Leita í fréttum mbl.is

Mótmælin þurfa að hafa skilgreind hreinsunarmarkmið

 

Það er mótmælahugur í fólki og það er skiljanlegt. Þjóðin stendur frammi fyrir raunverulegu gjaldþroti, hún býr við ömurleg stjórnvöld, ónýtar eftirlits-stofnanir, o.s.frv.o.s.frv. og við þessar aðstæður horfir hún upp á það, að enginn virðist tilbúinn að axla ábyrgð ?

Ráðamenn, sem hafa gjörsamlega brugðist skyldum sínum við þjóðina, tuða svo stöðugt um að vinna þurfi upp traust, en virðast algerlega ófærir um að skilja, að það kemur ekki til greina að sýna þeim traust eftir það sem gerst hefur.

Þeir tala um að allt verði að koma upp á borðið, en þó er stöðugt að koma í ljós tilhneigingin að stinga þessu og hinu undan, fela þetta og hitt og reyna að sitja,

sitja, sitja, í von um að fólk gefist upp og hætti að mótmæla. Það er talað um skríl og gert lítið úr lýðræðinu, en fólk verður að halda áfram að mótmæla og krefjast þess að óværan í kerfinu sé kveðin niður. Lýsnar verða fljótar að fjölga sér ef þær fá að vera þar óáreittar.

Engin manneskja sem gegndi meiriháttar stjórnunarstöðu í spillingarbönkum frjálshyggjunnar, á að koma til álita í stjórnunarstarf hjá nýju bönkunum. Fólk vill hreint borð og traust myndast ekki á ný með slíkar manneskjur í lykilstöðum.

Ríkisstjórnin nýtur lítils trausts og svo mun áfram verða, nema skipt verði verulega út ráðherrum og forustuliði, einkum þó í Sjálfstæðisflokknum. Raunar mun það álit fólks mjög víða, að allir ráðherrarnir mættu missa sig nema Jóhanna Sigurðardóttir og ef til vill Kristján Möller.

Seðlabankastjórarnir verða að fara og sömuleiðis yfirstjórn Fjármálaeftirlitsins. Þeir sem þar hafa farið með völd munu aldrei vinna sér traust fólksins aftur.

Mótmæli þurfa að aukast verulega og eðlilegt væri að setja fram skýrar kröfur um afsögn tiltekinna aðila. Fólk verður að skilgreina kröfur sínar og benda á hvað verði að gera til þess að hægt sé að vinna upp traust aftur.

Kröfugerð um uppstokkun og endurbætur í kerfinu verður að koma frá fólkinu sjálfu því yfirvöld vita ekki sitt rjúkandi ráð og þurfa því stóraukið aðhald.

Fólk verður t.d. að fá að vita hvernig  " Ice Save " dæmið var sett á laggirnar, hverjir upphugsuðu það skelfingardæmi og hvort einhverjir úr því gengi séu við stjórnunarstörf í nýju bönkunum ?

Ef svo er verða þeir að víkja. Fólk treystir engu sem slíkir aðilar eiga þátt í eða koma nálægt. Skaðbrennd þjóð vill forðast " þjónustu " slíkra skaðvalda.

Traust er eitt af því sem nauðsynlegast er í mannlegum samskiptum. Ef eðlilegt traust á að skapast milli fólksins í landinu og stjórnvalda, verður að taka tillit til yfirstandandi mótmæla og hreinsa til í kerfinu.

Verði það ekki gert er hætt við að eyðileggjandi áhrif sundurlyndis og ósáttar sýki þjóðfélagið til langframa með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Þá verður ekki um neina endurreisn að ræða í raunhæfum skilningi, leiðin mun bara halda áfram niður á við !

Látum reyna á lýðræðið í landinu og hreinsum til í kerfinu !

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.4.): 236
  • Sl. sólarhring: 240
  • Sl. viku: 983
  • Frá upphafi: 376771

Annað

  • Innlit í dag: 206
  • Innlit sl. viku: 823
  • Gestir í dag: 196
  • IP-tölur í dag: 195

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband