Leita í fréttum mbl.is

Um lýðræðisþroska !

 

 

Við Íslendingar erum oft mjög seinir til að vinna úr hugmyndafræðilegum spursmálum og látum flest í þeim efnum löngum dragast langt úr hófi. Það sannast til dæmis í afstöðunni til endurskoðunar og breytinga á stjórnarskránni. Þar virðist enginn leggja í að ganga afgerandi til verka !

 

Pólitískur þroski er hinsvegar nauðsynlegur þáttur sem þarf hugsunarlega að vera til staðar í hverju lýðræðissamfélagi, ef vel á að fara. Sá þroski situr oft eftir og einkum þegar æsingur hleypur í málin og skemmir heilbrigða framvindu. Fólk þarf að geta fengið einhvern tíma til að hugleiða málin óáreitt og komast að niðurstöðu með sjálfbærum hætti !

 

Slíkt fyrirkomulag eflir pólitískan þroska hvers og eins og gerir fólk heilsteyptara og skilningsbetra á þá þjóðlegu ábyrgð sem ætlast er til að kjósendur beri. Þá er stefnt að því sem stefna ber !

 

Ég hef lengi talið það mikla nauðsyn, að kosningabaráttu séu settar vissar skorður af tillitssemi við kjósendur. Að henni ljúki á einhverjum tilteknum tíma, til dæmis sólarhring fyrir kjördag, og fólk fái svigrúm til að vega og meta í friði fyrir áreiti hvað það hyggst gera við sitt atkvæði. Með slíku fyrirkomulagi væri jafnt kjósendum sem lýðræðinu sýnd sú virðing sem vera ætti til staðar við kosningar !

 

En sumir virðast nú þannig gerðir að þeir vilja andskotast með áróður fram á síðustu stund og hundelta fólk nánast inn í kjörklefana. Það eru ekki mannasiðir. Og það sem meira er, við drögum lýðræðið niður í svaðið með slíku háttalagi. Það ætti hver maður með heilbrigða hugsun að geta séð !

 

Margt bendir til þess í seinni tíð að íslenski lýðræðisþroskinn muni fara sömu leið og íslenski geirfuglinn. Menn virðast bera æ minni virðingu fyrir lýðræðinu og réttinum til að fá að kjósa. Það er hættuleg framvinda !

 

Það er löngum sagt, að enginn viti hvað hann hefur átt fyrr en hann hefur misst það. En það á ekki allt að þurfa að deyja sem ekki getur flogið á eigin vængjum. Allir hafa eitthvað fram að færa í heilbrigðu samfélagi !

 

Við vitum hinsvegar að hjá sumum eru óheiðarlegar aðferðir engin hindrun ef ná skal árangri. ,,Tilgangurinn helgar meðalið” segja sumir. Heiðarleikinn virðist vera á förum úr samfélaginu og kannski einkum vegna þess að æ fleiri komast á þá skoðun að það borgi sig ekki að vera heiðarlegur. Slík afstaða er voði fyrir hvert samfélag !

 

En hver vill búa í þjóðfélagi þar sem það borgar sig að vera óheiðarlegur ?

Hver vill vera þar sem allir stela og svíkja ? Hver vill leita að öryggi sínu þar ? Ef við verndum ekki samfélag okkar og kosti þess, hver gerir það þá ?

 

Þurfum við ekki öll að sýna lýðræðisþroska og hafa heilbrigðan metnað fyrir því að bæta samfélag okkar, heildinni til gagns og þrifa ?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 27
  • Sl. sólarhring: 76
  • Sl. viku: 596
  • Frá upphafi: 365494

Annað

  • Innlit í dag: 24
  • Innlit sl. viku: 509
  • Gestir í dag: 24
  • IP-tölur í dag: 24

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband