Leita í fréttum mbl.is

LÁTUM EKKI BLEKKJAST

Það er fullljóst að aldrei hefur tekist að skapa hér á Íslandi velferðarsamfélag í líkingu við það sem þekkist á hinum Norðurlöndunum. Einkum á ég þar við Noreg, Svíþjóð og Danmörku. Þar uxu upp stórir vinstri flokkar, flokkar sem höfðu félagshyggju og jöfnuð að leiðarljósi, flokkar sem rufu smám saman einokun yfirstéttanna á lífsgæðunum og jöfnuðu allar aðstæður manna til vaxtar og viðgangs. Það gerði fyrrnefnd lönd að fyrirmyndum um allan heim.

Á Íslandi hefur aldrei tekist að ná þessu fram. Hér var vinstri hreyfingin lengst af klofin, að miklu leyti vegna þess að kratar hér urðu snemma óvenju hægri sinnaðir og virtust helst geta hugsað sér að þjóna undir íhaldið.

En aðalástæðan fyrir því að almenn velferð hefur aldrei náðst hérlendis, er sú staðreynd að hér hefur alltaf ráðið miklu óvenju stór hægri flokkur, sem hefur alla tíð staðið vörð um sérhagsmuni fámennrar yfirstéttar á kostnað almennings eða heildarhagsmuna þjóðarinnar. Þegar menn nálgast þann skilning á þessari stöðu, fara þeir fljótlega að átta sig á því að Sjálfstæðisflokkurinn hefur alla tíð starfað gegn þjóðinni en ekki fyrir hana.

Af þeirri ástæðu, hef ég í ljósi þess hvernig hann hefur öllum öðrum fremur verið valdur að því efnahagslega hruni sem hér hefur orðið, leyft mér að kalla hann Þjóðarógæfuflokk og tel ég það fullkomið sannmæli.

Í þessum flokki er forustufólk sem virðist vera svo úr takti við allt sem gerist meðal almennings, að furðu sætir. Þorgerður Katrín sagði í hádegisfréttum útvarps nýlega, að ríkisstjórnin væri ekki að vinna fyrir hagsmuni Íslands !

Og þetta segir Þorgerður Katrín, sem var varaformaður íhaldsins fyrir hrun og er það enn, sú sama Þorgerður Katrín sem sat hjá við eina mikilvægustu atkvæðagreiðslu sem lengi hefur farið fram á alþingi um hagsmuni lands og þjóðar, sú sama Þorgerður Katrín sem horfði ekki í Kínaferðir á kostnað þjóðarinnar o.s.frv., o.s.frv.... hún talar um  -  að aðrir sem eru að reyna að þrífa upp eftir hana og hennar samherja - vinni ekki fyrir hagsmuni Íslands  ?

Hvar hafa verk hennar í þágu hagsmuna Íslands komið fram ?

Hvar er þessi manneskja eiginlega stödd í veröldinni með sitt veruleikaskyn ?

Pétur Blöndal sagði í útvarpi fyrir nokkru þegar deilt var á Sjálfstæðisflokkinn út af hruninu, " já, já, Sjálfstæðisflokkurinn er náttúrulega ábyrgur fyrir heimskreppunni ! "  Hafa menn heyrt annað eins ..............?

Þessi útfarni frjálshyggjupostuli sýndi þarna að sannleikurinn virðist ekki vera stórt mál í hans augum þegar pólitískir flokkshagsmunir eru annarsvegar.

Hann horfði gjörsamlega framhjá þeirri staðreynd að Ísland hefur farið einna verst allra landa út úr kreppunni vegna vitleysisgangsins sem viðgekkst hér heima fyrir í efnahagsmálunum undir stjórn Sjálfstæðisflokksins !

Hann reyndi að halda því fram að við værum bara í kreppu vegna einhvers sem gerðist í útlöndum ?

Seint verður Pétur Blöndal að meiri manni fyrir svona staðhæfingar.

Og ýmsir aðrir meðal forsvarsmanna Þjóðarógæfuflokksins hafa tekið í svipaða strengi og reynt að leiða athyglina frá kjarna málsins, sem er auðvitað ábyrgð þeirra á því hruni sem þjóðin varð fyrir.

Það gerðist alfarið á þeirra öryggisvakt fyrir fjöreggi þjóðarinnar og það geta þeir aldrei af sér svarið hvað mikið sem þeir reyna.

Sumir í þessu liði tala um að þjóðin hafi farið út í bruðl og fyrirhyggjuleysi og því hafi hlutirnir farið úr böndunum !

En einkavæddu bankarnir buðu öllum gull og græna skóga. Það var ýtt undir fólk að taka lán, taka lán, taka lán. Það væri ekkert mál.

Fjármálaráðgjöfin var í mörgum tilfellum ábyrgðarlaus og stórhættuleg. Svo segja þessir aðilar eftir á - þjóðin getur bara sjálfri sér um kennt !

Er hægt að viðhafa meira siðleysi eða sýna meiri skort á siðgæði ?

Hvar er ábyrgð valdhafanna, ríkisstjórnar og þings, hvar er ábyrgð stjórnenda bankanna og útrásarforkólfanna, hvar er ábyrgð forsetans ?

Hvar er ábyrgð þessara aðila gagnvart þjóðinni ?

Liggur hún kannski vandlega innpökkuð og falin í einhverjum ópersónulegum vandamálum -  Ice-Save og öðru ?

Muna menn ekki eftir því að Geir H. Haarde sagði í miðju hruninu að það mætti ekki persónugera vandann !

Það þýðir á mannamáli, að það megi ekki ákæra neinn, það sé enginn sekur !

Þar kom fram höfuðkenningaratriði Þjóðarógæfuflokksins, að vernda hákarla samfélagsins hvað sem það kostar, að sturta ógæfunni yfir þjóðina eftir ábyrgðarlaus veisluhöldin og fjárhagsmála svínaríið !

Það er ekki hægt að tala um efnahagslegt hrun þjóðarinnar á sömu nótum og talað er um snjóflóð eða jarðskjálfta. Efnahagshrunið var af mannavöldum !

Það var skapað af gráðugum einstaklingum sem kunnu sér ekkert hóf og voru studdir og verndaðir af þeim sem sátu að völdum og voru skyldugir að gæta hagsmuna þjóðarheildarinnar, en gerðu það ekki, einfaldlega vegna þess að það hefur aldrei verið þeirra stefna í raun.

Stóri hægri flokkurinn, stærsti þröskuldur þess að almenn velferð geti ríkt á Íslandi, hélt á málum nákvæmlega eins og hans var von og vísa - fyrir sérgæskuna - gegn almennum hagsmunum !

Kvótakerfið eitt er nægileg sönnun þess hvernig þessir aðilar standa að verki og meðan það stendur, er engin von um að almenn samstaða náist til uppbyggingar mála í þessu landi. Það mafíukerfi sáir hatri og úlfúð meðal landsmanna vegna þeirrar mismununar sem það byggist á.

Sendum það kerfi til helvítis  -  því þaðan var það fengið - og styðjum enga þá aðila til valda í samfélaginu, sem standa í vegi fyrir almennum mannréttindum og þeirri velsæld sem á að geta ríkt hér.            

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 120
  • Sl. sólarhring: 167
  • Sl. viku: 689
  • Frá upphafi: 365587

Annað

  • Innlit í dag: 116
  • Innlit sl. viku: 601
  • Gestir í dag: 116
  • IP-tölur í dag: 114

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband