Leita í fréttum mbl.is

Að búa við þjóðmenningu eða hrærigraut !

 

 

Líklega má halda því fram, að Bandaríkin séu helsta dæmi fjölmenningarríkis í nútímanum og þaðan hefur áróður fyrir fjölmenningu breiðst mjög út því Bandaríkin eiga í sjálfu sér enga þjóðmenningu sem slíka. Og menn jafnt sem þjóðir geta ekki lagt rækt við það sem þeir eiga ekki !

 

Vegna þess að heildstæða þjóðmenningu vantar í Bandaríkjunum og slíkt grundvallarmál sameiningar er ekki til staðar þar, er sú ofuráhersla lögð á þjóðfánann sem svo víða kemur fram. Fáninn er í raun látinn vera sameiningartákn Bandaríkjamanna, hverrar þjóðar sem þeir annars eru !

 

Lengi framan af voru Bandaríkin menningarlega þó undir enskumælandi forræði og litu valdhafar þar vestra svo á að það væri hin eðlilega staða. En á síðustu áratugum hefur þetta verið að breytast mikið og spænskumælandi íbúar suðvesturfylkanna eru orðnir svo fjölmennir að fyrri valdahlutföll eru ekki lengur til staðar !

 

Spænskættað fólk er að taka þar yfir. Innflytjendastraumurinn að sunnan hefur valdið þessu ásamt hærri fæðingartíðni meðal þess fólks. Það er ekki af engu sem Donald Trump, helsti forvígismaður hægri aflanna í Bandaríkjunum og núverandi forseti, vill byggja Berlínarmúr á suðurlandamærunum !

 

Í æði mörgum fylkjum Bandaríkjanna eru mjög fjölmennir hópar frá ákveðnum löndum, afkomendur fólks sem kom þaðan sem innflytjendur á sínum tíma. Stór hluti þessa fólks heldur fast í erfðir sinnar þjóðmenningar frá gamla landinu, þó að í hlut eigi þriðja eða fjórða kynslóðin í nýja landinu. Hollustan er sterk við gamla landið og tengslin rík !

 

Það er í frásögur færandi að fjölmargir Bandaríkjamenn af þýskum stofni fóru til Þýskalands til að berjast með Þjóðverjum í seinni heimsstyrjöldinni þó öfgastefna nazista réði þar. Bandaríska lýðræðis-uppfræðslan sem þeir höfðu átt að hafa notið var nú ekki haldbetri en það. Þessum mönnum óx það ekkert í augum að eiga að drepa Bandaríkjamenn !

 

Þeir höfðu öðlast full borgararéttindi í Bandaríkjunum, voru að fullu viðurkenndir þar, en hollustan var engu að síður tengd við ómennsk yfirvöld í gamla landinu. Engum datt þó í hug að setja þýska Bandaríkjamenn í fangabúðir, en það var hinsvegar gert við japanska Bandaríkjamenn. Þeir höfðu víst ekki útlitið með sér í þjóðagrautnum !

 

Það er heldur ekkert óvenjulegt að Bandaríkjamaður taki það fram, að hann sé til dæmis sænskættaður eða eitthvað á þá vísu, en Íslendingur tekur það varla fram að hann sé af dönskum ættum. Hann er nefnilega þjóðmenningarlegur í viðhorfi sínu en hinn er það ekki, sem varla er von !

 

Tíðni morða og manndrápa er í sögulegum hæðum innan Bandaríkjanna og skyldi það ekki geta verið að hluta vegna þess að þar eru svo margir sem eiga ekki samleið ? Ef fjölmenningarsamfélag eða allra þjóða ríki væri virkilega af því góða, væri sameinandi frekar en sundrandi, ætti þá ekki að vera minna um glæpi í Bandaríkjunum en annarsstaðar ? Væru menn þá ekki búnir að höndla lausn lausnanna í samskiptum þar vestra ?

 

Nei, það er ekki svo og verður aldrei svo ! Bandaríkin eru ríkjabandalag þjóðahópa sem í mörgum tilfellum eiga ekki samleið og vilja í raun ekki eiga samleið. Og þetta bandalag er viðkvæmara en flestir gera sér grein fyrir og laustengt í flesta staði. Eitt af því sem virðist halda ríkisbákninu saman er viðvarandi stríðsrekstur !

 

Bandaríkin verða sýnilega alltaf að vera í stríði við einhvern út á við. Það á víst að virka sem ákveðinn stoppari á viðsjárnar í innanlandsmálunum. En ríki sem þarf stöðugt að standa í stríði til að hanga saman, er ekki líklegt til að búa við raunverulegt öryggi og framtíðargæfu !

 

Borgarastyrjöldin varð sú ógæfa sem hrakti Bandaríkin út af fyrri braut og gerði frelsishugsjónina afstæða. Hún varð þá ekki lengur sameiginleg öllum ríkjunum á þann hátt sem áður hafði verið. Þegar Suðurríkin voru þvinguð inn í ríkjasambandið á ný eftir ósigurinn í styrjöldinni með fullu hervaldi og nýlendukúgun, fylgdu því brestir sem aldrei hafa gróið !

 

Menn voru neyddir til að vera í mörg ár í þeirri mannskemmandi stöðu. Lífsaðstæður þeirra voru ekki lengur undir frjálsum vilja þeirra komin. Þeir fengu ekki að lifa áfram við það frelsi sem þeir töldu sjálfsagt og eðlilegt. Þar byrjaði átumeinið sem síðan hefur spillt svo mörgu og nánast nagað sundur allan grundvöll ríkisins !

 

Þegar heimsvaldastefnan hóf svo í framhaldi mála fyrir alvöru innreið sína í Hvíta húsið, breyttist allt stjórnarfar Bandaríkjanna stórlega til hins verra. Borgarastyrjöldin og eftirfylgjandi ránskapur og arðrán í Suðurríkjunum æsti blóðbragðið upp í valdamönnum þar vestra og þeir vildu meira. Nýr vargur var þar með kominn í hóp þáverandi stórvelda heimsins og græðgi hans varð brátt meiri en allra hinna !

 

Bandaríkin urðu fljótt að ,,hundingja sem hausi veltir, hvar sem bráð á jörðu lítur.” Og hið áður þokkalega orðspor Bandaríkjanna sem ríkis frelsis og manndáða, versnaði eftir það með hverju árinu sem leið og gerir enn. Þar er nú búið að eyðileggja flest það sem áður var almennt viðurkennt gott og gildisbært. Allt vegna yfirþyrmandi fjármálaauðvalds sem þekkir engin takmörk og virðir engin takmörk !

 

Og hvernig skyldi hinn dæmigerði Bandaríkjamaður vera nú á dögum ? Hver skyldi hinn þjóðernislegi bakgrunnur hans vera ? Það er líklega hægt að fá nokkuð mörg svör við slíkum spurningum. Aðlögun að einhverju sem á að vera öllum jafn sameiginlegt hefur gengið afskaplega treglega í Bandaríkjunum sem fyrr segir. Þar stendur margt á móti og sú sameiningartilraun hefur ekki heppnast enn og gerir það líklega seint !

 

Frelsisfrasar Bandaríkjamanna eru löngu gengnir sér til húðar. Sjálfstæðisyfirlýsingin margfræga er löngu orðið marklaust plagg fyrir þeirra eigin tilverknað. Ekkert heldur gildi sínu til lengdar nema staðið sé við það. Það hefur aldrei verið hægt að halda sömu lyginni endalaust að fólki. Og stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa fyrir löngu svikið sína eigin arfleifð og sögu !

 

Allt það sem stofnfeður Bandaríkjanna vildu hafa í heiðri í upphafi er nú einskismetið af eftirmönnum þeirra. Þar sem lýðræði var áður er nú gjörspillt fjármagnsvald í hásæti undir forustu auðhringa, sem eru eins langt frá því að vera almenningsvænir eins og nokkuð getur verið. Hvert stefnir þegar svo er komið ?

 

Bandaríkin eiga vissulega eftir að tortímast innan frá vegna þeirra andstæðna sem ríkja í innviðum þeirra og hefur þegar gert þá svo rotna, að þeir standa ekki mikið lengur undir því sem þeir eiga að bera. Þar er allt burðarvirkið orðið svikult og bý ekki yfir þeim styrk sem þyrfti að vera !

 

Og jafnframt þeirri innri vá, felst eyðingarmáttur úrkynjunar í græðginni og yfirganginum sem ræður öllu út á við og hefur lengi gert. Þar er oftast um að ræða ofbeldiskennd viðskiptasamskipti sem koma engu góðu til leiðar og skilja aðeins eftir uppsafnaða óánægju og reiði. Bandaríkin eru Babylon nútímans og það í margföldu veldi.

Það styttist þar í syndafallið !

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 69
  • Sl. sólarhring: 117
  • Sl. viku: 638
  • Frá upphafi: 365536

Annað

  • Innlit í dag: 65
  • Innlit sl. viku: 550
  • Gestir í dag: 65
  • IP-tölur í dag: 63

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband