróðaöflin meðal sigurvegaranna öllu og þeirra leið var að gera allt öfugt við það sem Lincoln hefði gert.

Stjórnvöld í norðurríkjunum sviku þannig stefnu Lincolns og meðhöndluðu Suðurríkin af fyllstu hörku og allskyns ófarnað leiddi af því. Og eftir að Andrew Johnson hafði verið rutt úr vegi með valdatöku Grants var það lið fullkomlega við völd sem bætti lítið sem ekkert en gerði margt til bölvunar. Það var því ekki bundið um sár, það voru þvert á móti sköpuð ný sár og kannski hefur Bandaríkjaþjóðin enn í dag ekki uppskorið alla þá ógæfu sem á rætur sínar í svikunum við mannúðarstefnu Lincolns. Það voru fyrstu stóru svikin af þessari gerð !

Í lok fyrri heimsstyrjaldar sat annar mikill mannvinur á forsetastóli í Bandaríkjunum – Woodrow Wilson. Hann vildi taka fast á vandamálunum eftir stríðið og vinna í anda þeirra sátta sem geta orðið varanlegar ef vel tekst til. En leiðtogar gömlu, blóðugu álfunnar voru á öðru máli. Þeir fóru á bak við Wilson, hæddust að hugsjónum hans og friðartali, brugguðu stefnu hans banaráð og fóru með allt í sama gamla haturs og hefndar farið.

Bandaríkjaþing og stjórnvöld heima fyrir brugðust líka forsetanum og stefnu hans þegar mest á reið og því fór sem fór. Þjóðabandalagið fékk aldrei þann slagkraft sem þurfti og Wilson missti heilsuna í baráttunni og dó stuttu síðar sem útslitinn maður.

Menn sem voru að meðtaka sínar pólitísku lexíur í Evrópu á þeim tíma, menn eins og Mussolini og Hitler, komust á þá skoðun út frá Versalaráðstefnunni og meðferðinni á Wilson og stefnupunktum hans, að Bandaríkjamenn væru ómerkingar og það þyrfti ekki að reikna með miklu frá þeim eða taka tillit til þeirra. Þeir töluðu fallega en stæðu ekki við það sem þeir segðu.

Ólíklegt er að slíkir menn sem fyrrnefndir einræðisherrar hefðu komist til valda ef tekið hefði verið á málum í anda Wilsons á ráðstefnunni í Versölum, en afleiðingar hennar fæddu af sér seinni heimsstyrjöldina með öllum þeim hörmungum sem henni fylgdu.

Lengi hefur það verið svo að það er lítið talað um Woodrow Wilson, og það er eins og Bandaríkjamenn sjálfir margir hverjir skammist sín fyrir framkomuna við hann, og telji því best að hafa sem fæst orð um sögu hans. En Wilson er samt einn háleitasti hugsjónamaður sem hefur sett mark sitt á bandaríska stjórnmálasögu og væri betur að þar hefðu fleiri haft þá réttsýni að leiðarljósi sem hann hafði um sína daga.

Við af Wilson tók forseti sem talinn er einn sá slakasti meðal forseta Bandaríkjanna, maður af allt annarri og síðri manngerð en fyrirrennari hans. Svo mikil varð andstaðan gegn hugsjónum Wilsons að allt þótti betra en að berjast fyrir þeim. Grafið var undan forsetanum og það jafnvel á ólíklegustu stöðum. Og í valdatíð eftirmannsins er sagt að forsetaembættið hafi séð einn sinn lægsta punkt í virðingarlegu tilliti !

En í fáum orðum sagt - þannig fór fyrir Woodrow Wilson og með þessum hætti var mannúðarstefna hans svikin í Evrópu sem og heima fyrir. Það voru önnur stóru svikin af þessari gerð !

Í aðdraganda síðari heimsstyrjaldarinnar og fram á árið 1945, var enn á ný mikill hugsjónamaður á stóli forseta Bandaríkjanna, Franklin D. Roosevelt. Hann lést rétt fyrir stríðslok og sá er tók við af honum var maður af allt öðru tagi. Stefnu Roosevelts var kastað út og framvindan eftir stríð sýndi ljóslega að fylgt var öðrum og verri viðmiðum.

Harðlínuöflin höfðu fengið sinn mann inn sem varaforseta 1944 en sá sem því starfi gegndi áður, Henry A. Wallace, var síst af öllu maður að skapi áhrifamanna í Wall Street og þeirra sem stjórnuðu auðhringunum. Ein afleiðing gjörbreyttrar stefnu var að Sameinuðu þjóðirnar fengu aldrei þann slagkraft og tiltrú sem þörf var á og urðu að mestu leyti pólitískt leiktæki í höndum vesturveldanna. Framvindan varð því taka tvö af Þjóðabandalaginu !

Nú í dag getur enginn maður sem vill sýna fulla dómgreind borið meira en mjög takmarkaða virðingu fyrir Sameinuðu þjóðunum sem stofnun. Þau eru að mestu fallin á sínu mikla raungildisprófi þó þau lafi við lýði nú á dögum sem fjölmenningarlegur kjaftaklúbbur !

Svik bandarískra stjórnvalda 1945 voru þriðju stóru svikin af þessari gerð sem hér um ræðir og mannkynið er enn að glíma við miklar og illar afleiðingarnar af þeim fyrir Bandaríkin og heiminn allan !

Flestir menn hafa eitthvað til brunns að bera, en oft eru alrangir menn til staðar þegar aðrir og betri menn hefðu þurft þar að vera. Það var ekki góðum málum í heimi hér til framdráttar að Grant varð forseti eftir að kjörtímabili Lincolns lauk. Það var heldur ekki til góðs að Harding tók við af Wilson og Truman af Roosevelt !

Í öllum þessum tilvikum var um að ræða spor aftur á bak og ávöxtum dýrkeypts sigurs spillt stórlega. Það er aðeins eitt sem getur hugsanlega réttlætt miklar fórnir sem færðar hafa verið. Það er að barist hafi verið til einhvers, að eitthvað betra taki við !

Við getum spurt okkur þeirra spurninga varðandi stríðslokin 1865, 1918 og 1945 ?

 

 

 

 

 


"Týr er að bjarga !"

Enn er okkur Íslendingum boðið að heyra með hreyknum brag í sjónvarpsfréttum að varðskip frá okkur – að þessu sinni Týr - sé að bjarga flóttafólki suður á Miðjarðarhafi. Það er í sjálfu sér ágætt mál að verið sé að bjarga fólki hvar sem er og auðvitað eins á þessum slóðum, fólki sem líklega er að flýja einhverja slæma hluti í heimalöndum sínum og vill komast eitthvað þangað sem betur getur farið um það.

Ítalska strandgæslan hefur til dæmis verið að standa sig vel í þessum hlutum, enda er það mjög skiljanlegt að hún sé til staðar á Miðjarðarhafi, í sinni lögsögu, en mér er spurn, hvað er íslenskt varðskip að gera þarna, hvað er íslenska landhelgisgæslan, fiskveiðilögsöguliðið okkar að starfa á þessum slóðum ?

Eru engin verkefni hér heima, er ekki lengur nauðsyn á því að vakta okkar lögsögu, voru varðskip okkar ekki ætluð til þess ? Og ef ekki þarf að hafa skip til að fylgjast með málum í okkar lögsögu til hvers erum við þá með þessi skip ? Er ekki staða ríkisfjármála þannig að við ættum að halda sparlega á málum og selja þau skip sem ekki sýnist nauðsynlegt að reka hér heima fyrir ?

Jú, staðan þar er auðvitað eins og allir vita, búið að ræna og rupla vítt og breitt og eignir ríkisins hafa margar hverjar horfið ofan í hákarlakjafta, en fyrirhyggjusnauðir ráðamenn virðast líta svo á að einhver veldisbragur þurfi samt að vera á hlutunum þó engin séu efnin til þess.

Og því virðist sem skipum frá gæslunni sé haldið úti á fjarlægum höfum og tilgangurinn sé að afla tekna svo við höfum efni á því að reka þau. Þau er ekki varðskip fyrir okkur og okkar lögsögu meðan svo er, það er engin íslensk strandgæsla í fullum gír meðan svo er.

Þessi tilhögun á málum, þetta rekstrarlag á skipum gæslunnar, er enn eitt talandi dæmið um þá mikilmennsku íslenskra yfirvalda sem endar jafnan í glórulausum aumingjaskap !

Og til þess að breiða yfir þá staðreynd að varðskip okkar eru ekki notuð hér til þess sem þau eru ætluð fyrir, er sífellt verið að kynna það í gegnum fréttir hvað „við“ séum að gera góða hluti þarna suðurfrá á Miðjarðarhafinu ! En það er forðast að tala um það hversvegna í ósköpunum við séum á þessum þvælingi þarna niður á „mare nostrum“ með strandgæsluskipin okkar ! Það ætti bara að bjóða Sameinuðu þjóðunum að reka skip sem eru orðin flóttamannaskip með þessum hætti ! Það ætti sannarlega að vera í þeirra verkahring en ekki okkar !

Nýi Þór sem hafin var smíði á í Chile 2007 og var ekki tilbúinn fyrr en síðsumars 2011, var sagður við komuna til landsins vera tákn um nýja tíma. Mikil slepja og yfirlýsingagleði var viðhöfð af ráðamönnum við það tækifæri. En líklega hefur aldrei verið eðlileg, fjárhagsleg geta að baki því að láta smíða þetta nýja skip, enda var byrjað á því fyrir hrun meðan skýjaborgavitleysan var enn í fullum gangi og við Íslendingar, örþjóðin við ysta haf, þóttumst vera stærstir, mestir og bestir í öllu – ekki síst fjármálum !

Við eigum náttúrulega að hætta öllum leikaraskap og blekkingum og skýra frá málum eins og þau eru í veruleikanum. Íslenskt varðskip er ekki staðsett á Miðjarðarhafi af mannúðarástæðum eða í kærleiksskyni. Það er þar algjörlega á forsendum efnishyggju sjónarmiða, af fjárhagslegum hagsmunaástæðum, af því að rekstrarbatteríið er með tómahljóð í kassanum !

Í stað þess að fækka skipum gæslunnar sem sjáanlega eru engin efni til að reka með heimafengnum böggum, er gripið til þessa – mér liggur við að segja - örþrifaráðs. Þar er verið að teygja sig langt til að ná í peninga fyrir stofnun sem er greinilega svo fjársvelt að hún er varla fær um að sinna opinberu hlutverki sínu !

 

 

 


Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 24
  • Sl. sólarhring: 73
  • Sl. viku: 593
  • Frá upphafi: 365491

Annað

  • Innlit í dag: 21
  • Innlit sl. viku: 506
  • Gestir í dag: 21
  • IP-tölur í dag: 21

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband