Leita í fréttum mbl.is

Ekki verður allt keypt fyrir peninga !

 

Miðað við þau lífsgæði sem fjöldi fólks á Vesturlöndum nýtur, finnst mörgum lífið allt of stutt. Fólk vill hafa miklu lengri tíma til að njóta. En þar geta verið ýmis ljón á veginum eins og margir fá að reyna !

 

Þeir eru býsna margir sem eru ekki búnir að hlaða undir sig efnum og auði fyrr en kemur að efri árunum og þá er ekki eins gaman að njóta eins og þegar fólk var ungt. Heilsan jafnvel orðin léleg eða bara farin eftir hamstrið og hamaganginn á græðgisárunum. Allt hefur sem sagt sín takmörk – þrátt fyrir fengið ríkidæmi !

 

Svo eftirköst eins og hrörnun og heilsuleysi vilja setja stórt strik í reikninginn hjá fólki þó efni séu til staðar. Og sumir segja ergilega : ,, Það er vegna þess að lífið er allt of stutt !” En við þurfum ekki að fara langt aftur í tímann þegar meðalaldur í Evrópu var ekki nema helmingur þess sem hann er nú. Og ekki var venjulegu fólki þá boðið að njóta neins. Það lifði allt meira og minna við sult og seyru !

 

Aðeins aðallinn og prestarnir lifðu nautnalífi á þeim tíma og það á erfiði hinna vinnandi stétta. En þeir sem flutu ofan á þá eins og nú kvörtuðu á sama hátt og þeir gera í dag, ,,lífið er allt of stutt !” Því alltaf kom Dauðinn að lokum og hann gátu menn ekki flúið. Menn urðu að hverfa frá ríkidæminu, óðulum sínum og höllum, metorðum og öllum hinum yfirflæðandi efnisgæðum. Þurftu bara sama rúm í jörð og aðrir !

 

Dauðinn gerði engan greinarmun á háum og lágum og allir dóu – enginn gat keypt sig frá þeim lokadómi. Og ríka fólkinu fannst það í meira lagi skítt og svo er enn. En flest af því hafði og hefur síst af öllum áunnið sér aukinn rétt til lífsins !

 

En áfram er samt reynt að lengja lífið, þrátt fyrir hrörnun og heilsuleysi. Sumir auðjöfrar láta skipta um blóð í sér reglulega, aðrir fá ný líffæri austan úr heimi, hvernig sem þau eru annars tilkomin.

Í krafti auðs geta sumir líklega lengt líf sitt um einhver ár, en þeir lifa samt við áframhaldandi hrörnun. Þeir kaupa sér ekki yngingu !

 

Jafnvel Ann Nicole gat ekki komið meira lífi í sinn ektamaka, enda var líf hans á förum og reyndar ekki svo langt eftir af hennar tilveru. Auðurinn breytti þar engu um. Dauðinn fer ekki í manngreinarálit. Það er það meginatriði sem tekur ekkert mið af ríkidæmi. Allir hrörna, allir deyja !

 

Og til hvers er þá þetta allt ? Eru þessi svokölluðu lífsgæði einhvers virði þegar allt kemur til alls ? Erum við kannski alltaf að leita hins óforgengilega í því forgengilega ? Hlaða vitleysu ofan á vitleysu !

Til hvers er að safna auði alla ævi og deyja svo frá honum og spilla um leið afkomendum sínum með ríkidæminu ?

 

Þannig fer fyrir öllum sem leita á röngum stöðum. Hamingjan er ekki fólgin í veraldlegum auði, líf í fullri gnægð er fólgið í þjónustu við andleg gildi sem eru og verða. Aðeins sá sem fórnar sjálfum sér sigrar Dauðann og erfir hið Eilífa Líf ! Þannig er lögmál Almættisins og hefur alltaf verið !


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 44
  • Sl. sólarhring: 49
  • Sl. viku: 850
  • Frá upphafi: 356695

Annað

  • Innlit í dag: 21
  • Innlit sl. viku: 660
  • Gestir í dag: 19
  • IP-tölur í dag: 19

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband