Leita í fréttum mbl.is

Hugleiðing um mannorðsmál og fleira !

Hvað er að hafa óflekkað mannorð ? Getur flekkaður heimur yfir höfuð haft dómgreindarlegt skyn á því hvað það er ? Sú var tíðin að manni var kennt að menn yrðu að bera ábyrgð á gjörðum sínum og ef þeir brytu gegn lögum samfélagsins gætu þeir búist við því að vera sviptir sjálfræði. Ef menn brytu svo alvarlega af sér að þeir yrðu að sitja í fangelsi, áttu þeir að geta afplánað sinn dóm og verið svo frjálsir að því að hefja störf sem samfélagsþegnar á ný. En aldrei held ég að nokkur hafi litið svo á að með því væri fortíðin þurrkuð út !

Svo það sem maður hefur heyrt nú nýlega að menn sem hafa brotið alvarlega af sér og jafnvel svipt aðra lífi, geti endurheimt óflekkað mannorð eftir afplánun hefur maður ekki heyrt áður. Ef lagaskilningur sérfróðra aðila í dag í dóms og sakamálum er sá að afplánun refsingar skili mönnum út úr fangelsi með óflekkað mannorð, sama hvaða glæp menn hafa framið, finnst mér að sumir séu nú bara farnir að leika Almættið sjálft. Allsherjar-aflausn af því tagi er ekki að mínu viti á valdi neins í mannheimum.

Einhverntímann var því haldið fram að einhverjar konur hefðu fyrr á tíð getað keypt meydóm sinn til baka, fengið það skráð að þær væru óflekkaðar af karlsmannsvöldum þó reyndin væri önnur. Menn geta rétt ímyndað sér hvort slíkur gjörningur geti haft eitthvað raungildi þó margt geti orðið ríki og kirkju að tekjustofnum !

Fyrir all nokkrum árum gekk sú saga að skýrsluvélar Ríkisins hefðu reiknað óvart barn í konu sem komin var úr barneign og hafði ekki gert neitt sem hún vissi til að gæti gert hana barnshafandi. En allt í einu fór víst þessi óflekkaða kona að fá barnabætur greiddar. Ekki líkaði henni það og kvartaði út af því, enda mun henni hafa verið annt um mannorð sitt. Kostnaðarvandinn við að laga skekkjuna var sagður svo mikill að menn hefðu helst viljað að blessuð konan héldi barnabótunum og héldi sér jafnframt saman, en það fékkst ekki af hennar hálfu. Það varð að laga þetta þar sem konan vildi ekki með nokkru móti þiggja slíkar mútur á kostnað hreinleika síns.

Það getur sem sagt ýmislegt gerst í gegnum kerfismál og lagaflækjur, en það breytir ekki þeirri staðreynd að afmeyjuð kona er afmeyjuð þó hún fái skírteini frá yfirvöldum upp á það fyrir ærna greiðslu að svo sé ekki. Eins er með aðrar óafturkallanlegar gjörðir að þær verða ekki gerðar að engu.

Morðingi getur því aldrei í mínum huga verið með óflekkað mannorð. Og hver sá maður sem drepur mann og reynir að dylja verknað sinn og varpa með því grun á aðra, er að mínu áliti meira en manndrápari, hann er morðingi. Og útþurrkunar-aflausn fyrir slíkt voðaverk getur hvorki ríki eða kirkja í þessum heimi veitt á eðlilegum siðferðilegum forsendum, enda er það ekki á mannlegu valdi sem fyrr segir. Það er aðeins einn sem getur hreinsað slíkt út að fullu og þá erum við auðvitað að tala um Skaparann sjálfan. Ég held að jafnvel lögfræðingar geti ekki skilgreint sig sem staðgengla hans !

Margir hafa orðið manni að bana í sjálfsvörn og í raun getur það komið fyrir hvaða mann sem er að neyðast til að verja sig og sína með þeim hætti, enda gerir löggjöf vestrænna þjóða yfirleitt ráð fyrir því að slík vörn sé réttlætanleg ef málsatvik sýna það með sanni. En þegar um dráp er að ræða sem verður dulsmál og enginn gengst við verknaðinum, er málið stórum alvarlegra. Það skapast hætta á því að saklaust fólk verði fyrir sakargiftum og lífi þess verði hreinlega rústað. Það þarf ekki að fara úr landi til að finna dæmi um slíkt. Því er manndráp þar sem gjörningsmaðurinn gefur sig ekki fram - og þá erum við náttúrulega að tala um morð, víðtækara afbrot og verra, og þá ekki hvað síst í samfélagslegum skilningi.

Náðunarforsendur eða stytting refsitíma tekur oftast mið af góðri hegðun í fangelsi sem kallað er, og því eru mýmörg dæmi um að menn sitja ekki inni nálægt því allan þann tíma sem dómur hljóðaði upp á. Og þó að menn hagi sér vel í fangelsi til að sleppa fyrr út segir það í sjálfu sér ekki mikið um iðrun og afturhvarf. Svo er það alltaf talsvert álitamál hvort maður sem gerst hefur sekur um svo alvarlegan glæp sem morð, hafi í raun og veru iðrast þess sem hann gerði. Hann getur sagst gera það en hver veit  hvað gerist í hugarheimi annars manns ?

Stundum virðist samúð manna hérlendis ótrúlega mikil með brotamönnum, jafnvel morðingjum, og hinn dauði er bara dauður og ekki meira um það að segja. Ég spyr, er ekki hægt að hafa samúð með látnum manni sem hefur verið sviptur lífinu ? Á sínum tíma sagði þáverandi dómsmálaráðherra landsins þegar hann var spurður í útvarpi hversvegna ævilangt fangelsi væri eiginlega ekki nema 16 ár hérlendis, að 16 ár væri langur tími ! En þess ber að gæta að maður sem hefur verið drepinn á ekki afturkvæmt eftir 16 ár. Ástvinir hans sjá hann aldrei aftur og fá hann aldrei til baka !

Lög eru samfélagslegur sáttmáli um þær reglur sem ráða eiga í þjóðfélaginu að almannadómi og skapa okkur öllum öryggi og velferð. Þau eiga fyrst og fremst að vera sett með hagsmuni heildarinnar í huga og sem slík ættu þau því yfirleitt að njóta almannafylgis. En stundum eru lög sett til að verja sérhagsmuni, einokun og ýmislegt sem getur gengið þvert á almannahagsmuni. Þá eru ekki rétt mál í gangi og spilling komin í spilið. Stjórnmálalegt atfylgi af röngu tagi knýr á með slíkar lagasetningar og af því er bölvun.

Ég þekki dæmi þar sem lögfróðir menn hafa gefist upp á því að skýra með hliðsjón af heildarhagsmunum hversvegna tiltekin lög séu eins og þau hafa verið útfærð. Þegar svo hefur verið komið, hefur aðeins skilað sér úr þeirra munni hið hrokafulla útslag : „ Þetta eru lög og þið verðið að hlýða þeim !“ En lög sem eru sett með hagsmuni sérútvalinna í huga en ekki almannaheill eru ekki lög heldur ólög og ólögum ber ekki að hlýða. „Með lögum skal land byggja en ólögum eyða“ hafa verið íslensk leiðarorð um langa hríð. Æðstu lögin eru velferð fólksins eins og rómverski mælskumaðurinn Cicero sagði í ræðu fyrir 2000 árum. Spyrja má því af hverju enn séu til menn í þessum yfirlýsta upplýsingarheimi sem enn hafa ekki náð því að svo eigi að vera ?

Skýringin er fyrst og fremst græðgi einstaklinga sem vilja meira og meira og hatast við allan jöfnuð, græðgi manna sem eiga offjár og njóta mikilla valda en vilja samt stöðugt meira af hvorutveggja. Og slíkir menn komast oft býsna langt í því að gera lögin sér auðsveip og láta kerfið vinna í sína einkaþágu.

Þegar menn eru ekki jafnir fyrir lögunum geta sumir sem telja sig kannski eiga kerfislegan stuðning vísan eða einhverja sterka að, farið fram á hluti sem eru í raun ekki forsvaranlegir í samfélagi sem vill láta telja sig siðlegt. Á Íslandi hefur það að mínu mati aukist á seinni árum að gjá hafi myndast milli þess sem löglegt á að heita og þess sem almenningur hefur talið siðferðilega rétt. Af slíku tilfelli hafði hugsjónamaður einn sem vildi leiðrétta ýmsar lagalegur misfellur í kerfinu það sem sín lokaorð í umræðuþætti sem alkunnur varð: „Sem sagt, löglegt en siðlaust !“

Við getum gefið okkur það, að því meira sem það löglega og það siðlega fer saman í hugum fólks, í því betra og manneskjulegra þjóðfélagi lifum við, en þegar andstæða þess vex þá sé þjóðfélagsgerðin að verða þeim mun verri. Lagareglur samfélagssáttmálans þurfa jafnan að vera sem skýrastar ef við ætlum okkur að lifa í þjóðfélagi sem veitir þegnum sínum eðlilegt borgaralegt öryggi. 

Það vantar að minni hyggju talsvert á slíkt hérlendis og sú vöntun virðist hafa færst í aukana á síðari árum frekar en hitt og er það ærið tilefni til að valda mönnum áhyggjum. Það hlýtur nefnilega að vera eitthvað að í kerfinu hjá okkur þegar stöðugt er sagt að unnið sé að auknum jöfnuði og réttlæti en niðurstaðan er jafnan önnur og það jafnvel þveröfug !!!

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 53
  • Sl. sólarhring: 89
  • Sl. viku: 858
  • Frá upphafi: 356754

Annað

  • Innlit í dag: 45
  • Innlit sl. viku: 677
  • Gestir í dag: 45
  • IP-tölur í dag: 45

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband