Leita í fréttum mbl.is

Rauði krossinn og hlutleysið ?

Það þarf víst ekki að segja neinum það, að Rauði krossinn á að baki stórbrotna sögu í friðar, líknar og mannúðarmálum. Það merki sem Henri Dunant hóf forðum á loft með hjálparstarfi sínu á vígvellinum við Solferino, hefur lengi verið tákn um margt það besta sem býr í manninum og hefur því að verðleikum notið almennrar virðingar. Í stuttu máli sagt, hefur saga Rauða krossins þannig lengi vel verið saga hinna góðu eiginda mannsins, mitt í þeim hörmungum sem hinar illu eigindir hans skapa oft og tíðum í þessum heimi.

Í hugsjón Rauða krossins var frá upphafi gengið út frá því að ekki skyldi taka afstöðu til deilumála og stríðandi fylkinga - heldur aðeins hugsað um að líkna særðum, veita aðhlynningu og hjálpa, koma alls staðar fram í nafni friðar, mannúðar og mannkærleika.

Kjörorð Rauða krossins var frá upphafi hlutleysi, sjálfstæði með mannúð til friðar ! Á seinni árum mætti hinsvegar halda að það kjörorð, einkum með tilliti til hlutleysisins, væri ekki lengur í gildi sem fyrr og ef svo er, ber að harma það.

Ég ætla ekki að fjalla hér um það hvernig Henri Dunant var vikið til hliðar á einu stærsta augnabliki ævihugsjónar sinnar, og aðrir svo sem lögfræðingurinn Gustave Moynier, uppskáru á margan hátt það sem hann hafði til sáð.

Það er ný og gömul saga að fáir njóta eldanna sem fyrstir kveikja þá, en sú saga er utan við ætlað efni þessa pistils og verður ekki sögð hér.

Hinsvegar ber að fagna því að Dunant fékk fyrstur manna, ásamt Frédéric Passy, friðarverðlaun Nóbels og þó að Passy væri alls góðs maklegur, hefði farið betur á því að Dunant hefði einn orðið handhafi verðlaunanna 1901 og röðin síðan komið að Passy á næsta ári.

En höldum okkur nú við friðar og líknar hreyfinguna sem Dunant kom á fót og hugleiðum aðeins hvar hún er á vegi stödd í samtímanum.

Lengi vel hélt Rauði krossinn sig fast við upphaflega stefnu og vann hvert afrekið af öðru í hugsjónastarfi sínu fyrir líkn og mannúð um allan heim. En að því kom að hlutirnir fóru að breytast. Menn virtust fara að binda sig við nýjar og nokkuð framandi áherslur miðað við fyrri hugsjónir og tilgang.

Samstarf var tekið upp við rauða hálfmánann og síðan þá virðast hinar upphaflegu kristnu áherslur hreyfingarinnar hafa verið settar nokkuð til hliðar og jafnframt gengið í mörgu til móts við áherslur í samtökunum sem virðast taka mið af einhverjum pólitískum jafnvægisdansi og þá einkum gagnvart múslimum.

Þar sem átök og deilur eru og hafa víða verið milli múslima og annarra, hefur þótt bera á því að starfsmenn bandalags Rauða krossins og Rauða hálfmánans hafi úttalað sig um mál með pólitískum hætti.

Nú er svo komið að hlutleysi Rauða krossins í afskiptum af deilum er dregið í efa af mörgum og sú alþjóðlega viðurkenning sem samtökin höfðu áður unnið sér hefur beðið nokkurn hnekki. Traustið er ekki eins og það var.

Aðilar á vegum Rauða krossins hafa stundum tjáð sig með þeim hætti í fjölmiðlum, að það er hreint ekki hægt að segja að þeir hafi viðhaft hlutleysi gagnvart átökum og deilum sem í gangi hafa verið. Það hefur t.d. þótt koma fram í deilumálunum fyrir botni Miðjarðarhafsins.

Ég vil nefna hér eitt afgerandi dæmi um framgöngu Rauða kross starfsmanns í fjölmiðlum.

Sólveig Ólafsdóttir sendifulltrúi Rauða krossins hefur víða starfað fyrir samtökin. Hún hefur verið í Grenada, Pakistan og eflaust á fleiri stöðum.

Um tíma var hún í Simbabve og var það um það leyti sem kosningarnar voru í landinu, kosningarnar sem Mugabe forseti hafði síðan að engu.

Þá var Sólveig fengin í viðtal í íslenska ríkissjónvarpið varðandi ástand mála í Simbabve. Það mun hafa verið í byrjun apríl 2008.

Þá stóð Morgan Tsvangirai leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Simbabve í ströngu við einræðisherrann, sem búinn var að rústa efnahag landsins og setja allt um koll. Verðbólgan var komin upp í stjarnfræðilegar tölur og þjóðin stóð frammi fyrir geigvænlegum aðstæðum.

Við þær kringumstæður lét Sólveig Ólafsdóttur sendifulltrúi Rauða krossins m.a. hafa þetta eftir sér í umræddu viðtali:

" Tsvangirai skortir leiðtogahæfileika og margir segja að hann skorti hreinlega greind til að takast á við jafn skarpgreindan mann og Mugabe óneitanlega er ! "

Þetta leyfði sendifulltrúi Rauða krossins sér að segja í íslenska sjónvarpinu. Þarna tel ég að um sé að ræða beint inngrip í pólitík viðkomandi lands og ekkert hlutleysi er viðhaft.

Leiðtogi stjórnarandstöðunnar er dæmdur fyrirfram vegna vöntunar á greind, en manninum sem rústað hefur landi sínu og komið þjóð sinni á vonarvöl, er hrósað í hástert fyrir að vera svo gáfaður !

Eru svona ummæli samboðin hinum gamalvirta anda Rauða krossins ?

Nei, segi ég, en Rauði krossinn er heldur ekki í dag það sem hann var.

Það virðist nefnilega sitthvað benda til þess að þessi miklu samtök geti orðið í náinni framtíð eins og einhverskonar andlegt útibú frá Rauða hálfmánanum og hlutleysið verði þá í samræmi við það. Þá er illa farið, ef hugsjón Henri Dunants, um kristna mannúðarhreyfingu, starfandi um allan heim að hjálpar og líknarstörfum, kafnar undir nafni í höndum pólitískrar, múslimskrar yfirstjórnar og handbenda hennar.

Ég hætti snemma að geta tekið mark á því sem sumir starfsmenn Rauða krossins létu hafa eftir sér í fjölmiðlum varðandi Bosníu og Kosovo á sínum tíma, og ég taldi mig ekki heldur geta tekið mark á því sem sambærilegir aðilar sögðu nýlega varðandi atburðina á Gaza.

Sjúkraflutningamenn á vegum Rauða krossins þar, af arabísku þjóðerni, eru að mínu mati ekki trúverðug vitni þegar þeir eru að ófrægja Ísraelsmenn í fjölmiðlum. Hlutverk þeirra er ekki að vera talsmenn pólitískra sjónarmiða !

Verst þykir mér þó, að ég skuli eiginlega verða að taka Rauða krossinn sjálfan með fyrirvara, varðandi það hlutleysi sem hann á að sýna í þeim deilumálum sem upp koma nú til dags - og það virðist einkum eiga við um mál þar sem múslimar eru annar deiluaðilinn - sem iðulega er.

Staðreyndin virðist orðin sú, að pólitískar raddir séu farnar að tala það hátt í aðalstöðvum Rauða krossins, að rödd Henri Dunants fái litla hlustun þar núorðið. Ég harma það mjög ef svo er og vona að menn átti sig í tíma og leiðrétti stefnu þessara merku samtaka, áður en trúverðugleiki þeirra í þágu upphaflegra stefnumála sinna verður hugsanlega svo illa leikinn að ekki verði um bætt.

Við getum nefnilega illa án Rauða krossins verið, og einkum ef hann reynist og verður áfram sá Rauði kross sem byggður var upp á hinni kristilegu manngæskuhugsjón Henri Dunants.

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 53
  • Sl. sólarhring: 102
  • Sl. viku: 622
  • Frá upphafi: 365520

Annað

  • Innlit í dag: 49
  • Innlit sl. viku: 534
  • Gestir í dag: 49
  • IP-tölur í dag: 48

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband