Leita í fréttum mbl.is

ÞJÓÐMENNINGIN OG FJÖLMENNINGIN

Þjóðmenningin stóð niður á Austurvelli hjá styttu Jóns Sigurðssonar, klædd í sinn hátíðabúning og skautaði fullri fegurð, þegar Fjölmenningin kom þar askvaðandi, eins og henni lægi reiðinnar ósköp á.

Þjóðmenningunni varð fyrst í stað starsýnt á klæðaburð hennar, því segja mátti að hún tjaldaði tuskum úr öllum áttum. Það var eins og ekkert í þeim efnum væri samstætt. Ekki féll þetta Þjóðmenningunni alls kostar í geð en hún ákvað samt að vera kurteis sem venja hennar var og sagði því við Fjölmenninguna:

“ Komdu sæl og blessuð “. Fjölmenningin svaraði með einhverri kveðju sem virtist flutt fram á mörgum tungumálum. “ Fyrirgefðu “, sagði Þjóðmenningin, “ en getum við ekki talað íslensku ?” “ Hversvegna ættum við að gera það ? “ svaraði Fjölmenningin önug og leit tortryggnisaugum á Þjóðmenninguna. “ Nú, af því að við erum á Íslandi og þetta er landið okkar, “ svaraði Þjóðmenningin vinsamlega.

“ Landið tilheyrir íbúum sínum ,” svaraði Fjölmenningin hvöss á svip, “ og þeir tilheyra mörgum þjóðum, við eigum því ekkert fremur að vera íslensk en hvað annað “. Þjóðmenningunni varð hálf hverft við þegar hún heyrði þetta svar. Það var engum blöðum um það að fletta að þarna var talað gegn því þjóðlega einingarbandi sem hún hafði alla tíð staðið fyrir. “ Mér þykir leitt að heyra þetta “, sagði hún samt kyrrlátlega, “ ég hef alltaf verið íslensk og talið þetta land tilheyra mér og öllu því sem vill vera íslenskt. “

Fjölmenningin hló við og sagði: “ Það eru komnir nýir tímar og þú verður að skilja það. Það er allt orðið breytt. Það klæðir sig til dæmis enginn nú til dags eins og þú gerir. Það er afskaplega sveitalegt. Þú ættir að sjá sjálfa þig í spegli, það er hörmung að sjá þig, þú ert sjáanlega gömul og þröngsýn, fordómafull og óupplýst. Það er auðséð að það er ekki mikið í þig varið ! “

Þjóðmenningin roðnaði ofurlítið við þessa ádrepu en svaraði þó hlýlega sem fyrr: “ Mér þykir leitt að ég skuli vera svona ómöguleg í alla staði að þínu mati, en ég hef þó alltaf reynt af fremsta megni að standa ærlega að öllu því sem mér hefur verið trúað fyrir .” Fjölmenningin hló nú háðslega og sagði: “ Jæja, jæja, og fyrir hvað þykist þú svo sem standa, það getur nú varla verið merkilegt. “

Þjóðmenningin fann nú að það fór aðeins að síga í hana, en hún vildi samt halda friðinn í lengstu lög og svaraði því ekki eins og hana helst langaði til að gera, þess í stað sagði hún fastmælt: “ Ég stend fyrir mitt fólk, það fólk sem vill heyra mér til. Ég hef aldrei brugðist því og mun aldrei bregðast því. En fyrst þú spyrð mig að þessu, vil ég spyrja þig þess sama, fyrir hvað stendur þú ?”

Fjölmenningin leit með lítilsvirðingu á Þjóðmenninguna og svaraði yfirlætislega: “ Ég , - ég stend fyrir allt mögulegt, eiginlega alla skapaða hluti sem byggjast á víðsýni og fordómaleysi. Allt verður nefnilega að fjölbreyttu mynstri við það eitt að komast í snertingu við mig, svo þú sérð að ég er hátt yfir þig hafin. Þú hefur alltaf forpokast á einum stað eins og þínir líkar, en eftir að ég komst á legg hef ég farið sigurför um allan heiminn.”

Þjóðmenningin stóð um stund þögul og hugsi, svo hóf hún upp höfuð sitt og leit á styttu Jóns Sigurðssonar, horfði á hana stundarkorn og sagði svo: “ Þú segir það, látum þetta útrætt að sinni, en víkjum að öðru, geturðu  sagt mér af hverjum þessi stytta er sem stendur hérna hjá okkur ?” Fjölmenningin rak augun upp á styttuna og glápti á hana eitt andartak, en sagði svo drambslega : “ Nei, ég hef ekki hugmynd um það og fæ heldur ekki séð að hún sé neitt merkileg og ekki væri hún hérna ef ég réði einhverju um það.”

Þjóðmenningin leit beint framan í Fjölmenninguna og sagði: “ Ég átti ekki von á því að þú myndir kannast við Jón Sigurðsson, sem kallaður var sómi lands vors, sverð og skjöldur. Hann var nefnilega íslenskur í eðli og anda eins og ég. Ég fæ ekki séð að við getum átt neina samleið. Að svo mæltu gekk Þjóðmenningin sína leið, en tók sjáanlega stóran sveig framhjá alþingishúsinu þegar hún gekk þar hjá.

Fjölmenningin stóð ein eftir um stund og gapti, svo leit hún  aftur upp á styttuna og það hnussaði í henni. Svo vafði hún að sér allar sínar tuskur og gekk rakleitt að dyrum alþingishússins og hvarf inn um þær.

( Þjóðhátíðardagspistill – ritaður 17. júní 2006. )


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 35
  • Sl. sólarhring: 84
  • Sl. viku: 604
  • Frá upphafi: 365502

Annað

  • Innlit í dag: 32
  • Innlit sl. viku: 517
  • Gestir í dag: 32
  • IP-tölur í dag: 32

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband