Leita í fréttum mbl.is

Svartliðabragur

 

 

 

Hér ég vil af huga og sál

hefja ræðu um þjóðar mál.

Yrkja af krafti kræfan brag,

kannski að verði á því lag !

 

Oft er rót í Reykjavík,

rausað margt í pólitík.

Gleiðir standa glámar þar,

gleypa margar dúsurnar.

 

Höfuðborgin heimtar allt,

hennar líf er sálarkalt.

Efnishyggju hítin þar

hirðir þjóðartekjurnar.

 

Steingervingar steins í höll

standa þrátt við Austurvöll,

ófærir um alla dáð,

eiga hvergi til nein ráð.

 

Rotin mál hjá ríki og borg

rekkum valda hugarsorg.

Víða spilling þungbær þrífst,

þar við fátt er löngum hlífst.

 

Fjármagns sjúkir fólar þar

fara á svig við reglurnar.

Siðleysingjar sækja um völl,

sálarlaus er hirðin öll.

 

Lands og þjóðar þroska svið

því fær síst af öllu frið.

Þar er allt á þrauta leið,

þráfalt tíðkuð spjótin breið.

 

Niður höggvið allt þar er,

enginn neitt til vega sér.

Sérhver hugsjón svelt í hel

sem þar gæti dugað vel.

 

Hrægammar á hægri slóð

hugsa síst um land og þjóð.

Brugga launráð bak við tjöld,

bera aldrei hreinan skjöld.

 

Sérgæskunnar svartliðar

sýna skítlegt hugarfar.

Vilja í græðgi og gróðaþrá

ganga öllum dyggðum frá.

 

Burgeisar í breiðri sveit

bjóða gullin fyrirheit.

Kaupa fylgi klækjum með,

kunna að taka í sálum veð.

 

Svikulir í innstu æð

enn þeir nota vopnin skæð.

Sækja í það að sjúga blóð,

sérstaklega úr eigin þjóð.

 

Böðulshugsun þeirra er þekkt,

þar sem öllu góðu er hnekkt,

bundin einu um ævidag,

að ýta málum sér í hag.

 

Þar sem rótin ills er ein

ávaxtar hún stöðug mein.

Hver sem þjónar hennar hít

hefur gildi einskisnýt.

 

Auðgunar við ærna fíkn

ekki er neinu boðin líkn.

Mammonsgræðgin mikla þar

merkir allt til glötunar.

 

Því við lífsins brunnið blys

beina leið til helvítis

fari að réttum sakar sið

sérgæskunnar glæpalið !

 

 

 

 

 

 


Ríkisvald á flótta ?

 

Til að hægt sé að halda uppi virðingu fyrir lögum og rétti, verða stjórnvöld að standa fast í fætur og sýna getu sína til þess. Þau forsendurök eru og eiga að vera gildisbær í öllum þjóðlöndum heims !

 

En í sumum löndum virðist sem hugtök laga og réttar séu komin í hinar mestu ógöngur og kannski einna helst í hugum þeirra sem eiga að líta á það sem skyldu sína að verja þau. Það er óheillavænleg framvinda mála !

 

Nú hefur glæpalýðurinn í Mexíkó knúið ríkisstjórn landsins til að láta lausan einn helsta glæpaforingjann þarlendis og þar með hrósað sigri í átökum sem blossuðu upp við handtöku hans !

 

Hvað verður um virðingu ríkisstjórnar sem gefst upp fyrir þeim öflum í landinu sem virða hvorki lög né rétt ? Hver verður eftirleikurinn þegar slík uppgjöf hefur átt sér stað ? Liggur ekki fyrir að gengið verður á lagið ?

 

Hvers er ríkisstjórnin í Mexíkó megnug, hvers er lögreglan þar megnug og hvers er her landsins megnugur ? Er þetta allt orðið svo grafið í spillingu að ekki sé hægt að treysta þar á neitt ?

 

Eru bandarísk stjórnvöld kannski fyrst og fremst að reyna að vegg-verja sig gegn ástandinu eins og það virðist vera orðið í Mexíkó ? Er Mexíkó kannski að komast alfarið undir forræði glæpahópa ?

 

Það kann ekki góðri lukku að stýra þegar samfélags-valdið virðist komið í hendurnar á óæskilegasta hluta þjóðarinnar – þeim hluta sem hefur lifibrauð sitt af glæpum. Morðöldur í Mexíkó hafa risið hátt um langt skeið og þar virðist ýmislegt í gangi sem gengur þvert á það sem vera ætti !

 

Uppreisnarandi er fyrirferðarmikill í samtímanum og til er að framferði lögreglu og glæpahópa sé nánast sambærilegt. Þegar yfirvöld hegða sér, eins og raunin virðist vera sums staðar, verður öryggi almennings lítið !

 

Það er áhyggjuefni á heimsvísu þegar óhæfir menn eru kosnir til valda í gegnum lýðskrum og óheilindi og fara að ráðskast með heilu þjóðlöndin á ólíðandi hátt eins og fjölgandi dæmi sýna. Margir litlir Hitlerar geta orðið til þess að skapa einn stóran !

 

Í slíkum tilfellum sést til dæmis máttleysi Sameinuðu þjóðanna. Þar er ekkert afl til staðar þegar taka þarf á málum. Öðruvísi átti það nú að vera í upphafi, en sú von er löngu brostin og lögleysið veður uppi !

 

 


Um skurðgoð allra tíma !

 

 

Frá Tróju komu Æsir upphaflega

og urðu guðir víða um Norðurlönd.

Menn gengu þar um slóðir villuvega

og voru eins og lagðir þar í bönd.

 

Því goðsagnir þar gripu hugi opna

og gátu síðan ráðið yfir þeim.

Menn tengdu allt við stríð og veröld vopna

og vildu deyja inn í guðaheim.

 

Þeir hetjuveröld sína reyndu að róma

og rækta loga á goðsagnanna kveik.

Og sögðu að Valhöll biði í björtum ljóma,

er blóðugir þeir kæmu úr hildarleik !

 

Þar manndráp áttu manndómsgildi að sanna

en mildi sögð var aumingjum í hag.

Menn hugsuðu því stíft til illra anna

og ennþá gera margir það í dag !

 

Þó breyttist margt er kristnin kuklið hrakti

og kynnti í fyrstu miklu betra svið.

En spilling jókst og allt það endurvakti

sem ól að nýju svikult valdalið.

 

Svo skurðgoðum er þjónað eins og áður,

sú auma staða þekkist víða um lönd.

En ævivegur illum verkum stráður

mun aldrei skila góðu í nokkra hönd.

 

Um heiminn allan blóð úr benjum rennur

og böðlar setja á dauðalista nöfn.

Sú heift sem víða í hjörtum manna brennur

er hnattræn vá og kjarnorkunni jöfn !

 

Og enn er Valhöll heiðið hugarvígi

sem hyllir líkt og forðum auð og völd.

Og þar er allt sem áður byggt á lygi

og ekkert nema falsið bak við tjöld.

 

Þar koma þeir sem kjósa að dýrka valdið

og krjúpa í auðmýkt fyrir böðlum þeim

sem húka þar á bak við bláa tjaldið

og boða allt sem skaðar þennan heim !

 


,,Ég ætla bara að láta brenna mig !”

 

 

Oft hef ég heyrt fólk ræða um það hvernig það vill að útför þess fari fram að loknu jarðlífinu. Og þá kemur mjög oft í ljós, að fólk á erfitt með að hugsa sig andlega lifandi. Það virðist vilja hanga fast við líkamann út yfir gröf og dauða. ,, Ég læt ekki grafa mig,” segja sumir, ,, ég get ekki hugsað mér að fara ofan í jörðina !”

 

Fjöldi fólks virðist alfarið ætla að vera í líkamanum eftir að hann er dauður. Menn virðast hvorki geta hugsað um sig sem sál eða anda !

 

Í nánast altækri efnishyggjuveröld okkar tíma virðist stefnan sú að útrýma hinu kristna fyrirheiti sem hljóðar þannig: ,,Af jörðu ertu kominn, að jörðu skaltu aftur verða, af jörðu skaltu aftur upp rísa !” Og Ritningin segir ennfremur, ,,þegar maðurinn deyr fer andinn til Guðs sem gaf hann !”

 

Fyrirkomulagið er skýrt. Líkaminn deyr, en andi mannsins og sál bíða upprisunnar, sem er þriðji hluti fyrirheitsins og þar með endurnýjun lífsins. Hljóðar það ekki upp á ásættanlega niðurstöðu ? Hvert er þá vandamálið ?

 

Vandamálið er, að fólk vill ekki hlíta þessu. Það vill ekki verða að jörðu þó að það sé komið af jörðu. Það vill miklu heldur láta brenna sig eins og það orðar það. Sama fólkinu og hryllir við því að verða grafið, finnst allt í lagi að það sé brennt. Það er einkennilegur tvískinnungur í þeirri afstöðu. Undir hvaða fyrirheiti er fólk brennt ? Er eitthvað fyrirheit þar að baki ?

 

Í vissri tegund af heiðni sem nú er víða hyllt, er mikið lagt upp úr því að líta á jörðina sem móður. Margt í þeim kenningum virðist upprunalega komið frá indíánum, en samt virðast margir sem tala fyrir slíku viðhorfi, ekki sérlega hrifnir af því að samlagast jörðinni, ekki einu sinni að þeim hluta sem eftir verður hér þegar lífið skilur við hann !

 

Það sem lifir þegar maðurinn deyr jarðneskum dauða er sannarlega ekki líkaminn. Hann er einungis húsið sem sálin býr í meðan jarðneska tilveran varir. Hann er aðeins hylki, umbúðir, og enganveginn hinn óforgengilegi hluti þeirrar sköpunar sem við erum. Við ættum öll að vita fullkomlega um endanleg afdrif líkamans, en samt virðist allt annað í gangi varðandi hann !

 

Líkamsdýrkun nútímans er nefnilega orðin með ólíkindum og það fólk sem allt er í efninu talar yfirleitt eins og það sé ekkert nema líkami. Það ræktar líkamann af blossandi ástríðu alla daga og virðist hirða öllu minna um sálina og nánast ekkert um andann. Svo þegar það deyr er það bara dauður líkami, ekki til að verða að jörðu, heldur ösku. Til hvers var þá öll súper-ræktunin ?

 

Biblían talar um að maðurinn skuli fara vel með líkama sinn og ástunda heilsusamlega lifnaðarhætti. Og skýringin er sögð sú, að meðan maðurinn lifir sé líkaminn musteri Heilags Anda sem í mönnum er fyrir atbeina Guðs. Síðan er sagt : ,,Vegsamið því Guð með líkama yðar !”

 

Menn reyna eftir efnum og ástæðum að fara vel með hús sín, ekki vegna þess að húsið sé lifandi í sjálfu sér, heldur vegna þess að það geymir lífið sem stendur mönnum næst – fjölskyldulífið !

 

Það þarf að varðveita heimilið í sem bestu ásigkomulagi vegna þess hlutverks sem það hefur, að innifela og tryggja fjölskyldunni skjól og varnir meðan á jarðlífinu stendur. Eins er það með líkamann. Hann þarf að vera það skjól sem honum er ætlað að vera þann tíma sem þörfin krefur !

 

Gömlu Grikkirnir sögðu ,,Mens Sana in Corpore Sano,” heilbrigð sál í hraustum líkama. Andleg og líkamleg heilbrigði þarf að eiga samleið, þá er manneskjan heil. Ofuráhersla á líkamlega atgervisstöðu kemur yfirleitt, með einum eða öðrum hætti, niður á andlega lífinu sem líkaminn geymir !

 

Þegar jarðlífið er að baki, er það eðlilegasta af öllu eðlilegu að líkaminn fari aftur til jarðarinnar. Jarðneskar leifar eiga að vera jarðneskar leifar.

Þegar lífið er farið úr líkamanum og tenging sálar og anda við líkamann þar með rofin, hefur líkaminn lokið sínu hlutverki !

 

Það er ekkert ,,ég” sem tengist því að vera grafinn eða brenndur. Lífið sem var í líkamanum er farið annað. Og þar sem það líf er, þar er það líka sem menn vilja nota hugtakið ,,ég” um. Og líf okkar er þar varðveitt af Guði !

 

Við erum þannig enganveginn tengd því sem dautt er, heldur fullum forsendum áframhaldandi lífs. Við eigum sem sagt - þegar þar að kemur, hlutdeild í því eilífa lífi sem Guð einn gefur !


,,Ó, þessar leiðinda launagreiðslur !”

 

Í eina tíð var litið svo á að menn sem stæðu fyrir atvinnurekstri væru vinnuveitendur. Og í nokkrum tilfellum í gamla daga var jafnvel talið að sumir þáverandi aðilar sem höfðu atvinnurekstur með höndum, væru fyrst og fremst vinnuveitendur !

 

Þá er líklega verið að vísa til manna eins og Haraldar Böðvarssonar, Einars Guðfinnssonar og slíkra, sem höfðu það líklega í og með sem ákveðna lífshugsjón að byggja upp heimabæi sína og skapa kröftugt atvinnulíf og blómlegt mannlíf !

 

Og seint verður framlag slíkra öndvegismanna metið til fulls, en samt er það svo að þegar litið er til heildarmyndar, hafa slíkir menn ekki verið margir. Flestir sem stóðu í rekstri voru miklu frekar og öllu heldur atvinnurekendur en vinnuveitendur !

 

Það er að segja, hugarfarið var með þeim hætti. Þeir voru fyrst og fremst að þjóna auðgunarhvöt sinni sem leiddi þá suma hverja nokkuð langt eins og dæmin sönnuðu. Það varð til þess að arðránið varð svo mikið að það kallaði á andspyrnu og margháttuð átök. En hér er ekki hugsað til þess að rekja þá sögu, enda hefur það víða verið gert !

 

Hinsvegar mætti hugleiða nokkuð þá manngerð sem virðist helst vilja stunda rekstur í dag. Þar er sýnilega að langmestu leyti um atvinnurekendur að ræða sem margir hverjir virðast vera býsna hallir undir afgerandi frjálshyggjusjónarmið !

 

Það virðist engin sérstök hugsun beinast að því að skapa atvinnu, þaðan af síður vera til staðar einhver samfélagsleg uppbyggingarsjónarmið. Nei, eina hugsunin og eini drifkrafturinn virðist vera löngunin til að auðgast með einhverjum hætti !

 

Fyrir hrun margfaldaðist í þeim dúr sú árátta í mörgum, við galopin kerfisskilyrði, að stunda ítrustu áhættusækni til að hámarka hugsanlegan ávinning. Fjármálakerfið allt virtist ganga fyrir ótakmarkaðri græðgi og eftir því sem menn voru gírugri virtust þeir fá meiri fyrirgreiðslu !

 

Afleiðingar urðu þær að þjóðfélagið fór á hliðina og slík efnahagsafbrot áttu sér stað að aldrei verður unnt að gera þá hluti upp til neinnar viðhlítandi leiðréttingar. Viljinn til þess af hálfu kerfisins hefur líka oftast verið talinn í blekkingarfullu skötulíki og mikil tilhneiging til að gleyma öllu saman. En mörg eru samt sárin sem blæða enn frá þessum ræningjatíma og munu lengi blæða !

 

Ein afleiðingin frá umræddum tíma er - að fyrirhrunsárin virðast hafa byggt upp hérlendis einskonar oligarka-klíku sem náði ómótmælanlega að auðgast ótæpilega með ýmsum hætti við hinar óeðlilegu aðstæður og situr enn að mestu ótrufluð að sínum fúlgum !

 

Frá þeim sjálfhverfa hópi heyrast stundum umsagnir í fjölmiðlum sem upplýsa nokkuð vel hvernig þar er hugsað. Sérstaklega er athyglisvert þegar slíkir aðilar tala um að það væri ekkert mál að reka fyrirtæki ef launin væru ekki svona há. Það væru launin sem væru allt að drepa !

 

Á slíkum yfirlýsingum sést gjörla að viðkomandi aðilar eru ekki miklir vinnuveitendur. Þeir myndu hinsvegar áreiðanlega treysta sér í hvaða rekstur sem væri ef þeir gætu alfarið ráðið launakjörunum !

 

Best væri líklega að þeirra mati að vera með þræla, en auðvitað má ekki nefna neitt slíkt. En í raun og veru virðist það vera draumastaðan, að losna við allt sem heitir verkalýðs-varnarþing og atvinnubundin mannréttindi. Þá væri nú hægt að dansa um víðan völl og skammta eftir rekstraraðstæðum !

 

Jafnvel rekstraraðilar sem hafa ekki kunnað fótum sínum forráð, hafa farið offari í græðgi eða bara skort alla hæfni til að stunda rekstur með vitsmunalegum hætti, eiga það til að kenna of háum launakostnaði um þegar allt er strandað. Það er þó býsna hláleg afsökun !

 

Launaliðir eru oftast mjög fyrirsjáanlegir og ættu að geta verið nokkuð skýrir á borðinu þegar mörkuð er stefna til komandi tíðar. En þegar ráðist er í allskonar útrás í ótaminni græðgishugsun, án þess að hirða um fastan fyrirliggjandi rekstrarkostnað, er oftast lítil sem engin fyrirhyggja höfð að leiðarljósi. Þá er bara einblínt á væntanlegan óskagróða !

 

Og þegar ferlið springur í höndunum á forstjóranum, er því um að kenna að hans sögn, að starfsfólkið hafi verið á allt of háum launum. Það var of gráðugt – ekki hann !

 

Það er skrítið þegar afdankaðir gjaldþrotafurstar, menn sem hafa flogið allt of hátt, koma fram í fjölmiðlum og halda svona hlutum fram beinlínis eða undir rós. Einkum er það skrítið að fjölmiðlamenn skuli ekki reka svona fleipur ofan í þá og sýna þeim fram á að slíkur málflutningur haldi ekki vatni. Nei, það er ekki verið að andmæla svona staðhæfingum !

 

Virðingin fyrir oligörkum og illa fengnum auði þeirra virðist vera slík að ekki megi anda á þá og því komast þeir upp með að halda fram ýmsum fjarstæðum sem hafa enga tengingu við eðlilega glóru !

 

Þar fylgja með fullyrðingar um að allt of mikill launakostnaður hafi fyrst og fremst staðið allri viðskiptasnilld þeirra fyrir þrifum !

 

Sú viðskiptasnilld getur nú verið gæsalappagreind í flestu, enda er það svo að samfélagsgildi slíkra ofursérgæðinga er svo lítið að það mælist ekki !

 


Með völdum skal veg tryggja !

 

 

Búa að völdum brattir menn,

branda sveiflur iðka.

Draugaglottin dafna tvenn,

dárar sporin liðka.

 

Virðist nokkuð víða deilt,

vantar hugsun gáða.

Sárt er þegar samstarf heilt

sést í engu ráða.

 

Séu mál til meina gerð,

mörgum boðinn klafi.

Þá er hroki þar á ferð,

það er enginn vafi.

 

Gæði hvergi greinast þar,

gníst er jafnvel tönnum.

Þegar heiftar hugarfar

hrærist upp í mönnum.

 

Samskiptin þá sigla í strand,

safnast fyrir þreyta.

Stórir höfði stinga í sand,

stöðu mála neita.

 

Fyrst þá verður fjandinn laus,

fljúga eitruð skeytin.

Svo að ekki halda haus

heilu ráðuneytin.

 

Kerfið snýst í heimsku hring,

hrokann fer að verja.

Möppudýra margfalt þing

magnar villu hverja.

 

Fráleitt lausn má finna þá,

flóna skarinn bullar.

Koppnum deildin æðsta á,

yfir málin drullar !

 

 

 

 

 

 


Þegar traustið er farið er ekkert eftir !

 

Það virðist hrikta þónokkuð nú til dags í margri gamalgróinni valdaskipan í ríkiskerfinu á Íslandi. Menn sem hafa setið og setið og setið virðast sumsstaðar vera farnir að missa tökin. Gamla þýlyndið er ekki til staðar eins og það var og undirlægjuhátturinn ekki heldur. Sennilega eru bara sumir hlutir í framför hjá okkur þó erfitt hafi verið að koma auga á það !

 

Valdamenn af gamla skólanum, með strangleika sinn og kröfu um grjóthart goggunarraðarferli, eru líklega bara á leiðinni út. Jafnvel þótt reynt sé að setja vörn um vald slíkra manna með afgömlum flokkshollustukröfum, gengur vægast sagt illa að halda óánægjunni yfir starfs-aðferðum þeirra í skefjum !

 

Ef reynt verður að kúga menn til að sætta sig við óbreytt ástand, þegar slík staða er komin upp innan einhvers embættis, er hætt við að lítill friður verði til góðs samstarfs á viðkomandi stað í komandi tíð !

 

Það eru ekki tímar Vilhjálms II. Þýskalandskeisara í dag og vald sem illa er farið með tapar einfaldlega virðingu sinni nú á tímum. Og þegar traust er ekki lengur til staðar í samskiptum milli manna hvað er þá eftir ?

 

Þegar yfirgnæfandi afstaða manna til mála undirstrikar að ástand sé orðið óþolandi breytir engu þótt einn tækifærissinnaður aðili vilji halda sig til hlés. Einhverntíma var sagt að heimili sem er sjálfu sér sundurþykkt fái ekki staðist. Það gildir í miklu víðara samhengi. Þar sem menn geta ekki lengur unnið saman, verður að höggva á hnútinn sem myndaður hefur verið, þó það kunni að vera sársaukafullt fyrir einhvern !

 

Velferð samfélagsins byggist ekki og á ekki að byggjast á valdaferli einstakra manna. Þá skiptir heldur engu hversu vel og lengi þeir hafa hreiðrað um sig innan kerfisins. Þaulseta manna í embættum getur oft orðið bæði þeim sjálfum og samfélaginu sem þeir telja sig þjóna til skaða. Ýmis dæmi eru til um slíkt.

 

Á sínum tíma var einn maður orðinn svo rótfastur að völdum innan bandaríska stjórnkerfisins, að jafnvel forsetar sem vildu ekki hafa hann, urðu að sitja uppi með hann !

 

Við þurfum umfram allt á friði að halda og samstarfi innan okkar viðkvæma samfélags. Þegar mál hafa fengið að vanþróast svo að allskonar vandi hefur orðið til, verður að taka óviðunandi samskipti til afgerandi skoðunar og finna lausnir sem tryggja traust og samstarfshæfni að nýju !

 

Að sópa vandanum undir eitthvert flokksteppið mun ekkert leysa heldur þvert á móti aðeins gera hann meiri. Menn þjóna samfélaginu best með því að friður sé tryggður, ekki síst í sambandi við öll öryggismál þjóðarinnar !


Um nasistahneigðir fyrr og nú !

 

Það hefur aldrei verið neitt leyndarmál að sumir gallharðir hægri menn eru afskaplega nálægt því að vera nazistar í sínum hugsunarhætti. Þegar skoðað er hvert þeir fóru sem studdu nazismann hér á árunum fyrir seinni heimsstyrjöldina, þarf ekki að koma á óvart að flestir slíkir gengu til liðs við íhaldið. Enda er sagt að flokksmálgagnið hafi á sínum tíma lýst þeim fjálglega sem ,, ungum mönnum með hreinar hugsanir !”

 

Enn í dag er hægt að sjá að öfgakenndir hægri menn gera mikið af því að setja sama sem merki milli Þjóðverja og Rússa, milli nazista og kommúnista, milli Hitlers og Stalíns. Þegar fjallað er um voðaverk Þjóðverja, hvort sem í hlut áttu Gestapo, SS, þýski ríkisherinn eða önnur verkfæri nazista, er alveg sama hvað rætt er um, alltaf er bætt við af hálfu þessara manna, ,,Rússar voru ekkert betri“ eða ,,Rússar voru verri,“ ,,Stalín var miklu verri en Hitler“ o.s.frv. Sést þar gjörla hvað þessum aðilum er í raun mikils virði að verja nazista !

 

Það getur hver maður líklega tekið undir það, að þessi veröld okkar hefði þurft að vera laus við þá báða Hitler og Stalín, og þeir eru fleiri sem hefðu betur aldrei fæðst. En allur samanburður milli þessara blóðugu einvalda er samt mjög villandi og oftast settur fram, meðvitað eða ómeðvitað, til þess eins að verja Hitler af þeim sem þar rennur blóðið til skyldunnar !

 

Þegar harðir hægri menn lenda í umræðum varðandi það hverjir áttu langdrýgsta þáttinn í því að sigrast á Stór-Þýskalandi nazismans og guldu fyrir það með um 20 milljón mannslífa, reyna þeir alltaf að gera sem minnst úr framlagi Rússa. Og ef það er viðurkennt að þeir hafi lagt þar eitthvað til, er það sagt allt að þakka hinum gífurlegu vopnasendingum að vestan ?

 

Mig minnir nú samt að í tilteknum bandarískum samtímaheimildum hafi verið sagt að þó að hergagna-flutningarnir til Sovétríkjanna með skipalestunum hafi verið miklir að vöxtum, hafi þeir ekki nægt til að vopna nema lítinn hluta af rússneska heraflanum. Mestan hlutann hafi Rússar sjálfir orðið að sjá um að hervæða !

 

Og sé þar rétt frá skýrt, er skiljanlegt að þeim upplýsingum hafi ekki lengi verið haldið á lofti, enda voru þær ekki í anda kalda stríðsins sem farið var að keyra upp strax upp úr stríðslokum. Síðan hefur verið býsna hljótt um staðfesta tölfræði í þessum efnum. En þeir fáu menn sem telja að sannleikur skipti máli, geta auðvitað kynnt sér þessi mál í gegnum netið nú á dögum og reynt að fá botn í það hverjar staðreyndirnar voru varðandi þetta !

 

Annað má nefna, að hægri menn hafa svo sem ekki neitað því að seinni orustan við El Alamein og Stalingrad-orustan hafi verið vendipunktar í styrjöldinni. En þeir tala iðulega um þessar orustur eins og þær séu alveg sambærilegar. En menn geta kíkt á þetta á netinu. El Alamein orustan var auðvitað mikilvæg sem slík, en það breytir því ekki að hún var smáorusta miðað við Stalingrad. Það ber enginn maður með dómgreind nokkurra daga orustu með mannfall upp á hámark 25.000 manns saman við margra mánaða orustu með mannfall upp á lágmark 1,1 milljón manns !

 

Varðandi þá sífelldu staðhæfingu hægri manna að Rússar hafi bara verið með drasl, má benda á að T-34 skriðdrekinn sovéski var líklega jafnbesti skriðdreki stríðsins og þýski herinn átti þegar til kom ekkert svar við honum. Þessari skriðdrekagerð var linnulaust dælt út úr verksmiðjunum austan Úralfjalla og þeir fóru jafnvel ómálaðir beint í stríðsaðgerðir !

 

Auk þess er hægt á síðari tímum að benda á Kalashnikov riffilinn sem dæmi um að Rússar geti svo sem búið til drápsvopn á við hvern sem vera skal, ef út í það er farið. En hæfni á því sviði er annars vafasamur heiður !

 

Þegar kalda stríðið var komið í hámark og Kóreustríðið í gangi, var sagt að vestrænir hernaðar-sérfræðingar teldu að Vestur-Evrópa myndi ekki standast rússneska stórárás nema í viku. Það eina sem væri til varnar væru kjarnorkuvopn Bandaríkjamanna. Þannig var alið á stríðsóttanum af hálfu vestrænna hauka og það tiltölulega skömmu eftir stríðslok !

 

En sú hugsun hefur hinsvegar mjög ólíklega verið til staðar hjá Rússum að gera slíka árás á fyrri bandamenn. Þeir voru að reisa stóran hluta lands síns úr rústum eftir styrjöldina og hafa sjálfsagt þurft á flestu öðru fremur að halda en áframhaldandi styrjöld eins og flestir ættu að geta skilið. Blóðtakan hafði líka verið drjúg og flestar fjölskyldur voru í sárum !

 

Bandaríkjamenn þurftu hinsvegar ekki að reisa neitt úr rústum og voru því Truman-tilbúnir í kalt stríð og jafnvel heitt. Churchill var látinn gefa tóninn í Fulton-ræðunni, enda var hann maður sem þreifst á stríði, en var enganveginn nothæfur í friði. Jafnvel hans eigin þjóð gerði sér grein fyrir því og afsagði forustu hans í stríðslok !

 

Það er eitt stórkostlegasta sveiflufyrirbæri sögulegrar framrásar, að Vesturveldin skyldu á örlagaþrunginn hátt þvingast í þá stöðu að verða bandamenn Rússa og þar með kommúnista í síðari heimsstyrjöldinni.

Til annars höfðu refirnir svo sannarlega verið skornir !

 

Fjármagnið sem kom fótunum undir nazistaríkið kom allt að vestan. Hitlers Þýskaland var fjárhagslega pumpað upp til höfuðs Sovétríkjunum. En framvindan varð á annan veg. Sumir stórkapitalistar vestra náðu aldrei að jafna sig á því hvernig hin ,,snilldarlegu plön“ þeirra misfórust, vegna þess að djöfulmennið sem átti að nota sem verkfæri lét ekki að stjórn !

 

Það fer enginn sálarlega heill og lifandi frá því að hafa mök við fjandann !


Stef varðandi minkinn í hænsnahúsinu !

 

Það sannast hið fornkveðna á liði samverkamanna Donalds Trump að allt er það sjálfu sér sundurþykkt. Höfðinginn býður upp á það. Jafnvel þeir sem virðast þar grónir á grunni geta skyndilega steypst úr vistinni !

 

Nú hefur John Bolton verið sparkað og sumir myndu nú telja það ákveðna hreinsun í valdsstjórn Trumps, en það eru svo sem nógir eftir af svipuðu tagi og heldur ólíklegir til góðra verka !

 

Þó að Bolton sé yfirlýstur haukur og vilji að Bandaríkin skipti sér af öllu út um allar jarðir, hafði hann engan áhuga á því að berjast sjálfur í Víetnam á sínum tíma og kom sér hjá því. Það virðist löngum vera svo með menn af hans tagi, að þeir vilja senda aðra í hættuna og forðast hana sjálfir !

 

Margir velta því fyrir sér, nú þegar líða fer á kjörtímabil Trumps, hvort hann eigi einhverja möguleika á endurkjöri og víst er um það að svo getur alveg verið. Það er að vísu mikið lagt á heimsbyggðina, ef hún þarf að þola slíkan mann í önnur 4 ár, en staðreyndin er samt sú að margt virðist benda til að demókrötum muni ganga illa að koma upp vænlegu mótframboði !

 

Ef Joe Biden er það eina sem á að bíta í þeim efnum fyrir hönd demókrata, er hætt við að það dugi ekki til. Demókratar verða að koma sér upp bitastæðari manni ef þeir hugsa sér að vinna komandi kosningar. Ákveðin harðlínuöfl til hægri í Bandaríkjunum fylkja sér fast að baki Trumps og telja sig vera að heyja varnarbaráttu fyrir því að Bandaríkin haldi sig þar sem þau eigi að vera !

 

Valdahlutföll milli þjóðfélagshópa í Bandaríkjunum eru tekin að raskast mjög frá fyrri tíð og hið gamal-enska forræðisvald norðausturhlutans er mikið að gefa eftir. Suðurhluti Bandaríkjanna frá Florida og vesturúr er að verða í yfirgnæfandi mæli spænskumælandi menningarsvæði. Það land sem Bandaríkin tóku með hervaldi af Mexikó upp úr 1840 virðist vera að skila sér til baka í þjóðmenningarlegum skilningi og það er þá ákveðið réttlæti að koma fram í því !

 

Af slíkum og þvílíkum ástæðum er þeim sem standa lengst til hægri í Republikanaflokknum ekki rótt. Og þar hefur kjarnafylgi Trumps aðallega verið til húsa. Bandaríkin, – sem eru tilbúið samfélagsfyrirbæri innflytjenda úr öllum áttum, hafa aldrei náð því að vaxa saman í eina þjóð og munu aldrei gera það fremur en önnur gerviblóm fjölmenningarinnar !

 

Valdaklíkan í Washington er sýnilega stöðugt að verða hræddari við vaxandi fjölda og aukin áhrif spænskumælandi fólks í alríkinu. Suðurhlutinn er þegar undirlagður þeim áhrifum. Í örvæntingu sinni eru menn farnir að tala um að byggja múra !

 

Verstu öfl Bandaríkjanna fylkja sér um Trump og það væri hættulegt að vanmeta getu þeirra til að koma illu til leiðar. Bandarískir Boltonar eru margir og hvergi til góðs. Demókratar verða að velja vel ef þeir ætla að sigrast á því óþurftarliði sem fylgja mun Trump í næstu forsetakosningum í vesturheimska ríkinu !

 

 

 

 


Að kunna að velja sér í hag !

 

Það virðist alveg augljóst mál, að Bjarni Benediktsson sé einn af þeim sem vill ekki hafa allt of sjálfstæða karaktera í kringum sig. Hann vill hafa þar hlýðið fólk sem á honum allan frama sinn að þakka. Fólk sem fyrst og fremst er líklegt til að sýna honum hollustu !

 

Nýir þingmenn, enn blautir á bak við eyrun, hafa fengið mikið uppstreymi frá Bjarna, hafa fengið að stökkva yfir þrjár til fjórar tröppur á frama-fluginu, hafa fengið að hlaupa létt upp í ráðherrastóla fyrir atbeina hans !

 

Bjarni er greinilega mikill æskudýrkandi og vill sýnilega helst hafa unga og flotta ráðherra, ekki síst ungar konur, sem taka sig vel út í sjónvarpi, einhverjar sem eru svo flottar, að menn taka jafnvel ekki eftir því sem þær segja. Það virðist líka algert aukaatriði, ef þær þykja bara nógu flottar !

 

Bjarna er líklega ekki mikið um reynda menn gefið, menn sem vita kannski meira en hann, menn sem hafa dýpra stöðuskyn og eiga kannski eftir að verða keppinautar hans um formannsstólinn og völdin í flokknum !

 

Nei, Bjarni vill ekki slíka fugla. Þessvegna er líklegt að menn eins og Birgir Ármannsson og Páll Magnússon og fleiri slíkir verði aldrei ráðherrar. Bjarni vill þá ekki. Þeir virðast enganveginn henta fyrir hans stjórnarhætti í flokknum !

 

Bjarni myndi líklega helst vilja vera eingöngu með kvenkyns-ráðherra á vegum Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórninni, en staða sumra karla í flokknum leyfir það líklega ekki. Þeir eru þar allt of óþægilega sterkir. Kannski er það ákveðið vandamál í augum Bjarna, eitthvað sem þyrfti að laga og leysa - og það með flottum hætti - í komandi tíð ?

 

Bjarni vill greinilega byggja forustulið flokksins upp í kringum sjálfan sig. Hann er sýnilega þannig foringi, kannski hrifnastur af viðhlægjendum ?

 

Líklega sér hann sig sem reddara og velgjörðamann svona í og með. Hann er sá sem reddar framavonum annarra og gerir þá stóra. Hann lyftir þeim nánast af jafnsléttu, upp í valdahæðir, með beinum handlegg !

 

Það eru engir aumingjar sem gera slíkt. Þannig menn kunna að drottna og deila. Bjarni telur sig því líklega eiga skilið þakklæti, mikið þakklæti !

 

Bjarni veit sem sagt að öllum líkindum hvað hann syngur. Öll mannleg samskipti á Íslandi eru verslun og hann kann að verða sér úti um inneignir. Það fer ekki á milli mála. Klókir stjórnmálamenn spila einmitt svona !

 

Jónas frá Hriflu gerði það á sínum tíma. Hann lyfti Hermanni og Eysteini upp eins og menn muna kannski - lyfti þeim ofurhátt !

 

En þakklátsemin er að vísu stundum mesta vandakind því sumir geta reynst vanþakklátir, og jafnvel stolið embættis-stólum undan rössunum á velgerðar-mönnum sínum. Það er virkilega óhuggulegt að hugsa til þess hvað sumir hafa verið og geta verið ómerkilegir !

 

En slíkt gerist varla núorðið, það er haft fyrir satt að nú sé þakklátssemin orðin miklu flottari – vel háskóluð og afar hreinræktuð. Þetta unga fólk í dag, - ekki síst stelpurnar, er svo vel menntað og siviliserað, að það gerir áreiðanlega ekkert andstætt þakklátssemi og göfugum hugsunarhætti - og sýnilegt er líka að Bjarni treystir því !

 

Við vitum líka að heimurinn er alltaf að breytast og út í löndum er mjög ungt fólk að láta til sín taka æ meir. Við þurfum náttúrulega að vera framsækin og fylgja þeirri línu. Það sýnir svo mikið víðsýni að treysta unga fólkinu, því auðvitað tilheyrir framtíðin því !

 

Sjáum til dæmis Malölu frá Pakistan með Nóbelsverðlaunin sín og Gretu Thunberg frá Svíþjóð, sem er líklega á leiðinni með að verða alheims-sendiherra heilbrigðra lífshátta í veröldinni. Glæsilegir fulltrúar báðar tvær.

Og leikskólarnir eru sjálfsagt fullir af frambærilegu valdafólki !

 

Kannski kemur senn að því að falleg lítil telpa verði skipuð ráðherra hjá okkur á Íslandi, einhver sem er svona 30 kg með skólatöskunni. Þá er æskan hreinust !

 

Og kannski verður helsti frumkvöðull æskudýrkunarinnar í stjórnmálum landsins svo gæfusamur þegar þar að kemur - að skipa slíkan ráðherra ?

 

Ekki ætti það að þurfa að koma á óvart eftir það sem á undan er gengið !


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Des. 2019
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.12.): 14
  • Sl. sólarhring: 22
  • Sl. viku: 260
  • Frá upphafi: 203720

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 142
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband