Leita í fréttum mbl.is

Fenrisúlfur frjálshyggjunnar

Það liggur fyrir að íslenska ríkið er stórslasað og lemstrað eftir efnahagsleg hryðjuverk svonefndra útrásarvíkinga og taglhnýtinga þeirra innan kerfisins.

Ógnaröfl græðginnar fóru á kreik við nánast algera yfirtöku hins ábyrgðarlausa frjálshyggjuliðs á bönkum og fjármálastofnunum. Sú yfirtaka átti sér greinilega stað með þegjandi samþykki stjórnmálamanna innan ríkiskerfisins og manna í eftirlitsstöðvum þess, manna sem voru frjálshyggjusinnaðir með sama hætti.

Þessi ógnaröfl urðu að þeim Fenrisúlfi sem allt gleypti, því óargadýri sem svalg í sig sparifé landsmanna af fullkomnu samviskuleysi fram á síðustu sekúndu fyrir hrun. Þannig var beinlínis staðið að málum, að efnahagshrunið varð í rauninni óhjákvæmilegt og bókstaflega sáð fyrir því. Eyðileggingarstarfsemi útrásarliðsins og fylgihnatta þess í kerfinu, virðist hafa skilið eftir sig mikið til sviðna jörð hvað snertir orðspor þjóðarinnar út á við og fjárhagslega stöðu ríkisbúsins. Stór hluti fyrri landkynningar er þar með að litlu sem engu orðinn. Svo enginn velkist í vafa um það hvað ég er að segja vil ég undirstrika, að ég er hér að tala um glæframennsku glæframennskunnar með hliðsjón af því tjóni sem unnið hefur verið á hag þjóðarinnar.

Það er því til himinhrópandi skammar, að við þessar aðstæður séu til menn, jafnvel á þingi, sem vilja teljast ábyrgir, en segja samt " Þeir brutu engin lög " !

Hjá slíkum aðilum er greinilega löngunin til að verja skaðvaldana eins og boðorð æðstu skyldu. En er þá hægt að rústa gjörsamlega hag heillar þjóðar án þess að brjóta lög ? Er það enginn glæpur að setja heilt þjóðfélag á hausinn ?

Ef svo er, til hvers erum við þá að dröslast með þessi lög ef þau eru vita gagnslaus til varnar fyrir hinn almenna borgara og öryggi hans ?

Ég hélt að lög væru sett með það að höfuðmarkmiði að vernda borgarana og samfélagið í heild og bregðast við hverri ógn sem að því steðjar ?

Stjórnun Sjálfstæðisflokksins og kvótaaflanna yfir höfuð, hefur þessu til viðbótar leikið svo sjávarauðlindina okkar, að stefnan sem átti að efla fiskistofnana og koma atvinnugreininni í gott horf, hefur eftir aldarfjórðungs reynslu skilað þeirri stöðu, að fiskistofnarnir eru í verra ástandi en nokkru sinni fyrr og greinin skuldsettari en dæmi eru til um. Hún er svo skuldsett að þar er í raun allt komið hrikalega á hausinn.

Samt koma fram bæjarstjórar á landsbyggðinni í Morgunblaðinu í dag og vara við hugsanlegri " þjóðnýtingu " á kvótanum. Það myndi setja allt í rúst ef ætti að taka hann frá byggðunum..... Heyr á endemi !

Og þessir menn þykjast vörslumenn almannahagsmuna á landsbyggðinni !

Hafa þeir ekki séð hvernig kvótagreifarnir hafa leikið byggðir landsins á undanförnum árum ?  Halda þeir að Guggan sé ennþá gerð út frá Ísafirði ?

Í hvaða flokki skyldu þessir bæjarstjórar annars vera ?

Þegar Sjálfstæðisflokkurinn hóf fyrst að flagga frjálshyggjunni fyrir kosningar sem stefnu flokksins, þá undir slagorði leiftursóknar, brugðust þáverandi félagshyggjuflokkar hart við og kölluðu stefnuna í gagnáróðri sínum " leiftursókn gegn lífskjörum " !

Það skilaði góðum ávinningi í eftirfylgjandi kosningum, því fólk á þeim tíma virtist skilja hvað í húfi var. En síðar tókst íhaldinu smám saman að ryðja frjálshyggjunni braut inn í nánast alla hluti og afleiðingarnar eru nú ljósar og sanna það sem fyrr var sagt, að í raun var um að ræða leiftursókn gegn lífskjörum !

Á örfáum árum hefur tiltölulega fámennri sveit fjárbraskara og svikahrappa, með dyggri aðstoð kvislinga innan kerfisins, tekist að koma Íslandi í svo geigvænlega kreppustöðu, að áratuga ávinningur lífsbaráttu fyrri kynslóða getur hreinlega glatast með öllu.

Nú þarf hugarfarsbreytingu og gjörbreytta lífssýn til að sigrast á vandanum.

Það þarf að binda græðgisandann til frambúðar, ófreskju eigingirninnar og sjálfselskunnar. Það þarf að hreinsa til í kerfinu og takast á við mosagróna spillinguna þar. En það þarf meira til en Læðing og Dróma.....

Það þarf Gleipni - samtvinnaðan bjargarvað úr einbeittum þjóðarvilja til endurreisnar og  heilshugar afturhvarf til félagslegra gilda !

 

Fram það allir mæli munnar

meðan glóra er til í haus.

Fenrisúlfur frjálshyggjunnar

fái hvergi að ganga laus !


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 167
  • Sl. sólarhring: 213
  • Sl. viku: 736
  • Frá upphafi: 365634

Annað

  • Innlit í dag: 162
  • Innlit sl. viku: 647
  • Gestir í dag: 162
  • IP-tölur í dag: 160

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband