Leita í fréttum mbl.is

Castro lætur af völdum - nokkur orð um það.

 

 

 Nú hefur Fidel Castro, forseti Kúbu, lýst því yfir að hann sé að láta af völdum og  Raúl bróðir hans taki við, en hann hefur gegnt störfum um skeið sem forseti í veikindaforföllum bróður síns. Sú tilhögun mála er þó að flestra mati lausn, hugsuð til bráðabirgða.

Athyglisvert er að skoða jafnt viðbrögð einstaklinga sem fjölmiðla við þessu útspili Castros. Í fjörutíu og níu ár hefur þessi maður staðið uppi í hárinu á öflugasta ríki heims, staðið af sér efnahagsþvinganir þess og tilræði allt fram á þennan dag. Og ég spyr, er dæmi um að maður sem hefur haft jafnmikil völd jafnlengi hafi farið vægilegar með þau en hann ?

Morgunblaðið fjallar um Castro í leiðara undir fyrirsögninni " Einræðisherra fer frá ". Þar er samkvæmt gömlu línunni, reynt að tína til ýmislegt áróðursefni gegn Kúbuforseta, en svo undarlegt sem það er virðist samt örla á því að sumsstaðar skíni í gegnum textann ákveðin aðdáun á Castro.

Þegar talað er um einræðisherra er náttúrulega ekki hægt að stilla öllum slíkum upp í einu lagi. Það er t.d. ekki hægt að setja Fidel Castro í hóp með Adolf Hitler, Stroessner, Somoza og slíkum eða þá Stalín og Pol Pot.

Hvernig væri heimurinn ef Hitler hefði haft 49 ár til athafna sem einræðisherra ?

Fidel Castro hefur vafalaust gert ýmis mistök um dagana, en flest bendir til þess að hann hafi alltaf haft stórt hjarta fyrir sinni þjóð. Það hefur hann sýnt með ýmsu móti í orðum og verkum. Og staðreyndin mun líka vera sú að mikill fjöldi Kúbumanna sé stoltur af forseta sínum.

Það er með ólíkindum hvílík áhrif Kúba hefur haft um alla Rómönsku Ameríku.

Nú sitja leiðtogar í sumum ríkjum þar sem líta á Castro sem huglæga fyrirmynd.

Þeir sjá í honum mann sem gat boðið Bandaríkjunum byrginn og fyrst Kúba gat haldið sinni stöðu við þær aðstæður, því skyldi þá ekki Venezúela geta það eða önnur ríki álfunnar.

Sú var tíðin að því var haldið fram af hægri mönnum, að kommúnistar gætu hvergi náð völdum nema með ofbeldi og blóðugri byltingu. Svo gerðist það að marxistinn Salvador Alliende var kosinn forseti í Chile í lýðræðislegum kosningum. Þá brá svo við að hægri menn, lýðræðishetjurnar sjálfar, gerðu blóðuga byltingu, drápu forsetann og þúsundir landsmanna og í kjölfarið fylgdi herstjórn undir forustu hins ógeðslega Pinochets. Og velþóknun Bandaríkjanna fylgdi Pinochet alla tíð, enda mun hann trúlega hafa verið orðinn handbendi CIA þegar hann framdi valdaránið.

Þegar Nelson Rockefeller var varaforseti Bandaríkjanna, fór hann sem slíkur í opinbera heimsókn til nokkurra landa Suður-Ameríku. Það þurfti mikinn herafla til að gæta hans því hvarvetna á för hans kom til mikilla óeirða og mótmæla gegn Bandaríkjunum og arðránsstefnu þeirra í þessum heimshluta. Robert Kennedy gat þess í ræðu á sínum tíma, að Bandaríkin yrðu að breyta um stefnu gegn löndunum í suðri. Þar væru börnin alin upp í hatri á Bandaríkjunum, hákarlinum sem alltaf brytjaði niður sardínurnar eftir geðþótta.

En það var ekki hlustað á Robert Kennedy frekar en William Fulbrigt, Ramsay Clark og aðra sem hafa viljað gera vestræna heimsveldið manneskjulegra og sjálfu sér samkvæmara. Bandaríkin studdu stjórn Batista á Kúbu, enda hefur það aldrei skipt stjórnina í Washington neinu máli að völdin séu í höndum einræðisherra svo framarlega sem hann þjónaði undir Bandaríkin.

Þegar Fidel Castro náði völdum vildi hann breyta ástandinu á Kúbu sem átti þá allt sammerkt með öðrum löndum hinnar arðrændu álfu. Hann mætti þá miklum þröskuldum og hefur átt við margháttaða erfiðleika að stríða á sínum ferli, en samt verið sjálfum sér miklu samkvæmari en nokkur sá sem setið hefur sem forseti í Washington á hans valdatíma.

Frægt var þegar hann sendi kúbanskar hersveitir til Angóla til að hjálpa innfæddum til sjálfstæðis gegn nýlendukúgurum heimsvaldasinna þar og handbendum þeirra. Það sýndi að hann fann til ríkrar samkenndar með þeim sem voru að berjast fyrir þjóðfrelsi í sínum heimalöndum.

Bush forseti hefur lýst því yfir að hann voni að lýðræði komist á á Kúbu innan skamms - og í hans augum og hans líka er lýðræði að fullu og öllu bandarískt fyrirbæri. En Bush gleymdi því að hluti af Kúbu er bandarískt yfirráðasvæði samkvæmt áratuga gömlum samningum og þar er ekki haldið vel á málum í lýðræðislegum skilningi. Þar eru alþjóðalög þverbrotin og mannréttindi fótum troðin.

Ég vil því leyfa mér að halda því fram að bandaríska lýðræðið sem viðhaft er í Guantanamo geti enganveginn þótt eftirsóknarvert í augum Kúbumanna, þó á Kúbu kunni að vísu að finnast menn sem þrá að komast í þá aðstöðu að geta arðrænt meðbræður sína.

Ég held að arfleifð Castros verði seint útmáð í Rómönsku Ameríku og til hans muni verða vitnað þar í mörgu um ókomna tíð.

Að öllu samanlögðu tel ég því að ferill hans sanni að hann verðskuldi þá virðingu sem honum er sýnd í umræddum heimshluta og raunar víða um heim. Ég yrði því ekki hissa á því að þeir yrðu til sem myndu nafnið Fidel Castro þegar enginn myndi lengur eftir George W. Bush !


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 3
  • Sl. sólarhring: 128
  • Sl. viku: 837
  • Frá upphafi: 357105

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 680
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband