Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2019

Betra seint en aldrei !

 

Nýverið birtist í bændablaðinu, þjóðlegasta og besta blaði landsins, grein eftir Guðna Ágústsson fyrrverandi Framsóknargoða sem var í alla staði athyglisverð. Gekk hún meðal annars út á það að Íslendingar reyndu að vera vakandi en ekki sofandi gagnvart þeirri hættu sem óneitanlega felst í því að auðugir útlendingar séu að kaupa hér upp land í stórum stíl !

 

Það er helst að heyra á þessari grein Guðna að sofandahátturinn sé slíkur hjá ráðamönnum að uppkaup lands fari senn að nálgast hlaðið á tilteknum Gunnarsstöðum, þar sem þekktur vökumaður frá því fyrir hrun var alinn og leiddur á legg á sínum tíma, en sá skallagrímur hefur að því er virðist dregið ýsur að mestu síðan, en þó líklega ekki laxa !

 

Bitleysi og ræfildómur forustumanna í hérlendri pólitík, einkum þeirra sem taka þátt í ríkisstjórnar-samstarfi, er reyndar síreynt vandamál í sögu íslensku þjóðarinnar. Allskonar frjálshyggjusýking virðist hafa spillt þjóðlegri framtíðarsýn þeirra flestra svo mikið að fátt eitt sé þar eftir af heilbrigðum viðmiðum !

 

Guðni segist í grein sinni harma það að hafa sjálfur verið nokkuð sofandi í þessum efnum meðan hann var ráðherra og valdamaður, en það er ekkert nýtt að slíkir menn tali um það eftir á að þeir hefðu viljað gera meira. Jafnvel þeir sem ekkert gerðu taka þannig til orða og þykir mörgum það skrítið. Með þessu er ég ekki beinlínis að segja að Guðni hafi ekki gert neitt, en hinsvegar hef ég þá skoðun að það liggi engin umtalsverð afrek eftir hann frá stjórnmálaferlinum !

 

Til þess að hann kæmi einhverju slíku í verk, var hann líklega oftast of önnum kafinn sem skemmtikraftur hér og þar. Guðni þykir nefnilega skemmtilegur maður og er það líklega. Sjálfsagt er hann fjölbreyttur til eðlis og anda, en ekki vil ég á nokkurn hátt halda því fram að hann sé vondur maður. Líklega er hann miklu nær því að vera góður maður, en það er nú einu sinni svo að við sendum menn á þing og í ráðherrastóla til að þeir geri gagn. Það hafa hinsvegar oftast verið afskaplega mikil afföll á þeim væntingum þjóðarinnar !

 

En umrædd grein Guðna í Bændablaðinu er gott framtak og líklega er hann að gera eitthvert gagn með svo skeleggu tilskrifi. Það var þá kominn tími til. Ég var eiginlega svo ánægður með hinn bláeyga hugsjónamann fyrir vikið, að ég klippti greinina úr blaðinu og ætla að geyma hana um sinn !

 

Við þurfum alltaf á því að halda að eiga forustumenn sem geta svarað kalli þjóðarinnar á hverjum tíma og varið sjálfstæði hennar og lífshagsmuni.

Þegar menn eru valdamenn og geta látið verkin tala þurfa þeir að gera það !

 

Tíminn er nefnilega býsna fljótur að líða og það verður að nýta tækifærin meðan þau gefast. Það er öllu leiðinlegra fyrir menn þegar þeir neyðast kannski til að segja síðar afsakandi : ,, Eftir á að hyggja sé ég að ég hefði átt að gera þetta og gera hitt !”

 

En samt er alltaf á vissan hátt mannsbragð að því að menn gangi í sig og játi að betur hefði mátt gera í ýmsum málum. Og um frelsismál lands og þjóðar verður alltaf að standa vörð. Sú barátta krefst þess af hverri nýrri kynslóð að menn séu á verði – vakandi !

 


Blaðamenn skipta máli – fyrir okkur öll !

 

Það er flestum mönnum kunnugt, þeim sem á annað borð hugsa, að blaðamenn eru og eiga að vera sérstakir varðgæslumenn réttlætis í samfélaginu og vökumenn almennra mannréttinda. Komi það fyrir að þeir skili ekki þeim skyldum sómasamlega af höndum er gefið mál að eitthvað illt og spillt fer í gang fyrir alvöru !

 

En sem betur fer hafa blaðamenn oftast þekkt sínar skyldur og staðið fyrrnefnda öryggisvakt með sóma, varið sín samfélög með hollustu og ábyrgðarkennd þannig að margt er í betra fari en annars væri. Við megum því sem borgarar þessa lands vera þakklát fyrir störf þeirra og stefnufestu !

 

En það eru til öfl í þessu samfélagi okkar sem sýnilega meta ekki mikils störf þessarar stéttar og vilja greinilega búa að þeim sem þar starfa með þeim hætti að ekki sé unnt við það að búa. Það er eflaust hægt að þagga niður í mönnum með ýmsum hætti því allir þurfa – jú – sitt lifibrauð !

 

Eftir því sem kjör blaðamanna versna má reikna með að vægi þeirra í daglegri umræðu verði minna og kannski er það einmitt eitthvað slíkt sem er í sigtinu hjá þeim öflum sem vilja að öll umræða sé þeim þóknanleg og að ekki sé farið að tala um neitt sem getur orðið þeim óþægilegt !

 

Við vitum líka að þeir eru ekki svo fáir blaðamennirnir sem hafa goldið fyrir það með lífi sínu í þessum heimi að segja frá hlutum sem ekki eru í lagi, að vera talsmenn sannleikans, að opinbera það sem sumir vilja að fari leynt. Þá fórn ber að virða því hún hefur fyrst og fremst verið færð af höndum til verndar siðuðu samfélagi og almennri velferð !

 

Þegar auðvald einhvers lands kemst upp með það að kúga blaðamenn og skerða lífskjör þeirra og lífsafkomu er mikill sigur unninn í þágu hins illa. Þá er vökumannastétt almennra mannréttinda svipt vopnum sínum og kannski kefluð um sinn. Starfsfrelsi hennar er þá heft og eðlilegar aðstæður ekki fyrir hendi meðan svo stendur !

 

Þegar slíkt virðist í uppsiglingu er hættulegt ástand að myndast. Áframhald af því tagi getur leitt af sér viðvarandi siðblindu og aðför að lýðræði og heilbrigðum lífsháttum. Það má ekki gerast að málin fari í slíkt far !

 

Nú hafa blaðamenn landsins sýnt það, í atkvæðagreiðslu um samningskjör sem þeir telja óboðleg, að þeir eru ekki á því að láta kúga sig og kefla. Nærri 75% þeirra segja það eitt með atkvæði sínu að þeir láti ekki fara þannig með sig. Þeir ætla sem sagt ekki að láta svínbeygja sig !

 

Sú afstaða þeirra sýnir manndóm og megi þeir halda samstöðu sinni og uppskera í gegnum hana í samningum þá niðurstöðu sem felur í sér þá virðingu sem störfum þeirra ber og ásættanleg er !

 

 

 


Blóðug Bókatìðindi !

 

Fyrir nokkrum dögum komu Bókatíðindi ársins í mínar hendur. Alltaf hef ég nú haft gaman að því að skoða hvað er verið að gefa út og fara yfir þær bækur og það lestrarefni sem þar er kynnt. En nú fannst mér heldur betur farið að syrta í álinn í útgáfumálum hvað bókmenntalegan ávinning snerti !

 

Það voru hreint ekki margar bækur á boðstólum sem mér fundust áhugaverðar. Ótrúlega margar bækur voru íslenskar eða erlendar morðsögur. Það virtust allflestir rithöfundar vera komnir með sitt í þann farveg, sem ég vil kalla einhliða peningasóknarleið. Þetta virtist vera eins og íslenska ferðamennskuæðið hefur lengstum virtst vera – allir að sækjast eftir að græða á því sama !

 

Barnabækurnar virðast þó enn sleppa að mestu leyti við þannig meðferð, en sumar bækur í þeim flokki undirstrika samt að mínu mati, að ekki sé verið að ala börn á mjög uppbyggilegri bókmenntafæðu. En það er ekki ólíklegt að jafnvel barnabókaflokkurinn fari að bera nokkurn keim af morðsagnaflóðinu þegar fram í sækir og væri það sannarlega mjög miður !

 

Þegar ég fór að skoða kynningu bókanna, frumsaminna og þýddra, virtist þar margt bera að sama brunni og vera hvað öðru líkt. Þar mátti finna umsagnir af þessu tagi:

,,Blóðfórn í Ikea, barni rænt, heimili atað í blóðblettum, prestur myrtur á Grenivík, útigangsmaður myrtur og ferðamenn hverfa sporlaust, mannslík og tvö hundshræ finnast á víðavangi í Fljótshlíð, skelfilegur glæpur skekur Eyrarbakka, kona finnst látin í klefa sínum á Hólmsheiði, morð framið á Súðavík, sjálfsvíg, kona hverfur sporlaust, myrkraverk innan stjórnkerfisins, innflytjandi finnst látinn, ung kona finnst myrt í fjörunni við Akranes, raðmorðingi, rangur dómur og lík í Snorralaug !”

 

Þetta finnst mér nú vera orðinn drjúgur skammtur af viðbjóði, en af nógu er að taka, lítum aðeins frekar á það sem ritað hefur verið sem hugarfarsleg jólafæða landsmanna í ár :

 

,,Lík rekur á land, illa farið lík finnst í Grábrókarhrauni, dularfullt morð framið í Reykjavík, kona myrt á heimili sínu, tvær konur liggja í valnum í Reykjavík, maður drepinn á Vatnsleysuströnd, líkið hræðilega útleikið, í Kaupmannahöfn finnst lík af limlestum manni sem hefur verið pyntaður til dauðs, lík dregið upp úr forarpolli í Stokkhólmi hræðilega leikið, nístandi hryllingssaga úr nútímanum, fjórtán ára drengur hreinsar forstofuna heima hjá sér eftir að faðir hans hefur misþyrmt móður hans, blóði drifið lík finnst á stofugólfi, kona myrt og hræðilega limlest, illa útleikið karlmannslík finnst í Osló, ungur drengur finnst látinn í þvottavél, fjórir starfsmenn á olíupalli finnast látnir, líkin öll illa útleikin………!

 

Ætli ég segi nú ekki nóg komið af þessu þó fleira sé fyrir hendi, enda er ég kominn með óbragð í munninn af þessari ógeðslegu upptalningu !

 

Í þessu fari virðist nú það vera sem talið er til bókmennta á Íslandi í dag. Á því sést hvað það er sem dregur. Það er að mínu mati nokkuð sem seint verður talið bókmenntum til ávinnings, yfirborðskennd handrita-útgerð sem miðast fyrst og síðast við gróðasjónarmið. Og það virðist svo sem vera nægur markaður fyrir þennan subbuskap ?

 

Eins og ég sagði fyrr í þessum pistli, eru í Bókatíðindum ársins aðeins örfáar bækur sem ég myndi telja áhugaverðar í bókmenntalegu tilliti eða þá af sérstökum fróðleiksástæðum. Það var sannarlega annað í eina tíð !

 

Það eru mér mikil vonbrigði að sjá hvernig áhugi fólks á lesefni virðist bókstaflega vera keyrður niður með flóði af rituðu rusli sem virðist aðallega ganga efnislega út á það að myrða og limlesta fólk !

 

Á þessi framleiðsla að vera uppbyggileg fyrir þjóðina ? Er þetta veganestið í gegnum jólin og inn í nýja árið ? Er nánast ekkert af íslenskum höfundum núorðið í öðru en þessu ?

 

Ég segi fyrir mig, ég kann ekki að meta þetta og les ekkert af svona morðsagnarusli. Í gamla daga las ég eitthvað af bókum eftir Agöthu Christie, en ég er löngu hættur því og tel tíma mínum betur varið til annars. En þeir virðast vera býsna margir sem vilja sífellt lesa um morð þó þeir væru sennilega ekki ásáttir við að verða myrtir sjálfir !

 

Eru morð kannski eitthvað sem fólki finnst að þurfi að vera til staðar í samfélaginu, eru morð kannski menningarleg nauðsyn og bókmenntaleg lífsforsenda í augum sumra ? Er það ekki sálarlífsleg skrumskæling á heilbrigðum viðhorfum að þykja gaman að því að lesa um manndráp og limlestingar ? Hvað ef ástvinir slíkra lesenda ættu í hlut ?

 

Ég vil segja að Bókatíðindi ársins 2019 eru í meira lagi ógeðfelld að mínu mati. Ef sú fóður-uppstilling sem þar virðist fyrirferðarmest á að vera aðalréttur lesefnis fyrir þjóðina í ár, þykir mér meira en gott að hafa val um að þurfa ekki koma að því borði !


Hvar á vegi erum við stödd ?

 

Það má reikna með að flestir þeir Íslendingar hafi verið nokkuð slegnir sem horfðu á sjónvarpsþáttinn Kveik þriðjudaginn 12. nóvember síðastliðinn. Það er að segja þeir sem ennþá þekkja til siðferðis og telja að menn eigi að vera heiðarlegir og fylgja réttum lögum og eðlilegum viðskiptaháttum í skiptum við aðra !

 

Þeir sem hinsvegar vilja búa um sig til varnar hverju sem er í nafni sérgæskunnar og verja það framferði sem kom óneitanlega skýrt fram í umræddum þætti, hljóta að sýna með því á afgerandi hátt hvernig þeir eru útbúnir að eðli til. En viljum við vera þannig ?

 

Þegar íslenskt stórfyrirtæki virðist hegða sér nákvæmlega eins og bandarískur auðhringur er ekki á góðu von. Og þegar forráðamenn slíks fyrirtækis virðast taka sér vitandi vits að félögum og jafnaðarmönnum spilltustu pólitíkusa annars lands, staðsetja þeir sig með slíku háttalagi í einu óþjóðlegasta sauðahúsi veraldar. Það er niðurstaða sem hlýtur að vera öllum réttsýnum landsmönnum mikið og hryggilegt umhugsunarefni !

 

Það er líka hörmulegt til þess að vita, að valdamenn úr röðum Svapo, frelsishreyfingar sem barðist á sínum tíma fyrir sjálfstæði Namibíu, skuli með verkum sínum vera að svíkja þjóð sína um réttmætan arð af auðlindum landsins. Að slíkir menn skuli hafa tekið að sér að hegða sér með sama hætti og fyrrum nýlenduherrar vegna peningagræðgi og sérgæsku, sýnir ljóslega það sem Ritningin segir ,,Ágirndin er rót alls ills !

 

Og ef það reynist rétt vera, að íslenskt fyrirtæki hafi virkilega lagst svo lágt í auðssöfnun, eins og kynnt var í umræddum þætti, er það ömurlegri birtingarmynd af íslenskum viðskiptaháttum en hægt er við að una !

Eru íslenskir aðilar virkilega komnir á slíkt stig, að nýta sér spillingu meðal annarra þjóða, til að hagnast með svo glæpsamlegum hætti ?

 

Er það þannig sem ávextir íslenskrar hagsældar eru myndaðir ? Er það þannig sem menn verða ríkir á Íslandi og baða sig í stórmennsku og eignaumsvifum ? Þá var fátæki íslenski kotbóndinn í torfkofanum sínum meiri maður á allan hátt, en þeir afkomendur hans nú til dags sem virðast ekki hika við að níðast á öllu því sem við höfum talið okkur standa fyrir !

 

Varnarviðleitni meintra brotamanna í þessu máli hefur verið slík að þar hefur ekkert haldið vatni. Hver trúir þeim málflutningi sem forráðamenn fyrirtækisins hafa látið sér sæma að halda fram ? Þar er allt svo aumingjalegt og sálarlaust að það tekur engu tali !

 

Og forstjórinn talar í nauðvörn sinni um að ráðist hafi verið að fyrirtækinu og starfsfólki þess ? Allir verði sem sagt að sameinast í vörn. Og svo er hann umfaðmaður af móðurlegum konum í starfsliðinu því sennilega er hann orðinn einskonar píslarvottur, - ,, allir vondir við hann Steina okkar !”

 

Svipað þessu var líka talað eftir hrunið af þeim sem síst skyldi. Þá var sagt : ,, Nú erum við öll á sama báti og verðum að verja aumingja Ísland sem hefur orðið fyrir ómaklegri árás !”

 

En það fólst reyndar nokkuð ísmeygilegt efni með í þeim skilaboðum sem þá voru send út, en þau voru á þessa leið : ,,þú hefur að vísu tapað því litla sem þú áttir, en ég hef grætt 300 milljónir ! En það skiptir engu, við erum Íslendingar og þar af leiðandi Samherjar. Við erum í sama liðinu.…...!”

 

En það var og er ekki rétt. Við getum ekki verið í liði með þeim sem féfletta okkur. Hrunið kenndi okkur þá lexíu með dýrkeyptum hætti !

 

Það hefur að sjálfsögðu enginn ráðist á starfsfólk fyrirtækisins. Ef það verður fyrir einhverjum skaða í gegnum þetta mál, sem vonandi verður ekki, mun það aðeins verða og gerast vegna afleiðinga af því hvernig forráðamenn fyrirtækisins virðast hafa hagað sér. Meinvaldurinn er þá ekki nein utanaðkomandi árás, heldur það sem virðist hafa verið meiriháttar innbyggð siðfræðivilla í stjórnarháttum fyrirtækisins !

 

Bæjarstjóri Dalvíkur er sagður hafa krafist afsökunarbeiðni fyrir hönd Dalvíkinga vegna einhverra ummæla í Kveik varðandi fiskidaginn mikla.

Ef rétt er eftir haft, má segja að einkennileg afstaða birtist í þeirri kröfu !

 

Eins og allir vita hafa Dalvíkingar komið fram með miklum sóma alla tíð varðandi þessa landsfrægu hátíð, en það breytir ekki þeirri staðreynd að Samherji hefur lagt þar til fjármagn og aðstöðu að stórum hluta og án þeirrar aðkomu hefði ekki neinn fiskidagur að slíku umfangi orðið að veruleika. Það verða menn að hafa í huga í þessu sambandi !

 

Maður getur því spurt, af hverju er fólk í ábyrgðarstöðum að tala með þessum hætti og reyna að beina athyglinni frá kjarna málsins ? Af hverju er talað út frá því að ráðist hafi verið á starfsfólk Samherja, jafnvel íbúa heils bæjarfélags o.s.frv. ? Það er eins og verið sé að safna liði gegn því að hlutirnir séu rannsakaðir ? Eiga kannski sumir að vera ofar lögum ?

 

Kjarni málsins er auðvitað þessi: Ef fjármagn sem notað er til að gera fólki glaðan dag reynist óhreint og illa fengið, er það ekki boðlegt og engum stætt á því að verja slíkt. Það byggir enginn til lengdar eitthvað blessunarvert á bölvaðri undirstöðu. Við Íslendingar þekkjum frá fornu fari hið sígilda spakmæli - að illur fengur illa forgengur !

 

Nú er gömul margkveðin tugga höfð uppi af hálfu fyrirtækisins, stjórnvalda og annarra sem tala um þetta sem tilfallandi leiðindamál, eins og eitthvað sem gerðist bara óvart og án þess að nokkur bæri sök eða vissi af því sem fram fór. Menn lentu bara í þessu !!!

 

Og tuggan er þessi : ,,Það verður að rannsaka þetta ofan í kjölinn, velta við hverjum steini og fá þetta allt á hreint o.s.frv. o.s.frv. o.s.frv !

 

Hafa menn ekki heyrt þetta áður og dettur nokkrum heilvita manni í hug að lyktir málsins verði með þeim hætti ? Er ekki bara verið að halda sjó meðan þrumuveðrið geisar. Þannig vinnubrögð eru svo sem ekkert nýtt !

 

Var ekki sagt í sjónvarpinu um daginn af sitjandi þingmanni sem á að þekkja til mála með svona hluti í víðara samhengi, ,,að hér á landi virtist ríkja ótrúlega mikil linkind gagnvart allri spillingu ?”

 

Af hverju skyldi það vera ? Skoðið forsöguna, lesið rannsóknarskýrslu alþingis sem stungið var undir stól. Spilling virðist vera orðin svo landlæg farsótt á Íslandi að enginn treysti sér lengur til að berjast gegn henni !

 

Það er margur Íslendingurinn orðinn meira en lítið dasaður vegna frétta af margskonar svínaríi. Í þeim efnum virðist lengi vera hægt að auka við !

 

En þó vill maður reyna að trúa því - að síðustu leifum íslensks siðferðis hafi ekki verið sökkt í hafið fyrir utan strendur Namibíu, og að við Íslendingar getum sem samfélag átt áfram einhverja von um að geta notið fyrri virðingar í samfélagi þjóðanna !

 

 

 


Að búa til hreinar ímyndir !

 

Markaðssetning er mjög fyrirferðarmikið hugtak nú á tímum eins og flestir vita. Það byggist ekki hvað síst á því að kynna einhverja vöru með þeim hætti að hún gangi í augun á fólki og seljist miklu betur en áður. Að sjálfsögðu gildir þá að setja af stað öflugar auglýsinga-herferðir, koma sér upp sívirkri áróðurs-maskínu og tryggja sér stuðning í fjölmiðlum á allra handa máta. Hvað satt er í málum verður þar oft algert aukaatriði !

 

Þetta er allt þekkt úr fortíðinni, sérstaklega þó frá sögu síðustu aldar, en þó er alltaf eitthvað að breytast og sækja á ný mið í þessum efnum sem öðrum. Markaðssetning á mannfólki hefur hinsvegar til þessa einkum verið innan kvikmynda-iðnaðarins og í tilfellum tónlistarhalds og bókaútgáfu og annarra afmarkaðra sviða, sem þurft hafa að ganga fyrir persónudýrkun að hluta til svo að hægt væri að skila þar sem mestum gróða !

 

En í seinni tíð hefur spilling meðal stjórnmálamanna sýnilega orðið svo víðtæk og allt um lykjandi í augum almennings, að markaðssetningar-sérfræðingar hafa greinilega í auknum mæli farið að leita að einhverjum sem væru lausir við slík soramörk. Þá virðast augu þeirra hafa farið að beinast að börnum. Þau eru nefnilega svo ung að spilling hefur naumast náð til þeirra svo heitið geti. Þar er sem sagt ennþá hægt að gera út á hina hreinu ímynd !

 

Við þekkjum feril barnastjarnanna í kvikmyndaheiminum, hvernig æska þeirra var yfirtekin í þágu markaðs-setningar á sakleysi þeirra, hreinleika og æsku, svo að fjármagns-öflin á bak við gætu grætt meira. Við vitum að þau ævintýri enduðu oft með því að ekki fór vel fyrir stjörnunni og veruleikinn var löngum annar en hin tilbúna ímynd virtist bjóða upp á !

 

Og nú virðist markaðssetning á mannfólki vera að færast yfir á fleiri svið. Stjórnmálasviðið þarf sem fyrr segir á hreinum ímyndum að halda, og þeir sem þar eru komnir til vits og ára hafa að sjálfsögðu ekki neina vist í veruleikanum sem slíkar ímyndir í hugum fólks !

 

Þessvegna virðist vera farið að blása upp áróðursmyndir af börnum sem vinna afrek og vilja bjarga heiminum. Í flestum tilfellum er þó hægt að sjá þar í bakgrunninum hvernig þetta fer af stað, hverjir skipuleggja hina viðkomandi áróðursherferð og hvernig fjölmiðlar eru notaðir til að byggja undir hina hreinu ímynd. Þar er sjaldnast einhver eðlileg framvinda mála !

 

Og með slíkum hætti eða einhverjum afbrigðum af þannig uppsettri línu, fáum við að heyra um börn sem eiga að fylla upp í tómarúmið sem getuleysi hinna fullorðnu hefur skapað. Þannig geta margir komið að því að búa til hreinar ímyndir, eins og Malölu Yusafsai og Gretu Thunberg, ímyndir sem ganga í augun á fólki um allan heim og hrífa það, eins og til dæmis Shirley Temple og Deanna Durbin gerðu í gamla daga !

 

Og slík börn geta fengið allskyns viðurkenningar og friðarverðlaun Nóbels í kaupbæti og þeim er hampað linnulaust. En þeim er ætlað að axla miklu meira en nokkur glóra mælir með að þau geti. Og ef einhverjir halda að það verði þeim til blessunar að baðast í sviðsljósum á æskuárum sínum og eiga líf sitt í fjölmiðlum við allsherjar athygli, fara þeir hinir sömu villur vega. Það er margsannað mál að slíkt getur leitt til mikillar ógæfu !

 

Þeir sem glata æsku sinni þannig að hluta til eða að öllu leyti, lenda yfirleitt síðar í tilvistarkreppu. Börnum er ekki ætlað að takast á við það flókna spil sem tengist slíkum lífsferli, og það álag sem því fylgir getur verið meira en lítið eyðileggjandi fyrir líf þeirra og framtíð !

 

Það er undarlegt að til skuli vera fólk sem ýtir börnum fram með þessum hætti svo maður tali nú ekki um foreldra. Það er sannarlega engin barnavernd finnanleg í slíku framferði. Hvað er þetta fólk að hugsa ? Heldur það virkilega að það sé að búa sér og öðrum til einhvern framtíðar-leiðtoga með svona fjarstýringu, jafnvel heimsleiðtoga ?

 

Á þannig að búa til einhvern súper aktivista sem tekur rétt á málum og kemur öllu í lag ? Eða vilja þeir sem hanna atburðarásina fórna öllu fyrir frægðina og athyglina sem þessu fylgir, án þess að hugsa nokkuð út í hugsanlegt píslarvætti þeirrar persónu sem þannig er – að ég vil segja – misnotuð ?

 

Þó að það kunni að vera rétt að fáir stjórnmálamenn séu til þess færir að halda einhverju hreinleikamerki á lofti, í loftslagsmálum eða öðru vegna spillingar og skorts á tiltrú, er mikil hætta á að verið sé að spilla lífshamingju barna þeirra sem hér er talað um og meiningin virðist vera að markaðsvæða til að fylla í það skarð. Slíkt ætti enginn að gera !

 

Hvernig eiga börn sem ganga í gegnum slíkt að standa undir væntingum í framtíðinni ? Og hvernig eiga þau að geta tekist á við allar þær spillingaröldur sem munu óhjákvæmilega skella á þeim og það fyrr en síðar ? Ég held að aðstandendur slíkrar markaðssetningar hafi ekki hugsað dæmið af ábyrgð og síst til enda. Mér finnst að með slíku sé í raun ljótur leikur í gangi og eitthvað í meira lagi loðið við slíkar uppstillingar !

 

Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna gengur mér vitanlega ekki út á það að markaðsvæðingaröfl og áróðurs-maskínur megi notfæra sér börn og sakleysi þeirra með því að velta þeim inn í voðalegan heim hinna fullorðnu löngu fyrir tímann. Getur nokkur komist heilbrigður frá slíkri meðferð ?

 

Ég hélt að börn ættu að njóta verndar samkvæmt alþjóðalögum gegn öllu sem getur haft það í för með sér að svipta þau eðlilegri æsku ?


Að glata landinu vegna hugarfarsrotnunar !

 

 

Fyrir nokkrum árum var talsverð umræða um uppblástur á Íslandi og þá var talað um að landið fyki burt. Nú mætti segja að landið flyti burt með íslensku laxveiðiánum sem orðnar eru eign útlendra auðkýfinga og aldagömul og endurfjármögnuð þrælslund landsmanna við erlend auðvaldsöfl gerir það að verkum að yfirvöld hér bukta sig bara og beygja !

 

Það örlar varla á manndómsrænu innanlands gegn slíkum kaupskap, nema þá helst ef auðmaðurinn er af þjóðerni sem ekki þykir æskilegt, eins og til dæmis ef hann væri kínverskur. Litla íslenska krílið á það nefnilega til að belgja sig út og skrækja : ,, Ég vil fá að ráða því hver étur mig !”

 

En hverju skiptir það hver á landið ef við eigum það ekki lengur ? Ef við seljum það úr höndum okkar, hvaða rétt höfum við þá til að blanda okkur í eignarhaldið eftir það ? Fullt af fólki hér, sem á einhver hlunnindi til lands og sjávar, oftast út af erfð, er tilbúið að selja land og annað ef það fær bara nógu gott tilboð eða ,,bunch of money” eins og sagt er !”

 

Eins og vitað er gengur nánast allt á Íslandi fyrir peningagræðgi nú til dags. Íslenska örþjóðin, eins sjálfselsk og sérgóð og hún er orðin í nútímanum, á auðvitað ekki lengur skilið að eiga þetta land !

 

Annars er ekki hægt að segja að þjóðin sem slík hafi nokkurntíma átt þetta land nema í orði kveðnu, hér hafa alltaf aðrir ráðið en hún. Ýmsar svokallaðar vinaþjóðir okkar hafa iðulega ráðskast hér með allt og jafnan haft í skítverkin nægar innlendar senditíkur og svo er enn. En þó þjóðarsagan sé ömurleg í þeim efnum, er ljóst að þetta land hefur alla tíð verið allt of góð eign til að vera í höndum – hvort sem er - íslenskra óvita eða útlendra braskara !

 

Fólk sem á eitthvað hér, fyrst og fremst fyrir erfð sem fyrr getur, hugsar bara um vellystingar augnabliksins. Það vill geta keypt sér hús á Spáni og það haskar sér svo þangað í býlífið, hvenær sem kemur golukaldi eða hríðarél á Íslandi. Hér er nefnilega ekki hægt að lifa – segir það !

 

Og þetta merglausa og af sér gengna eignafólk hefur auðvitað ekki efnast fyrir eigin dugnað, heldur fyrir að selja eignir hér, lönd og hlunnindi, sem það hefur fengið af erfð fyrir atorku eða arðráns-klókindi áa sinna. Það sýnir best hvernig vanþróunin og úrkynjunin er orðin á Íslandi !

 

Mergurinn er að hverfa úr fólkinu, þessum fáu kvikindum sem hérna tóra og þykjast í mikilmennsku-brjálæði minnimáttar-kenndarinnar enn vera þjóð í eigin landi. Sú mynd er hinsvegar að afhjúpast sem innantóm blekking því þeir sem gera sjálfa sig gildislausa verða fyrstir allra að engu !

 

Þeir sem ekki eru menn til að hirða um land sitt, nytja auðlindir þess og náttúrulegar gjafir og vilja selja frumburðarrétt sinn fyrir baunadisk fullan af silfurpeningum, missa landið í hendur þeirra sem vilja kaupa það og þar með allan rétt til þess !

 

Og sá veruleiki er einmitt að framkallast fyrir augunum á okkur. Það þýðir ekkert að grenja og kveina eftir á og ætla öðrum að bjarga málunum. Það þarf enginn að búast við því að íslensk yfirvöld bjargi einu eða neinu með framkvæmdavald og þing í viðvarandi undirgefnisstöðu gagnvart erlendu auðvaldi. Hér er engin þjóðleg reisn að neinu leyti til staðar gagnvart útlendum yfirgangsöflum og hefur aldrei verið !

 

Og breski auðjöfurinn sem hefur byggt upp fjármálaveldi sitt á efnaiðnaði, er nú allt í einu orðinn náttúruverndargúrú. Það mætti halda að í sumra augum væri efnaiðnaður nánast það sama og náttúruvernd, en nei, svo er sannarlega ekki. En sumir hafa hinsvegar verið að vinna að öðru en náttúruvernd í liðnum tíma og haft talsvert upp úr krafsinu, að sagt er !

 

En nú á að sögn að víxla hlutverkum og fara að hefja björgunarstörf, þegar allt er að sökkva í veröldinni í mengun og viðbjóð eftir fyrri tíma veisluhöld hinnar óheftu gróðahyggju. Í rottubjörgum slíkra veisluhalda hafa aðeins grimmustu nagdýr getað fótað sig í miskunnarlausri samkeppninni hingað til og þar sjáum við manninn !

 

Ísland er að vísu landið enn sem fyrr, en þjóðin er ekki þjóðin enn sem fyrr. Hún er villt og fortöpuð, hefur gengið á seiðinn í Mammons-tilbeiðslu sinni og trúir nú bara á dollara og pund. Sjálfsvirðingunni hefur hún í raun glatað og þar með mergnum úr eigin beinum !

 

Skynbragð hennar á andleg verðmæti er farið og nú hangir hún bara í menningar-slepjutaug á Passíusálmunum einum af gömlum vana, eins og flökkuhundur á roði. Allur raunverulegur kristindómur í landinu virðist þar með horfinn, þó steingerð stofnun lafi enn uppi með dauðgeldum hætti !

 

Og svo heldur fólk að það sé hægt að fagna slíkri niðurbrotsstöðu í þjóðlífinu, stöðu sem í veruleikanum undirstrikar einkum og sér í lagi aðeins eitt – yfirgengilegan og óþjóðlegan aumingjadóm þjóðarinnar !

 

Landið flýtur burt - flýtur burt úr höndum okkar, íslenskur eignarréttur á því er á endanlegri útleið. Dánarvottorð íslensks manndóms, íslenskrar reisnar, liggur þegar á hinu útskitna Íslandsborði, þar sem allt hefur verið merkt takmarkalausri peningagræðgi og botnlausum breyskleika !

 

Þar er fyrirframskráð hin verðandi dauðaorsök, – óhjákvæmilegt andlát af völdum langtíma fjárhagslegrar spillingar og þjóðlausrar uppgjafarhyggju !


Má ekkert fá að vera í friði ?

 

Það er einkar athyglisvert hvað mörg mál hafa komið upp á seinni árum sem virðast vitna um það einkum og sér í lagi hvað fólki gengur illa að vinna saman. Það liggur reyndar fyrir að hugsjónalegt vægi í málum hefur minnkað mikið frá fyrri tíð og jafnframt hefur aukist mjög einstaklingsvægi á grundvelli menntunarlegs gráðugildis. Þær breytingar á áherslum virðast hinsvegar ekki vera að skila sér með jákvæðum hætti fyrir samfélagsheildina og sú niðurstaða hefur vissulega vakið upp ýmsar spurningar sem mjög hefur vafist fyrir mönnum að svara !

 

Þegar stofnanir með annálaðan heiðursferil að baki eins og Reykjalundur verða undirlagðar deilum og missætti, er eitthvað neikvætt í gangi sem virðist af áður óþekktu tagi þar innan veggja. Það er dapurlegt að heyra af því ástandi sem þar virðist ríkja um þessar mundir. Einna helst virðist sem þar sé full mikið af fólki í forustustöðum sem sér ekki heildarhagsmuni stofnunarinnar fyrir eigin einstaklings-sjónarmiðum, hvort sem ástæðan er menntunarleg þröngsýni af þess hálfu eða gerræðisleg vinnubrögð þeirra sem eiga að ráða !

 

Og svo er talað um fagleg viðhorf og menntunarlega hæfni fram og aftur, sérfræðiþekkingu og sérstöðu einstaklinga, skort á eðlilegu samráði og ýmisskonar yfirtroðslur, vandamál sem hafi ekki verið leyst og lausnir sem ekki hafi gengið upp, en ekkert er hinsvegar minnst á það svið sem þetta blessað fólk virðist hreint ekki mikið menntað á, þrátt fyrir allar græddar gráður. Og hvað skyldi það vera ? Jú, það er hið síviðverandi svið hinna mannlegu samskipta !

 

Við sem þjóð þurfum að hafa þessi mál í lagi og við verðum að sigrast á öllu því sem stendur í vegi fyrir því. Þarna má ekki vera yfirgangur, ekki valdhroki, ekki menntunarhroki, ekki sérmenntunarhroki, enginn hroki !

 

Þarna verður að vera fyrir hendi skilningur á báða bóga, að hver gæti skyldu sinnar með eðlilegum hætti, eins og virðist hafa verið gert hér á árum áður. Það er ærið víða virkur sundurlyndisfjandi í okkar samfélagi, en hingað til hefur hann ekki skorað hátt á Reykjalundi !

 

Hreinsa þarf öll áhrif sundurlyndis þaðan burt sem fyrst og það verður að kappkosta að endurreisa starfssemina í anda þeirrar líknarhugsjónar sem þar var höfð að grundvelli. Við megum ekki láta sérgæsku sjónarmið eyðileggja samfélagsleg afrek fyrri kynslóða og það sem meira er – við höfum ekki efni á því. Hvar sem er skortur á heilbrigðum mannlegum samskiptum er flestu hægt að rústa. Hvar sem fólk sem á að vinna saman þjónar ekki sömu markmiðum, þar eru varasamar brotalamir til staðar !

 

Við sjáum hvernig allt heilbrigðiskerfið virðist riða af sömu ástæðum. Einkavæðingarhyggja hefur þar náð allt of langt og enginn þjónar tveimur herrum af samsvarandi trúmennsku. Vantraust almennings á ástandi þeirra mála fer sívaxandi og mál er að linni því niðurrifsferli !

 

Sú hugsjón að heilbrigðiskerfið sé til að þjóna fólkinu, þjóðinni, hefur á seinni árum virtst eiga erfitt með að halda velli gagnvart vélrænu sérfræði- kerfi sem gengur eingöngu fyrir háu peningalegu greiðsluafli. Það stefnir í það að þjóðin hafi ekki mikið lengur efni á að leita slíkrar þjónustu, enda þegar farið að bera nokkuð á því !

 

Við höfum yfirgefið gömlu göturnar á mörgum sviðum og þegar við fylgjum ekki lengur þeim forskriftum sem eru undirstöðulínur allrar líknarstarfsemi verður mörgu hætt í samfélaginu. Og þegar það gerist vegna síaukinnar kröfugerðar óhaminnar sérgæsku, fer það að verða áleitin spurning hvort við, borgarar þessa lands, höfum efni á því að þiggja læknishjálp sem kann að kosta okkur allan okkar fjárhag og skilur svo við okkur með eyðilagða afkomu !


Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 26
  • Sl. sólarhring: 75
  • Sl. viku: 595
  • Frá upphafi: 365493

Annað

  • Innlit í dag: 23
  • Innlit sl. viku: 508
  • Gestir í dag: 23
  • IP-tölur í dag: 23

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband