Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2016

“Maddaman í Mammonsþokunni !”

Síðustu tuttugu árin hefur Framsóknarflokkurinn verið svo dyggur fylgifiskur íhaldsins að þar hefur ekki slitnað slefan á milli. Halldór Ásgrímsson sá ekkert nema samstarf við sjálfstæðisflokkinn eftir að hann varð formaður Framsóknar, enda hefur það sennilega verið fyrst og fremst fyrir einbera gráglettni örlaganna að sá maður hafnaði meðal Framsóknarmanna en ekki sjálfstæðisflokksmanna.

Út frá gerðum og gjörningum má fullvíst telja að maðurinn sá hafi haft allt til að bera til að geta talist fullgildur sjálfstæðisflokksmaður og það á Valhallarvísu. Einvaldur íhaldsins var Halldóri svo þakklátur fyrir fylgispektina að hann leyfði honum meira að segja að vera forsætisráðherra smátíma - líklega til uppfyllingar persónulegs metnaðar - og má af því sjá að eitthvað hefur nú verið talið þar launavert !

Líklega hefur enginn einstakur maður á Íslandi sem gengið hefur undir heitinu Framsóknarmaður fengið jafn mikla viðurkenningu af hálfu íhaldsins sem Halldór og er full ástæða til að minnast þess á 100 ára afmæli Framsóknarflokksins nú í ár því vítin eiga að vera til að varast þau. Sennilega er líka ljóst að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sé sá formaður Framsóknarflokksins sem næst Halldóri hefur sleikt sig upp við sjálfstæðisflokkinn, enda varla við öðru að búast en silfurskeiðarmenn eins og hann og Bjarni Ben næðu vel saman.

Sú var tíðin að Framsóknarflokkurinn taldist félagshyggjuflokkur og sem slíkur átti hann ekki svo lítinn þátt í uppbyggingu Samvinnuhreyfingarinnar. Þá urðu margir Framsóknarmenn þjóðkunnir og virtir menn fyrir sanna ræktarsemi við land og lýð. Ég hef kynnst mörgum virðingarverðum Framsóknarmönnum, en þeir eru náttúrulega allir í eldri kantinum, menn sem ólust upp við traust félagshyggjusjónarmið og samvinnuhugsjónir og brugðust þar aldrei boðum.

Í græðgisvæðingu áranna fyrir hrun, á helmingaskipta-stjórnarárum íhalds og Framsóknar, stjórnarárunum sem leiddu af sér hrunið, virtust býsna margir yngri menn meðal forustumanna Framsóknar sökkva jafndjúpt í græðginni ef ekki dýpra en kollegar þeirra meðal íhaldsins. Það var eins og gullsýkin gripi þá öllu harðar !

Tiltölulega ungir menn sem voru orðnir ráðherrar og taldir eiga mikla framtíð fyrir sér á vegum flokksins, hlupu út og suður um allar Mammons trissur og fannst ekkert varið í að vera lengur ráðherrar á skítalaunum þegar gylliboðin streymdu að þeim úr fjármálalífinu með allskyns loforðum um tugfaldaðar tekjur. Þetta var á þeim tíma þegar frjálshyggja íhaldsins sendi vírusa sína í massavís inn í Framsóknardilkinn en þær sendingar gerðu menn þar æra og ölvaða af gróðahyggju.

Ungir Framsóknarmenn fóru að skeina sig dags daglega á fimmþúsundköllum og félagshyggjusjónarmiðunum sturtuðu þeir í kapitalískri veldisvímu niður á klóinu um leið. Andavald Rockefeller-ættarinnar sveif yfir þeim svo kröftuglega að dollarar dönsuðu fyrir augum þeirra bæði í vöku og svefni !

Og hverjar hafa svo orðið afleiðingarnar af þessu forkastanlega frjálshyggjufylleríi hinna framtíðar ætluðu forustumanna Framsóknarflokksins ? Jú, þær hafa orðið skrautlegar á skammarvísu. Nú er til dæmis hið gamalkunna slagorð góðra Framsóknarmanna frá fyrri tíð “Allt er betra en íhaldið” orðið annað og verra því nú má segja að Framsóknarmenn samtímans gangi fyrir öfugsnúinni meiningu þess og hrópi “Íhaldið er öllu betra “ ! Einhverjum Framsóknarmönnum af eldri kynslóðinni ætti nú að finnast það óskemmtilegur veruleiki og það á hundrað ára afmæli flokksins og kannski orti Enginn Allrason nýlega eftirfarandi vísu í orðastað margra :

Framsókn súr og svikagrá
sekkur djúpt með feiknum.
Hrapar fyrir björgin blá,
Bjarni ræður leiknum !

Já, Bjarni ræður leiknum. Hann kom niður alþingishúss-stigann og kynnti til sögunnar nýjan forsætisráðherra sem fékk svo náðarsamlegast að tala á eftir. En það fór ekki á milli mála hver vildi hafa þetta svona og hversvegna það var gert. Það var ekki hægt að bruna beint í kosningar eftir að Simmi sökk í aflandseyjafenið því fjármálaráðherrann þurfti auðvitað svigrúm til að útbúa og framvísa sínum kosningavíxli. Það stefnir því trúlega allt í loforðamikið haust þar sem lýðskrumið fer líklega með himinskautum !

En varðandi Framsóknarmaddömuna, mætti líklega spyrja hundrað ára gamlan flokk að því hverskonar flokkur hann sé nú til dags ? Er hann vinstri flokkur, er hann miðjuflokkur eða hægri flokkur, er hann félagshyggjuflokkur eða einstaklingshyggju-flokkur, eða er hann bara – eins og virðist í ljósi sögu síðustu 20 ára - ónáttúrulegur hundskinnsútnári þess helbláa sérhagsmuna-krabbameins sem verst hefur leikið íslenska þjóð frá upphafi vega – sjálfstæðisflokksins ?

Því miður virðist það síðastnefnda vera líklegasta útgáfan !


Stjórnmálaelítan og forsetinn !

Það er ótrúlega ótrúlegt hvað menn hafa verið seinheppnir með hina lagalegu umgjörð að stofnun lýðveldisins 1944. Það er eins og hlaupið hafi verið út í eitthvað algjörlega undirbúningslaust, því svo illa hefur verið um hlutina búið að það er eins og allt hafi verið gert með þeim hætti að það yrði bara að laga það seinna. En þetta seinna lagfæringarferli hefur ekki enn skilað sér á nokkurn hátt.

Lögfræðingar á þessum tíma, sem voru líklega almennt talað töluvert skárri en þeir sem nú eru uppi, virðast hafa verið í mikilli tímapressu við vinnu sína að stjórnarskrármálum og öðru slíku og verkin sýna þar merkin. Menn geta þannig lengi spurt um skýrar línur varðandi þetta og hitt en þær virðast hreint ekki fyrirliggjandi.

Hver er stjórnskipunarleg staða forseta Íslands ? Hvernig hefur hún verið skilgreind í lögum og hvaða ókostir fylgja þeirri skilgreiningu. Hvað vantar þar upp á og hvað er þar til úrbóta ? Hvernig má svara þessum og þvílíkum spurningum á viðhlítandi hátt ?

Hvernig stendur á því að einföld kosning skuli hafa átt að tryggja kjör forsetans ? Bjuggust menn aldrei við að fleiri en tveir byðu sig fram ? Hverskonar lýðræðissýn höfðu þessir menn sem ákváðu þetta fyrirkomulag á sínum tíma og af hverju hefur því ekki verið breytt í ljósi reynslunnar af ótvíræðum vanköntum þess ? Eða var kannski aldrei meiningin að forsetinn yrði kosinn með eðlilegri og lýðræðislegri kosningu meirihlutavalds ?

Allar götur frá 1944 hefur það legið fyrir að reglur um vald forseta Íslands, starfssvið hans og stöðu, hafa verið mjög óskýrar svo ekki sé meira sagt og það eina skýra í málunum þar er hinn fyrirliggjandi og óskiljanlegi óskýrleiki.

Hefur stjórnmálaelíta landsins kannski haft það sem óhagganlegt viðmið allan þennan tíma að forsetinn eigi bara að vera eins og klassísk brjóstmynd úti í horni ; ekki lifandi öryggisventill fyrir þjóðina til varnar gegn stjórnmálalegum stórslysum og landráðum, heldur dauður sýnisventill einhversstaðar afsíðis ?

Hversvegna gat Ólafur Ragnar Grímsson upp á sitt eindæmi gjörbreytt valdsstöðu forsetans, gert hana að lifandi tannhjóli í stjórnkerfinu, tannhjóli sem varð að taka tillit til, öfugt við það sem áður var ? Var það ekki vegna þess að hann sá og skildi möguleikana sem fólust í hinni óskýru framsetningu stjórnarskrárinnar á valdi forsetans og færði það sér í nyt !

Hann fór að fara fram með forsetavaldið á nýjan og afgerandi hátt og þó ýmsum valdamönnum hugnaðist það enganveginn, gátu þeir ekki með nokkrum gildandi rökum sagt að hann færi í þeim tilfellum út fyrir valdssvið sitt. Skilgreiningin var ekki til staðar með þeim hætti að hægt væri að setja honum skorður, enda vissi Ólafur það manna best.

Leiðtoga-reynsla Ólafs Ragnars Grímssonar er óumdeilanlega mikil, hæfni hans til að sjá við öðrum er alkunn og maðurinn er löngu orðinn meistari í því að tala vel fyrir sínu máli. En það er engum hollt að sitja of lengi. Ólafur Ragnar er ekki ómissandi og má ekki vera álitinn ómissandi, þjóðin má ekki álíta að svo sé og hann enn síður. Maður kemur í manns stað og svo mun áfram verða.

Mikilvægast fyrir þjóðina er hinsvegar að kjósa áfram í embætti forseta einstaklinga sem líklegir eru til að þróa embættið um komandi ár sem þann lifandi öryggisventil þjóðlegrar velferðar sem það þarf að vera og er í raun veigamesta röksemdin fyrir tilvist þess. Það þarf að vera arfleifð Ólafs Ragnars Grímssonar þegar hann lætur af embætti hvenær sem það nú verður.

Forsetinn þarf að vera sterkur persónuleiki og núverandi forseti er það vissulega. Það eru áreiðanlega mörg ár síðan ráðherrar og þingmenn skildu að það væri ekki líklegt að þeir yrðu feitir af því að abbast upp á þann forseta sem tók við embættinu 1996 og hefur setið í því óhagganlegur síðan. Það leggur enginn í stjórnmálaelítunni í það að glíma við Ólaf Ragnar Grímsson.

Og áfram þurfa forsetar okkar að vera sterkir persónuleikar og geta staðist þrýsting, þó þeir þurfi ekki endilega að vera steyptir í mót núverandi forseta. Forsetinn á ekki að vera einfaldur tauháls eða flott samkvæmispía, hann á að vera miklu meira en það.

Stjórnmálaelítan bíður vafalaust með óþreyju þess tíma að nýr forseti taki við, og þá er það eflaust hugsun margra á þeim vígstöðvum að koma verði í veg fyrir að hann vaði uppi eins og Ólafur Ragnar þykir hafa gert. Þá verður reynt að koma málum í gamlar og hagfelldar skorður. Þá vilja pólitískir valdamenn vafalaust aftur fá fallegt stofublóm í glugga eða klassíska brjóstmynd úti í horni.

Það er það sem þjóðin þarf að koma í veg fyrir þegar þar að kemur !

 

 


Um siðferði í orðum og verkum !

Margt hefur gerst á þjóðmálasviðinu að undanförnu og umræða um pólitík og siðferði hefur aukist mjög samfara því. Það virðist liggja fyrir að íslenska þjóðin vilji ekki sætta sig við tvöfeldni kerfisþjóna sinna í siðferðilegum efnum, að minnsta kosti ekki þegar á reynir og upp um þá kemst. Hið almenna lýðræðisafl hefur því líklega enn á ný sýnt að það er ekki hægt að bjóða því hvað sem er.

Forsætisráðherra landsins hefur þannig verið knúinn í krafti mikillar mótmælaöldu til að segja af sér embætti. Við skulum hafa það hugfast að hann steig ekkert til hliðar eins og sagt er, hann neyddist til að segja af sér. Að morgni sama dags og það gerðist sagðist hann ekki ætla að segja af sér og taldi það fráleitt. Svo við skulum sleppa þessari lygakurteisi og fylgja sannleikanum umbúðalaust.

En sumir sjá ekkert athugavert við hlutina og vorkenna aumingja Sigmundi og sýta vegtyllumissi hans. Slík afstaða segir eiginlega meira um siðferðilega stöðu þeirra sem þannig tala en nokkuð annað. Trúnaðarmenn samfélagsins verða að vera sjálfum sér samkvæmir, orð þeirra og verk verða að fara saman.

Þegar siðferðilegur trúnaðarbrestur verður milli þjóðar og eins helsta valdsmanns hennar hlýtur valdsmaðurinn að víkja. Annars mun samfélag sem líður slíkan trúnaðarbrest veiklast siðferðilega og verða í framhaldi mála miklu auðveldara fórnarlamb frekari spillingar.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson talaði hér manna mest um þjóðlega samstöðu og hreint borð. Fjöldi kjósenda valdi að trúa á hin fögru fyrirheit sem hann fjölyrti svo um og hann fékk árið 2013 raunverulega umboð til að verða forsjármaður íslenska ríkisins næstu fjögur árin – hann varð svo forsætisráðherra nýrrar ríkisstjórnar, forstjóri hins sameinaða fyrirtækis þjóðarinnar. Og það vantaði ekki að Sigmundur vildi keyra upp traustið, traustið á fyrirtækinu, láta alla fjárfesta í því og þeirri batnandi framtíð hérlendis sem hann sagði ítrekað að væri í kortunum. Allt átti að vera uppi á borðunum og gegnsæi mála óumdeilanlegt ! En svo kemur í ljós að forstjórinn sjálfur er með peningana sína annars staðar og það í aflandseyja-skjóli !

Það virðist sem sagt koma í ljós að hann treysti sér ekki til að hafa eigin sjóði á eigin ábyrgð hérlendis ! Það sem hann ætlast til að aðrir geri hefur ekkert með hans athafnir að gera ! Erum við þá ekki komin að því sem kallast tvöfalt siðferði, þá afstöðu sem sumir – ekki síst forréttindamenn – hafa löngum þótt sýna, að einn mælikvarði gildi fyrir þá og annar fyrir aðra ?

Bandarískir auðmenn og peningafurstar hafa lengi verið öðrum þekktari fyrir þetta tveggja mælikvarða viðhorf. Meira að segja gætir þess ekki svo lítið í samskiptum bandarískra stjórnvalda við önnur ríki. Ekkert ríki í gjörvallri sögu mannkynsins hefur leyft sér að tala eins mikið og eins oft niður til annarra ríkja heimsins eins og Bandaríkin. Þau eru alltaf að setja ofan í við aðra fyrir þetta og hitt og telja sig vera með svo hreint borð að þau hafi efni á því. En mælikvarðinn sem þau nota á eigin athafnir er allur annar og rýmri og ólíkt hentistefnulegri en sá mælikvarði sem þau dæma aðra eftir !

Hræsnarinn í samfélagi þjóðanna er því ómótmælanlega Bandaríkin. Þessi sjálfumglaða þjóð sem eyðir meiru í hundamat á hverju ári en mannleg velferðarmál. Og þjóðarleiðtogar sem viðhafa þetta bandaríska tveggja- mælikvarða viðhorf eru auðvitað haldnir siðblindu og eru því ekki hæfir til að sinna ábyrgðarstörfum fyrir land sitt og þjóð.

En siðferðileg umræða er víðfeðm í eðli sínu og getur orðið allt um grípandi ef hún er þá ekki þögguð niður eins og stundum gerist. Hún veltir nefnilega stöðugt upp nýjum spursmálum. Getur maður sem þjóð afsegir sem forsætisráðherra verið áfram formaður í stjórnmálaflokki ? Getur verið að siðferði viðkomandi flokksmanna leyfi það þó þjóðin hafi kveðið upp sinn frávísunardóm ?

Eru íslenskir auðmenn óþjóðlegir menn og þjóðhollusta þeirra í besta falli mjög umdeilanleg, treysta þeir yfirleitt á flest annað en íslenskt samfélag ? Er siðferðileg staða íslensks fjármálalífs þannig nú til dags að Mammon eigi þar menn með húð og hári, samvisku og sál ? Eru hin gömlu gildi að hverfa úr íslensku samfélagi sem burðarstoðir þess. Eru þau viðhorf á förum meðal okkar sem ganga fyrir heiðarleika, virðingu fyrir því sem rétt er, kristnum kærleiksboðum og almennum dyggðum ?

Við skulum vona að svo sé ekki. En það ber að standa vörð um slík gildi, þau komust á fyrir mikla baráttu, þau hafa varað vegna mikillar varðstöðu um þau og það eitt er víst að þau munu ekki halda lengi velli í spilltu og siðferðilega rotnu samfélagi.

Tökum okkur tak í því að draga réttan lærdóm af því sem gerst hefur og mun áfram gerast og verum meðvituð um það að við, hvert og eitt, getum lagt okkar skerf til þess að bæta samfélagið og verjast öllu því sem vill draga það niður í botnlausa ómennsku og eyðandi spillingu tvöfeldninnar !


Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 3
  • Sl. sólarhring: 131
  • Sl. viku: 809
  • Frá upphafi: 356654

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 641
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband