Leita í fréttum mbl.is

Að lenda í þessu!

NOKKUÐ hefur borið á því að þegar menn hafa farið illilega út af sporinu og gleymt löglegum aðferðum við að koma málum sínum fram, sé talað um það sem eitthvað sem viðkomandi hafi lent í, sennilega þá fyrir slysni!

Þannig talaði núverandi forsætisráðherra í sjónvarpsviðtali fyrir nokkru um tiltekinn fyrrverandi þingmann, sem hefur eftir lykkjufall á leið sinni, boðið sig fram til þings á ný. Forsætisráðherra sagði eitthvað á þessa leið: "Fyrst hann þurfti nú að lenda í þessu!"

Og margir aðrir hafa talað svipað um aumingja mennina sem hafa þurft að lenda í þessu og hinu. Vesalings olíuforstjórarnir sem þurftu nú að lenda í þessu samráði! Aumingja frambjóðandinn sem þurfti nú að lenda í því að keyra ölvaður á staur og það rétt fyrir kosningar!

Svona tala sumir sem eiga að vera ábyrgir og þó einkum þegar í hlut eiga einhverjir sérmerktir fulltrúar kerfisins og ýmissa pólitískra átthagafélaga. Það vantar ekki að reynt sé að verja slíka fugla í bak og fyrir, þó það liggi á ljósu að einatt er það ábyrgðarleysi, hroki og glannaskapur sem er forsendan fyrir brotum þeirra. Í Byrgismálinu, sem er afskaplega ljótt mál á allan hátt og ekki síst fyrir eindæma vitleysisgang þeirra sem sinntu því af ríkisins hálfu, er ekki að sjá að neinn sé ábyrgur. Enginn þarf að segja af sér, enginn þarf að axla ábyrgð.

Gripið er til gamals varnarráðs í pólitískum skilningi, – "kerfið brást", er sagt, "látum kerfið taka á sig sökina, þá þarf enginn að taka pokann sinn".

Og ábyrgðin þynnist fljótlega út í ekki neitt því vandamálið er þæft þangað til það er kæft. Þannig er farin hin gamla spillingarleið niðurþöggunarinnar hér á landi sem annars staðar. Hún virðist eiga að gilda í hverju málinu af öðru.

Eyrnablautir unglingspiltar sem leiddir hafa verið í valdastöður vegna æskudýrkunar, þurfa því ekki fremur en aðrir að gjalda grunnfærni sinnar og reynsluleysis, en þjóðin fær að greiða glappaskotin.

Og þrátt fyrir þvílík mál fá opinberir aðilar hérlendis alltaf annað slagið sérstök skírteini erlendis frá um að það sé engin spilling á Íslandi og sennilega allra síst í pólitík!

En hætta á spillingu er alls staðar fyrir hendi þar sem menn takast á um völd og áhrif. Það er margsannað mál. Og í valdabaráttunni er yfirleitt ekki spurt um aðferðir en öllu meir um árangur. Tilgangurinn virðist vera látinn helga meðalið í flestum viðskiptum og skrattinn fær litla fingurinn í byrjun, síðan höndina alla og hjartað og sálina að lokum. Það er gömul og ný ógæfusaga.

Það er ekki gott þegar einhver tekur sér það sjálfdæmi að skammta sér laun úr opinberum sjóðum, en sá sem slíkt gerir treystir sennilega ekki svo lítið á það, að það verði alltaf einhverjir félagar í valdaklíkunni til að harma það að hann skyldi lenda í slíku og bera í bætifláka fyrir hann. Menn lenda víst ekki óvart í því að eignast slíka vini!

Það er einlæg von mín að íslenska þjóðin lendi aldrei í því að forustumenn hennar lendi svo illa á afgötum lögleysunnar, að það gæti leitt til þess að þjóðarskútan næði ekki framar lendingu í vör réttlætisins. Sumir gætu vissulega freistast til að halda að hættan á slíku sé orðin veruleg.

Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 118
  • Sl. sólarhring: 165
  • Sl. viku: 687
  • Frá upphafi: 365585

Annað

  • Innlit í dag: 114
  • Innlit sl. viku: 599
  • Gestir í dag: 114
  • IP-tölur í dag: 112

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband