Leita í fréttum mbl.is

RÍKISÓMAGAKERFIÐ

Svokallað kvótakerfi hefur verið bölvun fyrir íslensku þjóðina, og einkum þá sem búa á landsbyggðinni, allar götur frá því það var sett á laggirnar. Ég kalla að þar hafi verið sett á fót ríkisómagakerfi og tel fullar forsendur fyrir þeirri nafngift. Í gamla daga var talað um þá sem hreppsómaga sem höfnuðu á sveitarframfæri og þótti það ekki virðingarverð staða. Margir urðu að lúta því helsi og gátu ekkert við því gert. Vildu þó flestir fegnir geta unnið fyrir sér og sínum.

Nútíminn er að flestu leyti ólíkur fyrri tíma. Nú eru þeir sem eru helstu ómagarnir á framfæri hins opinbera, stoltir af því og taka fagnandi við framlögunum ár hvert úr sameignarsjóði þjóðarinnar. Þeir eru kallaðir sægreifar en eru þó ekkert nema ómagar á þjóðarframfæri. Þeir eiga ekki mikið skylt við sjómenn fyrri ára sem þurftu að veiða fiskinn til þess að eignast hann. Þeir eru sumir hverjir algjörir hvítflibbar bak við skrifborð, menn sem aldrei hafa migið í saltan sjó, en geta samt átt hundruðir tonna af fiski í sjó – vegna kerfisvitleysunnar.

Við Íslendingar börðumst ekki  fyrir sigri í landhelgismálunum til þess að fá yfir okkur bölvun eins og kvótakerfið. Það var aldrei ætlun þjóðarinnar að auðlindinni yrði ráðstafað með þvílíkum hætti. En sérgæskan vann þar sitt óþurftarstarf og pólitískir lubbar gengu í þann klúbb sem þarna myndaðist, í reykfylltu bakherbergjunum, eins og aðalverktaki að auðlindinni okkar. Einkavasarnir skyldu njóta ávaxtanna en ekki þjóðin öll eða almenningur. Og brátt fóru ótal útgerðir að blómstra sem alltaf höfðu verið í basli. Ávísanir úr ríkissjóði gerðu þar gæfumuninn og brátt fóru menn að versla á fullu með óveiddan fisk sem -  jú - var auðvitað ekkert nema peningur.

Og það var byggð upp auðstétt í landinu, með tilkomu þessa ríkisfram-færslukerfis, en ekki bara það, heldur var séð til þess að þrælastétt yrði líka til í kringum útgerðina. Það hlutverk varð þeirra sem fengu ekkert í sinn hlut og urðu að neyðast til að ganga á mála hjá hinum forríku ríkisómögum. Þegar aðalsstétt er sköpuð verður að hafa þræla, nóg af þrælum í kringum forréttindahyskið.

Landhelgisbaráttan var því til lítils háð því afrakstur hennar er fyrir tilverknað kvótakerfisins orðinn verri en enginn í mannlegum skilningi. Ég sem almennur Íslendingur á meira sameiginlegt með enskum sjómönnum eins og þeim sem sóttu á Íslandsmið til að framfleyta fjölskyldum sínum, en íslenskum sægreifum sem hafa myndað spillta auðstétt í landinu fyrir tilverknað rotinna stjórnunarmála. Þeir eru ekkert nema rangstæðir ríkisómagar - afætur í auðlind þjóðarinnar.

Saga kvótakerfisins er eitt blóðsuguferli. Lengi framan af var reynt að þagga niður alla andstöðu við kerfið með þeim röksemdum að þarna væri um verndarkerfi að ræða. Fiskistofnunum væri í gegnum þetta kerfi tryggð hámarksgeta til vaxtar. Margir gleyptu við þessari blekkingarbeitu og  hættu að deila á fyrirkomulagið. En hvað hefur komið á daginn. Kvótakerfið er á engan hátt verndarkerfi og hefur aldrei verið. Nú er tíminn búinn að sýna það svo ekki verður á móti mælt.

Landsbyggðin byggðist öll upp á frjálsri fiskisókn. Þorpin urðu til í kringum veiðifrelsið. Danir sviptu okkur aldrei frjálsum veiðirétti en það gerðu íslensk stjórnvöld til að hygla sérvalinni auðklíku. Íslandssagan mun, að minni hyggju, setja eilíft brennimark á þá sem það gerðu.

Kvótakerfi ríkisómaganna er glæpsamlegt. Það er hrein og bein svívirða og öllum þeim til skammar sem hafa fitnað eins og púkar á því. Kvótakerfið hefur skapað meiri sundrungu, óeiningu og hatur milli Íslendinga en nokkuð annað síðastliðin tuttugu ár. Og það mun halda áfram að naga og eitra, spilla og umsnúa öllum ærlegum hlutum hérlendis, þar til þjóðin verður búin að fá svo nóg af því að hún mun rísa upp til að koma því út úr heiminum.

Siðvillingin í kringum þetta kerfi hefur verið hryllileg og gert marga, að því er virðist, ónæma fyrir eigin réttlætiskennd. Margir hafa farið að verja þessa óþverraskipun í bak og fyrir vegna þess að þeir hafa fengið svo stórar ómagadúsur í sinn hlut. Þar virðist buddunnar lífæð hafa slegið svo ákaft í brjóstum manna að samviskan hefur brunnið upp til agna.

Það er dapurlegt upp á að horfa hvað djöfullegt fyrirkomulag getur valdið mikilli bölvun og við Íslendingar þurftum sannarlega á öllu öðru að halda frekar en þessu kvótakerfi andskotans.
Sturla Böðvarsson hefur nú opinberlega bæst í hóp þeirra sem hafa gagnrýnt harkalega þetta skipulag skrattans og víst er gott þegar menn sem hafa virst vera blindir eru farnir að sjá. Megi þeir verða sem flestir.

En kvótamafían hefur ráðist sem sturluð að Sturlu fyrir vikið. Hann er jafnvel vændur um að vita ekki hvað hann sé að segja vegna þess að hann sé húsasmiður en ekki fagaðili í sjávarútvegi. Heyr á endemi !

Þarna er ekki um það að ræða að menn þurfi að vera einhverjir fagaðilar. Nóg réttindi eiga að fylgja því að vera íslenskir ríkisborgarar til að menn megi tjá sig um lífshagsmunamál af þessu tagi. Menn snúast gegn ríkisómagakerfinu vegna þess að þeir vilja fylgja réttlætinu og finna í hjarta sínu að þetta kerfi er bölvun fyrir allt sem miðar að heilbrigðu réttarfari og eðlilegri hagsmunaþróun í þágu lands og þjóðar.

Ríkisómagasveitin sést
saðningu heimta í öllu.
Gráðug er hún í málum mest,
minnir á veiðibjöllu.

Til hennar streymir fæðan full,
fjarlægð úr eigu þjóðar.
Komast þar enn í kvótagull
krumlurnar græðgisóðar.

Landhelgisfrelsið fjötrað var,
fjandinn þar gekk í spilið.
Hvernig sá glæpur gerðist þar
getur víst enginn skilið !


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 51
  • Sl. sólarhring: 59
  • Sl. viku: 885
  • Frá upphafi: 357153

Annað

  • Innlit í dag: 18
  • Innlit sl. viku: 695
  • Gestir í dag: 14
  • IP-tölur í dag: 14

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband