Leita í fréttum mbl.is

Uppgjör sjálfstæðisflokksins við Davíðstímann ?

Það hefur ávallt verið svo, að flokkar sem hafa náð völdum og síðan kannski lotið einræðisherra eða einvaldi um langt skeið, hafa þurft að gera upp slíkan tíma með sjálfsskoðun og gagnrýni, eigi þeir að geta skilið sig frá honum og byrjað nýtt upphaf. Sagan kennir okkur margt í þeim efnum.

Sovéski kommúnistaflokkurinn lenti í miklum hremmingum við að gera upp við Stalínstímann og þó að 20. flokksþingið hafi átt að kveða draug Stalíns niður fyrir fullt og allt, tókst það enganveginn. Sömu menn og þjónuðu mest undir Stalín voru enn við völd og þó að Nikita Kruschev hafi séð þörfina á slíku uppgjöri, var hann sjálfur úr innsta hring Stalíns og margt sem hefði þurft að gera upp, hefði vafalaust komið illa við hans persónu.

Sumir félagar hans í æðstu stjórn flokksins voru líka hreint ekki sáttir við að farið væri að hræra í gömlum málum og draga fram í dagsljósið skuggaverk liðinna tíma. Ráðamenn voru þannig vægast sagt minna en hálfvolgir gagnvart þessu uppgjöri, enda varð það á engan hátt ærlegt eða endanlegt.

Vofa Stalíns hékk yfir flokknum allt til þess að ríkið hrundi og mun sennilega áfram gera það meðan flokkurinn þykist hafa einhverja burði til að tóra.

Það er yfirleitt ekki auðvelt verk að gera upp við eigin skammastrik !

Íslenski sjálfstæðisflokkurinn er, að mínu mati, að ýmsu leyti í hliðstæðum sporum með Davíð og valdatíma hans. Mikið til sömu vandamálin hafa lýst sér í báðum tilvikum og menn þora ekki að takast á við þessi fortíðarvandamál.

Þannig er flokkurinn í mjög svo krefjandi þörf fyrir heiðarlegt uppgjör varðandi þennan tíma. Hann þarf lífsnauðsynlega að skilja sig frá þessu skollaskeiði til að geta hafið einhverskonar nýtt líf í pólitíkinni.

Þröskuldar í vegi slíks uppgjörs innan flokksins eru hinsvegar margir. Nefna má viðvarandi harðsoðna afstöðu ýmissa flokksmanna í hollustunni við hinn fallna leiðtoga, ábyrgðarhlutdeild valdsmanna í flokknum varðandi ýmis verk foringjans sem þykja hafa skilað sér mjög til hins verra fyrir þjóðina, ennfremur má nefna afneitun staðreynda, hræðslu við breyttar áherslur og fíkn þá til persónudýrkunar sem virðist geta orðið mjög rík í mörgu fólki gagnvart foringjaímyndinni, hinum sterka manni.

Sennilega hafa sjálfstæðismenn á Íslandi, margir hverjir, gengið allra manna lengst fram hérlendis í persónudýrkun þegar þeir létu sem mest með Davíð. 

Þó að kratar létu mikið með Ingibjörgu Sólrúnu á tímabili komst það ekki á slíkt sefjunarstig sem Davíðsdýrkunin í sjálfstæðisflokknum.

Persónudýrkun er andstyggilegt fyrirbæri og hvergi til góðs. Hún fer illa með þá sem dýrkunina stunda og eins þann sem dýrkaður er. Þegar menn eru settir á stalla eða teknir í guðatölu er aldrei von á góðu eins og mörg hrikaleg dæmi sanna varðandi kónga og keisara fyrri tíma og einvalda á síðari árum.

Þó stigsmunur sé auðvitað á því hvort við tölum um Stalín eða Tító, Franco eða Salazar í liðnum tíma, Gaddafi í Lýbíu eða Bashar Assadsson í Sýrlandi í yfirstandandi tíma - eða bara litla einvaldinn á Íslandi, er það alveg ljóst að í sérhverju tilfelli þar sem einstakir menn hafa komist upp með það að draga til sín allt of mikil völd, er nauðsyn á uppgjöri - einnig í einræðisríkjum, en ekki síst í ríkjum þar sem lýðræði á að gilda samkvæmt viðurkenndum leikreglum samfélagsins.

Það er ekki hægt að sópa fortíðinni undir teppi gleymskunnar.

Sovéski kommúnistaflokkurinn féll á sínu uppgjörsprófi. Hann gat ekki skilið sig frá Stalínstímanum og gert heiðarlega upp við fortíðina. Valdið í flokknum var enn þeirra sem hófust til valda fyrir tilstilli Stalíns og voru samverkamenn hans að mörgu því sem gert var og þurfti að játa og kannast við. Það vald var því spillt og spillt vald hreinsar aldrei til eða kemur ærlega að málum.

Íslenski sjálfstæðisflokkurinn er enn í þeirri stöðu að geta tekið sitt uppgjörspróf, sem felst í því að gera upp við Davíðstímann, en líkurnar á því að hann standist það próf með ærlegum hætti dvína þó með degi hverjum.

En það er samt eina leiðin til þess að þessi þjóðarógæfuflokkur öðlist eitthvað af því trausti sem hann missti á frjálshyggjufylleríi sínu og geti hugsanlega með tíð og tíma orðið - í einhverjum mæli - til gagns fyrir íslenskt samfélag !


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 69
  • Sl. sólarhring: 117
  • Sl. viku: 638
  • Frá upphafi: 365536

Annað

  • Innlit í dag: 65
  • Innlit sl. viku: 550
  • Gestir í dag: 65
  • IP-tölur í dag: 63

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband