Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2016
26.11.2016 | 11:11
Vegur morðingjans !
Ritningin segir okkur, að Kain, frumburður frumforeldra okkar Adams og Evu, hafi gerst morðingi og það bróðurmorðingi. Þriðja manneskjan sem gekk um á þessari jörðu var sem sagt hinn versti manndrápari samkvæmt sköpunarsögunni. Við þekkjum öll orðtakið Adam var ekki lengi í Paradís en orsök brottvísunar hans þaðan var óhlýðni við settar reglur !
Kain sonur Adams var heldur ekki hlýðinn, hann fór sínar eigin leiðir. Hann sinnti ekki boðum Guðs. Abel bróðir hans var hinsvegar hlýðinn og heill í hjarta gagnvart Guði. Hann var fulltrúi sæðis konunnar en Kain var fulltrúi sæðis höggormsins !
Billy Graham sagði á sínum tíma, að Kain væri húsameistari menningar nútímans. Hann hefði verið sjálfum sér nógur efnishyggjumaður og trúrækinn manndýrkunarmaður !
Kain afneitaði opinberun þeirri um hjálpræði sem gefin var Adam. Hann reisti að vísu Guði altari en hann lagði á það tákn um eigið erfiði og sjálfsréttlætingu, sem samsvaraði því að hjálpræðið fengist vegna verkanna. Hann varð þannig fyrirmynd allra þeirra manna sem dirfast að koma fram fyrir Guð með mannlegan hroka í farteskinu !
Tvær leiðir hafa allt frá upphafi legið í gegnum sögu mannkynsins. Önnur er vegur Kains, trúarbrögð mannlegs eðlis, með mannlega endurlausn, sem reiðir sig á manninn einan og hafnar staðgöngumanninum sem Guð gaf Jesú Kristi !
Vegur Kains gerir Guð mannlegan og manninn guðlegan. Vegur Kains er vegur efnishyggju, heimshyggju og manndýrkunar, vegur sjálfsréttlætingar og hroka. Þar er enginn skilningur fyrir hendi á mikilleika Guðs eða heilshugar lotning fyrir Almættinu !
Hin leiðin er vegur Abels, vegur auðmjúkrar viðurkenningar þess að óhlýðni verskuldar dauða, að sérhver brotamaður verði að treysta á fórn Guðs sér til endurlausnar og lífs. Fórn Abels varð táknmynd dauða Krists !
Til eru menn sem segja að heimurinn hafi reynt kristindóminn en hann hafi brugðist eins og allt annað. En staðreyndin er sú að það er enganveginn sök kristindómsins þótt heiminum hafi ekki farið fram að siðferði.
Siðferðileg hnignun er hinsvegar óhjákvæmileg niðurstaða mála þegar menn leitast ekki við að færa sér það í nyt sem kristindómurinn gefur, þegar hinar andlegu gjafir hans eru forsmáðar.
Þetta sá enski rithöfundurinn G. K. Chesterton og sagði fyrir rúmri öld: Kristindómshugsjónin hefur ekki verið reynd, og hún hefur því ekki reynst léttvæg. Það hefur sést að hún er erfið og hún hefur því verið látin óreynd !
Billy Graham hefur skýrt þessi mál vel í bókum sínum og minnir fast á sígild varnaðarorð Ritningarinnar : Ver viðbúinn að mæta Guði þínum !
Sumir telja sig sannarlega hugsa vel fyrir öllu, lögfræðingar þaulkanna réttarfarsleg deilumál, fjármálamenn úthugsa sín mál og pólitíkusar reyna að tryggja sig og sinn framgang í bak og fyrir, en fæstir hugsa um höfuðmál tilverunnar, hvernig þeir eigi að undirbúa sig fyrir óhjákvæmilegt stefnumót sitt við Skaparann, Dómarann sjálfan !
Cesare Borgia sagði á dauðastund sinni: Ég hef hugsað fyrir öllu um dagana nema dauðanum og nú, æ, ég er að deyja algerlega óundirbúinn !
Margir hafa lýst því yfir á síðustu lífsstundum sínum, að þeir finni til þess að þeir séu glataðir því þeir hafi ekki ratað inn á veg hjálpræðisins og viðurkennt þann sem sagði: Ég er Vegurinn, Sannleikurinn og Lífið, enginn kemur til Föðurins nema fyrir mig !
Vegur hins fyrsta morðingja er margra vegur. Kainsmerkið bera þeir sem setja manninn upp fyrir Guð og dýrka hið forgengilega í blindni meðan náðartími þeirra er að renna út að eilífu !
En Kristur sagði: Sá sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyi ! Í þeim kjarnaorðum felst lausnin sem býður hverri sál bjargir frá hinum öðrum dauða - sem er eilífur dauði, - bjargir til eilífs lífs !
Það er eina lífsleið okkar manna að halda fast í þá lausn. Aðhyllumst engin skurðgoð eða tilbúin hindurvitni, látum ekki vegvilltan og siðlausan tíðaranda leiða okkur í glötun !
Treystum þeim sem sagði: Sjá, Ég er með yður, allt til enda veraldarinnar, og þá getum við fullkomlega vitað í hjörtum okkar að við erum í góðum höndum og á leið til lífs en ekki dauða !
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:08 | Slóð | Facebook
19.11.2016 | 10:44
Enn ein blaut tuskan !
Ákvarðanir kjararáðs um launahækkanir fyrir toppfígúrur og tauhálsa kerfisins er enn ein af þessum blautu tuskum sem þeytt er framan í almenning þessa lands. Þarna sitja gljástroknir sérhagsmunafulltrúar í kerfisvörðum fílabeinsturnum, og skenkja sínu samsveitarliði svo örlátlega úr sameiginlegum sjóði þjóðarinnar, að það er algjörlega úr öllum takti við eðlileg, samfélagsleg viðmið.
Meðan almenningur fær í kringum 3% launahækkun og ekki er sagt hægt að hafa það hærra, því þá fari allt um koll í óðaverðbólgu og efnahagshruni, fær þetta fólk sem fyrir er á ágætum launum, 40% launahækkun á silfurfati sérréttindanna !
Þvílíkt andstyggðar ríki er þetta þjóðfélag okkar Íslendinga orðið og það á tiltölulega skömmum tíma, eða sérstaklega eftir að skurðgoðadýrkun Mammons-fylgjenda hófst hérlendis sem aldrei fyrr upp úr 1990. Framkvæmdavaldið er að mati fjölda fólks gjörspillt, þingið er og hefur verið til margra ára vanburða væfla og dómskerfið hefur stórlega glatað gildi sínu og virðingu á undanförnum árum.
Og nú þegar stór hópur þingmanna er algjörlega reynslulaus og mun vafalítið þurfa næstu tvö ár til að komast inn í starfið, fær hann fyrirfram launahækkun sem er vægast sagt viðbjóðslega siðlaus í samfélagslegu tilliti !
Sérgæskan er orðin yfirþyrmandi í öllum myndum hérlendis og arðræningjar og óþokkar virðast hvarvetna til staðar, sjúgandi blóðið - ásamt ríki og sveitarfélögum úr almenningi. Sjáið nýgerða sjómannasamninga, þar sem ávinningurinn er ekki upp í nös á ketti, hvað þá meira, sjáið skítlega framkomuna gagnvart kennurum sem vinna að því að þroska börnin okkar, sjáið hvernig almennt starfsfólk í heilbrigðiskerfinu er leikið, sjáið hvernig allt sem flutt er inn í landið verður margfalt dýrara hér en það er á hinum Norðurlöndunum, löndum þar sem siðræn sjónarmið og samfélagshyggja hafa ennþá eitthvert vægi !
Þegar vissir aðilar eiga í hlut er alltaf til nóg af peningum, en þegar venjulegt fólk er annarsvegar er aldrei neitt til. Hinir útvöldu fá allt, hinir ekki neitt !
Okrið og arðránið er svívirðilegt hvert sem litið er og þjóðníðingar gróðahyggjunnar fara hamförum í því að auðgast, þvert á allt siðferði. Lög eru sett út í horn, enda virðast jafnan vera nóg öfl fyrir hendi innan kerfisins til að liðka þau til, sveigja þau og beygja, eða hreinlega afnema þau, svo þau séu ekki að þvælast fyrir siðleysingjum samtryggingarinnar, sem eru áreiðanlega í hugum sumra ungir menn með hreinar hugsanir eins og forðum var sagt í blaði broddborgaranna um íslensku nazistana !
Fólk þarf að fara versla eins og það getur framhjá kerfinu, framhjá þessum ómannlegu, kerfisvörðu meindýrum, kaupa sjálft á netinu, fara jafnvel erlendis og gera innkaup ef það getur komið því við. Íslenskir milliliðir eru öllum of dýrir sama hvaða viðskipti er um að ræða. Við höfum ekki efni á að halda öllum þessum sníkjudýrum uppi sem eru í því alla daga að mergsjúga venjulegt fólk !
Af hverju þarf allt að vera svona hjá okkur, hverskonar þjóðvillinga-sorasirkus er alltaf í gangi hér til að skemma og eyðileggja allan ávinning af því sem íslensk þjóð, íslenskur almenningur, ætti þó svo sannarlega að hafa unnið fyrir með allri vinnuþrælkun liðinna áratuga ?
Það ætti að skella á eins dags allsherjarverkfalli um allt land til að knýja fyrrnefnda launahækkun til baka, og ef það dugar ekki til, þá ætti í framhaldinu að hefja skæruhernað gegn sérhagsmuna-siðleysinu með áframhaldandi aðgerðum. Ætlar almenningur þessa lands - alla daga - að láta allt yfir sig ganga í þessu siðvillta bananalýðveldi norðurhjarans ?
Hvað margar blautar tuskur þarf til að deigt járn bíti ?
15.11.2016 | 13:22
Hver er undirstaða lífsins trúin á Guð !
Einu sinni var sagt að trúin flytti fjöll, en það var meðan fólk var ennþá til sem treysti á forsjá Guðs og leit á trúna sem lifandi taug milli Guðs og manns. Og vissulega er það undirstrikað af Kristi sjálfum í Heilagri Ritningu að hægt sé að flytja fjöll með mætti trúar. En nú á tímum virðist trú manna á Almættið ekki mikil að vöxtum og býsna margir telja sig greinilega svo menntaða og upplýsta að þeir nota hvert tækifæri til að gera lítið úr trúarlegri innlifun annarra og í þeirra augum er enginn Guð til. Hæðst er oft að trúuðu fólki og allt sem tengist guðstrú ( og góðum siðum ) er sagt vera hindurvitni og hégiljur. Slík afstaða til mála er auðvitað í fullum takti við neysluþjóðfélag nútímans og allt markaðshyggjuæðið og efnishyggjuna sem í gangi er - enda er það Mammon sem ræður !
Nú flytja því líklega fáir fjöll með trúarsannfæringu sinni einni saman, en Vegagerðin flytur hinsvegar björg og stóra steina með mikilli varfærni af stöðum og á staði að fyrirmælum álfasérfræðinga, sem eru að eigin sögn með tengslanet yfir í þann heim sem í grjótinu býr. Og fólk í dag, ekki síst það sem telur sig upplýst og menntað, sér ekki neitt athugavert við að trúa slíku. Það er jafnvel litið svo á að slíkt beri vitni um víðsýni og frjálsa hugsun. Og ekki þykir ástæða til að horft sé í kostnað skattpenings eða meiriháttar tilfæringa, svo tryggt sé að ekki séu styggð einhver hulin öfl sem sögð eru hefna sín ef illa sé að þeim farið !
Staðreyndin er auðvitað sú að svonefnd hindurvitni eiga sér ekkert minni stuðning meðal fólks í nútímanum en í liðnum tíma. Það er hlegið að heimsku manna sem sagt er að hafi forðum fest trú við stokka og steina, en í dag trúir upplýst og menntað fólk á orkusteina og allskyns uppmagnaða hluti og þykist jafnvel gildismeira fyrir vikið. Og hver skyldi þá vera munurinn á fávisku fortíðarinnar og nútíðarheimskunni ? Ætli það væri mælanlegt að nokkrum mun ef út í það færi !
Það liggur hinsvegar fyrir að heimska fortíðarinnar er gengin yfir og ætti samkvæmt því mörg hver að vera liðin tíð, en heimska nútíðarinnar er í ráðandi stöðu og heimtar að henni sé fylgt. Sá sem stendur í gegn vondum tíðaranda og mælir honum í mót, er því oftast líklegur til að fá á baukinn fyrir það með einum eða öðrum hætti.
Fólk sem telur sig upplýst á nútímavísu vill auðvitað ekki að því sé núið um nasir að það sé í allskyns kukli og andlegu fikti, þó það í raun hafi ekki hugmynd um við hvað það er oft að fást. En meðan það sparkar í kristindóminn eins og það getur og afneitar tilvist Guðs, gleypir það við hvaða heiðingdómi sem er, bæði þeim sem skilið var við hér fyrir árþúsundi og allskonar skurðgoðadýrkun austan úr heimi. Og nú kallast það víðsýni og fordómaleysi að fást við slíkt. Nákvæm lýsing á nútímamanninum og viðhorfum hans er annars gefin í Biblíunni, í Tímóteusarbréfi II, 3. kafla, versum 1-5 og við þá umsögn þarf engu að bæta !
Sú kynslóð sem nú er að verða í eldri kantinum ólst upp við það að sungnir voru sálmar áður en gengið var inn í bekk í grunnskólum þess tíma, en nú má helst ekki minnast á kristindóm í skólunum. Það á víst að vera innræting af versta tagi. En kynning á flestu öðru efni þykir sjálfsögð í skólum, jafnvel þó býsna margt fljóti þar með sem seint mætti telja uppbyggilegt fyrir vaxandi kynslóð. En svokallað frjálslyndi virðist æði oft vilja ganga af öllu siðferði dauðu og gerir það iðulega - öllu samfélaginu til óþurftar !
Maðurinn þarfnast aga og hann hefur alltaf þarfnast aga. Þegar hann elst upp agalaus eins og helftin af ungu fólki hefur gert síðustu hálfu öldina eða svo, koma brotalamirnar fljótt í ljós. Og sá sem ekki hefur lært aga er ekki fær um að kenna öðrum aga. Þessvegna er heimurinn sem aldrei fyrr fullur af uppreisn og óhlýðni, andspyrnu gegn öllu því sem mælir réttilega með lögum og reglu.
Það er í sjálfu sér ekki svo erfitt mál að lesa þau tímanna tákn sem fyrir löngu hafa verið boðuð, en eitt er svo afgerandi marktæk viðmiðun hvað nútímann snertir, að hann snýr öllu við. Túlkun á gildum verður öfug við það sem áður var og allt á nú að vera eðlilegt samkvæmt alfrelsi því sem menn heimta sér til handa. Hin ævagömlu lögmál, sem hafa verið stoðkerfi samfélagsbygginganna um aldir, falla því hvert af öðru undan þeim og senn munu hvelfingar þeirra hrynja yfir okkur og fullkomna eyðilegginguna !
Bandaríski dómarinn Robert Jackson sagði eitt sinn: Það er ein af mótsögnum vorra daga, að mannfélag nútímans þarf að óttast menntaða manninn - fyrst og fremst ! Ástæða þess ótta er fólgin í þeirri staðreynd, að við tökum vitsmunalegum framförum án þess að sambærilegar siðferðilegar framfarir séu með í för.
Babylonski andinn sem stjórnar veröldinni í dag er andi myrkurs og dauða. Við getum séð áhrif hans hvar sem er um allan heim, ef við bara höfum sálarleg augu okkar opin. Í dag eru menn að verða valdhafar víða um heim sem hefðu ekki þótt koma til álita fyrir 20-30 árum, menn sem kunna sig ekki, menn sem ausa fúkyrðum og tala eins og götustrákar, menn sem kasta sprekum á alla ófriðarelda og segjast samt ætla að tryggja frið og viðvarandi hagsæld !
Og það vantar ekki að nútíminn gleypir við blekkingum slíkra sendiboða, sem eru gerðir út af ríki myrkurs og dauða, og trúir því sem enginn heilbrigð hugsun mælir með, að framundan séu góðir tímar !
En blindir leiðtogar geta enga farsæld boðið og veröldin er á leið inn í meiri hörmungar en nokkur getur ímyndað sér. Þau öfl eru alfarið að tryggja sér völd og framgang sem hafa í raun þá stefnu, að tortíma heiminum og hinu villuráfandi mannkyni sem býr á þessari heillum horfnu jörð og er að dansa þar frá sér alla undirstöðu lífsins !
Eina leiðin til bjargar fyrir mannkynið er að snúa sér sem fyrst frá gullkálfinum og ganga aftur gömlu göturnar með Guði !
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:31 | Slóð | Facebook
11.11.2016 | 22:48
Tveggja hækju stjórn !
Margt breytist í veröldinni bæði hérlendis og erlendis. Allt að því 25% af kjörfylgi í þingkosningum hér virðist hætt að vera fast flokksfylgi og sveiflast til eftir því hver best býður. Jafnaðarmennska virðist eiga undir högg að sækja í íslensku samfélagi, enda er harðsoðinn sérgæskuháttur vaxandi meinsemd í viðhorfum landsmanna og vandséð hvernig samfélagsleg velferð getur skilað sér vel við slík skilyrði.
Í nýafstaðinni kosningabaráttu talaði forusta íhaldsins mjög um stöðugleika sem átti víst að vera eitthvað fyrirbæri sem aðeins gat þróast fyrir tilverknað bláa aðalsins. En flestir vita hvað stöðugleiki þýðir í raun í munni íhaldsforustunnar, það er að almannahagsmunum verði stöðuglega fórnað á sérhagsmunaaltari hinna ríku !
Íhaldið hefur löngum haft það fylgi í þessu landi, að það hefur sem flokkur haft mestan fjölda manna á þingi. Ég hef reyndar aldrei getað skilið hvers vegna svo er.
Gamlir verkamenn sem aldrei gátu lyft höfði á lífsleiðinni vegna fátæktar kusu það margir hverjir, ef til vill vegna þess að með því héldu þeir að þeir væru að sanna að þeir væru sjálfstæðir menn. En auðvitað var sá gjörningur þeirra grundvallarsönnun þess að þeir voru það ekki. Sá sem kýs það alltaf yfir sig sem níðir niður af honum skóinn er hvorki frjáls né sjálfstæður. Hann er miklu frekar þræll sinnar eigin blekkingar !
Og víða hefur borið á því að ungt fólk á vegamótum sem er ekki mjög hugsjónaríkt en vill hinsvegar mjög gjarnan verða ríkt og helst vinna sem minnst til þess, hefur sterka tilhneigingu til að ganga í þennan alræmda sérhagsmunaklúbb sem íhaldið er. Einkum vegna þess að þar telur það að verði best hlynnt að því í nafni samtryggingar sérgæskunnar. Í því skjóli verði auðveldast að eignast peninga, sem vafalaust gæti þá gerst með einhverjum spunagangi spillingarvaldsins frá herkastala Mammonshyggjunnar !
Vegna þingmannafjölda síns gat íhaldið alltaf hér áður fyrr myndað tveggja flokka stjórn sem varð til með því móti að það fékk annan flokk til liðs við sig sem gerðist hækja þess. Menn geta rétt ímyndað sér samningana á bak við slíka gjörninga. Oftast voru það Framsóknarmenn eða kratar sem gáfu kost á sér til hækjuhlutverksins og yfirleitt var sú þjónusta þeirra lítt metin af kjósendum í næstu kosningum. Það töpuðu skiljanlega allir flokkar á því til lengdar að leggjast undir íhaldið !
Á þessum tíma var eitt af slagorðum íhaldsins festa til hægri glundroði til vinstri. Minnir það ekki á stöðugleikatalið nýafstaðna ? Þá sagði íhaldið að þriggja flokka stjórn væri veik stjórn, enda var ekki hægt að mynda vinstri stjórn nema með aðkomu þriggja flokka. Nú í dag er eitt af því sem breyst hefur, sú óhagganlega staðreynd mála, að íhaldið getur ekki lengur myndað stjórn með einni hækju, það þarf tvær !
Það dugir ekki að kippa Framsókn með sér núna eða Samfylkingunni, jafnvel ekki Vinstri grænum ef þeir glæptust á slíkt. Íhaldið þarf nú í fyrsta skipti að verða sér úti um tvær hjálparhækjur við myndun ríkisstjórnar. Og svo tala þeir um sigur og fagurt flokksgengi þegar þeir eru komnir undir 30% kjörfylgi, en höfðu lengi vel í kringum 40% !
Og ef að hækjurnar verða ef af verður, Viðreisn og Björt framtíð, hvernig skyldi þá semjast á milli Íhalds I og Íhalds II og Bjartrar framtíðar sem á að verða litla hækjan í samstarfinu ? Verður slíkt stjórnarsamstarf ávísun á bjarta framtíð fyrir landslýðinn ? Er það ekki óttarrs -leg vitleysa að halda það ?
Ég er ekki hissa þótt íhald II vilji þjóna undir íhald I með þeim samningum sem þar verða sjálfsagt gerðir, en ég er hissa á að sjá Bjarta framtíð taka þátt í þeim leik og tel það frekar ávísun á Svarta framtíð fyrir íslenska kjósendur - sem voru áreiðanlega ekki að sá fyrir slíkum ríkisstjórnar-bastarði í nýafstöðnum kosningum !
Vegakerfið er að grotna niður meðan Bjarni Ben II segist vera að borga niður skuldir og hið opinbera menntakerfi rýrnar stöðugt að gæðum og brátt verður ríkisheilbrigðiskerfið okkar þjóðarskömm ef ekkert verður að gert. Þar hafa það engir gott nema læknar og sérfræðingar sem - taxtann háa tvöfalda - og eru með gróðastofur úti í bæ !
Já, margt breytist í veröldinni hér sem annarsstaðar. Donald Trump er búinn að yfirtrompa Hillary Clinton og á leiðinni í Hvíta húsið. Bill Clinton tekur því ekki við hlutverki The First Lady !
Þótt Hillary beri brattgengt nafn tókst henni ekki að ná hinum mjög svo eftirsótta frama, að verða forseti Bandaríkjanna og fyrsta konan í því embætti. Hún hefur haft margan drauginn í fylgd með sér og þótt mótherji hennar sé slíkur sem hann er, tókst henni samt ekki að nýta sér það til sigurs.
Og á Íslandi er sama stjórnleysið og verið hefur, nógir peningar fyrir þingmenn, dómara og ráðherra en engir fyrir sjómenn landsins eða aðra almenna launþega !
Stjórnmál og samfélag | Breytt 12.11.2016 kl. 12:35 | Slóð | Facebook
2.11.2016 | 21:27
Vanmetinn ríkisfaðir !
Sú forustusveit hæfileikaríkra einstaklinga sem fór fyrir í sjálfstæðisbaráttu Bandaríkjanna hefur verið kölluð The Founding Fathers sem ef til vill mætti þýða sem ríkisstofnendur eða ríkisfeður. Sumum úr þeim hópi hefur verið lyft ofurhátt í sögunni svo sem George Washington og Thomas Jefferson. Öðrum verið hampað minna !
Ef til vill er John Adams sá maður úr þessum hópi sem hefur verið mest vanmetinn og eru afrek hans þó slík að erfitt er að skilja hversvegna. Hugsanlega hefur hann verið heilsteyptasti persónuleikinn í hópnum og réttlætiskennd hans var slík að hann tók að sér að verja sakborningana í Boston fjöldamorðunum svonefndu 1770 þótt það væri hreint ekki til vinsælda fallið. En John Adams taldi að allir ættu rétt á verjanda og tók verkið að sér !
Það var John Adams sem mælti fyrir fullu sjálfstæði og aðskilnaði frá Bretlandi á Meginlandsþinginu og það var hann sem sigraði í þeim rökræðum með því að mynda bandalag Massachucetts og Virginíu, og fá síðan í lið með sér allar nýlendurnar þar á milli. Það var hann sem valdi George Washington til að leiða meginlandsherinn, hann sem skrifaði Hugleiðingar um stjórn ríkis , bæklinginn sem lagði grunninn að stjórnsýslu Bandaríkjanna, og það var hann sem hóf Thomas Jefferson úr röðum óbreyttra og gerði að skjólstæðingi sínum og fékk honum það verkefni að skrifa Sjálfstæðisyfirlýsinguna með þeim fyrirslætti að Virginíumaðurinn væri stílfimari en hann sjálfur.
Það var John Adams sem varði Sjálfstæðisyfirlýsinguna línu fyrir línu í tveggja og hálfs sólarhrings þindarlausum rökræðum án hlés, meðan Jefferson höfundur hennar sat þögull hjá. Það afrek var trúlega ekki á annars færi.
Það var John Adams sem tryggði Nýja Englandi full fiskveiðiréttindi á Miklumiðum 1782 og var þar framsýnni en nokkur annar maður. Jafnvel Benjamín Franklín taldi að um þau réttindi mætti gera málamiðlun, en Adams var fastur fyrir og hafði sitt fram.
Í stríðinu 1812 sannaðist gildi þeirra réttinda og þau orð sem John Adams hafði haft um þau, en Parísar-samningurinn frá 1783 sem hafði verið stórsigur fyrir Nýja England, var þó skertur að gildi með Ghent samningnum eftir það stríð, því þá var Virginíumaðurinn James Madison forseti og hann hafði aðra afstöðu til málanna en Nýenglendingar.
Nokkuð endurheimtist þó af fyrri réttindum, en fiskimenn Nýja Englands fengu aldrei aftur allan þann rétt sem John Adams hafði tryggt þeim 1782 og málið varð síðan til frambúðar endalaust ágreiningsefni Bandaríkjanna og Kanada.
Mynd John Adams er ekki á neinum bandarískum peningaseðli og fáar styttur hafa verið reistar af honum hvað sem veldur. Kannski er hluti af skýringunni sá að þessi mikilhæfi leiðtogi var frá Massachucetts en ekki Virginíu. Það virðist löngum hafa verið litið á Virginíumenn frá þessum tíma sem nokkurskonar aðal í bandarískri sögu.
John Adams var sannarlega ekki af þeim aðli og reyndar ekki af nokkrum aðli. Hann var aldrei þrælahaldari og reyndar var slagurinn um kjarnyrta grein gegn þrælahaldi í Sjálfstæðisyfirlýsingunni eitt af fáum atriðum sem hann tapaði. Hann kallaði þar þrælahaldið grimmilegt stríð gegn mannlegu eðli . Margt fleira mætti segja um framgöngu og afrek þessa yfirburðamanns, en hér skal staðar numið.
En það er ljóst að í bandarískri sögu verður það aldrei af John Adams tekið að hann telst ríkisfaðir með réttu !
Frá sögulegu sjónarmiði er svo fróðlegt að geta þess að þeir John Adams og Thomas Jefferson dóu báðir sama daginn, þann 4. júlí 1826, á þjóðhátíðardegi Bandaríkjanna, þeim fimmtugasta frá ríkisstofnuninni. Þá var John Quincy Adams hinn gagnmerki sonur John Adams, nýtekinn við sem forseti Bandaríkjanna. Árið 1831 dó svo James Monroe fyrrverandi forseti einnig þann 4. júlí. Það sem menn vilja kalla að sé tilviljun ein, reynist oft býsna athyglisverður leikur forsjónarinnar á skákborði veruleikans !
Og nú á þjóð þessara forvígismanna góðra hugsjóna ekki völ á öðru en Hillary Clinton og Donald Trump !
Nýjustu færslur
- Endurreisn ómennskunnar !
- ,,Fylgiríki Bandaríkjanna ?
- Hin kratíska feigðarstefna Norðurlanda !
- Útþenslustefna Bandaríkjanna !
- ,,Nýja Kalmarsambandið og glóruleysisgangan !
- Litlar, leiðitamar þjóðir !
- Er herleiðing Flokks fólksins að hefjast..... ?
- Um tilhneigingar til frestunar lýðræðis ?
- Enginn friður, engir samningar, ekkert traust !
- Athyglisverð orð :
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 8
- Sl. sólarhring: 57
- Sl. viku: 577
- Frá upphafi: 365475
Annað
- Innlit í dag: 8
- Innlit sl. viku: 493
- Gestir í dag: 8
- IP-tölur í dag: 8
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bækur
-
: Fjörusprek og Grundargróður (2023) -
: Í norðanvindi og vestanblæ (2013) -
: Hjartað slær til vinstri - Úr minningaheimi Kalla í Nesbæ (2010) -
: Bræðingur og Brotasilfur (2004) -
: Þar sem ræturnar liggja (2004) -
: Út við ysta sæ (2000) -
: Frá fjöru til fjalls (1996) -
: Vísur frá Skagaströnd (1993) -
: Ljóð frá Skagaströnd (1991)