Leita í fréttum mbl.is

Verkalýðshreyfingin og lífeyrissjóðamafían !

Það var víða litið svo á, að þegar Ásmundur Stefánsson var gerður að forseta ASÍ, hafi ákveðin kaflaskil orðið innan verkalýðshreyfingarinnar. Þá gerðist  það, að hagfræðin settist að fullum völdum í alþýðusamtökunum og hefur ekki sleppt þeim síðan. Fáir munu telja þann atburð af því góða.

Tengslin við grasrótina, sjálfan verkalýðinn, voru á margan hátt rofin, og forustuliðið fór fyrir alvöru að hrokast upp gagnvart þeim sem það átti að vera í forsvari fyrir. Ásmundur Stefánsson þótti á margan hátt dæmigerður fulltrúi þeirra viðhorfa. Hann átti sáralítið samfélag við verkalýðinn og var sem forustumaður í ASÍ aldrei maður á réttum stað.

Eftir hann komu líka menn með svipað hugarfar, menn sem helst virtust gera sér það að sérstöku markmiði, að hreykja sér upp og hafa það gott á kostnað hins vinnandi fólks. Verkalýðshreyfingin fór sífellt neðar í áliti og hinir svokölluðu verkalýðsforingjar urðu brátt ekkert nema liðónýtar heybrækur í öllum skiptum við þá er semja þurfti við.

Það var sama hvort í hlut átti Grétar Þorsteinsson, Halldór Björnsson, Gunnar Páll Pálsson, Ingibjörg R. Guðmundsdóttir, eða Sigurður Bessason, allt hefur þetta lið verið gjörsamlega gagnslaust sem forsvarsaðilar fyrir vinnandi fólk. Verkalýðshreyfingin þarf á öðru að halda en linkulegum tauhálsum og puntudúkkum á skrifstofum. Ekkert af þessu fólki hefur unnið sér nafn eða orðstír meðal vinnandi fólks og mun aldrei gera.

Guðmundur jaki hafði sína galla, og mér persónulega fannst aldrei mikið til hans koma, en hann var samt álitinn af mörgum vera verkalýðsforingi. Það átti hann þó einkum að þakka framgöngu sinni á fyrri árum, þegar hann var undir stjórn eldri og reyndari manna í hreyfingunni, sem sáu til þess að krafturinn sem vissulega bjó í honum, nýttist í störfum fyrir heildina.

Einleikur Guðmundar jaka og valdabrölt á seinni árum bætti engu við orðstír hans...... en hann var þó allt önnur manngerð og töggur í honum, miðað við þær mannlufsur sem á eftir honum hafa tyllt sér í valdasætin í verkalýðs-hreyfingunni.

Og nú hefur Gylfi Arnbjörnsson verið kosinn forseti ASÍ og ekki kæmi það mér á óvart að honum tækist að fara fram úr Ásmundi Stefánssyni í starfslegum öfugsnúningi og er þá mikið sagt.

Ég er alfarið þeirrar skoðunar að Gylfi og hans líkar hafi aldrei gert neitt að gagni fyrir verkalýðshreyfinguna í landinu. Ég tel þvert á móti að menn af hans tagi hafi verið iðandi afætur á hreyfingunni til fleiri ára, því launakjör þeirra og bitlingar hafa ekki verið í neinu samræmi við það sem eðlilegt getur talist.

Seinni tíma forusta verkalýðshreyfingarinnar hefur þannig, að minni hyggju, samanstaðið af forpokuðum vesalingum, sem hafa virst hugsa um það eitt að halda völdum og maka krókinn í eigin þágu. Ærin þörf væri að fara ofan í saumana á ýmsu sem gert hefur verið af þessum mönnum á undanförnum árum. Það gæti verið að ýmislegt kæmi þá í ljós sem mönnum kæmi illilega á óvart.

Innan verkalýðshreyfingarinnar var mjög fljótlega byggð upp í kringum lífeyrissjóðina algjör varnarmafía, sem allar götur síðan hefur staðið vörð um mismununarkerfi þessara sjóða, eins og önnur mafía hefur varið kvótakerfið.

Lífeyrissjóðakerfið hefur aldrei þjónað hagsmunum almennings í þessu landi. Það hefur verið arðráns-svikamylla frá fyrstu tíð og stöðugt verið varin af fláum forustumönnum í verkalýðshreyfingunni, en þar sem víðar virðast jafnan þjónustumenn, sem vinna í þágu einhverra annarra en fólksins í landinu.

Í lífeyrissjóðakerfinu hefur verið safnað saman með lögvörðum ránskap feykilegu fjármagni sem síðan hefur verið notað til margra óheyrilegra hluta. Það hafa verið stunduð pólitísk hrossakaup, lánveitingar hafa oft þótt þar daunillar af spillingu og miklum fjármunum hefur verið sóað í ýmislegt sem engin rök hafa verið fyrir. Sú saga þætti ljót ef hún væri greind að fullu og gerð opinber.

Valdafíknir forustumenn í verkalýðshreyfingunni hafa lengi notið þess að skipa hina og þessa vildarvini og gæðinga sem bankastjóra og bitlingaþý í lífeyrissjóðamafíunni og svo hefur verið ráðskast með fjármuni fólksins fram og aftur, lánað út og suður í alls konar áhættumál sem fyrr segir. Svo hafa yfirlýst lífeyrisréttindi fólksins í þessum sjóðum verið skorin  miskunnarlaust niður þegar fé hefur tapast í slíku fjárhættuspili. Þarna hefur, að margra mati, verið stundaður sami verknaðurinn og var kallaður þjófnaður í gamla daga, áður en það fór að vera í tísku að stela og óheiðarleiki fór að flokkast undir eðlilega sjálfsbjargarviðleitni.

Auðvitað átti að hafa lífeyrismál þjóðarinnar í miklu einfaldara formi. Það átti bara að vera einn lífeyrissjóður fyrir alla landsmenn í Tryggingastofnun ríkisins.

Þar áttu allir að sitja við sama borð og efri árin að taka mið af samfélagslegum jöfnuði, en sérhagsmunaöflin vildu náttúrulega hafa þetta öðruvísi.

Áfram skyldi misréttið ríkja og það alveg fram á grafarbakkann !

Nú hefur vinnandi fólk í landinu tapað tugmilljörðum króna í lífeyrissjóðunum vegna áhættuleikfimifíknar mafíuveldisins og enginn er talinn ábyrgur !

Það hljóta allflestir að sjá þá knýjandi þörf sem á því er, að hreinsa verulega til innan verkalýðshreyfingarinnar og lífeyrissjóðakerfisins.

Kannski ætti sú hreinsun að byrja á nýkjörnum forseta ASÍ og formanni VR ?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 28
  • Sl. sólarhring: 77
  • Sl. viku: 597
  • Frá upphafi: 365495

Annað

  • Innlit í dag: 25
  • Innlit sl. viku: 510
  • Gestir í dag: 25
  • IP-tölur í dag: 25

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband