Leita í fréttum mbl.is

TIL ATHUGUNAR FYRIR ALMENNA BORGARA !

 

Það er orðið nokkuð langt síðan Ásgeir Einarsson frá Þingeyrum fór suður á Alþingi með strandferðaskipi og hafði með sér að heiman skrínukost svo að hann borðaði ekki á leið til þings á kostnað þjóðarinnar. Þá voru þjóðhollir þingmenn til á Íslandi og siðvitund manna sannarlega í allt öðrum farvegi en nú er !

 

Sumir sem sitja á þingi núorðið telja greinilega að þeir séu þyngdar sinnar virði í gulli fyrir þjóðina og rekstrarkostnaður þeirra sem starfandi þingmanna sé því aukaatriði. Slíkir skörungar sitja náttúrulega ekki við skrínukost og mikilvægi þeirra á sjálfsagt að vera öllum kostnaðarliðum mikilvægara. Það er hinsvegar vont mál þegar slíkt mat er eingöngu hugarfóstur þeirra sjálfra og að litlu hafandi í heimi veruleikans !

 

Glöggir bloggarar hafa bent á framferði þingmanna sem kunna sér ekki hóf varðandi útgjöld og virðast halda að þeim leyfist allt gagnvart þeim sem borga laun þeirra, almennum borgurum í þessu landi.

 

Einn athyglisverður bloggari hefur dregið saman ýmsar þær upplýsingar sem koma hér á eftir og vakið hafa athygli mína enn frekar á misbresti þeim sem virðist vera á eftirliti með opinbert fé :

 

Á árinu 2017 voru 66 þingfundardagar á Alþingi, 14 dagar að auki undir nefndarfundi. Árið var óvenjulega lítið starfsár í almennu þingstarfi. Það voru stjórnarmyndunarviðræður, stjórnarslit, kosningar, langt páskafrí, langt jólafrí og þar að auki nokkuð langt sumarfrí. Allt stuðlaði það að því að þingstörf urðu ekki mikil á árinu. Það hefði átt að þýða að rekstrarkostnaður væri í flestum liðum óvenju lágur !

 

En, nei, ekki var það nú svo í öllu, því þrátt fyrir framangreindar aðstæður tókst Ásmundi Friðrikssyni einhvernveginn að keyra 47.644 km á árinu vegna starfs síns sem þingmaður fyrir Suðurkjördæmi. Þingmaðurinn er búsettur í Garði á Reykjanesi, ekki svo ýkjalangt frá Alþingi, en virðist vera talsvert miklu meira úti að aka en aðrir þingmenn. Hann skráði fyrrnefnda keyrslutölu og fékk hana greidda frá ríkinu. Alls nam endurgreiðslan 4,6 milljónum króna eða um 385.000 kr. á mánuði !

 

Keyrslan er eins og hann hafi ekið hringinn um landið nærri 36 sinnum !!!

Ef einhver ætlaði að keyra þessa vegalengd án þess að stöðva, tæki það hann 22 sólarhringa ef keyrt væri á hámarkshraða, 90 km á klst. !!!

Einnig er komið fram að endurgreiðslu-upphæðin er miklu hærri en allur rekstrarkostnaður bílsins sem er talinn vera í kringum 2 milljónir króna á ári !!!

 

Þingmenn fá rúmlega 1,1 milljón í laun á mánuði, en margir hafa ýmsar viðbótar-sporslur fyrir nefndarstörf o.fl. Allir þingmenn fá greiddar 30.000 kr. á mánuði í fastan ferðakostnað og 40.000 kr. í svokallaðan starfskostnað !

 

Ásmundur Friðriksson ætti samkvæmt því að fá 1.360.000 kr. á mánuði í heildarlaun. Þegar við það bætast 385.000 kr. vegna aksturskostnaðar eru heildarlaun hans orðin 1.745.000 kr. á mánuði ………………!

 

Lágmarkslaun á Íslandi eru skilgreind 280.000 kr. á mánuði !

 

Það er greinilegt að himinn og haf skilur að hugsunarhátt Ásgeirs bónda á Þingeyrum og Ásmundar Friðrikssonar og svipuð víðátta virðist vera milli kjara þingmannsins og almennings í landinu !

 

Hvar erum við eiginlega á vegi stödd með það fólk sem situr á þingi fyrir þjóðina og virðist satt að segja í sumum tilfellum ekki hugleiða mikið að ábyrgð verði að fylgja því valdi sem því er falið ? Hvað með alla umræðuna á þingi um að efla skilning og traust o.s.frv. ?

 

Traustið fór á botninn eftir hrunið og manni virðist hreinlega sem það sé farið að bora sig neðar en það í seinni tíð. Þetta broddborgaralið á Alþingi virðist algerlega sambandslaust við almenning í landinu – þjóðina sjálfa !

 

Að lokum vil ég geta þess - þó það ætti auðvitað að vera þarflaust, að Ásmundur Friðriksson situr á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn !

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.12.): 206
  • Sl. sólarhring: 381
  • Sl. viku: 1062
  • Frá upphafi: 358533

Annað

  • Innlit í dag: 201
  • Innlit sl. viku: 911
  • Gestir í dag: 199
  • IP-tölur í dag: 199

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband