Leita í fréttum mbl.is

Nýir bankar - en hvað svo ?

  Hinir föllnu bankar frjálshyggjumannanna, sem félagar þeirra í landsstjórninni töldu sig tilneydda að yfirtaka í nafni ríkisins, gátu ekki rekið sig þar sem lítið sem ekkert var eftir í þeim af peningum, meðal annars, vegna sjálftökuliðsins sem drottnaði þar og þeirra himinhæðar viðskiptahátta sem ábyrgðarleysið bauð upp á.

Og nú eru bankarnir sem sagt komnir í þjóðareign aftur og eiga að hlaða sig upp hjá ríkinu, þangað til reynt verður að einkavæða þá á nýjan leik.

En það verður auðvitað ekki fyrr en búið er að leysa úr skuldamálunum og velta 95% af byrðinni yfir á landslýðinn !

Hvar skyldu nú allir þessir peningar vera sem töpuðust ?

Hvað skyldu þeir nú vera orðnir margir Íslendingarnir sem hafa í gegnum allt frjálshyggjusukkið, orðið stórríkir á óhamingju saklausra samlanda sinna ?

Og hverjir skyldu stjórnendur hinna endurreistu banka vera og hver skyldi fortíð þeirra vera ?

Ég fæ ekki betur séð en þar séu mörg gamalkunn andlit úr yfirbankaliðinu sem horfði á allt fara til fjandans og vissi ekki neitt og gerði ekki neitt.

Mér heyrist líka að Edda Rós Karlsdóttir, sem var toppstykkið á greiningardeild Landsbankans og ein af ofurlaunamanneskjunum í bankakerfinu, með yfir 7 millur á mánuði, sé enn að skilgreina ástand mála og flytja lærða fyrirlestra um hvað beri og eigi að gera, en hvaða gagni skilaði hennar framganga þegar stefndi í að allt væri að hrynja ?

Margir hafa bendlað hana við hina " tæru snilld " Ice Save reikninganna, þar sem menn áttu bara að vera í því að taka á móti peningum, eins og Sigurjón Þ. Árnason orðaði það á sínum tíma.

Manneskjan hefur að vísu borið það til baka að hún hafi komið nálægt þeim gjörningi, en trúverðugleiki þessa fólks hefur beðið svo mikinn hnekki, að maður tekur lítið mark á orðum þess og síst þegar það er að fría sig ábyrgð á hlutunum.

Það ætti því kannski betur við að sumir færu sér hægar nú um stundir í sínum hálærðu fyrirlestrum og athuguðu frekar með gagnrýnum hætti eigin framgang !

Tryggvi Þór Herbertsson kom fram í feikna viðtali í Mbl. um daginn og ræddi þar fjálglega um ástand mála og skellti auðvitað allri skuldinni á alþjóðlega kreppu sem enginn hefði séð fyrir....... !

Er Tryggvi þessi ekki alkunnur frjálshyggjugaur og tók hann ekki fullan þátt í að spila frjálshyggjuna upp á sínum tíma ?

Svo er hann stikkfrí núna og kannast ekki við að hafa gert nokkuð rangt !

Lilja Mósesdóttir veit nú ráð til alls, en hvar var hún þegar hömlulaus græðgin reið hér húsum ? Hvað hafði hún til málanna að leggja þá ? 

Við fáum yfir okkur lærðar niðurstöður lektora, dósenta og allra handa páfugla á hverjum degi í útvarpi, sjónvarpi og blöðum. Allt er þetta fólk meira og minna hámenntað í hagfræði, viðskiptafræði og fjármálavísindum -  nákvæmlega eins og fólkið sem steypti hér öllu um koll !

En þrátt fyrir þetta er ennþá sami lofsöngurinn í gangi um þessa dýrmætu menntun sem öllu á að bjarga, en það er lítið rætt um reynsluna sem þarf að koma til og styðja við menntunina svo að hún skili sér með heilbrigðum hætti til samfélagsins.

Háskólafólk talar um finnsku leiðina út úr kreppu og fullyrðir að þar hafi menntunin bjargað, en það er hvergi nærri séð fyrir endann á þeim hörmungum sem  dunið hafa yfir almenning í Finnlandi. Af hagsmunaástæðum virðast þó sumir bara vilja horfa á einhverjar gyllingarútgáfur þaðan og neita staðreyndum mála !

Ragnheiður Ríkarðsdóttir skrifaði fyrir nokkru grein í Mbl. og þó að hún segðist vilja að skipt yrði um stjórn í Seðlabankanum, var með ólíkindum hvernig hún fór í málin að öðru leyti.

Hún sagði t.d. að það virtist sem hlakkaði í "kommum " yfir ástandinu !

Þegar fólk af hennar tagi talar um komma, er það yfirleitt að tala um harða vinstri menn, til dæmis menn eins og mig. Heldur hún að það hlakki í mér yfir því að þjóðin mín sé skuldsett upp fyrir haus og öllu eljuverki fyrri kynslóða stefnt hér í voða ?

Heldur þessi manneskja, sem situr víst því miður á þingi, að menn gleðjist yfir því að fjárglæframenn hafi fengið að leika hér lausum hala um langa hríð, landi og þjóð til skaða og vansæmdar ? Skilur hún ekki að við erum Íslendingar umfram allt og allt sem særir þjóð okkar særir okkur ?

Það er þá líkast til ljóst af því sem hún ætlar okkur hvernig hún sjálf myndi hafa brugðist við ef vinstri öfl stjórnmálanna hefðu keyrt efnahagsmál okkar svona í kaf ! Hún hefði sem sagt bara glaðst yfir því að geta komið höggi á pólitíska andstæðinga !

Svona sjónarmið eru forkastanleg og hverri manneskju til skammar.

Ég hef alla tíð, af ærinni ástæðu, verið andstæðingur Sjálfstæðisflokksins, en ég fagna auðvitað engan veginn yfir ástandinu, þó íhaldið eigi þar mestu sökina, því stjórnarhættir flokksins hafa komið Íslandi, landi mínu og þjóð, í hrikalegan vanda og það svíður undan því.

Ég fæ þó ekki séð að iðrun sé mikið ástunduð í Valhöll. Þar er sjáanlega forherðingin ein við völd og ekki er hrokinn minni í Seðlabankagoðinu.

Ég vil hikstalaust að Sjálfstæðisflokkurinn beri ábyrgð á gjörðum sínum og tel mig hafa undirstrikað það rækilega undanfarið í pistlum mínum.

Það er engum sjálfstæðismanni til heiðurs að verja Valhallarklíkuna eins og sakir standa, því hún hefur reynst þjóðarhagsmunum Íslands verri en flest annað.

Að slá skjaldborg um svínarí er engum manni til sæmdar og þaðan af síður því varnarþingi sem hann vill aðhyllast. Það ætti öllum að vera ljóst.

Það er lýðræðisleg höfuðnauðsyn fyrir þjóðina að losna sem fyrst við þennan valdhrokaflokk úr landsstjórninni, svo hægt sé í alvöru að hefja baráttu gegn þeirri spillingu sem viðgengist hefur.

 

En fullt af liði er einmitt nú að skrifa í Mbl. og afsaka Sjálfstæðisflokkinn í bak og fyrir og kenna öðru og öðrum um, jafnvel Samfylkingunni sem er tiltölulega nýlega komin að landsstjórninni, en frjálshyggja Davíðs og félaga er búin að ráða hér lögum og lofum í meira en hálfan annan áratug !

Ekki er ég hrifinn af Samfylkingunni og hef aldrei verið, en í mínum augum ber hún ekki stóra sök í þessum efnum miðað við Sjálfstæðisflokkinn sem ég vil bara leyfa mér að kalla Þjóðarógæfuflokkinn !

Einn sjálfstæðismaður skrifaði nýlega grein í Mbl. og úthúðaði útrásarmönnum, þotuliði og bankagreifum með mjög hörðum orðum, en sagðist svo vera stoltur sem sjálfstæðismaður af Geir Haarde og björgunarstörfum hans fyrir íslenska þjóð............ !!!

Kona ein, trúlega komin vel til aldurs, hringdi í útvarp nýlega og kvartaði hástöfum yfir eineltinu á hendur Davíð Oddssyni, sem væri á fullu í því að bjarga þjóðinni...........!!!

Þvílík afstaða til mála, þvílík blinda og persónudýrkun  - allt þetta útrásarhyski, þotuliðið og bankaaðallinn, allt er þetta meira og minna í Sjálfstæðisflokknum og fékk allt á silfurfati þaðan.

En svo á að reyna að hvítþvo flokkinn og kenna öðrum um og halda síðan áfram á sömu vitleysisbrautinni, með sömu heilaþvottarhagfræðina við stýrið.

Miklu meiri ábyrgð liggur hjá valdstjórnarmönnunum sem voru með umboð kjósenda til að gæta þjóðarhagsmuna, en hjá græðgisvæðingar-alikálfunum, sem þeir komu sér upp á kostnað almennings í þessu landi, og létu svo ekki að stjórn.

Til að fólk geri sér betur grein fyrir sýn sinni á stöðu mála, gæti það sett á blað 10 nöfn, nöfn þeirra sem það telur bera mesta ábyrgð á því hrikalega ástandi sem skapast hefur í efnahagsmálum þjóðarinnar.

Það er mín skoðun, að hver sá sem sér ekki ástæðu til að hafa nafn Davíðs Oddssonar meðal þeirra fimm efstu, hljóti að þurfa að leita sér hjálpar vegna átakanlegs skorts á veruleikaskyni og réttsýni !

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 9
  • Sl. sólarhring: 105
  • Sl. viku: 815
  • Frá upphafi: 356660

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 647
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband