Leita í fréttum mbl.is

Nokkur orð um neytendamál og lýðræði !

Jóhannes Gunnarsson hefur lengi leikið hlutverk Ralph Naders í málum íslenskra neytendasamtaka. Hann er búinn að vera svo lengi í forustu á þessu félagslega sviði, að enginn virðist muna til þess að þar hafi einhver annar lagt hönd á plóg. Rödd Jóhannesar hefur hljómað í fjölmiðlum í áraraðir og hann hefur varað við þessu og hinu, alvarlegur í bragði og oft með miklum áhersluþunga. En hann virðist yfirleitt láta þar við sitja. Svo heyrist ekki meira og heldur lítið gerist.

Einhvernveginn finnst manni að svo reynslumikill maður, sem Jóhannes hlýtur að vera eftir allan þennan starfstíma, eigi að geta bent á einhverjar góðar leiðir til lausna þegar neytenda-vandamál eru annarsvegar, en ekki virðist hafa farið mikið fyrir því !

Og þó að Jóhannes hafi líklega ekki verið yfirmáta hálaunaður maður í starfi sínu, allavega miðað við fyrirhruns gengi, er það samt æskilegt að skilgreindur árangur mælist í gegnum störf hans eins og annarra og sé almenningi ljós.

Frjáls félagasamtök geta verið mjög öflugur vettvangur fyrir samfélagslegt umbótastarf, sérstaklega þegar valddreifing og góð félagsleg breidd er til staðar og maður til að taka við af manni. Stundum er hinsvegar staðan sú þar eins og í sjálfu stjórnkerfinu, að sömu menn stjórna málum allt of lengi og verða vallgrónir í sínum valdastólum.

Neytendasamtökin virðast í margra augum helst vera einhverskonar hreiður fyrir Jóhannes Gunnarsson og ef svo er, er það ekki nógu gott. Þau voru eiginlega ætluð til gagns og gæða í víðari skilningi.

Líklegt er - að ef einhver yfirmáta skilningsríkur neytandi væri spurður um Neytendasamtökin gæti viðtal við hann sem best innifalið eftirfarandi efni:

„Hvað eru Neytendasamtökin ?"

„Þau eru Jóhannes Gunnarsson ! "

„Til hvers eru Neytendasamtökin ? "

„Til að skapa Jóhannesi Gunnarssyni framfærslu !"

„Er þörf á Neytendasamtökunum ?"

„Jóhannes Gunnarsson þarf að lifa eins og aðrir ! "

 

En Neytendasamtök þurfa auðvitað að vera eitthvað meira en einn maður, jafnvel þó hann kunni hugsanlega að vera nokkuð góður. Og því er löngu kominn tími til að hrist sé upp í þessum samtökum og hætt við þetta æviráðningarkerfi sem þar virðist vera við lýði.

Það þarf að gefa Jóhannesi Gunnarssyni frí svo hann geti notið þess að vera almennur neytandi í þessu landi og væntanlega glaðst í þeirri stöðu yfir árangri eigin verka.  Eftir áratugalangt starf hans í formennsku Neytendasamtakanna  skyldi maður ætla að það ætti að vera orðið sæmilega gott hlutskipti að vera almennur neytandi á Íslandi !

Jóhanna Sigurðardóttir sagði eitt sinn sem frægt var, að hennar tími myndi koma og það varð. En tíminn stendur aldrei í stað og tími einstaklinga í embættum og valdastólum má ekki vera of langur. Menn þurfa að geta hugsað eins og Nelson Mandela : „ Nú er minn ráðsmannstími liðinn og komið að öðrum að taka við !"

Hæfileikaríkir einstaklingar eru víða til og slíkir geta komið mörgu góðu til leiðar um tíma, en það er aldrei gott að menn festist til langframa í ákveðnum embættum og fari að líta á þau sem ævitryggt hlutskipti.

Bitið vill oft fara nokkuð fljótt úr eggjum framtaksviljans og athafnaseminnar þegar menn leggjast þannig við stjóra og nýir vendir sópa best.

Það skiptir engu hvort við tölum í þessu sambandi um sjálft forsetaembættið, formennskuna hjá Neytendasamtökunum eða bara sveitarstjórastöðuna á Skagaströnd !  Það er bara ekki af því góða að menn festist í hlutunum til langframa og lifi þar bæði sjálfa sig og aðra. Endurnýjun er nauðsyn með vissu millibili og lýðræðinu er enginn greiði gerður með embættislegri æviráðningu einstaklinga.

Neytendur ávaxta lýðræðisins þurfa jafnan að eiga aðgang að tiltölulega ferskum afurðum, en ferskleiki áratugagamals setuliðs í embættum er auðvitað löngu horfinn og bragðgæðin þar oft orðin í staðinn beiskju hlaðin !

Við þurfum öll sem eitt að geta búið við næringarríkar aðstæður sem neytendur lýðræðis á samfélagslegum vettvangi, og þessvegna þurfum við að gera okkur fulla grein fyrir því að í stöðnuðu lýðræði felst engin hollusta fyrir land og lýð.

Mosagrónir embættismenn þurfa að víkja svo ferskleikinn fái að ríkja !


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 26
  • Sl. sólarhring: 75
  • Sl. viku: 595
  • Frá upphafi: 365493

Annað

  • Innlit í dag: 23
  • Innlit sl. viku: 508
  • Gestir í dag: 23
  • IP-tölur í dag: 23

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband