Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2010

TVÖ ÞÚSUND OG TÍU ?

Tvö þúsund og tíu ! Er það ár hinnar miklu aðkallandi spurningar ?

Hvað verður um framtíð hins almenna íslenska samfélags ?

Hvar lendum við og hvar endum við á því ári - við Íslendingar, við sem höfum gengið á vit frjálshyggjugerninga og horft eins og hlutlausir áhorfendur á siðlausa menn spila rússneska rúllettu með öryggismál okkar og almannahag að veði ?

Við sem höfum allt of mörg látið glepjast af tálsýnum græðgisvæðingar og gjörspillts tíðaranda, gengið í bláhallarbjörg ágirndar og gróðafíkni og skilið með því framferði skynsemi okkar eftir á hundavaði heimskunnar.

Við, við, við , þessir græningjar hinnar bláu ómennsku við ysta haf  !

Og enn, enn í dag, eftir hrun og hrylling, arðrán og svívirðu ríkisráns og einkavæddrar bankastarfsemi, eru menn að binda trúss við Þjóðarógæfuflokkinn, telja hann líklegastan til að koma öllu í gang aftur !

Flokkinn sem stjórnaði hér og réði öllu í 18 ár og kallaði þetta allt yfir okkur !

Er það furða þó ýmsir líti svo á að Íslendingar séu nú mestu vitleysingar í Evrópu og sé þó vissulega mikils til jafnað. Hefur ekki framferði forustumanna hér síðustu 10-15 árin fyrst og fremst undirstrikað stórmennskubrjálæði og vitleysisgang ?

Enginn var sjáanlega að hugsa um heildarhag þjóðarinnar, allir voru að hugsa um sig sjálfa, eigin græðgi og gróðasjónarmið. Og þannig var þjóðin keyrð niður á kolsvart núllið !

Innherjar af öllu tagi virðast hafa nýtt sér stöðu sína til að tryggja sig og sína og selt þannig eigin verðbréf í tíma fyrir hrunið. Margur skuggabaldur kerfisins hefur sýnilega farið þar með himinskautum í hræðslu sinni við persónulegt peningalegt tap.

Allt miðaðist þar við einn tilgang -  að bjarga eigin skinni !

Hvernig er hægt að reka þjóðfélag með heilbrigðum hætti þegar eigingirni og sjálfselska ráða ríkjum með svo afgerandi hætti ? Svari því hver fyrir sig !

Þegar ranghugmyndir kvótakerfismafíunnar fóru að setja sitt illa mark, já, sitt bölvaða brennimark, á þjóðfélagsgerðina, voru öll eðlileg siðalögmál í raun og veru sett úr sambandi. Illa fengnir peningar urðu að fullu gjaldgengir í viðskiptum landsmanna og það í stórum stíl. Fjöldi manns virtist ekki gera sér neina grein fyrir því að þeir peningar sem kvótagreifarnir borguðu þeim með fyrir vörur og viðskipti, voru í raun teknir úr þeirra eigin vösum. Ráðamenn stóra og litla Þjóðarógæfuflokksins hygluðu þar ógeðslegustu sérréttindaklíku þjóðarsögunnar á kostnað alþjóðar. Í sumum tilfellum voru þeir persónulega sjálfir inn í myndinni og spillingin algjör. Siðleysið fór að fara hamförum um öll svið samfélagsins.

Og brátt var ranghugmynda-sería hinna pólitísku jólasveina og kvótaliðsins orðin svo mikil að blekkingamagni í þjóðfélaginu, að fæstir gerðu sér grein fyrir að réttlætið hafði verið sent út í hafsauga - á sextugt djúp !

Ísland var orðið að spillingarakri viðbjóðslegra glæframanna sem svifust einskis í því að maka króka sína á kostnað þjóðarinnar. Þar var þeim - af samviskulausu liði í stjórnkerfinu - gefið ótakmarkað krókaleyfi til lands og sjávar !

Í dag virðast skilanefndir og nýjar/gamlar bankastjórnir vera að sinna því fyrst og fremst að afskrifa í óðaönn glæpagjöld útrásarvíkinga og annarra viðskiptalífskónga. Almenningi eru ekki boðin slík vildarkjör.

Í bönkunum ræður enn að mestu sama liðið og sat þar fyrir hrun, og allt sem gert er miðast sjáanlega við það eitt, fyrst og fremst, að bjarga brennuvörgum og brotamönnum efnahags-hrunsins frá afleiðingum verka sinna, en láta almenning sitja eftir í rústum samfélagsins með alla reikninga uppkeyrða með margföldum kostnaði.

Fæst af því sem fólki var áður sagt í bönkunum varðandi lán og kjör hefur staðist og enginn virðist ábyrgur fyrir svikamyllunni. Eftir virðist samt sitja að það eigi að blóðmjólka alþýðu manna og hirða allt af venjulegu fólki sem það hefur eignast með súrum sveita í áranna rás.

En það var ekki almenningur sem olli ósköpunum og almenningur á ekki að greiða glæpagjöld kerfis og kvótamafíu þessa lands. Nýtt Ísland verður ekki endurreist með slíkum hætti. Það þarf algera uppstokkun í kerfinu og stjórnmálaflokkunum - öllum !

Þeir eru hreint ekki svo fáir í dag sem geta sagt eins og ég : " Ég var stoltur af því að vera Íslendingur hér á árum áður og taldi okkur sem þjóð hafa margt til brunns að bera. En nú stend ég í þeim sporum að bera ekkert traust til framkvæmdavaldsins í landinu og þaðan af síður treysti ég löggjafarvaldinu - þinginu - og virðing mín fyrir dómsvaldinu er farin lóðbeint niður á ónefndan stað..................  ! "

-  Og hvað er þá eftir ?

Stjórnvöld Íslands síðustu árin brugðust gjörsamlega sem heilbrigður varnarskjöldur fyrir land og þjóð. Nærri átján ára samfelld valdatíð stóra Þjóðarógæfuflokksins hefur skilið við land og þjóð í rústum, efnahagslega, réttlætislega og siðferðilega. Þar er ekkert eftir sem hægt er að vera stoltur yfir. Og í dag virðist það helst blasa við að enginn ráði við ástandið og að spillingin sé orðin allsráðandi og yfirgnæfandi í öllu, ekki bara í bankakerfinu og viðskiptalífinu, heldur öllu ríkiskerfinu eins og það leggur sig.

Og mörgum finnst það blóðugra en nokkur bylting gæti orðið, að horfa upp á sömu skíthælana og gerðu sig breiða fyrir hrun, sömu svínin, sömu blóðsugurnar, sömu alikálfana, ganga um fatta og feita, í sama hrokanum og viðbjóðnum og áður.

Þeir eru skammarblettur á öllu því sem gott getur fundist og heiðarlegt meðal fólksins í landinu og meðan þeir eru ekki þvegnir burt úr ásýnd þjóðarinnar, verður fáu stýrt til betri vegar á Íslandi. Það eitt er víst og satt.

Spillingarkerfið sem vaxið hefur í kringum kvótahryllinginn og þjóðar-afæturnar þar, á enga samleið með heilbrigðu þjóðfélagi. Það verður að hreinsa þann smánarblett burt úr þjóðlífinu og því fyrr því betra.


Samverkamenn eða fórnarlömb ?

Sú goðsögn hefur víða fengið að lifa góðu lífi, að Austurríkismenn hafi verið meira og minna andvígir sameiningunni við Þýskaland Hitlers. Kvikmyndin Sound of Music undirstrikar það sjónarmið og um allan heim hafa menn horft á þessa yndislegu mynd og fundið til með fólkinu sem í lok myndarinnar syngur Edelweiss með tárin í augunum, þrungið hreinni austurrískri föðurlandsást.

Sannleikurinn er hinsvegar allur annar en þessi hugljúfa goðsögn. Þeir voru hreint ekki svo fáir sem gengu nazismanum á hönd í Austurríki og hafa verður í huga að Hitler sjálfur var Austurríkismaður. Hann tók ekki Gyðingahatrið inn á sig í Þýskalandi. Hann kom að fullu útskrifaður í þeim fræðum frá Austurríki. Þjóðverjum hefur skiljanlega alltaf verið nuddað upp úr Gyðinga-ofsóknunum en Austurríkismenn hafa sloppið miklu betur við ádeilu varðandi þá hluti og raunar miklu betur en þeir eiga skilið. Í marga áratugi fyrir uppgang Hitlers í Þýskalandi var Austurríki ólgandi suðupottur Gyðingahaturs. Hitler var skilgetið afkvæmi þess þjóðfélags-ástands sem hann ólst upp við og bar í sér hatur þess og fordóma frá fyrstu tíð. Hann nýtti sér gyðingahatrið á vegi sínum til valda.

Það er söguleg staðreynd, að þó að Austurríkismenn væru aðeins 8% af íbúum Þriðja ríkisins, báru austurrískir nazistar ábyrgð á fullum helmingi gyðingamorðanna á valdatíma Hitlers !   

Margir af verstu Gyðingamorðingjum nazista voru nefnilega Austurríkismenn og það þótti flestu erfiðara eftir stríð að sækja slíka menn til saka fyrir rétti í heimalandinu. Almenningsálitið þar virtist ekki hafa neitt við þá að athuga.

Adolf Eichmann var alinn upp í Linz í Austurríki og lifði sín mótunarár þar.

Hann fór lengi huldu höfði eftir stríð, en Ísraelsmenn höfðu að lokum hendur í hári hans og hengdu hann 1962, eftir undanfarandi réttarhöld. Alois Brunner einn af verstu níðingum nazista komst undan og dvaldist lengst af í Sýrlandi og lifði þar í vellystingum. Anton Burger náðist aldrei og er talinn hafa látist 1991. Ernst Kaltenbrunner var hengdur 1946 eftir Nürnberg-réttarhöldin. Ernst Lerch var aldrei dreginn fyrir rétt vegna áhugaleysis austurrískra dómsmálayfirvalda.

Hans Gross geðlæknir, sem síðar varð einn kunnasti réttarsálfræðingur Austurríkis, var aldrei dæmdur fyrir glæpi sína. Johann Vinzenz Gogl var tvívegis leiddur fyrir rétt í Austurríki, 1972 og 1975, þar sem reynt var að sækja hann til saka fyrir stríðsglæpi, en án árangurs. Odilo Globocnik framdi sjálfsmorð í stríðslok, Hermann Höffle hengdi sig í fangelsi 1962, Wilhelm Eder var aldrei dæmdur o.s.frv.o.s.frv.

Við getum haldið svona lengi áfram því listinn yfir þessa austurrísku fjöldamorðingja úr stríðinu er býsna langur. Menn geta slegið inn nöfnum þeirra á netinu og séð hvílíkar skepnur þessir menn voru.

Bruno Kreisky, lengi vel kanslari Austurríkis, sem sjálfur var Gyðingur, tilnefndi fjóra nazista í fyrsta ráðuneyti sitt og einn þeirra var fyrrum SS-foringi.

Þegar sá maður neyddist til að víkja, tilnefndi Kreisky eftirmann hann og að sjálfsögðu varð nazisti fyrir valinu. Der Spiegel skýrði frá því á sínum tíma að ekki færri en einn af hverjum þremur ráðherrum í austurrísku sambands-stjórninni væri fyrrverandi nazisti og þykir víst að slíkt hefði ekki getað átt sér stað í neinu landi nema Austurríki á þeim tíma. Svo langt gengu Kreisky og flokksmenn hans í því að verja menn af þessu tagi, að það er söguleg staðreynd að eftir stríðið varð flokkur þeirra, krataflokkur Austurríkis, almennt talinn helsti málsvari fyrrverandi nazista í ríkinu.

Það þótti samt óþægilegt til afspurnar, einkum þó erlendis, og einn persónulegur vinur Kreiskys viðurkenndi í grein í Financial Times, að það hefði verið gengið of langt í þeirri þjónkun.

Austurríkismenn sem héldu því fram að land þeirra hefði orðið  " fyrsta fórnarlamb Hitlers " vildu að sjálfsögðu að Austurríki yrði sett á bekk með löndum eins og Noregi, Danmörku, Hollandi og Belgíu og fleiri slíkum, sem orðið höfðu illa fyrir barðinu á nazistum, en það voru aldrei neinar sambærilegar forsendur fyrir því.

Umhyggjan fyrir glæpamönnum nazista eftir stríð sýndi svo ekki varð um villst að hugarfar Austurríkismanna í þessum efnum var allt annað en íbúa viðkomandi landa. Enginn nazisti hefði átt nokkurn möguleika á því að gegna jafnvel lítilfjörlegasta embætti í stjórnkerfum framangreindra landa eftir stríð, en í Austurríki virtust þeir alls staðar geta fengið sæti - jafnvel í ríkisstjórninni.

Það talar sínu máli um stöðuna eins og hún var í landinu lengi vel eftir stríðið og er kannski enn.

Það er því ekki mikil ástæða til að líta Austurríkismenn á heildina litið þeim augum, að þeir hafi verið fórnarlömb Þriðja ríkisins. Miklu heldur virðist sagan bera þann vitnisburð að líta verði á þá sem samverkamenn og þátttakendur í þeirri stjórnarstefnu sem þetta óþverraríki hafði. Það myndaðist hinsvegar eftir stríð nokkurskonar þagnarsamsæri um það hvernig þau mál voru í raun og veru, en þegar Waldheim-málið komst á dagskrá löngu síðar var farið að tala um margt sem áður hafði ekki mátt minnast á. En fyrir samstillt átak ýmissa aðila tókst að drepa þá umræðu niður svo að málin féllu í svipað far á ný.

Þjóðverjar hafa yfirleitt alfarið setið uppi með skömmina af stríðsglæpum nazista og vissulega er það verðugt að miklu leyti - en þó ekki öllu.

Þessi pistill er smáframlag til þess að minna á það, að þar báru aðrir líka umtalsverða sök, þó það hafi aldrei verið haft hátt um það.

Einhver sagði - að ég held - einhverntíma, ég veit ekki hvort það var David Hoggan eða kannski var það bara Þór Whitehead :

"Sagnfræði á alltaf að byggjast á staðreyndum, en ekki pólitískum skoðunum viðkomandi sagnfræðings "....................................

Þar höfum við það !

 

 


ÞÝSKI RÍKISHERINN UNDIR HITLER + SS-SVEITIR + GESTAPO = STRÍÐSGLÆPIR OG ÚTRÝMINGINGARSTEFNA

 

Hvar sem þýski ríkisherinn fór um á árum seinni heimsstyrjaldarinnar og vann sína hernaðarsigra, fylgdu í kjölfar hans SS-sveitir og Gestapomenn. Hverjum sigri hersins fylgdu ofsóknir gegn öllum þeim sem ekki voru að skapi nazista.

Og því miður er það bara goðsögn, að Wehrmacht, þýski herinn, hafi látið hjá líða að taka þátt í slíkum glæpum. Þannig segir í tilskipun frá yfirstjórn þýska hersins ( Oberkommando der Wehrmacht ) í október 1941 : " Í austurhéruðunum er hermaðurinn ekki bara hermaður samkvæmt lögmálum stríðsins, heldur er hann einnig boðberi óbilgjarnrar þjóðernissinnaðrar hugmyndafræði.......  þess vegna verður hermaðurinn að skilja nauðsyn harðrar en réttlátrar hefndar á undirmálsfólki, ( untermenschen) , gyðingum.

Sjötti herinn undir stjórn Erich von Mansteins marskálks skildi þetta. Það kom skýrt fram í Teberda-dalnum í Kákasus, enda sagði von Manstein sjálfur : " Þeim birgðum sem föðurlandið gefur okkur, á ekki, vegna misskilinnar manngæsku, að deila út til fanga og íbúa, jafnvel þótt skortur ríki. "

Fimm hundruð börn á umræddu svæði lifðu ekki af þetta sjónarmið marskálksins.

Á þeim tíma sem liðinn er síðan nazistaherirnir fóru æðandi um Evrópu og víðar sem hrollvekja og martröð milljóna manna, hafa sjónarmið margra breyst og sýnilega mildast gagnvart þeim glæpum sem drýgðir voru af þessum morðingjasveitum. Þegar þeir sem upplifðu hryllinginn eru fallnir frá, virðist sem atburðirnir verði svo fjarlægir skyni margra, að þeir átti sig bara ekki á því sem gerðist. Það þekkist jafnvel í dag að öfgakenndir sagnfræðingar á hægri kanti stjórnmálanna, neiti því að helförin hafi átt sér stað. Svo hrikaleg er afturför dómgreindar manna orðin gagnvart sögulegum staðreyndum og það á ekki lengri tíma.

Viðhorf sumra, einkum fólks af yngri kynslóðinni, virðist líka í mörgum tilfellum bundin sjónrænum áhrifum sem ekkert hafa með skynsemi að gera.

Þar virðist ráðandi yfirborðskennd dýrkun margra á einkennisbúningum og allskyns hermennskustandi. Sumt ungt fólk hef ég heyrt segja að þýskir nazistaforingjar hafi verið í svo flottum búningum !

Og þeir eru hreint ekki svo fáir sem vilja tala um þýska ríkisherinn á tímum Hitlers á mjög jákvæðum forsendum og hafa lítið sem ekkert við framferði hans að athuga.

Hinsvegar fara margir þá leið að segja afsakandi :  " Jú, Gestapo og SS voru náttúrulega ekki góð fyrirbæri en þýski ríkisherinn var allt annað ! "

En þýski ríkisherinn var að stærri hluta en flestir vilja viðurkenna nazistískur og þeir sem þar gengdu störfum og þóttust ekki vera nazistar höfðu ekki hátt um afstöðu sína og hlýddu hverri skipun.

Meðal helstu foringja þýska hersins voru æstir nazistar svo sem Keitel og Jodl. Enn aðrir sem kannski höfðu í byrjun andúð á Hitler, urðu sem ölvaðir af sigurgöngu Þjóðverja á fyrstu árum stríðsins og festust þannig í neti nazismans.

Margir vilja gjarnan benda á samsærið um að drepa Hitler sem sönnun fyrir því að víðtæk andstaða hafi verið innan hersins gegn Hitler. Það fór hinsvegar lítið fyrir þeirri andstöðu meðan á sigurgöngu Þjóðverja stóð.

En þegar ýmsir þýskir herforingjar fóru seinna meir að gera sér grein fyrir að Hitler væri búinn að tapa stríðinu, kom fljótlega upp það sjónarmið hjá þeim sumum, að ryðja þyrfti honum úr vegi svo Þýskaland slyppi hugsanlega betur en áhorfðist frá stríðinu.

Menn voru sem sagt ekki að spá í að drepa Hitler vegna þess að hann væri skepna, heldur vegna þess að hann var ekki lengur líklegur til að vinna stríðið.

Þar liggja sem sagt allt önnur sjónarmið að baki en margir hafa viljað vera láta.

Það er oft erfitt að kryfja fortíðina til mergjar vegna þeirra fordóma og falsana sem eru jafnan í gangi í sögulegum túlkunum, en enn erfiðara á sannleikurinn uppdráttar í deilumálum samtímans, þar sem lygin fer oftast hamförum í ölduróti hins æsta augnabliks.

En meðan við mörg hver stundum þann ósið að reyna að hvítþvo glæpamenn fortíðarinnar og höldum jafnframt hendi yfir glæpamönnum nútímans - allt á einhverjum pólitískum rétttrúnaðar forsendum, eru ekki miklar líkur fyrir því að mannkyninu miði mikið áfram í átt til friðar og farsældar á þessari jörð.


SÖGULEG UPPRIFJUN

Eins og flestir vita sem þekkja til mannkynssögunnar, var Vilhjálmur II. Þýskalandskeisari mjög ákafur hernaðarsinni. Hann stefndi að því lengi vel að breyta hlutföllum varðandi hernaðarjafnvægi í Evrópu, svo ný uppskipti fengust fram í nýlendumálum. Meðan Þjóðverjar höfðu verið að basla við að sameina sitt land úr allskonar smáríkjum, hirtu Bretar og Frakkar allar bestu nýlendurnar í Afríku og víðar og í kjölfar þeirra sigldu Hollendingar, Belgar og Portúgalir. Þegar Þjóðverjar mættu loks til leiks í arðráninu var ekkert eftir handa þeim nema eyðimerkur og ómerkilegir útnárar sem varla var hægt að arðræna vegna fátæktar þeirra sem þar bjuggu.

Þjóðverjar voru því hundóánægðir og keisarinn trúlega óánægðastur allra.

Þegar Þýskaland lét svo að lokum til skarar skríða með ófriðinn, var það sennilega allra hlutaðeigandi ríkja best undirbúið fyrir stríð, enda gekk Þjóðverjum mjög vel fyrsta ár stríðsins og allt fram á árið 1916. En þá tók við pattstaða á vesturvígstöðvunum og skotgrafahernaðurinn illræmdi byrjaði.

Hvorugur stríðsaðilinn gat unnið á hinum og frumkvæði Þjóðverja var fallið niður. Þegar svo Bandaríkin komu óþreytt inn í stríðið 1917 varð það Þýskalandi um megn. Það varð að játa sig sigrað, keisarinn varð að fara frá ásamt hernaðarklíku sinni, samsafni prússneskra junkara og stækra hægrimanna. Hann flýði land og settist að í Hollandi.

Það kom í hlut sósíaldemókrata að taka við stjórnartaumunum í hernaðarlega og efnahagslega rústuðu ríki. Þeir viku sér ekki undan þeirri ábyrgð og hófust einbeittir handa við að greiða úr málum og endurreisa land og þjóð.

Hægri mennirnir sem höfðu keyrt allt í þrot, biðu átekta eftir færi til að sölsa undir sig völdin að nýju. Undan þeirra rifjum rann áróðurinn fyrir því að þýski ríkisherinn hefði aldrei verið sigraður á vígstöðvunum, heldur hefðu áhrifaöfl gyðinga og sósíalista heima fyrir rekið rýting í bak stríðandi hers og þjóðar.

Áróðurinn fyrir  Rýtingsstungunni var gífurlegur og féll mörgum vel í eyra.

Vopnahlés-samningarnir voru sagðir svik við þýsku þjóðina og þeir menn sem undirrituðu samningana voru kallaðir landráðamenn. Þeir neyddust hinsvegar til að undirrita vegna þess að framferði keisarans og hægristjórnar hans hafði haft þær afleiðingar að Þýskaland var ofurliði borið sem fyrr segir og gat sér litla björg veitt. Þeir sem sköpuðu orsakirnar fyrir afleiðingarnar þóttust hinsvegar lausir allra mála og gagnrýndu óspart allt sem gert var.

Eins og menn ættu að vera farnir að þekkja, hegða gerendur mála, þeir sem sekir eru, sér oft eins og þeir séu saklausastir allra manna.

Hægrisinnaðar morðingjasveitir voru síðan gerðar út og háttsettir stjórnmálamenn á vinstri kantinum og í röðum uppbyggingarmanna voru skotmörkin. Þannig voru t.d. Matthias Erzberger fjármálaráðherra og Walter von Rathenau utanríkisráðherra myrtir, sem báðir voru mjög hæfir menn í störfum sínum fyrir Þýskaland.

Hægri menn gerðu þá að syndahöfrum vegna vopnahlés-samninganna og Rapallo-samingsins, þeir hinir sömu sem staðið höfðu að stríðinu og voru í raun ábyrgir fyrir hruni Þýskalands 1918. Þeir myrtu aðra í hefnd fyrir eigin gjörðir.

Hægri klíkurnar unnu sitt sóðastarf að tjaldabaki, reru undir ólgunni í þjóðfélaginu, spilltu fyrir uppbyggjandi framgangsmálum og töldu sig ekki bera nokkra ábyrgð á einu eða neinu. Þannig var það nú í þá tíð og upp úr meinlegu moldvörpustarfi þeirra komst skilgetið afkvæmi óhreinna vinnubragða þeirra til valda - Adolf Hitler !

Maður kemst eiginlega ekki hjá því að fara að rifja upp söguna með þessum hætti, eftir útrás og frjálshyggjustríð til að leggja undir sig nýlendur í fjármálaheiminum, eftir samningaferlið varðandi Icesave, sem hægrimenn, ábyrgðarmenn hrunsins, virðast líkja við íslenska Versalasamninga og segja alfarið á ábyrgð þeirra sem undirrita.............!

Mikið virðast nú sumir alltaf eiga auðvelt með það að vera ábyrgðarlausir og

" stikkfrí " hvernig svo sem forsaga málanna er " !

 

 


Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 7
  • Sl. sólarhring: 56
  • Sl. viku: 576
  • Frá upphafi: 365474

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 492
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband