Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2022

Hvernig verða menn þjóðleysingjar ?

 

 

Það liggur fyrir í dag að allar norrænu þjóðirnar eru að glata lífsgildum sínum. Það fjarar undan þeim jafnt og þétt. Sífellt aðstreymi fólks af allt öðru tagi þynnir þau út og eftirgjöfin er alltaf af okkar hálfu. Það er í raun verið að yfirtaka okkur !

 

Drjúgur hluti þess fólks sem kemur til landa okkar undir því yfirskyni að það komi til að vera eitt með okkur, er með allt annað í huga. Það vill arðræna í skjóli fjölmenningar. Það vill fá hlutdeild í þeim arði sem erfiði liðinna áratuga hefur skilað okkur. Erfiði feðra okkar og mæðra !

 

Það vill eignast hlut í ágóða sem það hefur ekki á nokkurn hátt unnið til. Eignast lífskjör sem aðrir hafa unnið fyrir hörðum höndum. Hvaða sanngirni liggur þar að baki ? Hvaða rök tala fyrir slíkri hlutdeild ?

 

Það eru skiljanlega engin þjóðmenningarleg rök fyrir slíku, en það virðist talað nokkuð grimmt fyrir slíkri niðurstöðu af hálfu ,,hinna víðsýnu,” þeirra sem segjast aðhyllast svokallaða fjölmenningu. Þeirra sem stöðugt eru að segja : ,, Öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir !”

 

Staðreyndin er hinsvegar sú að slíkur vinskapur er blekking og getur aldrei orðið annað. Blekking sem gefur rándýrum skógarins, og þeim sem hafa ekkert gott í hyggju, betri tækifæri til að verða sér úti um bráð ?

 

Í fjölmenningarríki verða ekki síður en annarsstaðar einhverjir hópar voldugastir og þeir kúga þá aðra. Það verður aldrei um neinn jöfnuð að ræða í slíkum suðupotti ólíkra mannfélagshópa. Það segir sig sjálft !

 

Minnihlutahópar innflytjenda sem vaxa að styrk munu gera frekari kröfur eftir því sem þeir eflast. Og ofbeldi mun smám saman fylgja þeim kröfum. Fjölmenning er ekki boðskort að friði – miklu frekar ófriði !

 

Það er alveg jafnmikil þörf á því í nútímanum sem fyrri tímum að menn séu á verði og hugi að gildum sínum. Þar liggja rætur okkar og römm er sú taug. Þjóðfrelsisleg hugtök eiga fullan rétt á sér nú sem ætíð !

 

Sá sem verðfellir sín eigin gildi verður óhjákvæmilega undirgefinn öðrum gildum og endar með því að týna sjálfum sér í suðupotti blekkinganna !

 

Hann verður þjóðleysingi í landi sínu sem verður heldur ekki til lengdar hans land. Hann fyrirgerir rétti sínum til þess með virðingarleysi sínu gagnvart eigin gildum. Hann kallar á slík örlög og á þau skilið !

 

Skyldum við Íslendingar enda skeið okkar sem slíkir þjóðleysingjar ?

 


Breski hrokinn !

 

 

 

Það mun mála sannast að engin þjóð hafi á seinni öldum fengið annað eins tækifæri til að láta gott af sér leiða á heimsvísu eins og Bretar. En að stærstum hluta eyðilögðu þeir þá möguleika sína. Nýlenduveldi þeirra var allt undirlagt mismunun, þar sem hvíti, breski sahibinn, drottnaði !

 

Það var ekki síst vegna þess mikla hroka sem þeir jafnan sýndu þjóðum þeim sem undir þá voru settar, og setti mark sitt á allt nýlenduveldi þeirra, að þeim mistókst að verða öðrum til hjálpar og blessunar. Sú framkoma verður ætíð mikill skammarblettur á breska heimsveldinu !

 

Hinar Evrópuþjóðirnar sem stunduðu nýlendu-arðrán, eins og Spánverjar, Portúgalir, Frakkar, Hollendingar, Belgar, Ítalir og Danir, voru svo sem ekkert skárri, en Bretar voru lengstum það nýlenduveldi sem gaf líklega tóninn. Þeir hefðu getað verið hinum fyrirmynd en voru það hreint ekki !

 

Hefðu Bretar komið manneskjulega fram við allar þessar þjóðir sem þeir höfðu yfir að ráða, hefði framhald mála í nýlendum þeirra orðið allt annað og farsælla – fyrir alla aðila og heimurinn orðið betri fyrir bragðið !

 

En bresk stjórnvöld hafa alltaf verið undir forræði hrokafullrar forréttindaklíku og yfirstéttarþorpara sem hafa misnotað stórlega hið þjóðlega pund. Það var litið niður á allt sem ekki var enskt og þar að auki bjuggu lægri stéttir breska samfélagsins lengstum við kúgun og hörmuleg lífsskilyrði af hálfu þeirra sem ofar stóðu !

 

Framferði núverandi forsætisráðherra Breta sýnir berlega að hann situr í sínum stól á fullum forsendum hins breska hroka. Hann virðist telja sig ofar lögum og reglur um samfélagslega hegðun og ábyrgð eigi ekki við hann. Hann sýnir þeim lögum sem hann á að fylgja - eins og aðrir - fulla fyrirlitningu. Hann er klaufalegur í framgöngu og kann sig ekki !

 

Margir munu telja að í framkomu hans felist skýr vitnisburður um það að hann sé óhæfur til að gegna því embætti sem honum hefur verið falið. En flokkur hans hefur aldrei getað teflt fram almennilegum mönnum til þeirrar stöðu. Og venjan er hjá þessum mönnum að biðjast bara afsökunar, ef það kemst upp um villuspor þeirra. Svo á allt að vera í lagi !

 

Löngu áður en Neville Chamberlain kom með plaggið um ,,frið um vora daga “ vansællar minningar, voru forsætisráðherrar Bretaveldis ekki sérlega bitastæðir karakterar og ekki hafa þeir orðið betri þaðan í frá. Þeir hafa allir verið fulltrúar fyrir breskan yfirstéttarhroka, hver með sínum hætti. Það er ljóta hersingin !

 

Bretar eru hinsvegar ekki í neinu aðalhlutverki í dag í heimsmálum, sem betur fer. Þeir fóru illa að ráði sínu meðan þeir settu mark sitt á heiminn og gerðu hann ekki betri á nokkurn hátt þó þeir hefðu átt að geta það. Og nú virðast þeir ekki eiga neitt eftir í sinni sálartösku nema hrokann !

 

Það má þó sjá, að þeir reyna enn sem þeir geta að príla upp á stóra sviðið í heimsmálunum, en það er orðið vonlaust mál fyrir þá. Þeir eru löngu orðnir úrkynjaðir og kraftlausir á allan hátt og minna helst í aumingjaskap sínum á Frakka !

 

Það eru verðug örlög !

 

 

 

 

 

 


Hvernig verður sigrast á Covid - 19 ?

 

 

Það hefur orðið æ ljósara eftir því sem baráttan við Covid veiruna hefur dregist á langinn, að þrátt fyrir öll vísindi nútímans og hátt tæknistig, eru menn ekki að ráða við vandann !

 

Það er líka tekið á honum af ráðandi öflum með mjög sérhagsmuna-tengdum hætti sem kemur illa við marga og hamlar þjóðlegri samstöðu, sem er alger lífsnauðsyn þegar svona stendur á !

 

Samfélagslegur styrkur þjóðfélaga sem ganga fyrst og síðast fyrir kapitalískum kennisetningum um nauðsyn hámarksgróða, er einfaldlega ekki mikill þegar kemur að því að mynda þarf heildarsamstöðu gagnvart utanaðkomandi ógn. Slík samstaða verður þá oftast í skötulíki !

 

Auk þess er með ólíkindum hvað ábyrgð rekstraraðila virðist lítil þegar allt kemur til alls. Stærstur hluti rekstraraðila í landinu virðist gera kröfur til ríkisins ef illa gengur og vilja vísa allri ábyrgð þangað. Slíkir aðilar virðast telja sjálfsagt að skattpeningur þjóðarinnar verði notaður til að halda þeim uppi og rekstri þeirra !

 

Hverskonar einkarekstur er þar í gangi ? Þegar vel gengur er öllu sólundað í einkaneyslu og vellystingar og enginn varasjóður byggður upp til varnar erfiðari tímum. Ef þeir koma á bara að hlaupa í skjól ríkisins ?

 

Stór hluti rekstraraðila í landinu virðist þannig hreint ekki ábyrgur þegar á hólminn er komið. Hvað eru slíkir aðilar að gera með því að standa í rekstri ? Jú, þeir vilja græða, þeir eru á höttunum eftir hámarksgróða, en siðræn lögmál ábyrgðar og fyrirhyggju virðast þeim hinsvegar víðs fjarri !

 

Það er því ekki af því góða að einkaaðilar grafi undan ríkissjóði Íslands með slíkum hætti sem virðist hafa viðgengist. Það veikir það öryggi sem ríkið á að tryggja fyrir almannahag. Eftir því sem einkaaðilar hafa meira innhlaup inn í ríkisfjárhirsluna verður hún minni trygging fyrir alþjóð !

 

Nú er vitað hverjir vilja styðja einkaaðila sem mest og tryggja þeim hámarksgróða og þeir hinir sömu eru þá auðvitað lökustu vörslumenn fyrir almannahagsmuni sem völ er á. Það er því skiljanlega vont, og verra en vont, að vita fjöregg okkar allra, - sjálfan þjóðarhaginn, í höndum slíkra vörslumanna. Í mínum huga vegur það að allri almennri öryggiskennd !

 

Það var augljóst frá byrjun, að við áframhaldandi stjórnarsamstarf myndi íhaldið vilja koma Svandísi Svavarsdóttur burt sem heilbrigðismála-ráðherra, enda þótt hún þætti standa sig þar vel !

 

Svandís var hinsvegar ekki að fylgja þeirri stefnu að gera heilbrigðiskerfið undir forustu ríkisins ótrúverðugra eða ýta undir einkavæðingu þess. Og sköruleg framganga hennar hugnaðist því alls ekki þeim sem vilja slíkt !

 

Margsinnis hefur komið fram í könnunum að mikill meirihluti þjóðarinnar vill að heilbrigðismálin séu rekin af ríkinu og það hefur alltaf farið afskaplega fyrir brjóstið á afturhalds og sérgæskuöflunum í landinu !

 

Reyndar er svo komið í heilbrigðiskerfinu að það hefur nánast tvö höfuð, annað virðist þegar einkavætt en hitt ekki. Það gerir öllu skipulagi og stjórnun erfiðara um vik því samhæfing alls kerfisins er nánast ógerleg við slíkar aðstæður. Þar er samhliða verið að reyna það ómögulega – að þjóna bæði Almættinu og Mammon !

 

Hinn nýi heilbrigðismálaráðherra er líklega talinn eitthvað nær íhaldinu í afstöðunni til þessara mála og fróðlegt verður að sjá hvernig hann kemur til með að spjara sig í embættinu. En hann má standa sig vel, ef hann ætlar að reynast betri en Svandís Svavarsdóttir í þessu vandasama embætti !

 

Þegar að þjóðinni steðjar hætta eins og Covid-19 er og hefur verið, á ekki og má ekki beita fjármagni og getu ríkisins til varnar vágestinum með því að hygla þeim sem síst skyldi. Arðránsöfl þessa lands eiga þá ekki að fá að arðræna almenning áfram í gegnum rausnarleg tillög úr ríkissjóði. Einkaaðilar eiga og verða að vera ábyrgir fyrir sínum rekstri, hver svo sem hann er. Þeir eiga ekki að vera á framfæri almennings í landinu !

 

Við sigrumst ekki á Covid-19 nema með þjóðlegri samstöðu. Slík samstaða fæst aldrei við þær aðstæður sem hér hafa fengið að ráða. Það er, þegar séra Jónar einkarekstursins fá að vera ábyrgðarlausir og eru alltaf hafðir í öndvegi hvað snertir fjárhagslega fyrirgreiðslu af hálfu hins opinbera !

 

 


Ógeðslega íhaldshækjan !

 

 

 Pólitíska furðuflækjan

fram og aftur berst.

Ógeðslega íhaldshækjan

er þar sýnu verst !

 

Vinstri græningjar hafa nú gengið í gegnum einar kosningar eftir að hreyfingin gekk á mála hjá íhaldinu. Þar töpuðu þeir þremur þingmönnum og pólitísk staða þeirra veiktist að miklum mun !

 

Alþýðuflokkurinn gekk í gegnum þrennar kosningar sem hækja íhaldsins á hinum svokölluðu og rangnefndu viðreisnarárum. Flokkurinn varð minni og minni og síðast þurrkaðist hann nærri því út !

 

Í kringum 700 atkvæði í Reykjavík gerðu honum samt kleyft að hanga á kjördæmakosnum þingmanni. Annars hefði flokkurinn fallið út af þingi sem hefði átt að vera hverjum sönnum vinstri manni á þeim tíma mikið fagnaðarefni. En af hverju hékk hann inni, það er stóra spurningin ?

 

Margir töldu að kratar hefðu fengið mestan hluta þessara 700 atkvæða ,,að láni” frá íhaldinu, enda var vitað fyrir kosningar að þeir stóðu tæpt og íhaldið vildi fyrir hvern mun halda hækjunni !

 

Nú eru vinstri græningjar komnir inn á þessa sömu feigðarbraut. Þeir hafa þegar misst þrjá þingmenn eftir þessar fyrstu hækjukosningar, næst tapa þeir vonandi öðru eins ef ekki meira fylgi og við þriðju kosningarnar gætu þeir þá sem hægast þurrkast út og vonandi gera þeir það !

 

Sumum virðist ekki eiginlegt að vera sjálfum sér samkvæmir. Það sést best á forustu vinstri græningja. Hún hefur ekkert að bjóða nema óheilindi !

 

Engin ærlegheit felast í því að styðja framagirni og eiginhagsmunapot sem tekur sýnilega aðeins mið af persónulegri upphafningu. Svikafénaður er ekkert nema ógeð eins og allt sem siglir undir fölsku flaggi. !

 

Það verður ógnardýrt fyrir almenning þessa lands, að íhaldið geti ráðskast með ríkisfjármálin alls í 8 ár, en það er okurverðið sem krafist er fyrir að Katrín Jakobsdóttir fái að vera áfram forsætisráðherra. Ferilskrá hennar og frami virðist það eina sem máli skiptir hjá hækjuforustunni !

 

Bjarni toppskarfur íhaldsins er og verður áfram stórskaðlegur í forhertri ríkisfjármálastefnu sinni fyrir sérhagsmunina. Í því felst meiri hætta en nokkur gæti ímyndað sér. Varðveisla almannahagsmuna er langt frá því að vera hans sérgrein. Hann er gagnvart þeim hagsmunum verri en margfaldur minkur í hænsnakofa !

 

Íhaldið fær nú gífurleg tækifæri fyrir helbláa sérhagsmunastefnu sína og allt er það fyrir atbeina og á ábyrgð vinstri græningjanna !

 

Oft lögðust kratar lágt hér á árum áður til að þjóna íhaldinu og það sama hefur Framsókn stundum gert. Alltaf hefur slíkt verið á kostnað heilbrigðra félagslegra framfara og almannaheilla !

 

Nú virðast vinstri græningjar ætla að fara jafnvel lengra í þjónkun við íhaldið en umræddir flokkar hafa gert og setja nýtt met í svívirðunni. En sem betur fer eru skuldadagarnir þegar farnir að sýna sig !

 

Það er illt og verra en illt, þegar meint hugsjónastefna breytist í andstæðu sína og fólk verður það blint í sjálfselsku sinni að það sér ekkert annað !

 

Hugsanlega hefur Skalli þó séð í hvað stefndi og forðað sér, enda er barnið sem hann kom á legg orðið að algerum umskiptingi !

 

Yfirlýstur vinstri flokkur sem ætlar sér að sitja í hægri stjórn í 8 ár og selur sig til svo öfugsnúinnar þjónustu er ekki lengur það sem hann segist vera !

 

Hann er þvert á móti orðinn hækja fyrir afturhaldið í landinu og til skammar á allan hugsanlegan máta. Sic Transit Gloria mundi !

 

 

 


Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 6
  • Sl. sólarhring: 56
  • Sl. viku: 575
  • Frá upphafi: 365473

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 491
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband