Leita í fréttum mbl.is

Um spurningar dagsins og hrunvalda hagsins !

Spurningar dagsins geta löngum verið margar og hér er ein af þeim :

Hvað er hinn sérlegi saksóknari að gera, hvað hefur komið út úr vinnu hans hingað til og hvers er að vænta í þeim efnum ?

Sumir eru bjartsýnir að eðlisfari en kannski ekki ýkja raunsæir. Bjartsýni er oft góð en hún má ekki spilla fyrir eðlilegri sýn á stöðu mála. Og sýn okkar á starf hins sérlega saksóknara þarf að vera raunhæf til þess að við getum skilið orsakasamhengi hlutanna og áttað okkur á því hvað er raunverulega í gangi.

Og ég verð að segja, að eftir að hætt var að minnast á rannsóknarskýrslu þingsins, hef ég talið að litlar sem engar væntingar þyrfti að hafa varðandi hina svokölluðu opinberu tiltekt á hlutunum.

Hlutverk hins sérlega saksóknara  og yfirlýst rannsóknarviðvera, er að mínu mati aðeins til þess að láta fólk halda að eitthvað sé verið að gera í málunum. En það hefur líklega aldrei staðið til að nein hreinsun verði gerð, það á bara að breiða nýja silkimottu yfir kerfisskítinn og öll hin spilltu hagsmunatengsl !

Og það virðist nánast hafa verið fullkomin pólitísk samstaða um það á þingi, að það verði gert og það eitt. Svo rotin er nú ráðabreytnin !

Líklega verður svo öll spillingarsamtryggingin dulkóðuð í bak og fyrir að þessu sinni, þannig að skuggamálaráðuneyti skrattans geti enn frekar leikið lausum hala hér eftir !

En af hverju er staðið svona að málum, af hverju þurfa yfirvöld þessa lands alltaf að stunda óhreinan feluleik við fólkið í landinu ? Af hverju er þetta litla ríkiskerfi okkar gert að þeirri meinbölvuðu myrkrastofu sem það er ?

Skyldi það geta verið af því að það séu alltaf einhver svikráð í gangi af hálfu stjórnvalda gagnvart almannaheill ?

Sjáum til dæmis verðtrygginguna ! Aldrei hefði svo glæpsamleg lagasetning verið samþykkt af mönnum sem haft hefðu hjarta fyrir velferð fólksins í landinu. Sá gjörningur var að öllu leyti óþjóðlegur sérhagsmuna-samtryggingarverknaður og andstyggileg aðför að borgaralegu jafnræði í landinu. Bölvun hlýtur að fylgja öllum sem standa með slíkum hætti að setningu laga, því með slíkum vinnubrögðum er opnuð leið til víðtækrar kerfisspillingar.

Það er langt síðan sæmilega almenningsvæn ríkisstjórn hefur setið að völdum á Íslandi. Nú má sjá svipaðar doðadruslur til hægri og vinstri. Það virðast ekki finnast neinir hugsjónamenn lengur í stjórnmálaflokkunum sem vilja standa fyrir ræktun lýðs og lands. Þar skríða aðeins um einhverjar leikbrúður með læpuskapsódyggðir sem vilja hafa það gott á alþjóðar kostnað.

Troða upp með tignargráður

tauhálsar í kerfinu.

Valdahítin verri en áður,

veifar falska gervinu !

Já, hvað er hinn sérlegi saksóknari að gera, hvað hefur komið út úr vinnu hans hingað til og hvers er að vænta í þeim efnum ? Væri ekki ástæða til að hver þegn þessa þjóðfélags velti því dálítið fyrir sér ?

Þessi tiltekni embættismaður telur sig kannski á ákveðnum tíma hafa nægar sannanir fyrir sekt þessa eða hins og leggur síðan málið fyrir dómstóla. Og hvað gerist svo ? Dómskerfið sleppir öllum sakborningum út í gegnum gatslitna yfirbreiðslu úreltrar lögskipunar !

Auðmenn landsins sem kepptust um að lýsa því yfir í sjónvarpi rétt eftir hrunið að þeir væru nánast slyppir og snauðir, virðast engu að síður alltaf hafa efni á dýrustu lögfræðingum landsins og þeir vinna sýnilega af mikilli alúð og velþóknun fyrir þessa skjólstæðinga sína. Þeir verja og véfengja, vanda um og vísa öllu á bug og segja sig jafnvel frá málum svo setja verði allt leikverkið upp að nýju !

Og hver borgar brúsana, auðvitað hin sírænda almenningspyngja ?

Einn auðmaðurinn sagði að hann ætti kannski ennþá fyrir Diet Coke, annar sagði klökkur að hann væri ekki ríkur maður í dag, hinn þriðji, alþjóðlegur fjárfestir með meiru, sagði - líklega yfirfullur af þjóðhollustu, - að hann myndi gera allt sem í hans valdi stæði til að rétta Ísland við að nýju !

Hafa menn heyrt eitthvað af afrekum hans í því sambandi ?

Sumir Íslendingar virðast geta verið með þeim hætti gerðir, að betra væri að hafa hér útlendinga með lágmarks hollustu í garð lands og þjóðar en slíka ættlera !

Sérgæskan hefur á síðustu árum komist á verulega hættulegt stig í þessu landi og veikt samfélagið að sama skapi.

„Lubbar svíkja land og þjóð,

ljúga að hætti greiðum.

Júdasar með silfursjóð

sjást á markaðsveiðum !"

Hinn sérlegi saksóknari gerir auðvitað ekki stóra hluti í hreinsunarstarfi í harðsoðnu sérhagsmuna-samfélagi. Jafnvel þó hann sé allur af vilja gerður til að koma einhverju í verk, mun hann stöðugt reka sig á ósýnilega veggi. Maður getur ímyndað sér hvernig slíku rannsóknarstarfi gæti miðað í hinum ósnertanlegu kerfisdeildum. Þar réðu vafalaust viðbrögðum í einu og öllu, hin tefjandi og dragbítslegu viðkvæði pirraðra möppudýra:

„ Heyrðu karlinn minn, þú þrífur ekkert hér, hér er allt eins og það á að vera !"

„Farðu burt með kúst og klút,

koma þín er bagi.

Hundskast skaltu héðan út,

hér er allt í lagi !"

Þrifnaðurinn má nefnilega ekki verða raunhæfur, því þá verður lifnaðurinn á gráðuvöllum goggunarkerfisins ekki það aðdráttarafl sem hann hefur verið fyrir hið framasjúka forréttindalið, -  hinar þjóðfélagslegu afætur, -  blóðsugur af báðum kynjum, sem fylgja greinilega einu og aðeins einu leiðarstefi í lífi sínu og það er  „EKKERT SKIPTIR MÁLI NEMA ÉG !"

 

 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 27
  • Sl. sólarhring: 76
  • Sl. viku: 596
  • Frá upphafi: 365494

Annað

  • Innlit í dag: 24
  • Innlit sl. viku: 509
  • Gestir í dag: 24
  • IP-tölur í dag: 24

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband