Leita í fréttum mbl.is

Pólitísk endurnýjun - eða blekkingar ?

Það er mikið talað um endurnýjun í stjórnmálalífinu þessa dagana, þar sem ljóst er að stór hluti fólksins í landinu ber afar lítið traust til pólitíkusa, eftir að þeir urðu berir að því að sofa á þjóðarverðinum á nánast öllum vígstöðvum.

Framsókn skipti um einn mann í brúnni og átti að endurnýjast öll við það. Valgerður Sverrisdóttir hefur síðan ákveðið að fara vegna þess að hún taldi séð að tími hennar væri liðinn og henni sjálfri fyrir bestu að hætta. Hún var ekki látin fara - hún fer !

Sjálfstæðismenn tala líka mikið um endurnýjun þessa dagana en það er nokkuð merkilegt hvernig þeir virðast ætla að taka á þeim málum.

Í því sambandi ber að hafa það í huga að menn geta verið að hætta án þess að það sé verið að taka mið af einhverju endurnýjunarferli. Ef menn eru að hætta þátttöku í stjórnmálum af heilsufarsástæðum er það allt annað en að hætta vegna endurnýjunarkröfu. Ef menn eru að hætta vegna þess að þeir hafa lent út í horni í eigin flokki með sinn málflutning er ekki verið að hætta vegna kröfu um endurnýjun. Allt þarf þetta að skoðast í ljósi staðreyndanna.

Árni Mathiesen ætlaði ekki að hætta og fór að athuga með bakland sitt í kjördæminu. Skemmst er frá því að segja að hann fann það ekki hvernig sem hann leitaði og ákvað að hætta. Það er eina ákvörðunin sem Árni Mathiesen hefur tekið sem ég hef talið fagnaðarefni. Það er engin eftirsjá að honum.

Einar K. Guðfinnsson hættir ekki og veitti þó ekki að því að endurnýja í hans tilfelli. Mér hefur aldrei fundist neinn mergur í honum eins og var áreiðanlega í þeim gamla sem hann er trúlega heitinn eftir.

Pétur Blöndal ætlar að halda áfram og væri þó sannarlega gott að hann kæmi ekki meir að málum. Mér finnst hann eiginlega vera búinn að gera nóg af sér.

Frjálshyggjugaurarnir Bjarni Benediktsson, Birgir Ármannsson, Guðlaugur Þór Þórðarson, Illugi Gunnarsson og Sigurður Kári Kristjánsson, ætla allir að halda áfram og teldi ég þó mikla blessun að því fyrir landsfólkið, ef hægt væri að losna við þá alla. Þeir voru allir stuðningsmenn þess hvernig haldið var á málum fyrir bankahrunið, harðir fylgjendur afskiptaleysisstefnunnar og vildu að útrásarvíkingar og bankagreifar fengju að fara sínu fram sem minnst áreittir, og trúðu því að hér væri verið að byggja upp fjármálaveldi á heimsmælikvarða.

Þessir snáðar mynduðu stuttbuxnadeild Davíðsklíkunnar og eru því réttnefndir Dabbalingar til orðs og æðis. Það er réttnefnd hrollvekja að þurfa að hugsa til þess sem Íslendingur, að þessir menn muni líklega verða meðal helstu ráðamanna Sjálfstæðisflokksins í þeirri framtíð landsins barna sem umræddur flokkur hefur stórslasað með efnahagsstefnu sinni undanfarin ár.

Ásta Möller baðst afsökunar um daginn á því, skildist mér, að hafa haldið illa á málum með umboð sitt sem þingmaður, en samtímis opnaði hún skrifstofu til að berjast fyrir endurnýjuðu umboði frá kjósendum. Mikil var iðrunin hjá henni !

En Þjóðarógæfuflokksmenn margir hverjir eru satt best að segja meiriháttar viðfangsefni, sálfræðilega séð. Það er svo merkilegt hvað auðvelt virðist vera að forrita alla hjörðina í einni svipan. Ég á til dæmis einn ágætan vin í þeirra hópi, sem slæst við samvisku sína daglega vegna þægðar sinnar við flokkinn. En þó að samviskan sé með uppsteit ræður þægðin við flokkinn alltaf þegar upp er staðið. Samt er þetta maður sem hefur margt til brunns að bera, þó hann sé þrjóskari en allt sem lífsanda dregur, þegar sá gállinn er á honum.

Um daginn hitti ég þrjá Þjóðarógæfuflokksmenn sem tóku mig tali um þjóðmálin, hver út af fyrir sig. Allir eru þeir hinir sæmilegustu menn fyrir utan þennan ágalla að vera forritaðir flokksmenn. Ég tók auðvitað strax eftir því að þeir töluðu allir eins, það var eins og sömu setningunum hefði verið troðið ofan í kok á þeim. Þeir ældu upp nákvæmlega sömu klisjunum !

Það var sem þeir hefðu allir verið pólitískt mataðir eftir reglustriku. Og það er einmitt þetta línukjaftæði sem er svo dapurlegt fyrir þá, svona manngildislega séð. Síðan handjárnin voru tekin upp í flokknum virðist enginn þora að opna munninn þar öðruvísi en eftir línunni að ofan. Það verður kannski stutt í það að menn fari að tala um Valhallar- heilkennið í þessu sambandi !

Það er sannarlega ekki lýðræðislega uppbyggilegt að menn séu svona múlbundnir, þó það sé heldur ekki æskilegt að hver höndin sé upp á móti annarri í flokki. En svigrúm þarf þó að vera fyrir menn til að fylgja sannfæringu sinni og þegar sannfæringin er komin út úr búknum og niður í skúffu hjá flokksforustunni, er ekki á góðu von.

Pólitísk endurnýjun er auðvitað nokkuð sem þarf að eiga sér stað reglulega, en það er hinsvegar vitlaust að henda mönnum út sem hafa staðið sig vel, bara vegna þess að það eigi að endurnýja. Það þarf að halda í góða menn.

En það er nú vandamálið, að það virðast vera svo fáir góðir menn til staðar - liðið sem hefur verið á þjóðarframfæri í þinginu hefur mikið til reynst þannig að það mætti sem best henda 80% af því út án þess að nokkur atgervisbrestur myndi fylgja því. Alþingi Íslendinga þarf að vera miklu betur skipað en það hefur verið og það gildir einnig um framkvæmdavaldið, enda koma þeir sem það skipa yfirleitt úr þingmannaliðinu.

Verum á verði fyrir því hvort yfirlýst pólitísk endurnýjun sé raunveruleg endurnýjun, og gætum okkar á því að láta ekki blekkja okkur á kjördag til að kjósa það sem við hefðum alls ekki átt að kjósa.

Það er mikið í húfi að vel takist til og kjörseðillinn er vopn lýðræðisins !

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 133
  • Sl. sólarhring: 179
  • Sl. viku: 702
  • Frá upphafi: 365600

Annað

  • Innlit í dag: 129
  • Innlit sl. viku: 614
  • Gestir í dag: 129
  • IP-tölur í dag: 127

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband