Leita í fréttum mbl.is

,,Íþrótta-fyrirtækin” !

 

 

Það ættu nú flestir að sjá það nú til dags að íþróttir eru orðnar allt annað en þær voru hér áður fyrr. Nú gengur þar allt út á peninga, ekki síst þar sem boltinn snýst. Það sem áður hét og var félagslið er í raun í dag ekkert nema fyrirtæki, oftar en ekki í eigu einhvers auðkýfings !

 

Og auðvaldið þar á bak við þarf ekkert endilega að vera af meiði þeirrar þjóðar þar sem fyrirtækið starfar. Ensk fótbolta-fyrirtæki geta þessvegna verið í eigu rússneskra oligarka, arabískra olíukónga eða íslenskra gervigreifa. Það er ekkert þjóðlegt við starfsemina lengur !

 

Og leikmennirnir – eða öllu heldur starfsmennirnir – ganga kaupum og sölum. Verð þeirra er ekkert smáræði, enda líklegir kaupendur ekki á flæðiskeri staddir. Og allt er miðað við að kaupa vopn sem duga og tryggja gróðavænlegan rekstur. Þau vopn eru starfsmenn sem kunna að sparka frá sér. Allt í bransanum kallar á boltasnillinga sem skila mörkum, skila sigrum, skila peningum !

 

Og hvar eru þá íþróttirnar ? Þær eru vafðar inn í sögu liðins tíma, alveg eins og hugtakið ,,Ræktun lands og lýðs.” Hinar raunsönnu íþróttir gengu ekki út á fjárhagslega stóriðju eins og íþróttir virðast gera svo mikið í dag !

 

Þær voru miðaðar við ,,mens sana in corpore sano” - heilbrigða sál í hraustum líkama. Þær voru iðkaðar mönnum til vaxtar og viðgangs og fyrir heilbrigð viðmið í lífinu !

 

Lárviðarsveigar íþróttamanna til forna voru heiðurstákn og sæmdarmerki, þar var ekki verið að keppa eftir gulli á forsendum græðgi og auðgunarhyggju. Þá stóðu íþróttir undir nafni sem slíkar !

 

Tíminn heldur stöðugt áfram sinni för og venjur og viðmið breytast og því miður allt of oft til hins verra. Grundvallarforsendur góðra hluta geta þannig breyst með þeim hætti að ekkert þekkist þar lengur á sama veg og áður. Kjarninn er þá orðinn annar eða hefur verið leystur upp í andstæðu sína. Allt farið að þjóna einhverju öðru en að var stefnt í byrjun !

 

Á slíku ferli má sjá, að jafnvel góðir hlutir geta að lokum orðið slíkir að þeir séu ekki góðir lengur, einkum þegar það er orðið vafamál í hugum margra að svo sé. Það er dapurlegt þegar svo er komið málum !

 

Þá er tæpast lengur um þróun að ræða, heldur öfugþróun og afturför frá heilbrigðum gildum. Þá er búið að skadda eitthvað sem þótti gott og uppbyggilegt meðan það var og hét. Og slíkur viðsnúningur getur stundum orðið án þess að það hafi í sjálfu sér verið að honum stefnt, Menn dragast oft með í einhvern svelg án þess að hafa ætlað sér það !

 

Ekki held ég að neinum hugnist í raun framvinda sem spillir hugsjónum og góðum gildum, og verður að lokum einhver afskræming þess sem hún var hugsuð til að vera og ætti að vera. En það er eflaust þungt að standast strauminn sem veldur slíku niðurrífandi bakflæði gildismála með mammonískum þrælatökum nú til dags !

 

Íþróttir virðast mér því á margan hátt orðnar, fyrir áhrif óheftrar markaðshyggju og efnishyggju-sjónarmiða, með skaddað gildismat nú til dags. Afreksmenn vaða þar í þvílíku peningaflóði að það er með ólíkindum. Menn geta rétt ímyndað sér hvernig slík ofgnótt hlýtur að fara með marga þá sem eiga að vera öðrum góðar fyrirmyndir í íþróttalegum skilningi !

 

Þegar hugsjónin er lögð undir auraveltuna að fullu og öllu, verður hún fljótt að engu. Þá eru það allt önnur markmið sem taka völdin og halda þeim. Þar er oftast meira lagt á menn en þeir þola !

 

Þegar svo er komið er það nefnilega ekki lengur íþróttin sem slík sem laðar og dregur, það eru peningarnir !


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 229
  • Sl. sólarhring: 314
  • Sl. viku: 1660
  • Frá upphafi: 318483

Annað

  • Innlit í dag: 198
  • Innlit sl. viku: 1284
  • Gestir í dag: 197
  • IP-tölur í dag: 193

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband