Leita í fréttum mbl.is

Um tindátaleik táls og svika !

 

 

Þegar Vesturveldin, undir forustu Bandaríkjanna, fóru inn í Afghanistan fyrir 20 árum, að eigin sögn, til að hreinsa til, var veldi talibana þar, að margra mati, að hrynja. Landsmenn voru að stórum hluta búnir að fá nóg af hemjulausum yfirgangi þeirra og öfgahyggju !

 

En viti menn, það færðist fljótlega nýtt líf í hina fylgishrakandi hreyfingu. Og á 20 árum, hvorki meira né minna en fimmtungi aldar, hefur sýnilegasta afleiðingin af veru hinna erlendu hersveita í landinu verið - stöðug aukning á styrk talibana. Hvernig víkur því við ?

 

Jú, hinar erlendu hjálparsveitir hafa fært talibönum fullt af nýjum liðsmönnum, mönnum sem voru reyndar margir hverjir ekki ýkja hrifnir af talibönum áður. En loftárásir ,,góðu gæjanna” á fjallaþorp og dreifðar byggðir í landinu hafa drepið fjölda fólks !

 

Maður sem stendur uppi einn eftir að eiginkona hans og tvö börn hafa kannski verið drepin með slíkum hætti, á ekki nema einn valkost. Hann gengur í lið með talibönum til að hefna dauða fjölskyldu sinnar !

 

Við brottför erlenda herliðsins hefur verið sagt frá því að nýjar hersveitir afghana hafi verið þjálfaðar til liðveislu við stjórnarherinn, en eitthvað er nú skrítið við þann gjörning. Talibanar virðast nefnilega valta yfir stjórnarherinn og þessar nýju liðssveitir eins og ekkert sé !

 

Héraðshöfuðborgirnar hafa fallið ein af annarri í hendur þeirra og tuttugu ára vera erlendra hersveita í landinu er ekki að skila neinu. Ætti góður málstaður ekki að geta sannað gildi sitt á 20 árum ? Jú, ef hann hefur verið góður, en niðurstaðan sýnir að þar hefur fátt verið sem skyldi !

 

Björgunarherinn mikli fer með skít og skömm frá Afghanistan. Það ætti að vera öllum ljóst. Brottför hans líkist engu öðru en flótta. Það er ekki hátt ris á hetjunum þegar þær snúa heim. Þar hafa menn sýnilega ekki ráðið við ætlað verkefni frekar en sovétmenn á sínum tíma !

 

Eftir alla hreinsunina og hjálpina er staðan verri en hún var í byrjun. Skipulagsleysið og aumingjaskapurinn hefur verið með ólíkindum !

 

Þeir fóru til að bjarga Írak, en gerðu þar allt verra. Þeir fóru til að bjarga Lýbíu og sama gerðist þar, og nú hljóta þeir þriðja skipbrotið í Afghanistan. Reyndar eru dæmin fleiri ef út í það er farið !

 

Talibanar hafa fitnað eins og púkinn á fjósbitanum við öll afskipti vesturveldanna í Afghanistan. Þeir virðast hafa fullt af vopnum og hvaðan fá þeir þau ! Það væri sannarlega fróðlegt að vita ?

 

Og nú virðist liggja fyrir að afghanska þjóðin verði enn og áfram að þola kúgun og harðræði öfgasinnaðra múslima, manna sem hata ekkert meira en vesturveldin !

 

Og sennilega verður meðferðin á þjóðinni miklum mun harkalegri vegna afskipta vesturveldanna af innanlandsmálunum á þessum síðastliðnum tuttugu árum. Hefndarhugur talibana mun þar ráða ferðinni !

 

Það verður líklega enn og aftur hreinsað til með öfugum hætti. Aftökur verða líklega ekki svo fáar á fólki sem hefur unnið með andstæðingunum og þar með framið landráð að mati talibana. Það er hryllilegt að hugsa til þess sem getur gerst þarna á næstu mánuðum !

 

Sjálft Almættið forði sérhverri þjóð í þessum heimi frá slíkum ,,hjálparher,” frá slíkum ,,björgunarmönnum,” sem skilja við ástandið eins og það er og hafa verið þar hinir verstu orsakavaldar !

 

Einskis góðs var að vænta af þessu ruslaraliði erlendis frá, sem virðist ekkert hafa vitað hvað það átti að gera í Afghanistan og hefur eyðilagt miklu meira en það þykist hafa bjargað. Hvenær ætla menn að læra af reynslunni ? Hver er í þörf fyrir hjálp slíkra Vandala ?

 

Nató hefur nánast verið eins og strákur á stuttbuxum í samskiptum sínum við talibana. Þeir hafa sýnilega leikið sér að forustu þessa mikla varnarbandalags vesturlanda og haft ráðamenn þar að algjörum fíflum !

 

Loks virðist líka hafa verið svo komið að ekkert hafi heyrst annað á skrifstofum Nató en uppgjafarvælið eitt og tómt : ,,Komum okkur burt úr þessu helvíti !”

 

Og nú flýr herafli Nató landið og skilur alla þá sem stóðu með honum eftir varnarlausa, til að verða fórnarlömb talibana. Og helvítið sem þeir tala um, hefur að miklu leyti verið búið til af þeim sjálfum, í gegnum allt þeirra öfugsnúna verklagsferli í Afghanistan, í heilan aldarfimmtung !

 

Hin ömurlega uppskera fer þar sannarlega eftir sáningunni. Hafi Nató skömm fyrir skilin !

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 69
  • Sl. sólarhring: 117
  • Sl. viku: 638
  • Frá upphafi: 365536

Annað

  • Innlit í dag: 65
  • Innlit sl. viku: 550
  • Gestir í dag: 65
  • IP-tölur í dag: 63

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband