Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2015

Gladiatorar gervimennskunnar !

Sérhver tími býr yfir sínum sveiflum varðandi almenningsálit og oft búa tímar og tíðir yfir einhverju tilteknu áhrifavaldi sem orkað getur sterkt á hugi manna og stundum knúið fram miklar breytingar í krafti byltinga og fjöldafylgis. Þegar slíkt gerist rísa gjarnan upp miklir forustumenn stórra hugsjóna um réttlæti og jöfnuð öllum til handa, sem fólk fær trú á og vill fylgja. Slíkir foringjar verða svo stundum eigin sjálfi að bráð en það er önnur saga.

En það gerist líka í töluverðum mæli að með slíkum meginstraumi fljóta margir sem eru þar algerlega í ósjálfræði hugans, fólk sem hrífst af því sem í gangi er, dregst ef til vill að einhverjum leiðtoga og fer að treysta á hann í blindni, en hefur ekki í eigin barmi neitt sem byggir á sjálfstæðri festu og fórnfúsu fylgi við hugsjón. Slíkt fólk vill þó stöðugt vera að sanna sig og þykist jafnan öðrum meira afgerandi í baráttunni, en það eru bara látalæti og stælar. Í raun er slíkt fólk stefnulaust og ekkert á það að treysta þegar á hólminn kemur !

Þegar mesta hrifningaræðið er að baki og leiðtoginn dáði kannski dáinn og horfinn, baráttan orðin erfiðari og þyngri, fyllist slíkt fólk öryggisleysi og vanmetakennd. Það hefur ekkert lengur til að styðjast við og engan styrk í sjálfu sér til að mæta þeirri reynslu sem felur í sér eldskírn til starfs og dáða.

Það leiðir til þess að þetta fólk endar stundum þannig, að það fer að þjóna í pólitískum herbúðum sem eru algerlega andstæðar því sem það áður þóttist standa fyrir. Það eru dapurleg örlög sem vitna um sorglegt manndómsleysi !

En það er vel kunnugt hérlendis sem erlendis, að menn sem þóttust róttækir vinstri menn um tvítugt, en leiddust smám saman út í mikið samneyti við Mammon og voru þar alfarið ánetjaðir um fertugt, gáfu gjarnan þá skýringu á viðhorfsbreytingunni í viðtölum síðar – „ að þeir hefðu þroskast !“

En hið sanna var auðvitað að þeir höfðu ekki verið menn til að standast eldskírnina, þeir höfðu fallið fyrir gylliboðum og gengið í þjónustu þeirra peninga-afla sem þeir höfðu áður skilgreint sem rót alls ills !

Meðan þeir voru ungir og örir hafði þeim hinsvegar fundist spennandi að leika einhverja gladíatora hins góða málstaðar og þóst vera róttækastir allra manna, fremstir í baráttunni fyrir frelsi, jafnrétti og bræðralagi. Og meðan þeir gátu horft til einhverra forvígismanna málstaðarins með hálfgerðri tilbeiðslu, gátu þeir jafnvel – í einstökum tilfellum - átt það til að standa sig vel, en aldrei þó til lengdar. Hjá þeim var aldrei persónuleg inneign fyrir góðri framgöngu. Þar var yfirleitt allt fengið að láni frá öðrum sem höfðu hlutina á hreinu !

Og svo þegar aðrir tímar tóku við, tímar sem hneigðust að öðrum markmiðum og báru kannski með sér alveg andstæðan anda, fuku þessir undirstöðulausu gladiatorar gervimennskunnar náttúrulega út og suður.

Þeir hrukku undan strax og á þá reyndi og hröktust sumir hverjir í peningaskjól auðvaldsins, þar sem þeim stóð til boða áreynslulítil framfærsla á einföldu sálarverði. Og þar eru þeir sumir enn í dag og þegar samviskan ónáðar þá - sem gerist nú reyndar ekki oft - reyna þeir að hugga sig við það að þeir hafi þroskast !!!

Tengdamóðir eins slíks manns var góð vinkona mín og ég spurði hana eitt sinn hvað dóttir hennar, eiginkona mannsins, gerði ? „Ja, hún er bara heima“, sagði gamla konan, „hún er eitthvað að skrifa, hún þarf ekki að vinna, hann skaffar svo vel !“ Og þar sem ég vissi til þess að viðkomandi maður var orðinn umskiptingur og taglhnýtingur Mammons gat ég alveg trúað því að hann skaffaði vel. En í mínum augum var hann ekki lengur uppréttur maður heldur miklu fremur eins og hundur sem fær kjötríkt bein af veisluborði vellystinganna !

Á sínum tíma orti Bjarni nokkur Gíslason eftirfarandi vísu sem segir kannski sitt um mannlegt eðli eins og það getur komið fram í lakari birtingarmyndum:

Illt er að finna eðlisrætur,

allt er nagað vanans tönnum.

Eitt er víst, að fjórir fætur

færu betur sumum mönnum.

                                                           Það er fróðlegt að skoða suma þá menn sem þóttust öðrum vinstri mönnum róttækari í eina tíð, hvernig farið hefur fyrir þeim og hvar þeir eru staddir núna. Það hefur vísast komið mörgum á óvart hvernig ferill þeirra hefur verið og kannski þó mest þeim sjálfum. Þeir sem haldast ekki í sporum og fjúka af stað hverju sinni fyrir blæstri tíðarandans, geta ómögulega vitað hvar þeir lenda og þeir lenda stundum á ólíklegustu stöðum !

Í eina tíð hefðu menn kannski ekki átt von á því að kunnir róttæklingar til vinstri, menn eins og til dæmis Már Guðmundsson, Einar Karl Haraldsson, Þröstur Ólafsson og Ásmundur Stefánsson, svo einhverjir séu nefndir, yrðu með tímanum eins og þeir urðu og eru í dag, svo afburða þroskaðir einstaklingar, að þeir næðu því trúlegast með glans að verða gjaldgengir í hvaða stórkapitalistaklúbb sem er – og það líklega sem fullkomnir jafningjar þeirra sem þar hafa setið fyrir til þessa. En eins og vitað er, tekur raunveruleikinn öllum skáldskap fram og fleiri mætti sosum nefna sem komið hafa sjálfum sér og öðrum á óvart á hliðstæðan hátt !

Ég hef af sálfræðilegum ástæðum kynnt mér dálítið feril manna sem eiga það líklega sameiginlegt að hafa „þroskast“ svona með árunum – að minnsta kosti að eigin áliti. Ég gef hinsvegar lítið fyrir þann þroska sem hér um ræðir, en veit að í flestum tilfellum hafa þessir menn efnast og sumir mikið. Ef menn vilja líta svo á að það að þroskast sé að eignast meiri peninga er það þeirra mál, en ég get ómögulega litið þannig á málið. Í mínum huga blasir við allt önnur mynd í slíkum tilfellum en aukinn þroski eða meiri manndómur !

En tengdamæður allra þeirra manna sem ég hef í huga í þessu sambandi hafa líklega getað sagt samhljóða – að þeir hafi skaffað ólíkt meira eftir að þeir lögðu róttæknina – sem var þeim raunar aldrei eiginleg - á hilluna !

Og auðvitað er staðreyndin sú, að menn sem eru ekki merkilegri en það - að þeir telja það þroskamerki að hafa guggnað og gefist upp í baráttunni fyrir almennum mannréttindum og gengið peningaöflum sérréttindaþjónustunnar á hönd, hafa aldrei verið neitt annað en gladíatorar gervimennsku og uppgerðarstæla !

Sú staðreynd leiðir svo í sjálfu sér óhjákvæmilega til þess raunmats - að slíkir menn verði seint eða aldrei samfélagsvænir og þroskaðir einstaklingar !

 

 

 

 


Öll rétthugsunarkerfi vega að hugarfrelsi manna !

Það er býsna oft athyglisvert að upplifa það hvernig menn bregðast við andstæðum skoðunum. Ég heyri menn oft halda ýmsu fram sem mér þykir fjarstæða, en mér dettur ekki í hug að véfengja rétt þeirra til að hafa sínar skoðanir og tjá þær. Á seinni árum hefur mér hinsvegar fundist það færast í vöxt að menn ánetjist einhverjum menntunarbókuðum rétthugsunarkerfum sem þeir virðast telja að allir eigi og verði að fylgja, það virðist einkum gerast í gegnum menntunarferli, flokksstarf eða hliðstæða hluti – nánast allt sem þrengir að þankagangi og fær menn til að halda að þeir sjái víðáttur í gegnum skráargöt !

Þegar slíkt rétthugsunarferli skapast, byggt á viðhorfum manna sem telja sig vegna menntunar standa öðrum framar, hlýtur það að koma niður á öllu jafnræði og þar með lýðræðisrétti manna almennt. Þegar einhver segir í raun við annan : „ Ég geri kröfu til að hafa meiri mannréttindi en þú af því að ég er menntaðri en þú“, erum við komnir inn í nokkuð undarlegan hugsunargang og einkennilega sýn á mannréttindi sem eiga auðvitað að vera öllum jafnboðin. Hluti af mannréttindum er að fá að hafa sínar eigin skoðanir. Þegar einhver hrokafull mannlífseintök skilgreina skoðanir annarra sem fordóma er aðeins um að ræða ósvífna tilraun til yfirgangs í skjóli einhverrar viðvarandi rétthugsunar. Slíkum yfirgangi ber að mæta af fullri einurð og láta ekki kúga sig til þagnar.

Einstaklingar sem þjóðir hafa rétt til að ráða eigin örlögum og forræðishyggja vill oft verða helmingur spyrðubands á móti einræðishyggju. Það er ranglæti að vega gegn hugarfrelsi einstaklingsins því vilji mannsins er og á að vera hans himnaríki. Kúgun í nafni rétthugsunarmódela er á okkar tímum afar lúmsk leið yfirgangsafla til að þagga niður alla gagnrýni. Menn hafa rétt til að hafa skoðanir.

Í Svíþjóð gerðist það á sínum tíma að „hámenntuð menningarelíta“ fór að krefjast þess að fá að hafa umsjón með því sem væri þjóðinni fyrir bestu. Aðrir væru ekki færir um það. Þetta mjög svo menntaða lið var með augu sín út um alla veröld og sá þar undursamlega ævintýraflóru, en jafnan var horft af þess hálfu hátt yfir heimahagana og lítt hugað að málum þar. Þessi sænsku yfirvöld töldu víst að þau hefðu þegar unnið alla hugsanlega sigra heimafyrir og velferðarsamfélagið myndi reka sig sjálft að mestu leyti áfram því hið fullkomna módel lægi því til grundvallar.

En svo kom að því að sjálfumgleði Svía og værðarhyggja velferðarstjórnar þeirra fékk yfir sig efnahagslega brotlendingu og síðan hefur komið í ljós að ekkert er líklegra en að brotlendingarferli þeirra muni halda áfram á komandi árum. Vandamálin sem búin hafa verið til þarlendis af yfirvöldum sem sáu yfirleitt ekki eigið land og hagsmuni þess fyrir veruleikafirrtri draumsýn fjölmenningar, eru svo hrikaleg að þeim er vart lýsandi og þar ber náttúrulega innflytjendavandann hæst.

Á Íslandi hefur alltaf verið til hliðstæður menningarelítuhópur og í Svíþjóð, en sem betur fer hefur hann ekki fengið öll völd hérlendis. Þó hefur hann í allt of miklum mæli – að mínu mati - haft áhrif til hins verra með rétthugsunargeipi sínu og stöðugum ásökunum um fordóma annarra.

Ég hef ásamt öðrum bloggara notið þess vafasama heiðurs að vera nefndur síðastliðið vor í ritgerð til BA gráðu hjá nemanda á Bifröst, þar sem agnúast er út í það að við höfum ekki samþykkt það fyrir okkar parta að það liggi fyrir einhver þjóðarsamþykkt um að hér skuli vera fjölmenningarsamfélag. Virðist höfundur ritgerðarinnar velta því fyrir sér hvort þessi afstaða okkar stafi af þekkingarskorti eða hræðslu nema hvorttveggja sé, að minnsta kosti hljóti að vera fyrir hendi ákveðnir fordómar gagnvart fjölmenningarsamfélagi ?

Þarna eru notaðar enn sem fyrr hinar margþvældu aðferðir fjölmenningarsinna, að bregða þeim sem ekki hafa sömu skoðanir og þeir, um fordóma og þekkingarskort. Hræðsla er svo þarna nefnd líka - svona sem aukaálegg á sneiðina. Ég spyr nú bara: Er þetta inntak þeirrar menntunar sem fólk á að fá í framhaldsskólum hér, að tala niður til þeirra sem hafa andstæðar skoðanir, með hrokafullum hætti ?

Hvar er afstaðan til eðlilegs lýðræðis, hvar er sú meginregla að þjóð eigi að fá að kjósa um það hvert stefna beri ? Er það bara talið nóg, að einhver menningarelíta ákveði að þjóðfélag okkar skuli vera fjölmenningarþjóðfélag, þá sé gjörningurinn gildur ? Ég sem frjáls Íslendingur viðurkenni ekkert slíkt vald og mun aldrei líta á íslenskt samfélag sem fjölmenningarsamfélag nema þjóðin sjálf samþykki slíkt í frjálsum kosningum !

Þegar uppskólaðir fjölmenningarsinnar fjölyrða með þessum og viðlíka hætti um fordóma annarra, eru þeir í raun og veru bara að upplýsa fólk um eigin fordóma og vanhæfni til að viðurkenna rétt annarra til að hafa skoðanir. Þessi rétthugsunarplága sem merkt hefur menntafólk svo afgerandi á undanförnum árum er meinsemd sem hlýtur að skaða hvert samfélag sem vill kenna sig við lýðræði. Uppskrúfuð sérfræðiálit og svokallaðar faglegar umsagnir langskólagenginna einstaklinga um málefni samfélagsins geta aldrei og mega aldrei taka völdin án aðkomu þjóðarinnar. Þá erum við einfaldlega ekki lengur lýðræðislegt þjóðfélag og sú hætta getur hæglega skapast að örlög þjóðarinnar verði ákveðin af öflum sem eiga ekki að ákveða þau !

Raunhæf menntun er að sjálfsögðu góð og á að styrkja einstaklinga sem samfélög, en þegar menntun fer að hætta að vera raunhæf og er farin að snúast mestmegnis um upphafningu sjálfsins og kröfu um rétthugsun sem allir eigi að fylgja, er menntunarstig manna farið að breytast í andstæðu sína. Skoðanakúgun í krafti einhverra ætlaðra menntunarlegra yfirburða er eins og öll önnur kúgun og engu betri – hún er ill og andfélagsleg !

Íslenska þjóðin hefur ekki ákveðið það í frjálsum kosningum að hér skuli vera fjölmenningarsamfélag og meðan svo er hafa engin stjórnvöld hér rétt til þess að draga alla í þann dilk og nota almenningssjóði til að hygla hér fjölmenningarlegum viðhorfum í samráði við háværan – „menntaðan“ – menningarelítu –hóp !

 


Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 22
  • Sl. sólarhring: 71
  • Sl. viku: 591
  • Frá upphafi: 365489

Annað

  • Innlit í dag: 19
  • Innlit sl. viku: 504
  • Gestir í dag: 19
  • IP-tölur í dag: 19

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband