Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2017

“Nálarauga Fjármálaeftirlitsins !”


Núverandi forsætisráðherra hefur lýst því yfir að hann beri fullt traust til Fjármálaeftirlitsins og talar kokhraustur um að fátt fari í gegnum nálarauga þess !

Heyr á endemi, verð ég nú að segja. Hver annar myndi taka þannig til orða varðandi Fjármálaeftirlitið en einmitt umræddur maður ?

 

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að allir sem glata trausti verða að vinna sér það aftur. Fjármálaeftirlitið glataði trausti þjóðarinnar í hruninu og hefur enganveginn endurheimt það aftur. Almennir borgarar í þessu landi eru heldur ekki hálfvitar þó ráðamenn tali oft þannig að halda mætti að það væri skoðun þeirra !

 

Eftirlit með fjármálaumsvifum manna var fyrir hrun í hreinu skötulíki eins og flestir vita og öryggið sem við áttum að búa við reyndist falskt. Samt hafði þjóðin þurft að borga býsna mikið í gangandi gjöldum fyrir þetta ætlaða öryggi, til þess eins að halda uppi handónýtu varnarkerfi. Niðurstaðan eftir hrun varð því sú að allt traust fór lóðbeint til fjandans og þar er það – að minni hyggju - enn !

 

Ekkert í kerfinu hefur endurheimt þetta traust og sáralítið verið gert í því að kalla það heim úr höndum Kölska. Þegar óværan kemur upp á yfirborðið eins og í hruninu er lítið sem ekkert gert í alvöru til uppbyggilegra endurbóta. Það er bara skipt um fólk í toppsætum og svo situr allt við það sama !

Það er svona eins og þegar skipt er um einræðisherra í Afríku. Þegar einhver er orðinn svo óvinsæll að enginn vill hafa hann lengur, er honum laumað út um bakdyrnar og sagt að fara til Sviss og annar settur í sætið. En hver segir að breyting af slíku tagi sé til einhverra bóta og traustið komið aftur ? Sennilega enginn nema þá menn eins og núverandi forsætisráðherra sem hafa að því er virðist tröllatrú á (sér) þjónustu-hlutverki kerfisins !

 

En það er nú svo að Íslendingum allflestum hugnast það ekki að fjárfestar með skuggalega fortíð eignist hér banka og önnur valdatól og geti kannski náð slíku kverkataki á afkomumálum þjóðarinnar að frelsi okkar og sjálfstæði sé í hættu.

Og því vaknar eðlilega sú spurning, hvernig haldið sé á raunverulegu eftirliti þessara mála af hálfu ríkisins og af hverju ekki sé hægt að byggja hér upp traust eins og ætti að gilda meðal siðaðra manna ?

 

Kannski er ein skýringin sú að meðan almenningur er öryggislaus og treystir ekki eftirlitskerfinu, tala æðstu ráðamenn um það sama kerfi sem sannkallað nálarauga nákvæmninnar ?

Það má því ætla að þeir tali út frá öðrum hagsmunum en hagsmunum almennra borgara og leiðtogar sem eiga ekki hagsmunalega samleið með almennum borgurum munu seint verða taldir trúverðugir talsmenn trausts og öryggis !

 

Auðvitað er ekkert nálarauga til í þessu samhengi því traustið hefur enganveginn verið endurheimt. Meðan svo stendur, liggur ljóst fyrir að núverandi ríkisstjórn getur hvorki boðið upp á viðreisn né bjarta framtíð, hvernig svo sem hjalað er og talað af hennar hálfu við blekkingaborð stjórnmálanna !


Við læstar dyr

 

Svo margur hefur orðið við læstar dyr að liggja

í lífi sínu öllu og hvergi elsku mætt.

Aldrei, aldrei fengið eitt andartak að þiggja

þá ást sem best í mótlætinu huggað fær og grætt.

 

Svo margur læstur úti frá lífsins bestu gæðum

er lamaður og sleginn og fær ei notið sín.

Liggur bara í kulda sem rekur yl úr æðum

og aldrei fær þar vistir sem blessuð sólin skín.

 

Slíkt ranglæti í engu er unnt að sjá og veita

því áfram þögult fylgi með augu sálarblind.

Þeir menn sem illum hlutum í hagstjórn sinni beita

þeir hljóta þó að vita að það er blóðug synd.

 

Þá ræður bara hatur og reiði í öllum málum

sem ristir djúpt í hjartað og tekur fyrir völ.

Og þannig oft er haldið því helvíti að sálum

sem heldur uppi stöðu sem gerir líf að kvöl.

 

Opnum, opnum dyrnar, svo enginn þurfi að líða,

allir verða að geta í kærleikanum mæst.

Tökum höndum saman um lífsins veröld víða

svo verði aldrei framar á þjáða dyrum læst !

 

        ooooOoooo


Á að slá skjaldborg um íslenska ráðamenn ?

 

Nú hefur forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson látið hafa eftir sér að Landsdómur sé úrelt og fornt fyrirkomulag og hreint ekki boðlegt á okkar stórfrjálsu tímum !

Og hann segir reynsluna af beitingu dómsins hafa sýnt þetta !

Þarna talar forsetinn á þá lund sem búast má við af honum, hann er ljúfmenni sem vill hafa alla góða og sátta. Hann talar hinsvegar ekki um málsmeðferðina í Landsdómsmálinu, enda myndi hann þá trúlega styggja marga. En þar komu þau vinnubrögð fram sem eyðilögðu alla eðlilega niðurstöðu. Þingmenn tóku nánast alfarið og eingöngu flokkslega afstöðu til málsins og þar með fór allt í vitleysu !

 

Ég held að enginn af þeim sem á sínum tíma stóðu að lagaákvæðunum um Landsdóm hefði getað ímyndað sér að þingmenn brygðust við með þeim hætti sem þeir gerðu. Ákvæðin um Landsdóm byggðust áreiðanlega af þeirra hálfu á þjóðlegri sýn og ættjarðarhollustu og áttu að undirstrika ábyrgð þá sem háttsettir menn hlytu að bera og ættu að bera gagnvart landi og þjóð. Hver ráðamaður sem sannanlega bryti gegn þjóðar-hagsmunum Íslands þyrfti að vera ábyrgur gerða sinna !

 

Hefðu þingmenn sýnt þjóðlega ábyrgðartilfinningu í málinu, eins og mér sýnist til að mynda að fjórir þingmenn Samfylkingarinnar hafi gert, hefði niðurstaða Landsdóms væntanlega orðið allt önnur og hann virkað sem sá öryggisventill gegn ábyrgðarlausum vinnubrögðum ráðamanna sem honum var ætlað að verða.

Þá værum við kannski ekki enn í dag með háttsett fólk í stjórnkerfi og bönkum sem þarf að vera á gríðarháum launum vegna ábyrgðarinnar sem er sögð vera að sliga það, ábyrgðar sem reynist svo ekki túskildingsvirði þegar ætlast er til að þetta sama fólk axli hana !

 

Eiga menn sem eru svo háttsettir og valdamiklir, að þeir geta farið með heilt þjóðfélag til fjandans á skömmum tíma, ekki að bera neina ábyrgð á gjörðum sínum ?

Hvernig væri nú að fella niður alla refsilöggjöf gegn almennum borgurum þessa lands, er hún þá ekki líka úrelt og forn ? Hvað skyldi forsetinn segja um það ?

Eða á venjulegt fólk bara að vera ábyrgt gerða sinna í þessu landi ? Á þannig að byggja þetta land með lögum, eiga valdamenn að vera stikkfrí ?

 

Ráðamenn hafa svo sem oft gengið fram af Íslendingum með háttsemi sinni. Smiður Andrésson hirðstjóri og Jón lögmaður skráveifa voru ráðamenn síns tíma og ekkert dómsvald til gegn yfirgangi þeirra. En þjóðin stofnaði þá til Landsdóms yfir þeim á Grund í Eyjafirði og hreinsaði óværuna af sviðinu !

Á hliðstæðan hátt var settur á fót Landsdómur yfir Lénharði fógeta og Jón Gerreksson og sveinar hans fengu líka að reyna að Íslendingar sættu sig ekki við allt !

 

Með því að nefna þessi dæmi er ég auðvitað ekki að segja að menn eigi að grípa til þvílíkra ráða nú á dögum, en enn í dag ættu ráðamenn samt að hafa það hugfast að það er ekki hægt að fara með almenning á Íslandi eins og réttindalausan skrælingjalýð, eins og undirmálsfólk sem á bara að þegja og hlýða og bera byrðarnar og syndagjöldin af axarsköftum þeirra og mistökum sem hæst hafa hreykt sér !

Það er fullkomlega eðlilegt og sanngjarnt að lög séu fyrir hendi um það að ráðamenn séu og eigi að vera ábyrgir gjörða sinna eins og aðrir í landinu !

 

Við Íslendingar gengum í gegnum efnahagshrun þar sem aumingjadómur stjórnvalda var ein meginástæðan fyrir óförunum, því enginn virtist hafa verið á verði fyrir þjóðarhag - í hættunni miðri. Og hvað gerðist, almenningi ofbauð svo að gripið var til byltingaraðgerða með búsáhöldum með þeim afleiðingum að ríkisstjórn með ærinn þingmeirihluta féll !

Eitthvað ættu nú menn á þingi og víðar að læra af því sem þá gerðist svo sagan endurtaki sig nú ekki og kannski þá með enn harkalegri hætti !

 

Þegar ég heyrði orð forsetans um Landsdómsmálið varð mér hugsað til háðsádeilu Erasmusar þar sem hann lét Júlíus II páfa nýlátinn eiga í orðaskaki við Lykla-Pétur við dyr Himnaríkis. Pétur vildi nefnilega ekki hleypa páfanum inn !

Júlíus páfi er látinn segja þar að páfi megi gera það sem honum sýnist því ekkert vald sé yfir honum. Hann hafi öll ráð í hendi sinni og þurfi ekki að bera neina ábyrgð á gjörðum sínum. Eiga íslenskir ráðamenn kannski að vera í svipaðri stöðu og þar er lýst ?

 

Eins og ég hef þegar sagt í þessum pistli, er Guðni Th. ljúfur maður, en seint held ég að hann verði skörungur á forsetastóli, enda sýnist stjórnmálahirðin í landinu hæstánægð með hann - öfugt við forverann.

Þau orð sem forsetinn hefur látið falla um Landsdóm eru áreiðanlega friðandi fyrir mörg óróleg hjörtu í efstu deild, enda sjálfsagt í og með til þess sögð. Ljúfir menn kunna því best að vera vinsælir og haga orðum sínum vafalaust með tilliti til þess, en stundum getur sú tilhneiging orðið á kostnað virðingar og þá er verr af stað farið en heima setið !

 

Og það að vera að sleikja sig upp við stjórnmálahirðina þykir mér ekki til þess fallið að auka trú manna á það að núverandi forseti verði sá öryggisventill gegn hugsanlegum yfirgangi frá þeim söfnuði sem hann ætti að vera !

 

Ég lít svo á að það sé full ástæða til að hafa í löggjöf þessa lands ákvæði um ábyrgð stjórnmálamanna eins og annarra í samfélaginu.

Eða eigum við að vera með ábyrgðarlaust lið í valdaforustu fyrir þessari þjóð, fólk sem hendir kannski fjöreggi okkar fram og aftur í fullkomnu kæruleysi, í trausti þess að það sé yfir öll lög hafið og þurfi því aldrei að gjalda glópsku sinnar ?

 

 

 

 


Fjárglæframennska samtímans !

Sú var tíðin að menn höfðu það mikið til á hreinu hvar skildi á milli heiðarlegs framferðis og óheiðarlegs. Siðleg viðmið voru mun skýrari og menn vissu klárlega að þeim leyfðist ekki allt. Arfleifðin frá fyrri kynslóðum var ekki slæm því fólk hér áður fyrr var að stærstum hluta þekkt af trúmennsku og ráðvendni.

 

Heimsstyrjaldirnar, einkum þó sú síðari, báru með sér breytingar á því gildismati sem áður réði að mestu leyti í þessu landi. Menn lærðu nýja siði í Bretavinnunni, þeir lærðu að vera á kaupi án þess að vinna. Þeir lærðu að sofa fram á skóflurnar, þeir lærðu í stuttu máli sagt að svíkjast um. Þeir kynntust því að hægt væri að þéna drjúga peninga með því að beita svikum og óheiðarleika. Og það verður að segjast eins og satt er, að sumir voru ótrúlega fljótir að tileinka sér hinar nýju tekjuöflunarleiðir !

 

Síðan hafa nánast allar ár í þessum efnum runnið að sama ósi hérlendis sem og víðar. Hugarfar stórs hluta þjóðarinnar virðist snúast um það eitt að komast yfir peninga og helst sem mest af þeim og aðferðirnar skipta ekki máli. Allflestir vita að heiðarleg vinna gerir engan ríkan á Íslandi og því þarf að leita annarra leiða til að auðgast. Siðagildislækkun stríðsáranna seinni situr fast í mörgum – núorðið í þriðja lið, enda er víða til staðar ættarauður sem á upphaf sitt í þeim tíma og ekki með sem bestum formerkjum.

 

Ríkidæmi á Íslandi er því samkvæmt framansögðu hreint ekki til komið vegna þess að auðmenn hafi verið einhverjar fyrirmyndir í frómleika og fornum dyggðum. Þeir voru miklu heldur menn sem gripu tækifærin þegar þau gáfust og létu ekki siðaboðskap liðinna kynslóða standa þar í vegi. Slíkir menn létu stundum hafa eftir sér á gamals aldri, að þeir hefðu skilið kall nýrra tíma. Það eru oft notuð fögur orð yfir fláa vegferð og þannig töluðu sumir síðar sem lærðu fyrst að svíkja á stríðsárunum seinni, sofandi fram á skóflurnar í Bretavinnunni !

 

Í dag virðumst við búa við mýgrút af svona mönnum, mönnum sem virða engin siðagildi, mönnum sem eru tilbúnir að svíkja, ljúga og selja allt á blekkingarfullum Júdasarprísum. Sumir eru sýnilega orðnir forríkir fyrir þrítugt og það verður enginn af því að stunda heiðarlega vinnu í opnu dagsljósi !

 

Og áhættusæknin og fjárglæframennskan í samtímanum teygir sig núorðið um allt þjóðfélagskerfið og alltaf þegar illa fer – sem gerist nú æði oft á einn veg eða annan – er þjóðin látin borga syndagjöldin !

Sjálft ríkiskerfið er nefnilega löngu orðið þannig að það getur varla nokkur heiðarlegur maður borið virðingu fyrir því lengur. Það sýnist orðið gróið í spilltum háttum þar sem gjörningar lögleysu og yfirgangs eru viðhafðir á hverju stofnana strái gagnvart almannahagsmunum. Hvarvetna í kerfinu virðast fyrir hendi innmúruð skálkaskjól og klíkusamfélög sérhagsmuna sem sjúga í sig það sem ætti framar öllu að vera lífssafi þjóðarinnar sjálfrar. Og það er vandlega séð um að auðlindagæði og annar ávinningur af þjóðlegum eignum skili sér annað en til almenningsþarfa !

 

Og frjálshyggjulið Mammons virðist jafnan vilja auðvelda allt aðgengi fólks að vímugjöfum og hverskonar deyfandi ávanaferli sem blekkir og bindur fólk og sviptir það sjálfræði hugsunar og viljafestu. Sú sérhagsmunaklíka telur líklega að með slíku verði auðveldara að blekkja og níðast á hagsmunum almennings og takmarka sýn fólks á eigin réttindi í samfélaginu !

 

Og það skal haft í huga að alisvín ríkiskerfisins eru að miklu leyti ræktuð upp á sama svínabúinu og koma þaðan sem á færibandi inn í kerfið. Við höfum nefnilega í þessu landi hliðstæðu Republikana-flokksins bandaríska, sérhagsmunavæddan varðflokk auðvaldsins, skuggaklíku sem hefur á sama hátt andstyggðina eina í heilabúi sínu og ógeð siðleysunnar í hjartastað !

 

Fjárglæframennska virðist stunduð nú til dags nánast eins og íþróttagrein á stórkapítalísku höfuðborgar-svæðinu og á landsbyggðinni virðast líka margir orðnir opnir fyrir því að læra til fagsins sem felst í því að tileinka sér að sniðganga allt sem siðlegt er ef peningalegur gróði er annarsvegar. Enn sem fyrr sannast það sem skrifað stendur, að ágirndin er rót alls ills !

 

Mikill er andskotinn “ var einu sinni sagt og víst er að í þeim hópi manna sem stundar fjárglæframennsku er andskotinn mikill, enda er hann í líki Mammons æðsta goð þeirra sem meta allt til verðs – þar á meðal eigin sálarheill !

 

Megi þjóðin rata aftur inn á gömlu göturnar þar sem sannleikur og ráðvendni eru ljósin sem leiða og myrkravíti villuráfandi sauða er víðs fjarri !

 

 

 


Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 21
  • Sl. sólarhring: 70
  • Sl. viku: 590
  • Frá upphafi: 365488

Annað

  • Innlit í dag: 18
  • Innlit sl. viku: 503
  • Gestir í dag: 18
  • IP-tölur í dag: 18

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband