Leita í fréttum mbl.is

Þankar um yfirstandandi heimshremmingar !

 

 

Það fár sem nú er að ganga yfir heimsbyggðina sýnir glöggt hversu viðkvæmt allt okkar alheimskerfi er. Það sprettur einhver fjandi upp á einum stað og eftir nokkrar vikur er hann kominn um allt. Enda hvernig á annað að vera ? Flugið gerir ferðalög skjót og greið og fjarlægðir eru ekki lengur sú hindrun eða vörn sem áður var. Það er fátt svo að það fylgi því ekki bæði gott og slæmt !

 

Nú er það meira en mikilvægt, að menn viti sem fyrst af hverju veira eins og Covid -19 kemur upp, hverjar eru orsakirnar ? Getum við búist við öðrum hliðstæðum árásum á heilsufar mannkynsins á næstu árum ? Er þessi veira eitthvað sem við sjálf höfum komið af stað og framleiðum jafnvel í gegnum eitthvað sem við gerum rangt ? Getum við búist við ýmsum stökkbreyttum útgáfum af þessum fjanda í komandi tíð ? Í stuttu máli sagt, af hverju gerist þetta ?

 

Við erum nú líklega mitt í heilsufarslegum afleiðingum þessarar sóttkveikju, en allar líkur benda til þess að í framhaldinu verði um að ræða mjög erfiðar efnahagslegar afleiðingar af þessu fári víða um heim. Þær munu trúlega geta valdið kreppu í mörgum þjóðlöndum, sem mega ekki við miklu, og þannig haft slæm áhrif á afkomu milljóna manna !

 

En umfram allt vekur þetta ástand miklar spurningar um almennt öryggi, þegar sú staða er uppi, að einn sýkist af öðrum og hættan felst meðal annars í of miklu og nánu samneyti við annað fólk ? Það er vafalaust fyrir flesta óþægileg upplifun að þurfa að neyðast til að breyta háttum sínum og atferli varðandi almenna umgengni við aðra !

 

Flestu fólki er það svo eðlilegt að tjá væntumþykju sína og hlýju við hvert annað, að það er erfitt að koma sér upp einhverri fjarlægðarvörn í þeim efnum. En lífshættulegur veirufaraldur eins og Covid-19 gerir það í meira lagi varasamt að viðhalda fyrri háttum. Staðreyndirnar tala sínu máli varðandi það. Svo stöðumatið er : Haldið ykkur í hæfilegri fjarlægð frá hvert öðru. Engin handabönd, ekkert knús, engir kossar !

 

Úff ! Það er óskemmtilegt fyrir flesta að þurfa að una slíkum kærleiks-takmörkum, en þannig verður það víst að vera meðan þetta hættuástand varir, vegna sameiginlegrar velferðar okkar allra !

 

Samfélagskennd okkar Íslendinga hefur nú oft þótt býsna einkennileg og margir segja hana felast allt of mikið í því að fá eitthvað hjá öðrum en láta lítið af hendi á móti. Ef það er rétt mat er meiri vandi fyrir dyrum en ella. Það felst nefnilega mikil áskorun í því að takast á við Covid -19 veiruna !

 

Okkur er fyrirlagt af forsvarsmönnum ríkisvalds og heilbrigðismála, að standa þetta veraldarfár af okkur sameiginlega og með trúverðuga ábyrgðarkennd allra landsmanna að kjölfestu. Það er sem sagt kallað eftir þjóðlegri samstöðu varðandi þetta mál. Það þýðir að samfélagskennd okkar Íslendinga mun verða að taka sitt próf í gegnum þetta ferli !

 

,,Vandi fylgir vegsemd hverri,” segir máltækið og höfum við ekki jafnan litið svo á, að það væri þjóðleg vegsemd að vera Íslendingur ? Þurfum við þá ekki að sýna í verki, enn og aftur þegar á herðir, að við getum virkilega staðið saman ? Að við eigum áfram fulla samleið í gegnum súrt og sætt ?

 

Vonandi mun fyrrnefnt próf ábyrgðar og samfélagskenndar færa okkur og öðrum viðhlítandi sönnur fyrir því að við séum fær um að halda velli á sæmilega heilbrigðum grundvelli á vettvangi lífsins !


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 207
  • Sl. sólarhring: 338
  • Sl. viku: 1638
  • Frá upphafi: 318461

Annað

  • Innlit í dag: 183
  • Innlit sl. viku: 1269
  • Gestir í dag: 183
  • IP-tölur í dag: 180

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband