Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2017

Eiga Íslendingar eftir að verða -

 

Undirþjóð í eigin landi ?

 

 

Við sem teljum okkur vera Íslendinga í eigin landi, erum á margan hátt að svíkja þær skyldur sem það leggur okkur á herðar að eiga þetta land. Við afrækjum það á ýmsa vegu og förum illa með það, sveltum dreifðar byggðir uns þær fara í eyði, og sumir tala um að hagkvæmast sé að flytja alla landsmenn á suðvesturhornið. En þá værum við ekki lengur þjóðríki heldur borgríki, þegar allir væru orðnir eyrnamarkaðir og klafabundnir sem íbúar í borg óttans !

 

Föðurlandsást okkar Íslendinga virðist orðin afskaplega efnishyggjuleg, enda er nánast allt metið til verðs nú á dögum. Allt sýnist falt ef nóg er boðið í það !

En það eru sígild sannindi að skyldur og réttindi haldast í hendur. Margir tala hátt í dag um réttindi sín en minnast lítið á skyldurnar og virðast telja þær aukaatriði.

Við höfum skyldur við landið okkar og þurfum að skila því vel af höndum til komandi kynslóðar sona og dætra !

 

En hversvegna vex svo mörgum það í augum í dag að þurfa að taka til hendi ? Er það ekki vegna þess að andavald eyðingar og efnishyggju ýtir í sífellu undir sjálfselsku og eigingirni nútímafólks og dregur það í öfugsnúna villuför á lífsleiðinni ?

 

Margar jarðir fara í eyði vegna þess að fólk nennir ekki lengur að standa í búskap, sumir segja fullum fetum að það sé allt of erfitt. En hvernig var það hér áður fyrr og hvenær hefur búskapur á Íslandi verið undanþeginn erfiði ?

 

Hvar værum við Íslendingar nútímans staddir, ef fyrri kynslóðir hefðu gefist upp á að búa í landinu, sagt það vera allt of erfitt og það borgaði sig ekki að standa í því ? Værum við þá kannski raulandi raunastef allra landleysingja sem úrkynjaðir afkomendur niðursetninga einhversstaðar á Jótlandsheiðum ?

 

Það er jafnvel sagt að fólk sem eigi jarðir sem njóta laxveiðihlunninda treysti sér ekki til að búa lengur. Búskapur bjóði ekki upp á neitt nema basl og erfiði. Fólk selur auðkýfingum í Reykjavík eða útlendingum jarðir sínar og hverfur frá öllu, flytur á mölina með þá draumsýn í farteskinu að gera ekki neitt. Það er víst það eina sem reynist þeim sem þannig hugsa ekki of erfitt !

 

Markmið margra virðist þannig vera að eignast peninga svo þeir þurfi ekki að hafa neitt fyrir brauði sínu, þurfi ekki að vinna neitt.

Þessvegna eru ættarjarðir líklega seldar vítt og breitt út um landið og hlaupist frá arfi kynslóðanna til að hafa það gott og notalegt – án erfiðis - og þá auðvitað í óðaþéttbýlinu fyrir sunnan !

 

Það er staðreynd þekkt og sönn,

þrátt um leiðir grónar,

að líf sem svipt er allri önn

ómennskunni þjónar !

 

Teljum við okkur núorðið Íslendinga upp á þessa meiningu ? Er landið okkar bara eitthvað sem við þurfum að geta selt og fengið fé fyrir ? Og hverjir koma þá til með að erfa landið ef við seljum það frá okkur fyrir jafngildi þrjátíu silfurpeninga og látum það falla í vaxandi niðurníðslu og órækt ?

 

Skyldu það ekki verða þeir sem taka ástfóstri við landið, þeir sem koma til með að elska það eins og það er og svíkja ekki skyldurnar við það og yfirgefa það ekki ? Þannig fólk getur komið frá ýmsum löndum og sest að hér – og ef það kýs að verða hér betri Íslendingar en við virðumst orðnir í seinni tíð, þá er ekkert við því að segja. Þeir erfa landið sem eiga það skilið !

 

Og hver verður þá eignarrétturinn á landinu eftir svo sem 50 ár ? Hverjir munu þá ráða hér og stjórna ? Örugglega ekki þeir sem hafa selt allt frá sér, æruna og ömmu sína, hafa síðan eytt sínum meinta söluágóða í skammtíma býlífi og skilja svo niðjum sínum ekkert eftir til að byggja á til framtíðar !

 

Verða þá kannski slíkir menn - sem telja sig Íslendinga í þrítugasta lið, - orðnir mestu aumingjarnir í landinu, talandi dæmi um þá sem gátu ekki og nenntu ekki að ganga götuna til góðs og glopruðu öllu út úr höndum sér vegna græðgi, ómennsku, leti og úrkynjunar ?

Það skyldi þó aldrei fara svo ?

 


“Maturinn er til !”


Í auglýsingu kringum síðustu jól og áramót mátti heyra þessa setningu og var hún sögð ein sú fegursta sem við ættum í okkar máli. Og ég fór að hugsa út í þá staðhæfingu. Það er líklega alls ekki út í bláinn að halda henni fram.

Víða er það nefnilega svo að matur er ekki til. Og í eina tíð dugði ekki að segja slíkt hérlendis. Í þá daga fóru margir svangir að sofa á Íslandi !

 

En nú snýst lífsbarátta meginhluta Íslendinga ekki lengur um að mæta frumþörfunum, það eru komnar svo margar aðrar þarfir til sögunnar og því miður eru þær flestar ekkert annað en ómerkilegar gerviþarfir, pumpaðar upp af græðgi þess sjálfs sem aldrei fær nóg og vill stöðugt meira !

Það er sem betur fer nógur matur til í landinu, en skömm að því hvernig oft er farið með hann. Þar þarf mikið um að bæta því það er synd að fara illa með mat !

 

En sumir hugsa afskaplega lítið út í það hvað náunganum líður og virðast lifa algerlega sjálfum sér í upphafinni eigingirni. Gamall læknir sagði í viðtali um 1990 að peningagræðgi Íslendinga væri orðin svo langt úr hófi að hún væri að nálgast það að verða sjúkdómur. Og víst er að ekki hefur það batnað síðan !

Fullyrt er að fátækt fari nú vaxandi á Íslandi vegna verulega aukinnar misskiptingar og ekki er erfitt að sjá hvaða afl grefur gjána í þeim efnum !

 

Við vitum líka að hungursneyð á sér víða stað í heiminum. Það verða þurrkatímabil og uppskerubrestir og allskyns hörmungar og maturinn er þá ekki til. Verst af öllu eru þó stríðin, sem eru af mannavöldum, þar sem einhverjir vilja drýgja sinn hluta til lífsgæða með hlífðarlausu ofbeldi og drápum.

En hvað gerist þegar hungursneyð er í gangi einhversstaðar, til dæmis í Afríku ?

 

Jú, meðal annars það að páfinn í Róm kemur fram á svalirnar sínar og biður almenning um að gefa. Hann sem situr á því sem kallast ómetanlegir fjársjóðir biður venjulegt fólk að gefa. Ef hann seldi eitt málverk í eigu páfagarðs myndi það leysa vandann ! Mestu listamenn heims þjónuðu undir páfaveldið á sínum tíma árum saman og veraldlegur auður í fórum þess er líklega algerlega ómælanlegur !

 

Einhversstaðar stendur “ Safnið yður ekki auði sem mölur og ryð fær grandað !” Og það er talað um að mannleg gæska safni sér himneskum fjársjóðum. Ef menn eigi tvennt af einhverju eigi þeir að gefa náunganum annað. En það er ekki hlustað á hinn biblíulega boðskap í þeim efnum og allra síst af kirkjulegum yfirvöldum.

Það er - þvert á móti kristnum meginkenningum - safnað veraldlegum auði sí og æ og honum staflað upp í geymslum gróðans, meðal annars í ofurskreyttum musterum páfadómsins í Róm !

 

Hvað myndi mönnum finnast um að auðmenn heimsins kæmu fram á einhverjar svalir háhýsa sinna og brýndu almenning til að gefa til mannúðarmála, Warren Buffett, Bill Gates og aðrir slíkir ? Það yrði líklega svipur á sumum, en þetta gerir páfinn reglulega fyrir hönd kirkjudeildar sem er svo veraldlega rík, að hún uppfyllir alla lýsinguna á hinni sérgæskufullu Laodíkeu-kirkju, ein og sér !

 

Fyrir nokkrum árum var safnað fé hérlendis fyrir hönd kirkjunnar til að mæta neyð út í heimi. Birtar voru myndir í fjölmiðlum af þekktu fólki með söfnunarbauka, á fullu við að eltast við aura almennings, jafnvel á reiðhjólum. Og hverjir skyldu þar hafa verið að leggja manngæskunni lið ?

Jú, Dorrit Moussajev þáverandi forsetafrú, óhemjurík forréttindakona, í mikilli þörf fyrir hámarks athygli, Halldór Ásgrímsson þáverandi ráðherra með meiru, ekki beint auralaus sjálfur, og Björgólfur Guðmundsson bankastjóri, þá vaðandi í peningum, og því sleiktur daglega enda á milli, af öllu hinu aurasjúka menningarhyski landsins !

 

Þessir sérútvöldu einstaklingar áttu að virka svo sterkt á venjulegt fólk við að safna peningum til góðra verka ? Ég verð nú að segja að þessi hræsnisuppstilling hafði alveg þveröfug áhrif á mig. Mér blöskraði sýndarmennskan á bak við þetta, að fólk sem í raun var þekkt af því að gefa aldrei neitt, nema þá í auglýsingaskyni, væri fengið með þessum hætti, til að kroppa krónur út úr launalágri, alþýðu manna !

En svona er yfirleitt afstaðan hjá þeim ríku: Gefið þið, gefið þið, gefið þið !”

 

Páfinn á nógan mat til. Það er ekki svelti í Vatikaninu, kardinálarnir fitna og hafa gert það um aldir. Þeir ganga um eins og útblásnir, rauðir loftbelgir. En heimurinn í kring mæðist í mörgu og sveltur stundum heilu hungri !

Og þá kemur hvítklæddur páfinn, maðurinn sem kallar sig staðgengil Krists á jörðinni, út á svalirnar sínar, og segir við fólkið : “ Gefið þið !”

 

Hann segir ekki, “ég ætla að sjá til þess að kaþólska kirkjan eigi áfram allar sínar ómetanlegu gersemar og haldi áfram að auðgast og dafna. Það er fyrst og fremst mín skylda !” Nei, hann segir það ekki, en sú tjáningarafstaða býr samt í hegðun hans og framferði. Hann gætir auðsins í eigin garði eins og hinir auðjöfrarnir og ef einhversstaðar er ekki matur til, þá býður hann öðrum að bæta úr því og hrópar út yfir mannfjöldann á torginu :“ Gefið þið !”

 

Þannig er “heimsgæskunni” stjórnað af þeim sem eiga miklu meira en nóg, af þeim sem vita alltaf að maturinn er til, af þeim sem safna meðan þeir hvetja aðra til þess að gefa.

John D. Rockefeller var sagður hafa látið taka myndir af sér á sínum tíma við að gefa börnum smáaura, maðurinn sem varð að skipta upp risafyrirtæki sínu Standard Oil vegna þess að stærð þess braut í bága við hina yfirtaks rúmu bandarísku auðhringalöggjöf. Og páfinn í Róm situr alltaf botnfastur á sínum ómælanlegu, veraldlegu fjársjóðum, en hvetur aðra til að hjálpa. Forríkt fólk á Íslandi er auglýst upp á þeytingi með söfnunarbauka - allt eru þetta birtingarmyndir sama falska eðlisins, sýndarmennskan í fullum gangi !

 

Maturinn er til “ er vissulega falleg setning og þyrfti svo sannarlega fá að hljóma í hvers manns garði. En vöntunin í þeim efnum er fyrst og fremst vegna ómannlegrar græðgi annarra, þeirra sem éta stöðugt yfir sig, þeirra sem éta stöðugt frá öðrum, þeirra sem gera sig þannig til eðlis og anda, að þeir eru og hafa verið öllu mannkyni til skammar allt fram á þennan dag !

 

 


“Engeyjarstjórnin !”


Síst við miklu Bjarni bjóst

og Bensi virtist hræddur.

Enda flestum orðið ljóst

að óburður er fæddur !”

 

Þá hefur verið mynduð - eftir allmiklar fæðingarhríðir - ríkisstjórn tvíhöfða íhalds og menningarelítuklúbbs í Reykjavík sem tengir nafn sitt bjartri framtíð. Það hljóta í sjálfu sér að teljast nokkrar fréttir að tvöfalt íhald eigi að vera eitthvað sem bjóði upp á bjarta framtíð. Einhverjir kynnu nú að líta slíkt fyrirbæri allt öðrum augum !

 

En það er vissulega margt nýstárlegt sem tengist þessari stjórnarmyndun. Hér er um að ræða þriggja flokka stjórn undir forsæti sjálfstæðisflokksins. Í eina tíð átti þriggja flokka stjórn að vera nánast sjálfgefin ávísun á glundroða samkvæmt kenningum Valhallarsinna, en nú er víst ekki völ á öðru og þá er auðvitað ekki talað um glundroða !

 

Íhald A, sjálfstæðisflokkurinn, sem er langstærsta eining stjórnarliðsins, fær alls 6 ráðherraembætti í sinn hlut og auk þess forseta þingsins sem sérstaka brjóstagjöf, klofningsliðið sem kallar sig viðreisn, en við getum til hægðarauka kallað íhald B, fær 3 ráðherra og fyrrnefndur menningarelítuklúbbur fær 2 ráðherra. Þar er það athyglisverðast að 50% af þingflokknum fær ráðherrasæti sem er líklega Íslandsmet !

 

Sú var tíðin að sjálfstæðisflokkurinn brást illa við öllum klofningsframboðum og meint svik voru ekki þoluð þar í ranni. Sumir segja að slíkt hafi aldrei verið fyrirgefið. En nú virðist það af sem áður var. Frændur eru líklega ekki alltaf frændum verstir og Engeyingar hafa víst löngum þótt ættræknir menn !

 

Aldrei fyrr hefur klofningslið úr sjálfstæðisflokknum verið verðlaunað af Valhallarvaldinu og leitt þannig til valda. Ekkert er fremur til þess fallið að festa fyrrnefnda viðreisn í sessi til frambúðar en að bjóða klofningsframboðinu þátttöku í ríkisstjórn. Samt er vafasamt að íhald A og B komi til með að verða í kærleikssambandi til framtíðar - hvað þá bjartrar framtíðar ! Ekki eru allir sjálfstæðisflokksmenn Engeyingar að uppruna og innviðum og kannski minnugri á klofningsbrölt og mótgerðir en sumir aðrir í flokknum, sem þurfa sýnilega að huga að hagsmunalegum ættartengslum !

 

Við Íslendingar höfum áður kynnst svonefndri Viðeyjarstjórn sem ekki þótti nú burðug til blessunarverkanna. Og nú fáum við yfir okkur það sem kalla mætti Engeyjarstjórn, og það sem henni virðist fylgja af Mórum og Skottum þessa lands:

 

Utan bæði og innan veggja

allt hér leiða sögu flytur.

Milli íhalds afla tveggja

Óttarr Proppé gneypur situr !

 

Því það er óneitanlega - eins og flestir vita - erfitt að vera minnsti bróðirinn í leiknum. Ég hygg að sá aðili muni líka fá að finna fyrir ýmsu á næstunni - í vaxandi mæli vandræða - sem það hlutverk leikur. Þá fer líklega sælan úr sambandinu :

 

Glatast von um góða sénsa,

 

gruggast flest við stefnu skakka.

 

Klemmdur milli Bjarna og Bensa

 

birtist karl í gulum jakka !

 

 

Fróðlegt verður að fylgjast með því hvernig þessi ríkisstjórn á eftir að standa sig. Eiga menn eftir að sjá þar flokkslegar áherslur sjálfstæðisflokksins, íhalds A, í ráðandi stöðu eða hagsmunalegar áherslur Engeyjar-ættarinnar ofar öllu ?

 

Og hvernig á óskyldum litla bróður eftir að vegna í þessari nýstofnuðu samvinnuhreyfingu stóru frændanna ?

Skyldi ekki mega kveða um það eftirfarandi:

 

Fátt er markað ferli slyngu,

 

fleira minnir helst á klastur.

 

Engeyjar í ættar þvingu

 

Óttarr Proppé situr fastur !


Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 5
  • Sl. sólarhring: 55
  • Sl. viku: 574
  • Frá upphafi: 365472

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 490
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband