Leita í fréttum mbl.is

Illt er þegar glóran glatast !

 

Sú ríkisstjórn sem verið er að mynda – að sögn, - segist ætla að stefna að meiri sátt í samfélaginu ? Það er nú svo ! Aldrei hefur það nú verið talin gæfuleg byrjun til góðra hluta að svíkja stefnu sína og ganga í eina sæng með öllu því sem öfugt snýr við þeim hugsjónum sem eiga að ráða för, en það er forusta VG að gera !

 

Hvað gerist þegar því er blandað saman sem ekki á saman ? Hvað kemur út úr því ? Örugglega ekki það sem vonast er eftir ! Hvað gerist þegar einn vinstri flokkur ætlar að sameinast tveimur hægri flokkum, sameinast flokkum sem innihalda nánast allt auðvaldið í landinu, allt sem sannir vinstri menn hafa ætíð verið að berjast gegn ?

 

Færast hægri flokkarnir tveir til vinstri eða færist vinstri flokkurinn til hægri ? Hvað skyldi nú vera líklegra ? Í hverju geta málamiðlanir slíks samstarfs legið öðru en verulegum afslætti á stefnumálum og hugsjónum ?

 

Nú liggur fyrir að íhaldið gengur ekki fyrir hugsjónum og hefur aldrei gert, hugsjónir innan Framsóknar dóu með Samvinnuhreyfingunni, þessir flokkar ganga bara fyrir hagsmunagæslu tiltekinna valdahópa í þjóðfélaginu. Eru pólitískir varðhundar þeirra !

 

En Vinstri grænir gengu fyrir hugsjónum og áttu að ganga fyrir hugsjónum, áttu að vera varnartæki fyrir hinn almenna mann og réttindi hans, sem svo oft eru þverbrotin af áhrifaöflum þeirra sem nú þykja æskilegir sem samstarfsaðilar í ríkisstjórn !

 

Forustulið VG virðist alls ekki skilja að með því að ganga til samstarfs við auðvaldsflokkana er hugsjóna-afslátturinn alfarið þeirra megin og það er tap sem verður ekki endurheimt. Traustið sem fyrir var hefur þá verið svikið !

 

Hugsanlegt hagsmunatap hinna flokkanna verður hinsvegar auðveldlega endurheimt af því að það verður bara tímabundinn hagsmuna-afsláttur og til dæmis mun dvínandi gengi VG í komandi tíð fljótt reynast vatn á myllu þeirra. Það er beinn hagsmunalegur ávinningur fyrir þá af komandi stjórnarsamstarfi – að gera hættulegan andstæðing miklu óvirkari með því að samspilla honum !

 

Á sínum tíma var Alþýðubandalagi og Framsókn núið því um nasir að hafa gengið til samstarfs við Gunnar Thoroddsen eingöngu vegna þess að með því væri verið að kljúfa Sjálfstæðisflokkinn. Vissulega gátu það verið rök út af fyrir sig, en það segir okkur líka kannski svolítið um það hversvegna íhald og Framsókn vilja svo gjarnan fá VG til samstarfs – eða sjá menn það ekki ?

 

Ef yfirlýst vinstri manneskja kýs að sitja sem forsætisráðherra í skjóli íhaldsaflanna í landinu á kostnað alls þess sem er undirstaða vinstri hugsjóna, hlýtur hún að vera eitthvað annað en vinstri manneskja. Það segir sig sjálft og það mun hefna sín !

 

Hægri flokkarnir vita að þeirra bakland er tryggt og gengur bara fyrir hagsmunum, en bakland VG hefur verið hugsjónaleg grasrót og svik við það sem þar gildir verða ekki fyrirgefin eða þurrkuð út. Traust sem hefur verið svívirt vinnst ekki svo glatt aftur !

 

Hið ríkjandi vantraust hjá fólki eftir hrunið, á öllum yfirvöldum þessa lands, getur nú náð sömu stöðu gagnvart forustu VG og það hefur haft gagnvart öllu öðru. Og skilaboðin sem því fylgja eru slæm og þau eru - nú er engum hægt að treysta lengur !

 

Kata Kobba hefur fyrirgert trausti margra til vinstri en verður kannski vinsælli til hægri fyrir að dansa með þeim Bjarna Ben og Sigurði Inga. Fyrir suma stóla er sýnilega miklu fórnað, en það verður erfitt fyrir hana sem komandi forsætisráðherra og ábyrgðarmann ríkisstjórnar að sitja með tvo úlfa yfir sér alla daga, ýlfrandi fyrir hönd sinna græðgisvæddu sérgæskuhjarða !

 

Kannski að það verði henni verðskulduð refsing fyrir svikin við þá sem kusu að treysta henni til góðra verka ?

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 53
  • Sl. sólarhring: 102
  • Sl. viku: 622
  • Frá upphafi: 365520

Annað

  • Innlit í dag: 49
  • Innlit sl. viku: 534
  • Gestir í dag: 49
  • IP-tölur í dag: 48

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband