Leita í fréttum mbl.is

Nokkur orð um ætlaðan lýðræðishalla í sveitarfélögum !

Það finnst allmörgum bera á verulegum lýðræðishalla víða í sveitarfélögum landsins og er nokkur gagnrýni höfð uppi um slíkt. Þá er gjarnan haft á orði að einhver ákveðin klíka einoki völdin og deili síðan út bitlingum til taglhnýtinga sinna - þeirra sem þægir eru og fylgispakir.

Einnig er talsvert um það rætt meðal almennings, að allskonar hyglingar í þágu skyldmenna og venslaliðs eigi sér stað í sveitarfélögum og margir telja að jafnræðisregla sé afar sjaldan virk til viðmiðunar þegar ætum bitum er úthlutað í sveitarfélögum landsins.

Allt er þetta allrar athygli vert og sennilegt að flestir kannist við eitthvað sem heyrir undir þessar lýsingar. Ekkert varðandi þetta kemur mér a.m.k. á óvart.

Ýmsar útfærslur má eflaust gera af hverri sögu. Ein slík útfærsla gæti verið með því lagi sem hér greinir :

Árið 1994 var svo komið hér á Skagaströnd að ráðamenn töldu varnarstöðu sveitarfélagsins orðna svo mikla, að lífsnauðsynlegt væri að sameina kraftana til sóknar og atvinnuframfara. Þá varð til ákveðið pólitískt fyrirbæri sem enn er við lýði og kallað hefur verið Skagastrandarlistinn - eða í stuttu máli - S-listinn.

Þetta átti sem sagt að vera leið til að samræma krafta íbúa sveitarfélagsins  undir einu sameiginlegu sóknarflaggi. Þeir sem að framboðinu stóðu voru forustumenn Sjálfstæðisflokksins hér og þar til viðbótar Magnús B. Jónsson fyrir hönd - ja, kannski við getum sagt - ótilgreindra Framsóknarmanna.

Þetta bandalag hafði fyrir 3 fulltrúa í sveitarstjórn, tvo frá sjálfstæðismönnum og einn frá Framsókn. Það mátti því ganga út frá því að menn hefðu hreinan meirihluta áfram og myndu þessvegna geta látið hendur standa fram úr ermum. Ýmsir trúðu því í upphafi að framboðið væri í raun og veru nýtt og ferskt og kusu Skagastrandarlistann í því trausti, enda spillti nafnið ekki fyrir.

Það fór því svo að S-listinn fékk 4 fulltrúa kjörna í sveitarstjórn 1994 og fulltrúi krata  mátti sæta því hlutskipti að vera einn í hreppsnefnd fyrir utan hina nýju riddarareglu. Þar sem viðkomandi fulltrúi var og er praktískur maður, sá hann líklega fljótt að við ofurefli var að etja og gerðist því enn meiri samfylkingarsinni en hann hafði talið sig vera og að sumra mati fimmta stoðin undir nýja gangverkinu.

En hveitibrauðsdagarnir stóðu ekki lengi því brátt þóttust menn sjá að þetta nýja framboð væri í raun lítið annað en listi Sjálfstæðisflokksins, þó nafn Magnúsar B. Jónssonar væri þar vissulega ofarlega á blaði.

Sömu vinnubrögðin virtust gilda áfram - sögðu margir - og skyldulið og ættingjar o.s.frv.o.s.frv., áttu áfram að njóta í fyllsta mæli góðs af því sem í boði var hverju sinni. En þótt óánægja færi þannig fljótt að magnast, efldust Sjálfstæðismenn  að sjálfstrausti og sigurvissu þar sem mark þeirra varð alltaf augljósara á framboðinu en Framsóknaráhrifin fjöruðu út að sama skapi.

Og nú er svo komið árið 2010 að helmingur þorpsbúa virðist t.d. ekki lengur hafa hugmynd um það hvort Magnús B. Jónsson sé Framsóknarmaður eða Sjálfstæðismaður ?

Vonbrigðin með þetta sameiningarframboð leiddi svo strax til þess að við kosningarnar 1998 missti S-listinn fjórða manninn og síðan hefur hann aðeins haft það vægi í sveitarstjórn sem hann hafði áður en hann varð formlega til.

Það er að segja þegar á annað borð er kosið !

En að öðru leyti er þó breytingin kannski sú eftir því sem sumir segja, að byrjunin var tveir sjálfstæðismenn og einn Framsóknarmaður, en nú virðist sem vökulli helmingur bæjarbúa telji að sjálfstæðismennirnir séu í rauninni þrír !

Árið 2002 var áhugaleysi gagnvart sveitarstjórnarkosningunum orðið það mikið að þær féllu niður hér á Skagaströnd. S-listinn fékk því fimm menn sjálfkjörna og þeir fengu svo, sennilega að verðleikum, það hlutverk nýkjörnir að undirrita dánarvottorð Skagstrendings, en sá gjörningur var að margra áliti, vísvitandi látinn bíða framyfir kosningarnar, ef til vill vegna ótta sumra við óþægilega ádeilu.

2006 gerðist það svo, að málamynda mótframboð var sett á laggir gegn S-listanum og var þó svo seint af stað farið, að stefnulýsingar voru mjög af skornum skammti og annað eftir því. Tengingarnar milli framboðanna voru svo margar og miklar, að daginn fyrir framlagningu lista var sú spurning ein í gangi meðal væntanlegra kjósenda á hvorum listanum tilteknir frambjóðendur yrðu ?

Mótframboðið var sem sagt svona öllu heldur einhverskonar meðframboð !

En samt fór svo við kosningarnar, að hinn nýi, nánast óskilgreindi listi, fékk tvo menn kjörna og enn sat S-listinn aðeins með sína þrjá menn frá fyrstu tíð.

Telja má nánast öruggt að þeir sem kusu mótframboðið hafi gert það í yfirgnæfandi mæli vegna óánægju með S-listann. Þetta er eina framboðið sem náð hefur tveim mönnum inn í hreppsnefnd fyrir utan Sjálfstæðisflokkinn, frá því að hefðbundin framboð fóru í gang hér um miðja síðustu öld. Það er mjög athyglisverð staðreynd og mætti sem best skrifa heila ritgerð út frá þeim punkti.

En eins og fyrr var getið, var mótframboðið ekki grundvallað á skýrum línum, enda virðist sem fyrst og fremst hafi verið um styrkleikasýningu að ræða gagnvart þeim valdsmöguleikum sem í boði voru. Eftir kosningarnar virtist svo S-listinn bara sitja áfram í fimmföldu vægi í hreppsnefnd og slitnaði ekki slefan  á milli fulltrúa. Reyndar gaf undirritaður sér það fyrirfram að sú yrði einmitt raunin.

Ekki er samt ástæða til annars en gleðjast yfir því að fólk geti unnið saman, en til hvers að vera með tvö framboð þegar stefnan virðist ein og hin sama ?

Og nú endurtekur sig sagan frá 2002 að ekki mun koma til kosninga á Skagaströnd þar sem aðeins einn listi hefur verið lagður fram sem verður því sjálfkjörinn. Það er dapurleg niðurstaða fyrir stöðu lýðræðisins á Skagaströnd.

Svona er áhugaleysið orðið varðandi þessi mál eftir 16 ára samfelld völd lista sem átti að sögn að hleypa ferskum vindum inn í sveitarstjórnarmálin og efla alla virkni varðandi þau í litla samfélaginu undir Borginni !

Listinn sem nú mun verða sjálfkjörinn er S-listinn gamli, sem nú heitir reyndar H- listinn vegna þess að Samfylkingin hefur víst fengið fullan ráðstöfunarrétt á S-inu í kosningum á landsvísu. Ekki er vitað hversvegna bókstafurinn H var valinn sem listabókstafur, en þess má þó geta að efsti maður listans er Adolf H. Berndsen.

Þessi H-listi mun nú fara með málefni sveitarfélagsins næstu 4 árin og þó að væntingar mínar til hans séu óneitanlega ekki miklar, er það samt einlæg ósk mín að hann standi sig í starfi fyrir sameiginlega hagsmuni Skagastrendinga og hlynni sem best að byggðinni undir Borginni.

Hinsvegar neita ég því ekki að ég hef vissar áhyggjur af meintum vaxandi lýðræðishalla í sveitarfélögum landsins.

Sú var tíðin að allir sem komnir voru til vits og ára á Skagaströnd vissu hverjir sátu í hreppsnefnd. Í seinni tíð virðist þessu hinsvegar mjög á annan veg farið.

Menn virðast bara ekki hafa hugmynd um það hverjir sitja í hreppsnefnd og virðast jafnvel ekki telja það nokkru máli skipta. Ég hef sannreynt þetta með því að spyrja menn sérstaklega um það hvort þeir vissu hverjir sætu í hreppsnefnd. Svörin hafa oft verið með ólíkindum.

Enn er framgjarnt fólk samt að gefa kost á sér til setu í hreppsnefnd, en virðingin sem talin var fylgja því starfi fyrir þrjátíu árum eða svo, virðist eiginlega farin veg allrar.... og hvernig skyldi standa á því ?

Skyldi það geta verið að meintur lýðræðishalli eigi einhvern þátt í því ?

En allt á sér væntanlega einhvern veg til betrunar og mér hefur skilist að samband sveitarfélaga sé með einhvern starfshóp í gangi sem hefur verið að kanna stöðu lýðræðis í sveitarfélögum landsins og hvort þar sé greinanlegur einhver lýðræðishalli ....................?

Með hliðsjón af því að Magnús B. Jónsson er að sögn fremstur meðal jafningja í umræddum starfshópi, geta menn velt því fyrir sér hvort ekki megi þá búast við einhverjum marktækum niðurstöðum úr þeirri átt senn hvað líður...... ?

En hvernig sem fer með það, er ljóst að hið almenna sveitarstjórnar-kosningaár 2010 verður ekki kosningaár á lýðræðis-almanaki Skagastrandar !

Það er heldur leiðinlegt til afspurnar.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 26
  • Sl. sólarhring: 47
  • Sl. viku: 832
  • Frá upphafi: 356677

Annað

  • Innlit í dag: 18
  • Innlit sl. viku: 657
  • Gestir í dag: 17
  • IP-tölur í dag: 17

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband