Leita í fréttum mbl.is

Þrjár meginspurningar !

Þrátt fyrir alla hina marglofuðu menntun og þekkingu nútímans, erum við mennirnir engu nær um svörin við hinum stóru meginspurningum jarðlífsins:

 Hvaðan komum við, hversvegna erum við hér og hvert förum við ?

Af hverju miðar þekkingunni ekkert áfram í þessum efnum ? Það ætti þó að vera um nokkurt hagsmunamál að ræða fyrir hvern og einn að geta vitað eitthvað um raunverulegan tilgang eigin ferðalags á þessari jörð ? Það skyldi þó aldrei vera að þessi þekking sé eitt af því sem okkur er ekki ætlað að vita og það sé þessvegna sem við erum engu nær um svör þrátt fyrir allt okkar fjölþætta menntastig ?  En öll viljum við vita eitthvað um þetta, ekki síst hvað tekur við ? Sú forvitni er sameiginleg öllum mönnum um allan heim !

Prédikarinn heimsfrægi Billy Graham þekkti marga forseta Bandaríkjanna náið og margir þeirra leituðu stuðnings hjá honum og ráðgjafar þegar þannig stóð á. En það var ekki auðvelt að svara því sem brann á þeim sumum. Eisenhower spurði: „Hvernig get ég vitað að ég muni fara til himna ?" „Trúir þú á endurkomu Krists ?" spurði Kennedy. „ Mun ég sjá foreldra mína þegar ég dey ?" spurði Johnson !

Er þetta ekki það sama sem við viljum öll vita ? Og erum við eitthvað á leiðinni að lausnum hvað þetta snertir ? Nei, því miður sé ég ekki að framvinda mála sé á þá leið. Andlega séð höfum við verið að ganga aftur á bak um allnokkurt skeið. Meðan ytri umbúnaður lífs okkar hefur blásið út fyrir aukna tækni og vélræn þægindi, hefur innri maðurinn dregist saman og rýrnað að sönnu andlegu gildi.

Sálarleg staða mannsins er áreiðanlega verri í dag en hún hefur verið um langa hríð. Uppreisn gegn trú og gömlum og góðum siðagildum hefur sett mark sitt á manneskjuna og þunglyndi og vanlíðun hefur, mitt í ytri þægindunum, margfaldast í hraðæstum nautnadansi nútímans, sem eltist við sjálfið í öllu. En það er gamalkunn saga, að þar sem ekkert rúm er fyrir Guð er nóg rúm fyrir djöfulinn !

Við þurfum að gera okkur grein fyrir að sumt er jákvætt en annað neikvætt. Sumt er jákvætt að öllu inntaki en sumt er neikvætt að sama skapi. Það jákvæðasta af öllu jákvæðu er að trúa því að Guð sé til, að eiga trú á Drottin, Skapara himins og jarðar, en það neikvæðasta af öllu neikvæðu er að vera í uppreisn og gefa sig djöflinum á vald og því sem hann stendur fyrir !

Við segjum kannski stundum við okkur sjálf: „ Ég ætla að gera pínulítið af þessu, ég veit að það er ekki af því góða, en mig langar samt aðeins til að vita hvernig þetta er !" Hvað skyldu margir djúpt sokknir eiturlyfjaneytendur hafa byrjað að eiga við hið neikvæða afl með slíkt viðhorf í huga ? En það hefnir sín að leika sér að eldi og afleiðingar þess geta verið ævarandi glötun !

Við eigum að skoða vel hvað er jákvætt að eðli og inntaki og tileinka okkur það, en varast það sem hefur öfugar verkanir á líf okkar. Við eigum ekki að afhenda djöflinum yfirráð yfir neinu í lífi okkar, við eigum að vita að hann herjar stöðugt á okkur, við verðum öll fyrir árásum af því tagi. Við þurfum að glíma við alls kyns freistingar og ótal gildrur eru lagðar fyrir okkur, til að breyta okkur frá því mannlega yfir í hið ómannlega, til að draga okkur af sviði hins jákvæða yfir á svið hins neikvæða.

Og við skulum gera okkur fulla grein fyrir því, að þegar við erum unnin yfir á það svið, eru afar litlar líkur á því að við getum í nokkru lifað þar okkur sjálfum og öðrum til góðs. Þar sem neikvæðir andlegir straumar ríkja er ekkert jákvætt til sem byggir manneskjuna upp. Á þeim vegi  höldum við bara áfram inn í svartnættið !

Í gömlu og góðu kvæði segir : „ Veikur maður, hræðstu eigi, hlýddu,/ hreyk þér eigi, þoldu, stríddu./ Þú ert strá, en stórt er Drottins vald./ Hel og fár þér finnst á þínum vegi ; / fávís maður, vittu, svo er eigi,/ haltu fast í Herrans klæðafald !/ Lát svo geisa lögmál fjörs og nauða / lífið hvorki skilur þú né hel: / Trú þú: - upp úr djúpi dauða / Drottins rennur fagrahvel !"

Og það er mál Sannleikans sem býr í þessum innblásnu hendingum. Það er að treysta kjarna hins jákvæða, handleiðslunni að ofan, og standa í gegn öflum hins neikvæða, andavaldi vonskunnar í himingeimnum, sem vill tortíma okkur öllum. Það eru aðeins heimskingjar sem segja „ Enginn Guð ! Sjálft sköpunarverkið segir þér, ef það er einhver andlegur lífsvottur í þér, að Guð er svo sannarlega til !

Við vitum ekki hvaðan við komum, við vitum ekki hversvegna við erum hér, eða hvert við förum, en við getum átt trú fyrir því að Guð leiði okkur og að Hann muni vel fyrir sjá. Segir ekki Ritningin : „Allir sem leiðast af Anda Guðs eru Guðs börn" ( Róm.8.14). Það jákvæðasta sem við getum gert í jarðnesku lífi okkar, er að fela Guði vegi okkar og horfa í trú og von fram til þeirrar miklu stundar, þegar kraftaverk lífsins opnast í allri sinni undursamlegu fegurð við þeim sem það hafa þráð,  - þegar upp úr djúpi dauða /Drottins rennur fagrahvel.

Þá fáum við líka svörin við þeim meginspurningum sem hafa brunnið á okkur í gegnum allt okkar jarðneska líf, þá verðum við leidd í allan sannleika varðandi tilgang og niðurstöðu ferðalags okkar hér á jörðinni !

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 29
  • Sl. sólarhring: 78
  • Sl. viku: 598
  • Frá upphafi: 365496

Annað

  • Innlit í dag: 26
  • Innlit sl. viku: 511
  • Gestir í dag: 26
  • IP-tölur í dag: 26

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband