Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2007

AUSTURLANDAHRAÐLESTIN

Eins og alþjóð er kunnugt var Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra nýlega á ferð um löndin fyrir botni Miðjarðarhafs. Það skiptir auðvitað miklu að utanríkisráðherra eins mesta útrásarlands heims kynni sér mál af eigin raun á helstu átakasvæðum veraldarkringlunnar.
Þar liggja lausnir í kolli sem langförull fer.

Það er eiginlega merkilegt að það skuli ekki hafa verið samið samstundis um frið í Írak og Palestínu fyrst Ingibjörg var mætt á svæðið. Það vita nú allir hvað hún hefur verið mikil friðardúfa í eigin flokki og þar að auki talað fyrir þjóðarsátt í Borgarnesi og víðar. Sennilega hefur núverandi stjórn varla getað varið þeim aurum betur sem fóru úr ríkissjóði til að kosta þessa ferð Ingibjargar um Austurlönd nær.

Landkynningin hefur trúlega verið ómetanleg og það stendur nú alltaf gustur geðs af Ingibjörgu eins og Össur og fleiri vita. Hún hefur náttúrulega verið eins og nokkurskonar austurlandahraðlest á ferð um þessi lönd og þyrlað eyðimerkursandinum hátt í loft upp.

Vonandi verður sá gjörningur samt ekki það eina sem kemur út úr ferðinni.

Fróðlegt væri að vita hvað svona ferð kostar íslenska skattgreiðendur, því eins og allir vita er Ingibjörg Sólrún ákaflega næm á þarfir sinna landsmanna og vill eflaust fara vel með fjármuni þjóðarinnar. En vaxandi þarfir útlendinga hérlendis hafa að vísu einnig vakið mikinn næmleika hjá frúnni og þær þarfir eru henni eflaust líka mjög hugstæðar svo ekki sé meira sagt.

Ekki kæmi það mér sérlega á óvart að Ingibjörg teldi mikla þörf á því að aðstoða Palestínumenn með þeim hætti að bjóða hingað til að byrja með svo sem 200 manna hópi þeirra til búsetu á góðum kjörum á kostnað ríkissjóðs.

Það virðist nefnilega svo vera með marga stjórnmálamenn okkar, að þeir séu mun skyggnari á útrás en innrás. Það gæti því svo farið á endanum, að þegar íslensku viðskiptasnillingarnir teldu sig vera búna að ná góðri fótfestu í öðrum löndum með útrásinni, værum við búnir að tapa eigin landi vegna þeirrar innrásar sem í gangi hefur verið undanfarin ár.

Þá væri svo komið að íslensk dyggð ætti hvergi heima lengur - nema þá kannski einhversstaðar upp í afdölum - og þá lægi líka ljóst fyrir að við hefðum vaxtað illa það pund sem okkur var fengið í hendur af ábyrgðarmeiri og þjóðhollari kynslóð en þeirri sem nú þykist standa vel að málum.


AÐ VERÐA HLUTI AF EINHVERJU !

Það virðist sem margir hafi drjúgmikla þörf fyrir að verða hluti af einhverju, að tilheyra flokki eða samtökum. Það er eins og þeir hinir sömu upplifi sig miklu sterkari fyrir vikið og finnist þeir komnir í hina einu og sönnu öryggishöfn.

Auðvitað býr það í eðli mannsins að aðhyllast félagslega stöðu og öll erum við hluti af mannlegu þjóðfélagi, en full þörf er að skoða vel þá valkosti sem að öðru leyti eru í boði, því stundum getur félagslega yfirborðið verið blekkingarhula og undir því er kannski rekin harðsoðin sérhagsmunapólitík sem á ekkert skylt við hugsjónir manna um samfélagslegt réttlæti.
Og það er nú svo, að maðurinn tapar ærið oft einhverju af sjálfum sér þegar hann gerist hluti af einhverju sem hann veit ekki með vissu hvað er eða hvað á eftir að verða. Flokkar sem félagsleg tæki breytast ört og geta fyrr en varir orðið eitthvað annað en þeir þóttust vera. Margir hafa þannig komist í þá meinlegu stöðu að verða að samþykkja ýmislegt sem þeim hefur alls ekki líkað. Einstaklingur sem reynir slíkt, nær ekki að halda hugarfrelsinu vegna þess að hann verður of leiðitamur vegna skorts á réttlætiskennd og viljafestu.

Oftast fer svo að sá sem lendir á öndverðum meiði við flokkslínu eða ráðandi línu, og sættir sig ekki við hlutina, yfirgefur félagsskapinn af eigin frumkvæði ef hann er þá ekki rekinn. Það er gömul og ný saga.

Það eru mörg dæmin um unga menn sem hafa gengið inn í einhvern félagsskap, fullir af hugsjónum og háleitri framtíðarsýn, en tapað þar áttum og farið að tala fyrir hlutum sem félagsskapurinn vill en þeir ekki. Þeir hafa farið að tala fyrir skoðunum annarra en ekki eigin skoðunum og orðið keyptir talsmenn sem haldið er í agaskorðum.

Þegar svo er komið getur víst engum dulist að öryggishöfninni er í mörgu ábótavant og maðurinn farinn að týna sjálfum sér inn í eitthvað sem er langt utan við hans fyrri vonir og sýn á framtíðina. Þá er hann kominn á þrælsklafa og sumir njörvast þar svo fast niður að þeir losna þaðan aldrei nema í láréttri stöðu við endalokin.

Í fjórtán ár var ég innskrifaður í Alþýðubandalagið sem flokksmaður. En allan þann tíma fylgdi ég staðfastlega eigin sýn á það hvað mér fannst rétt. Ef flokkurinn talaði fyrir einhverju sem ég gat ekki samþykkt fyrir mína parta, tók ég hiklaust afstöðu gegn því og þótti ég því aldrei sérlega mikill flokksmaður inn á við. En það skipti mig engu þar sem ég fór eftir sannfæringu minni og gat því verið sáttur við sjálfan mig. En út á við var ég jafnan talinn mikill Alþýðubandalagsmaður og er jafnvel enn af sumum. Það er nokkuð spaugilegt þegar á það er litið hver staðan raunverulega var.

En það kom að því að ég sagði mig úr flokknum, enda var hann þá, að mínu mati, að verða hin leiðinlegasta kratasamkunda. Ég hafði líka skömm á því hvað pólitíkin utan flokks sem innan virtist orðin ómerkileg og fölsk og vildi engan hlut eiga í þeirri atburðarás sem í gangi var. En kannski var ég bara orðinn færari um að greina stöðuna og kannski hefur pólitíkin alltaf verið í svipuðu fari.
En síðan hef ég staðið utan flokka og mikil blessun er það að vera laus við þá sálaróværu sem fylgir flokkspólitísku starfi. Ég hugsa oft um það þegar ég sé hlaupandi snata á snærum flokkanna, hvað mörg mannskepnan getur nú lagst lágt þegar hún hefur von um að fá bein undir borðið.

Ég veit líka sitthvað um  marga sem hafa verið að vasast í pólitík árum saman. Ég veit að þeir hafa tapað hluta af eigin manndómi sem flokkslegar undirlægjur og orðið þeim mun lakari menn fyrir vikið. Í sumum tilfellum veit ég til að menn hafa stutt rangindi vitandi vits til þess eins að tryggja eigin stöðu í hinni pólitísku goggunarröð. Slíkt finnst mér fyrirlitlegt og virðing mín fyrir mönnum sem þannig hafa staðið að málum er engin.

Satt að segja þekki ég ekki neinn núlifandi mann sem vaxið hefur að manngildi, að mínu mati, í gegnum pólitískt starf.

En það er hart barist um sálirnar og margir vilja náttúrulega taka sér stöðu þar sem þeir telja sig eiga ættir og óðul að verja. En oft fer það svo að menn sem bókaðir hafa verið sem liðsmenn í sérhagsmunaklúbbum án þess að vita það, fara smám saman að verja rangindi, beita lygum og blekkingum, og enda með því að verða sálarlegir vesalingar fyrir vikið.

Þeir fara að lúta einhverjum formúlum sem enginn frjáls maður ætti að beygja sig fyrir og verða hlutar af vél sem gengur fyrir allt öðru en ærlegu eldsneyti. Það er því mikil þörf á því að menn skoði hug sinn vel áður en þeir gerast hluti af einhverju sem er kannski alls ekki það sem þeir halda að það sé.

Það er nefnilega hreint ekki víst - ef þeir ánetjast, - að þeir sleppi nokkurntíma úr viðjunum og upplifi það á ný að verða sæmilega frjálsir menn til hugar og hjarta.                                                                                                                                                                                                                                                                         


EIGA KONUR AÐ VERA ALLT NEMA KONUR ?

Eitt af því sem er mjög áberandi í allri umræðu í dag er áróðurinn fyrir því að konur eigi nánast að vera allt nú til dags nema konur.

Fyrir um það bil þrjátíu árum hóf ákveðinn hópur kvenna þátttöku í stjórnmálum landsins á kyngreindum forsendum. Þó að aðeins um einn tugur kvenna væri  verulega áberandi í þessu starfi, varð því ekki neitað að talsverð grasrótartengsl voru fyrir hendi og stuðningur kvenna nokkuð víðtækur. Almennt var þá litið svo á að konur ætluðu að skapa ný viðhorf í pólitík og gera endurbætur á ýmsum hlutum þar sem karlarnir höfðu ekki staðið sig sem skyldi. Í sjálfu sér leist ýmsum ekki illa á þessa stefnu þó sumir, þar á meðal undirritaður, væru efagjarnir á úthald til verulegs árangurs.

Það fór líka svo, að smátt og smátt minnkuðu tengsl forustunnar við grasrótina, konur þessa lands, en eftir stóð að ákveðinn hópur kvenna var kominn í harðan metnaðarslag við karlpeninginn. Þetta voru menntaðar konur, háskólagellur eins og sumir sögðu, sem sættu sig ekki við að þurfa að lúffa fyrir körlunum eins og þær upplifðu að þær gerðu. Þegar konurnar úti í þjóðfélaginu áttuðu sig á því að staðan var orðin með þessum hætti og þær nánast eingöngu notaðar sem bakstyrkur fyrir metnaðarfullar menntakonur sem voru í bullandi eiginframa-stríði, fjaraði grasrótarstuðningurinn út og Kvennalistinn missti tiltrúna.

Þegar það bakslag lá fyrir, skriðu þessar forustukonur aftur inn í gömlu karlaflokkana eins og vængbrotnar rjúpur. Það er að segja þær sem ekki gátu fundið sér, með aldagömlum viðtengingarhætti, örugga framfærslufulltrúa meðal forstjóra og ráðherra gamla karlaveldisins. En framabaráttan hélt áfram, því hámenntaðar konur geta auðvitað verið jafn hrokafullar og hámenntaðir karlar. Þær hafa líka ýmsar komist til verulegra metorða en hinsvegar alls ekki skilað breyttum og betri málaáherslum út í þjóðfélagið eins og Kvennalistinn sálugi hugðist gera.

Mikið lifandis skelfing hefði það þó verið gott ef þessar menntuðu konur hefðu nú fylgt upphaflegri stefnu, haft áfram hugsjón fyrir því að gera þetta þjóðfélag félagslegra og manneskjulegra en það hefur orðið á sínum karllægu forsendum. En því miður, konurnar voru komnar út í nákvæmlega sama framapotið og svínaríið og karlarnir. Þær öpuðu eftir körlunum í öllum hlutum, sleiktu upp ósiði þeirra á þingi og annars staðar svo hörmung hefur verið að horfa upp á það.

Og nú er svo komið að konan á helst að vera allt nema kona.

Þessi yndislega sköpun sem konan er, náttúrulega talað, virðist að sumu leyti á hraðferð inn í það hlutverk að verða afskræming þess sem hún ætti helst að vera. Samkvæmt forskrift dagsins virðist hún eiga að vera einhverskonar karlkona, hörð, grimm og ósveigjanleg, ófær um að veita ungviðinu það á fyrstu þroskaárunum sem hefur alla tíð verið besta veganesti mannsins út í lífið – móðurást.

Hin menntaða nútímakona er á kafi í því að sinna eigin frama, eins og karlarnir, og hið göfuga móðurhlutverk er orðið hreint aukaatriði í hugarheimi hennar.

En það er ekki til neitt æskulýðsstarf, ekki neitt forvarnarstarf, ekki neitt sem jafnast á við það starf sem góð móðir vinnur á heimili sínu í þágu barna sinna. Konan getur aldrei unnið göfugra starf eða sinnt mikilvægara hlutverki en því að ala upp nýja kynslóð. Enginn er færari til þess en hún ef hún hefur heilbrigða sýn til þess hlutverks og köllun til þess að skila því sem best af höndum.

Farsæld og framtíðarheill þjóða, nýrra kynslóða, er sem áður í höndum góðra kvenna, mæðra sem skammast sín hvorki fyrir það að vera mæður eða konur og vita að þeirra eðlilega lífshlutverk stendur engu öðru að baki. En eins og svo margt sem er virkilega gott og fagurt, verður hið fórnfúsa hlutverk aldrei metið að verðleikum og allra síst í umræðu tíðarandans sem snýst öll um græðgi og sjálfselsku.

En ég segi, konur, umfram allt, haldið áfram að vera KONUR !

Farið ekki að apa alla hluti eftir okkur körlunum. Við erum sannarlega ekki svo eftirbreytniverðir. Hjálpið okkur heldur til að sjá og finna hamingjuleiðina því að án ykkar göngum við hana seint eða aldrei. Heilbrigð hamingja er sameiginleg hamingja konu og manns sem hafa fundið hvort annað og eiga lífið saman í ást og eindrægni.

Gefið börnunum ykkar það sem þið einar getið gefið þeim, svo þau verði að einstaklingum sem þið getið verið innilega stoltar af.  Þá munu þau styrkja samfélagið með þeirri manngæsku sem þeim hefur verið sýnd og kennd.  Sú manngæska er nefnilega sönnust sem börnin drekka í sig af þeim blessunarbrunni sem gott og elskuríkt móðurhjarta alltaf er og verður.


UM MENNINGARSTRAUMA NÚTÍMANS

Í gamla daga var talað um menningu með mismunandi blæbrigðum en yfirleitt á þjóðlegum nótum. Gullaldarmenning var þá nokkurskonar hástig þess sem náðst hafði í menningarsókn, svo var talað um bændamenningu og ýmsar aðrar greinar okkar norrænu þjóðmenningar. Allt var þetta hið besta mál – eða þótti það þá.

Enginn talaði þá um að menning gæti ekki þróast upp úr mannlífi í torfkofum, enda lá þá fyrir að flestir menningarpostularnir voru einmitt fæddir í slíkum húsakynnum og töldu sig ekki verri menn fyrir það. Það var ekki fyrr en löngu seinna sem menn fóru að vera svo fínir í menningunni, að þeir fóru að kenna  hugsunarhátt fyrri menningarforkólfa við torfkofa og skilgreina hann sem andmenningarlegt fyrirbæri. Þá voru menningarvitarnir líka komnir út úr sjálfum sér og farnir að sjá hástig allrar menningar í eftirlíkingum erlendis frá.

En þessi fína menning sem þolir ekki tenginguna við torfið, hið aldagamla íslenska byggingarefni, er svo sem ekkert fín þegar allt kemur til alls.

Fyrst voru settir undir hana danskir skór og þótti hún þá um tíma ósköp elegant og flott. En sú uppfærsla dugði ekki til lengdar. Þá voru dregnir fram breskir dátabúningar með súputeningum frá London og sú menningarútfærsla átti að virka vel og lengi, en  skömmu síðar var ameríski draumurinn farinn að ganga um í ljósum logum í Reykjavík, í stimpluðum Washington stíl. Þar með varð breska menningarsúpan að amerískum kokkteil.

Nú síðast er svo farið að lofsyngja hina einu og sönnu stórevrópsku menningarheild, sem á andlegt lögheimili í Brussell.

Það er svo sem ekki boðið upp á lítið og hvernig á örfámenn eyþjóð út í Ballarhafi að skilja allt þetta menningarframboð, sem þar að auki er auðvitað svo hátt upphafið yfir allan torfkofa-hugsunarhátt, að þar skilja sólkerfi á milli.

Það þarf víst ekki neinn að vera hissa á því að fjölhyggjumenn í menningarpólitík hafi almennt þá skoðun að torfkofa-hugsunarháttur  sé séríslenskt vandræðamál og sem slíkt afskaplega hvimleitt fyrirbæri.

Margir Íslendingar virðast satt að segja í hreinustu vandræðum með að átta sig á öllum þessum fjölbreyttu menningarstraumum nútímans, þeir renna í svo margar áttir, að það sækir allt að því ómenningarlegur svimi að þeim sem vilja eltast við þá alla. Menningarlegir valkostir eru því nánast ógnvekjandi í allri sinni dýrð nú á dögum. Og þegar fjölbreytnin er orðin svona mikill höfuðverkur fyrir marga, þá vaknar upp í huganum ein ósköp skikkanleg spurning:

Var þetta forna þjóðmenningarlega fyrirbæri sem við höfðum í höfðinu og hjartanu í gamla daga, ekki bara betra fyrirkomulag í saklausum einfaldleika sínum ?

Það skyldi þó aldrei vera !

Breytt er flestum boðum nú,
brotin niður feðratrú.
Öllum kunn er sagan sú,
sveitir tæmast, eyðast bú.

Áður hrakti skaðvæn ský,
skyldurækin, þroskahlý,
bændamenning – byggð á því
besta fari landans í.

Þjóðlegt var að vera til,
vaxta norræn gæfuskil.
Eftirtímans apaspil
ýtir mörgu í svartan hyl.

Það skyldi þó aldrei vera að við værum að sólunda arfi okkar í tálsýn hnattrænnar grautargerðar:

Kynnt er menning fest við fjöl,
fylgir áttavillu böl.
Sú mun ala kvein og kvöl
kringum líf á dauðri möl.

Engar rætur á hún hér,
annað henni vitni ber.
En þjóðleg mennt í þér og mér
þroskans besta framlag er.
............

Er ekki bara best að hafa það hugfast, að þjóðmenning er góð menning !


Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 35
  • Sl. sólarhring: 84
  • Sl. viku: 604
  • Frá upphafi: 365502

Annað

  • Innlit í dag: 32
  • Innlit sl. viku: 517
  • Gestir í dag: 32
  • IP-tölur í dag: 32

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband