Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2009

Friðarverðlaun Jaglands !

Nú er ljóst að Barak Obama Bandaríkjaforseti hefur fengið friðarverðlaun þau sem áður voru kennd við Alfred Nobel, en verða líklega hér eftir kennd við Thorbjörn Jagland.

Obama fær víst verðlaunin út á væntingar um drýgðar dáðir !

Eftir því sem næst verður komist, var ekki mikil eining í snobbnefndinni varðandi þetta val, en Thorbjörn Jagland vildi þetta og ekkert annað og valtaði það í gegn. Svo nú eru þetta sem sagt friðarverðlaun Jaglands og ekki er nú fallega af stað farið. Næstur til að hljóta þessi verðlaun gæti þessvegna orðið Hamid Karzai eða Khaled Meshal eða yfir höfuð hver sá sem Thorbjörn Jagland hefur velþóknun á. Aðrir nefndarmenn hafa sýnt að þegar vilji Jaglands er annarsvegar, eru þeir ekki menn fyrir eigin skoðun.

Þetta er sennilega eitt hrikalegasta dæmið um misnotkun þessara verðlauna miðað við þann anda sem átti að liggja að baki. Alfred Nóbel er trúlega búinn að snúa sér svo oft við í gröfinni, að erfitt yrði að telja alla þá snúninga.

En nú er þó sú niðurstaða komin í það vandræðastand sem oft hefur verið með þessi verðlaun, að hér eftir verður áreiðanlega talað um friðarverðlaun Jaglands en ekki Nóbels og það er vel, því þessi verðlaun hafa iðulega verið veitt með þeim hætti, að úthlutunin hæfði miklu frekar anda þess fyrrnefnda og segi ég það sannarlega ekki í viðurkenningarskyni.

Það er oft með ólíkindum hvað menn geta stundum sýnt mikla heimsku þegar þeir eru að taka ákvarðanir um að heiðra aðra. Móðir Teresa sem er líklega ein af fáum friðarverðlaunahöfum Nóbels sem almennt er talin hafa haft verðleika til að fá verðlaunin, var jarðsett á kostnað indverska ríkisins í þakkarskyni fyrir heiðursvert ævistarf. En lík hennar var flutt til grafar á fallbyssuvagni !

Það var eins og í hlut ætti gamall hershöfðingi eða einhver slíkur........ !

Að sjálfsögðu var sá gjörningur algerlega óviðeigandi með hliðsjón af lífsstarfi Móður Teresu og þeim anda sem bjó því að baki. Ég nefni þetta svona sem annað dæmi um Jaglands-vitleysu í þessum efnum og er þar reyndar af ýmsu að taka.

Það er í sjálfu sér ekkert slæmt við að heiðra manneskjur fyrir gott framlag til mannkyns heilla, en þegar þeir sem eiga að sjá um slíkar heiðranir misskilja hlutverk sitt herfilega eða það sem verra er, framkvæma verk sitt þar af ráðnum hug þvert á allar eðlilegar forsendur, er vá fyrir dyrum. Þá verður ekki hægt að draga neinn þann lærdóm af heiðruninni sem til uppbyggingar gæti orðið á heimsvísu. Óverðugir fá sæti með verðugum og allt fer í óskiljanlegan graut,

 - eða hvað á Henry Kissinger sameiginlegt með Móður Teresu ?

Getum við litið sömu augum á Yasser Arafat og Albert Schweitzer ?

Eða er Martti Athisaari sambærilegur við Fritjov Nansen ?

Það á ekki að veita friðarverðlaun Nóbels til pólitíkusa og stjórnarerindreka sem eru að vinna vinnuna sína á háu kaupi. Þau eru ætluð fólki sem hefur með köllunarstarfi, fórnfúsu verki, varið ævinni í að hjálpa öðrum.

Þar eru Móðir Teresa og Albert Schweitzer lýsandi dæmi og Fritjov Nansen sýndi það líka með verkum sínum á seinni hluta ævi sinnar að mannkynsheill var honum meira en orðin tóm.

Þeir sem hinsvegar vilja elta hræsni, snobb og tilgerð út í ystu æsar, geta farið eftir uppskrift " Jaglands friðarverðlaunanna ", sú uppskrift ætti að henta þeim prýðilega, þó seint verði hún framlag til góðra hluta í þessum stríðshrjáða heimi.

Megi Thorbjörn Jagland og taglhnýtingar hans hafa skömm fyrir það að draga þá hugsjón sem lá að baki friðarverðlauna Nóbels, enn lengra niður í svaðið en áður var.

 

Hræsnina ég ljóta lít,

lygar hvergi virði.

Friðarverðlaun full af skít

fjandinn sjálfur hirði !

 

 


" Guð blessi Ísland " ?

Nú virðist það orðið nokkurskonar slagorð upp á bandaríska vísu, að segja " Guð blessi Ísland ". En hvaða alvara og hvaða siðferðishugsun liggur þar að baki ?

Þegar það lá fyrir að Bandaríkin voru stöðugt að sökkva dýpra í sitt syndadíki, kom að því að menn eins og Billy Graham treystu sér ekki lengur til að bera blak af þeim og þögðu þess í stað þunnu hljóði. En einmitt þá varð það æ algengara að forustumenn vestra enduðu ræður sínar við flest tækifæri með því að segja " God bless America !"

Þegar búið var að loka á aðstreymi Guðs blessunar, var farið að hafa hana stöðugt á orði, sennilega til þess að pússa svolítið yfirhúð spillingarkerfisins. Það var samt ekkert nema hræsnin og yfirdrepsskapurinn sem þar var að verki.

Ísland sem var gert að nokkurskonar mini-útgáfu af Bandaríkjunum á síðari árum Davíðstímans, með gjörspilltum kapítalisma og viðbjóði frjálshyggjunnar, hefur farið að mestu í þessi flónskuför Wall-Street veldisins. Við höfum upplifað svipaða hræsnisframkomu margra ráðalausra ráðamanna eftir efnahagshrunið í fyrra. Það virðist síðasta hálmstrá slíkra manna að fara allt í einu að höfða til Guðs og þjóðarinnar.

En það var enginn að tala um Guð meðan dansinn í kringum gullkálfinn dunaði. Þá átti Guð bara að halda sér fjarri og vera ekki að flækjast fyrir.

En um leið og skammsýni forustusauðanna hafði leitt yfir okkur þrengingar og ógæfu, fóru þeir að tala um Guð. Geir Haarde reið á vaðið með ávarpi til þjóðarinnar eftir hrunið, og sagði með tilfinningalegum áherslum í lok ávarpsins,

 " Guð blessi Ísland "!

En þetta er eftiröpun og ótínd hræsni, ætluð til að vekja einhverja uppskrúfaða hrifningu og hreinar tilfinningar sem engin innistæða er fyrir við núverandi aðstæður.

Framferði yfirvalda á Íslandi fyrir hrunið bjó ekki yfir neinu sem Guð gat blessað, framferði þjóðarinnar ekki heldur, því eftir höfðinu dönsuðu limirnir.

Og þegar ógæfan dundi yfir, eins og víst var að hún myndi gera, fóru menn á fölskum forsendum að éta hver eftir öðrum " Guð blessi Ísland ".

En fyrsta skilyrðið fyrir blessun Guðs til handa landi og lýð, byggist á iðrun. Byggist á því að menn sýni iðrun vegna rangrar breytni og hyllingar skurðgoða.

Sú iðrun hefur hvergi komið fram og engin játning á því að menn hafi yfir höfuð gert nokkuð rangt. Hrokinn er enn til staðar og heldur sínum tökum fast.

Hvernig ætla menn með óbreytt hugarfar spillingar og græðgi, að gefa sér að Guð blessi vegu þeirra ? Hvernig á slíkt að geta orðið ?

Það segir frá því í Heilagri Ritningu, að ísraelska þjóðin gekk í sig eftir ranga breytni og hélt opinberan iðrunardag, þar sem leitað var sátta við Drottin og mál hreinsuð út. En íslenska þjóðin vill greinilega fá blessun Guðs fyrir ekki neitt !

En það gengur ekki og mun aldrei ganga. Þó að hver manneskja í landinu hrópi í upphafinni sjálfumgleði " Guð blessi Ísland ", mun það engum árangri skila meðan því fylgir engin iðrun vegna rangrar breytni og endurnýjað hugarfar.

Fólk dansaði í kringum gullkálf frjálshyggjunnar við sérstaka velþóknun óhæfra stjórnvalda, en velþóknun Guðs var þar hvergi fyrir hendi, enda í engu skeytt um hana. Guði var úthýst frá partíinu, enda var hann talinn líklegur til að spilla veislugleðinni.

Jafnvel prestarnir voru ekkert að hafa hátt um tilvist Drottins meðan glaumurinn réði, enda margir veraldarvanir og elskir að kjötkötlum.

En hver er lífsstaða okkar hér á jörðinni, hver er hún og hver hefur hún verið ?

Við erum öll pílagrímar á leið til fyrirheitna landsins, hvort sem við gerum okkur grein fyrir því eða ekki. Á þeirri leið eru gullkálfar og blekkingar á hverju strái. Og þeir sem vilja leiða okkur á þeirri ferð, eru sjaldan fylltir anda Móse - andi þeirra er oftast af annarri gerð. Þar eru Datan, Kóra og þeirra fylgjendur, sem leita heldur til jarðarinnar en himinsins. Og sumir verða enn vegna óhlýðni sinnar fyrir þeim örlögum að fara lifandi niður til heljar.

Guð getur ekki blessað iðrunarlausan mann. Hann gefur hinsvegar náð og blessun yfir hvern þann syndara sem iðrast sinnar ráðabreytni og snýr inn á réttan veg, heldur áfram til fyrirheitna landsins, í trú og von á það góða, sanna og rétta.

Við Íslendingar erum smáir meðal þjóða Evrópu, en við erum samt þjóð og við eigum hlutverk í þessum heimi sem þjóð.

Við erum sem Benjamín meðal stórra stofna, en Guð vors lands mun áfram vera Guð vors lands, meðan við höldum sátt við hann og göngum veginn í trú á hann.

Við höfum ekki gert það undanfarin ár. Við létum blekkja okkur af leið, við eltum fánýti efnishyggjunnar út í keldur og mýrasund Mammons.

Forustumennirnir brugðust algjörlega og það sem verra var, þjóðin brást sjálfri sér, sögu sinni og arfleifð.

Við þurfum að finna gömlu göturnar aftur og ganga þær í trú á Guðs forsjá.

Án þess getum við aldrei sagt " Guð blessi Ísland " með þeim krafti sem dugar.

Verðum ekki eftirómur af hræsni Bandaríkjamanna - þeir eru sem þjóð búnir að fylla bikar misgjörða sinna og þeirra bíður verra hrun en það sem við höfum beðið.

En við Íslendingar eigum enn von - ef við snúum af leið, iðrumst og segjum eins og Jósúa forðum : " En ég og mínir ættmenn munum þjóna Drottni " !

Þá munu vegir greiðast og Guðs blessun geta orðið sköpunarkraftur framtíðar Íslands !


Framrás Jessabel-andans í nútímanum

 

Gunnar Þorsteinsson í Krossinum er maður sem hefur staðið mjög í fylkingarbrjósti þeirra manna sem kallaðir hafa verið kristnir bókstafstrúarmenn í þessu landi. Með því er átt við þá menn sem trúa því að Biblían sé Guðs Orð og vilja leggja út af því afsláttarlaust.

Tíðarandinn krefst þess hinsvegar að kristin trú sé prédikuð á afsláttarkjörum og Guðs Orði þurfi ekki að hlýða ef vilji manna stendur til annars. Af þeim sökum hefur Gunnar í Krossinum verið talinn viðsjárverður maður, maður öfga og ofsatrúar, fortíðarmaður í nútímasamfélagi !

En nú er það svo, að til eru þau gildi sem maður samþykkir ekki að séu fram borin með afsláttarkjörum. Við getum þar t.d. nefnt réttlæti, á að veita afslátt á réttlætinu ?, á að veita afslátt af sannleikanum, á að veita afslátt á samviskusemi og heiðarleika ? Nei, að sjálfsögðu ekki, segjum við væntanlega flest og erum við þá ekki bókstafstrúarfólk hvað það snertir - og hvað er slæmt við það ?

Söngvarinn og prédikarinn Keith Green kallaði ævisögu sína No Compromise ( Engin málamiðlun ) vegna þess að eftir að hann komst til lifandi trúar á Jesú Krist, gerði hann sér grein fyrir því að sannkristinn maður gefur ekki afslátt á trúarsannfæringu sinni.

Við eigum ekki að gera málamiðlun gagnvart þeim öflum sem vilja draga okkur frá réttlætinu og sannleikanum, samviskuseminni og heiðarleikanum og frá Jesú Kristi.

Kristur er nefnilega í réttlætinu, Kristur er í sannleikanum, samviskuseminni og heiðarleikanum ! Við getum því ekki kallað okkur kristin með réttu ef við gerum málamiðlanir á kostnað þeirra gilda sem Drottinn okkar gaf sig allan fyrir.

Einn af hyrningarsteinum Guðs skipunar á jörðinni, er hjónabandið, hið heilaga samband karls og konu. Karl og kona eru eitt segir Orðið og uppfylla hvort annað í hjónabandinu ef allt er eins og það á að vera.

En það eru mörg öfl í gangi í kringum okkur mannfólkið og það er miskunnarlaust vegið að hjónabandinu, til að rústa fjölskyldum og heimilum. Jessabel-andinn í nútímanum er orðinn svakalegur, einkum vegna síaukinna áhrifa kvenna, því hjónaböndin sundrast ekki hvað síst vegna gjörbreyttrar hlutverkaskipunar karls og konu.

Fólk veit ekki lengur hvernig það á að vera - það kann ekki hlutverkin sín og það fer allt í tóman rugling í samskiptum og einkalífi.

Konur eru að verða karlmenn og karlar eru að verða konur. Karlmennskan er klædd í bleikt og stendur ekki lengur undir nafni en Jessabel-andinn og harkan sex fyllir viðhorf kvenna í nútímanum þannig að æ fleiri konur gera uppreisn gegn þeim gildum sem þær ættu að verja.

Þetta er eitt af því sem er og verður mest einkennandi fyrir Laódíkeu-öldina sem nú er í fullri framrás sem endatími veraldar og hin síðasta af kirkjuöldunum sjö.

Og nú eru Gunnar í Krossinum og kona hans skilin. Sýn þeirra á hjónabandið var ekki lengur sameiginlegt mál þeirra. Hann var og er forstöðumaður Krossins eins og hann hefur verið um árabil, en hún var horfin frá því að standa þar við hlið hans, flutt á fjarlægar slóðir til að sinna þar því sem hún telur mikilvægari skyldur. Skilnaður þessi á sér stað á 30 ára afmæli Krossins sem trúfélags og myndi margur segja að annað hefði nú betur átt við.

Það er sorglegt að horfa upp á slíkan aðskilnað hjóna, ekki síst þegar um er að ræða hjón sem hafa haft hin góðu og staðföstu gildi á hreinu, en einmitt þetta er að gerast víða í nútímanum og er í fullum takti við tíðarandann.

Það er hinsvegar ekki og enganveginn í samræmi við Orð Guðs.

En þegar hjón eru ekki lengur sammála um að ganga sama veginn, ekki tilbúin að axla skyldurnar sameiginlega - hvað er þá til ráða ?

Heimurinn segir að lausnin sé hjónaskilnaður og nú virðast forstöðuhjónin í Krossinum segja það líka, en málið er engan veginn svo einfalt. Skilnaður er alltaf neyðarúrræði og ósigur, en margur hefur fundið sig í þeim aðstæðum að finna ekki aðra leið þegar stefnan er ekki lengur sameiginleg.

Það sem gerðist hjá Gunnari í Krossinum getur því gerst hjá hverjum sem er.

Það er ekkert sem tryggir það, að tvær manneskjur sem hafa stofnað til hjónabands verði alltaf í einingu það sem eftir er lífsins. Ef trúin á sameiginleg gildi bilar hjá manninum eða konunni eða báðum, er grundvöllur hjónabandsins brostinn.

Jessabel-andinn vinnur í konum og fær þær margar til að brjóta þennan grundvöll, ekki síst nú á tímum og því andavaldi fylgir ekkert gott.

En það má heldur ekki gleyma því, að það er ærið margt sem villir karlmenn frá réttri sýn á skyldur sínar og hlutverk. Hin óguðlegu öfl stunda niðurrifsstarf sitt allt of víða fyrir alblindum augum þolendanna, jafnt karla sem kvenna.

Eitt ætti samt að vera öllum ljóst sem vilja hugsa um þessi mál af alvöru og skilningi - karlinn á ekki að vera kona og konan á ekki að vera karl !

Við eigum eftir að sjá stríðið gegn hjónaböndunum, fjölskyldunum og heimilunum herðast verulega í komandi tíð. Markmið skuggavaldsins er að tortíma þessu öllu og Jessabel-andinn er sem fyrr eitt skæðasta vopnið sem til þess er notað.


Nokkur inngangsorð ásamt Hlerunarbrag

 

 

Það er margsannað mál að lýðræðið er vandmeðfarið og mörgum valdamönnum reynist það þrautin þyngsta að skilja eðli þess og tilgang.

Það kemur því oft fyrir að vinnubrögð stjórnvalda í lýðfrjálsum ríkjum draga dám af einræðiskenndu framferði, ekki síst þar sem leiðtogar hafa lengi setið að völdum og farið að ímynda sér að þeir væru kóngar.

Sérstaklega hefur þótt neyðarlegt þegar sjálfskipaðir lýðræðisvarnarmenn hafa gripið til ólýðræðislegra vinnubragða gegn pólitískum andstæðingum eins og oft hefur komið fyrir. Þá getur það gerst að " vörnin gegn glæpnum " verður glæpnum verri. Dæmi um slíkt eru þekkt í öllum löndum og eftirfarandi bragur var ortur á sínum tíma varðandi atburðarás sem einmitt gæti flokkast undir slíkt tilfelli.

 

Hlerunarbragur ortur í maílok 2008.

Hugsaður sem orðræða til Ragnars Arnalds sem var

einn þeirra  " stórhættulegu " manna sem hlerað var hjá.

 

Ragnar minn, Ragnar minn,

raun er að heyra.

Sífellt er síminn þinn

sat þér við eyra,

íhaldið út í bæ

önn þurfti að bera,

sat við það sí og æ

símann að hlera !

 

Einhver á verði var,

vildi þig skoða.

Öryggi alþjóðar

allt þótti í voða.

CIA-deild íslensk ein

upp reis til starfa,

vildi svo hjartahrein

hreinsa burt arfa !

 

Stórt okkar stjórnarráð

steig fram í vanda,

sýndi með sæmd og dáð

sjálfstæðan anda.

Reis upp gegn rauðri vá,

rismikið löngum.

Lýðræðis hugsjón há

heit brann í vöngum !

 

Aðstoðar Nató naut

náttuglan hvíta.

Illgresið upp með rót

allt varð að slíta.

Ógnina að austan var

erfitt að bera.

Frelsi til framdráttar

frjálst þótti að hlera !

 

McCarthy áfram óð,

ígildi herja.

Lýðræðisgildin góð

greitt þóttist verja.

Afturhald Íslands sá

andann þar bestan.

Fann sig á föstu þá,

fjarstýrt að vestan !

 

Kynnti það siðinn sinn,

sat við að hlera,

dagana út og inn,

ógn var að gera.

Hvítliða hvötin þar

hvíldist ei nokkuð.

Alþýðan öll þar var

andspyrnu flokkuð !

 

Þjóðin var þar með í

þrumandi villu.

Vitkast hún varð á ný,

vísast með illu.

Afturhalds klíkan körg

kaus því að rausa.

Sótti um Cia-björg

samviskulausa !

 

Enn er sá andi til,

óhreinn og svikull.

Iðkandi eitrað spil,

argur og hvikull.

Fylgir þar fyrri sið,

falslínan gefna.

Helsporuð horfir við

Herbjarnar stefna !

 

Ljót er nú kviðan kunn

komin á spjöldin.

Sögunnar aðfalls unn

endar með völdin.

- Reiknast því Ragnar minn,

rétt opinberun,

að sveikst inn á símann þinn

CIA- tengd hlerun !

 

                                  Rúnar Kristjánsson

                                           - fecit -

 

 


LÁTUM EKKI BLEKKJAST

Það er fullljóst að aldrei hefur tekist að skapa hér á Íslandi velferðarsamfélag í líkingu við það sem þekkist á hinum Norðurlöndunum. Einkum á ég þar við Noreg, Svíþjóð og Danmörku. Þar uxu upp stórir vinstri flokkar, flokkar sem höfðu félagshyggju og jöfnuð að leiðarljósi, flokkar sem rufu smám saman einokun yfirstéttanna á lífsgæðunum og jöfnuðu allar aðstæður manna til vaxtar og viðgangs. Það gerði fyrrnefnd lönd að fyrirmyndum um allan heim.

Á Íslandi hefur aldrei tekist að ná þessu fram. Hér var vinstri hreyfingin lengst af klofin, að miklu leyti vegna þess að kratar hér urðu snemma óvenju hægri sinnaðir og virtust helst geta hugsað sér að þjóna undir íhaldið.

En aðalástæðan fyrir því að almenn velferð hefur aldrei náðst hérlendis, er sú staðreynd að hér hefur alltaf ráðið miklu óvenju stór hægri flokkur, sem hefur alla tíð staðið vörð um sérhagsmuni fámennrar yfirstéttar á kostnað almennings eða heildarhagsmuna þjóðarinnar. Þegar menn nálgast þann skilning á þessari stöðu, fara þeir fljótlega að átta sig á því að Sjálfstæðisflokkurinn hefur alla tíð starfað gegn þjóðinni en ekki fyrir hana.

Af þeirri ástæðu, hef ég í ljósi þess hvernig hann hefur öllum öðrum fremur verið valdur að því efnahagslega hruni sem hér hefur orðið, leyft mér að kalla hann Þjóðarógæfuflokk og tel ég það fullkomið sannmæli.

Í þessum flokki er forustufólk sem virðist vera svo úr takti við allt sem gerist meðal almennings, að furðu sætir. Þorgerður Katrín sagði í hádegisfréttum útvarps nýlega, að ríkisstjórnin væri ekki að vinna fyrir hagsmuni Íslands !

Og þetta segir Þorgerður Katrín, sem var varaformaður íhaldsins fyrir hrun og er það enn, sú sama Þorgerður Katrín sem sat hjá við eina mikilvægustu atkvæðagreiðslu sem lengi hefur farið fram á alþingi um hagsmuni lands og þjóðar, sú sama Þorgerður Katrín sem horfði ekki í Kínaferðir á kostnað þjóðarinnar o.s.frv., o.s.frv.... hún talar um  -  að aðrir sem eru að reyna að þrífa upp eftir hana og hennar samherja - vinni ekki fyrir hagsmuni Íslands  ?

Hvar hafa verk hennar í þágu hagsmuna Íslands komið fram ?

Hvar er þessi manneskja eiginlega stödd í veröldinni með sitt veruleikaskyn ?

Pétur Blöndal sagði í útvarpi fyrir nokkru þegar deilt var á Sjálfstæðisflokkinn út af hruninu, " já, já, Sjálfstæðisflokkurinn er náttúrulega ábyrgur fyrir heimskreppunni ! "  Hafa menn heyrt annað eins ..............?

Þessi útfarni frjálshyggjupostuli sýndi þarna að sannleikurinn virðist ekki vera stórt mál í hans augum þegar pólitískir flokkshagsmunir eru annarsvegar.

Hann horfði gjörsamlega framhjá þeirri staðreynd að Ísland hefur farið einna verst allra landa út úr kreppunni vegna vitleysisgangsins sem viðgekkst hér heima fyrir í efnahagsmálunum undir stjórn Sjálfstæðisflokksins !

Hann reyndi að halda því fram að við værum bara í kreppu vegna einhvers sem gerðist í útlöndum ?

Seint verður Pétur Blöndal að meiri manni fyrir svona staðhæfingar.

Og ýmsir aðrir meðal forsvarsmanna Þjóðarógæfuflokksins hafa tekið í svipaða strengi og reynt að leiða athyglina frá kjarna málsins, sem er auðvitað ábyrgð þeirra á því hruni sem þjóðin varð fyrir.

Það gerðist alfarið á þeirra öryggisvakt fyrir fjöreggi þjóðarinnar og það geta þeir aldrei af sér svarið hvað mikið sem þeir reyna.

Sumir í þessu liði tala um að þjóðin hafi farið út í bruðl og fyrirhyggjuleysi og því hafi hlutirnir farið úr böndunum !

En einkavæddu bankarnir buðu öllum gull og græna skóga. Það var ýtt undir fólk að taka lán, taka lán, taka lán. Það væri ekkert mál.

Fjármálaráðgjöfin var í mörgum tilfellum ábyrgðarlaus og stórhættuleg. Svo segja þessir aðilar eftir á - þjóðin getur bara sjálfri sér um kennt !

Er hægt að viðhafa meira siðleysi eða sýna meiri skort á siðgæði ?

Hvar er ábyrgð valdhafanna, ríkisstjórnar og þings, hvar er ábyrgð stjórnenda bankanna og útrásarforkólfanna, hvar er ábyrgð forsetans ?

Hvar er ábyrgð þessara aðila gagnvart þjóðinni ?

Liggur hún kannski vandlega innpökkuð og falin í einhverjum ópersónulegum vandamálum -  Ice-Save og öðru ?

Muna menn ekki eftir því að Geir H. Haarde sagði í miðju hruninu að það mætti ekki persónugera vandann !

Það þýðir á mannamáli, að það megi ekki ákæra neinn, það sé enginn sekur !

Þar kom fram höfuðkenningaratriði Þjóðarógæfuflokksins, að vernda hákarla samfélagsins hvað sem það kostar, að sturta ógæfunni yfir þjóðina eftir ábyrgðarlaus veisluhöldin og fjárhagsmála svínaríið !

Það er ekki hægt að tala um efnahagslegt hrun þjóðarinnar á sömu nótum og talað er um snjóflóð eða jarðskjálfta. Efnahagshrunið var af mannavöldum !

Það var skapað af gráðugum einstaklingum sem kunnu sér ekkert hóf og voru studdir og verndaðir af þeim sem sátu að völdum og voru skyldugir að gæta hagsmuna þjóðarheildarinnar, en gerðu það ekki, einfaldlega vegna þess að það hefur aldrei verið þeirra stefna í raun.

Stóri hægri flokkurinn, stærsti þröskuldur þess að almenn velferð geti ríkt á Íslandi, hélt á málum nákvæmlega eins og hans var von og vísa - fyrir sérgæskuna - gegn almennum hagsmunum !

Kvótakerfið eitt er nægileg sönnun þess hvernig þessir aðilar standa að verki og meðan það stendur, er engin von um að almenn samstaða náist til uppbyggingar mála í þessu landi. Það mafíukerfi sáir hatri og úlfúð meðal landsmanna vegna þeirrar mismununar sem það byggist á.

Sendum það kerfi til helvítis  -  því þaðan var það fengið - og styðjum enga þá aðila til valda í samfélaginu, sem standa í vegi fyrir almennum mannréttindum og þeirri velsæld sem á að geta ríkt hér.            

 


Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 76
  • Sl. sólarhring: 123
  • Sl. viku: 645
  • Frá upphafi: 365543

Annað

  • Innlit í dag: 72
  • Innlit sl. viku: 557
  • Gestir í dag: 72
  • IP-tölur í dag: 70

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband