Leita í fréttum mbl.is

Þáttur fjölmiðla í dansinum um gullkálfinn

Meðan á útrásinni stóð og bankaþenslunni, hlutabréfaæðinu og allri vitleysunni, var iðulega svo, að mátt hefði halda að fjölmiðlamenn margir hverjir væru útsendarar frá ákveðnum auðklíkum. Þegar hlutafjárútboð voru í gangi var oft eins og ýmsir útvarpsmenn væru beinlínis að fá bónus fyrir að reka áróður fyrir kaupum fólks á þessum áhættusneplum. Það er til dæmis mörgum minnistætt, að  þegar verið var að bjóða út hlutabréf í Íslenskri erfðagreiningu og eins þegar Samherji bauð hlutabréf til sölu, var beinlínis eins og einhver fítonsandi hlypi í ýmsa á fjölmiðlunum og það var feikna áróður í gangi.

Það átti bara ekki að vera hægt með nokkru móti að tapa á slíkum kaupum. Það var bókstaflega argað upp í eyrun á mönnum allan guðslangan daginn : " Flýtið ykkur að kaupa, þið eruð að missa af stórgróða ! "

Og margir féllu fyrir þessum gengdarlausa áróðri. Sumir sem áttu við fjárhagsvanda að stríða, fóru að trúa því í örvæntingu sinni að gróðinn væri svona gefinn. Þeir skuldsettu sig enn frekar og keyptu hlutabréf til að græða og sukku síðan enn dýpra í skuldafenið. Það var jafnvel til í dæminu að forsvarsmenn sveitarfélaga létu glepjast og legðu sveitarsjóði í púkkið .

Fjölmiðlar áttu sannarlega sinn virka þátt í þessari firringu mannlegrar skynsemi, þeir ýttu undir vitleysisganginn og veisluhöld frjálshyggjuæðisins, en tóku auðvitað ekki ábyrgð á neinu frekar en aðrir.

Þetta eru þeir aðilar sem hrósa sér daglega af því að vera þjónustuaðilar upplýsingaskyldu við almenning, enn ein herdeild hins borgaralega öryggis. En hvernig reyndist sú herdeild - var hún kannski fimmta herdeildin í herafla þeirra sem fóru með ránum um eigur þjóðarinnar ?

Það er enganveginn eðlilegt að fjölmiðlar eða fjölmiðlamenn hegði sér sem keyptir talsmenn fyrir fjárhagslega hagsmuni auðfyrirtækja eða erlendrar ásælni.

Á hverjum degi má heyra í fjölmiðlum endalausan áróður fyrir upptöku evru og inngöngu í Evrópusambandið ? Þar er líka eins og menn séu á launum við að framleiða einhliða áróður - það er ekkert þjóðlegt inntak í slíku fjölmiðlaefni - engin hugsun í þá veru hvað sé best fyrir þjóðina til lengdar litið, það er miklu frekar verið að reyna að heilaþvo fólk í þágu ákveðinna skammtímahagsmuna  og við því verður að gjalda varhuga !

Fjölmiðlarnir æstu upp kröfur um einkavæðingu á sínum tíma og hvöttu fólk í sífellu til að fjárfesta - það var ekkert verið að hugsa út í það að fólk ætti ef til vill ekki peninga til að geta fjárfest.

" Þú færð bara lánað, ætlarðu að missa af tækifærinu til að græða, hverskonar hálfviti ertu eiginlega !" Þannig var tónninn.

Ég hef aðeins heyrt um einn aðila sem græddi á hlutabréfakaupum í Íslenskri erfðagreiningu. Það var maður sem keypti nokkur bréf og þau hjónin ákváðu að selja þegar upphæðin nægði fyrir góðu amerísku hjónarúmi. Þau stóðu við það og seldu þegar bréfin voru komin í fimmfalt kaupverð. Stuttu síðar sprungu bréfin og féllu niður í nánast ekki neitt.

Þúsundir manna töpuðu fé og sumir stórfé. Meðal þeirra sem ráku þarna áróður á fjölnótum falskrar tryggingar, voru ýmsir fjölmiðlar og ekki síst sumir yfir sig hrifnir fjölmiðlamenn.

Þessi óþverraleikur hefur verið leikinn aftur og aftur í gegnum fjölmiðlana undanfarin ár og er mál að linni. Þar hafa menn brugðist skyldum við almenning engu síður en menn í sjálfu stjórnkerfinu. Fjórða valdið hefur ekki reynst betur en hin.

Í hvaða stöðu er þjóð sem er með framkvæmdavald sem nýtur einskis trausts, löggjafarvald sem er þeytispjald í höndum framkvæmdavaldsins og dómsvald sem á síðustu árum hefur sýnilega líka verið kúgað undir framkvæmdavaldið, og þar að auki fjölmiðla sem virðast í stórauknum mæli vera farnir að þjóna óþjóðlegum hagsmunum ?

Þjóðin þarf virkilega að gæta sín á öllum þeim  úlfum sem eru sí og æ að koma fram í hvítþvegnum sauðargærum, - margir þeirra eru sjáanlega menn sem starfa á fjölmiðlunum og eru þar greinilega að þjóna einhverjum öðrum markmiðum en heildarhagsmunum fólksins sem býr í þessu landi.

Verum í öllu á verði fyrir þeim Júdasar-anda sem viðgengist hefur í þjóðfélaginu og sendum hann úr landi til Brusselvaldsins. Þar á hann best heima.

Ekkert traust byggist upp í þjóðfélagi þar sem slíkur andi ríkir og ræður.

Rífum aðkomið illgresi upp með rótum úr okkar stefnumálagarði. Drögum réttan lærdóm af Davíðstímanum  og setjum íslensk þjóðgildi í öndvegið á ný.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 52
  • Sl. sólarhring: 101
  • Sl. viku: 621
  • Frá upphafi: 365519

Annað

  • Innlit í dag: 48
  • Innlit sl. viku: 533
  • Gestir í dag: 48
  • IP-tölur í dag: 48

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband