Leita í fréttum mbl.is

Um allra lægða land !

Ísland er sannarlega sannkallað lægðaland. Það á ekki bara við þegar veðurlagið er annarsvegar, heldur gildir það um nánast alla hluti í tilveru okkar, ekki síst hin síðari ár. Við höfum búið við stöðugar efnahagslægðir allan þann tíma sem við höfum þóst vera sjálfstæð og afleiðingar þess hafa meðal annars verið þær að velferð okkar hefur jafnan verið í algeru skötulíki. Hinn sígildi samanburður við hin norðurlöndin hefur aldrei verið marktækur og byggst eingöngu á áróðri og lygi.

Efnahagslægðin 2008 var svo djúp að í raun og veru kaffærði hún þjóðarskútuna um tíma og enn er það reyndar mikil spurning hvort það hripleka fley sé komið úr kafi og stjórnhæft sem slíkt ? Gripdeildirnar í fjármálakerfinu voru slíkar að það er ekki á færi venjulegs fólks að skilja það sem átti sér stað mitt í öllu eftirlitinu !

Sú skaðvæna lægð sem keyrði íslensku þjóðina þar í kaf orsakaðist frekast af því að yfirmannahluti áhafnarinnar, hinn borðalagði hlunnindahópur, sá sem réð stefnu og stýri, bar ekki á nokkurn hátt eðlilega ábyrgð og umhyggju gagnvart heildarhagsmunum þeirra sem um borð voru og áttu líf sitt undir því að þjóðarskútunni væri siglt af fyllstu gát um úfið málahaf þeirrar veraldar sem aldrei er til friðs.

Seðlabankinn fór líklega í sína dýpstu lægð á þessum tíma og var þó sagður vera undir snilldarstjórn, samkvæmt háværu mati þeirrar gullkálfamafíu sem hefur aldrei virst vita neitt um lífskjaralægðir í landi þessu, þó hún hafi valdið þeim flestum !

Og það eru lægðir á vinnumarkaði sem birtast skýrast í því að hálaunastéttir eiga að fá kauphækkanir þegar eftir því er óskað, en venjulegum launþegum er sagt svo gott sem að éta skít. Það er hið sígilda stef frá tímum Joe Hills sem hefur alltaf ráðið í almennum kjaramálum á Íslandi : „Work and pray, live on hay, you´ll get pie in the sky when you die !“

Og það er alveg sama hvort talsmaður atvinnurekenda ber nafnið Víglundur Þorsteinsson eða Þorsteinn Víglundsson eða eitthvað annað ; alltaf er sama viðkvæðið uppi við ef venjulegir launþegar vilja fá einhverja kauphækkun. Þá er það alltaf almætti sérgæskunnar sem talar. Þá er sagt með miklum áhyggjusvip, að allt muni fara í bullandi verðbólgu og lífskjörin detta niður úr öllu valdi. Og þannig er alltaf talað af hálfu þessara sérhagsmunahöfðingja þegar þeir koma í opinberri umræðu inn á hin margniðursöxuðu lífskjör okkar, venjulegs launafólks í þessu marghrjáða lægðalandi, þessi lífskjör sem eru Norðurlandaskömm !

Efnahagslægðastefnan er og hefur lengi verið allsráðandi í þessu landi. Öllum gróða hefur jafnan verið stýrt inn í einkadilka en tapi sturtað niður til almennings. Og þessvegna er sú staða tilkomin í landinu að sumir vita ekki aura sinna tal en aðrir lifa við hungurmörk. Og sú staða hefur verið búin til og sköpuð af ráðnum hug af forhertum íslenskum sérréttindaaðli í miklu meiri mæli en áður, á síðustu tuttugu árunum eða svo. Enda voru þeir hnútar þá hnýttir í þeim efnum sem seint verða leystir ef ekki verður almennilega tekið á málum í gegnum samtakamátt fólksins í landinu !

Þeir hnútar segja okkur einfaldlega að þjóðleg velferð er ekki á dagskrá hér og hefur reyndar aldrei verið síðan við þóttumst verða sjálfstæð. Það hefur ávallt snúist allt um velferð hinna fáu, fjármagnsgreifanna. Hinar græðgisfullu og óseðjanlegu blóðsugur ganga fyrir í öllu. Þær fá stöðugt að sjúga lífsblóðið úr æðum lands og þjóðar með viðvarandi leyfi valdhafanna.

Og hugsunarháttur þeirra sem gegna mestum hlutverkum í þjónustunni við þessar afætur kom til dæmis í ljós í vikunni þegar formaður Stóra þjóðarógæfuflokksins sagði í raun í fjölmiðlum að með því að koma til móts við kvótagreifana styddi hann þjóðina best !

Hverjir þóttust styðja þjóðina best með því að liðsinna þeim sem mest sem sköpuðu lægðina djúpu 2008 ? Það er alltaf sama óræktarhugsunin að baki, að halda því fram að hagsmunir heildarinnar felist í margfaldri offóðrun hinna fáu sem eiga að njóta alls !

Við getum haldið áfram að tala um lægðir, lægðir í siðferði og heiðarleika, lægðir í mannlegum samskiptum og sálarlífi, lægðir í stéttarlegri samstöðu og góðum gildum. En það sem veldur mestu er sú alkunna staðreynd sem sannast svo víða að - „ það sem höfðingjarnir hafast að, hinir ætla sér leyfist það !“

Eftir höfðinu dansa limirnir og þegar höfuðið er sýkt af allskyns villukenningum sem leiða til ófarnaðar er hætt við að stjórnin á þjóðarskútunni sé og verði afleit. Það hefur sannast með dýrkeyptum hætti í gegnum allar þær lægðir sem herjað hafa miskunnarlaust á þessa þjóð undanfarin ár. Og þar eru þær sem skapaðar hafa verið af mannavöldum verstar allra !

Eiga börnin okkar að erfa þessa stöðu, eiga börnin okkar að búa allt sitt líf við óstöðugleika og óöryggi vegna þess að sumir eiga að fá allt og aðrir sem minnst ? Á íslenskt lýðræði áfram að vera afskræming þess sem það ætti að vera, á allt sem getur verið gott og ærlegt í stjórnarfari alltaf að vera í skammarlegu skötulíki hér ?

Enn ganga lægðir yfir landið og mál er að linni. Ómar Ragnarsson talar í einni bók sinni um ljósið yfir landinu. Það ljós þurfum við að láta lýsa okkur til þjóðlegrar velferðar, því annars er íslenskt samfélag dauðadæmt !

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 50
  • Sl. sólarhring: 52
  • Sl. viku: 856
  • Frá upphafi: 356701

Annað

  • Innlit í dag: 22
  • Innlit sl. viku: 661
  • Gestir í dag: 19
  • IP-tölur í dag: 19

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband