Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2010
30.8.2010 | 19:33
Hugleiðingar um hryggileg mál
Mál Ólafs Skúlasonar hafa sannarlega reynst þjóðkirkjunni erfið og einkum þó kannski vegna þess hvað forsvarsmenn hennar hafa tekið klaufalega á því.
Ef ákveðinn kjarkur hefði verið fyrir hendi hjá þeim strax er ásakanir komu fram á hendur Ólafi biskupi og vilji til heilsteyptrar eftirfylgdar við sannleikann, væri staða mála trúlega allt önnur í dag. Ásakanir þessar voru svo alvarlegar að menn hefðu strax átt að skilja að þarna þurfti að fá mál á hreint og það sem fyrst.
Það er samt sem áður athyglisvert að fylgjast með því hvað sumir fjölmiðlar hafa velt sér upp úr þessu máli og stundum mætti halda að einhverjir þar væru beinlínis á bónusgreiðslum varðandi það eitt að koma höggi á kirkjuna.
Það er eins og sú staðreynd að kynferðis-afbrotamaður hafi komist til æðstu metorða innan þjóðkirkjunnar, hafi orðið sumum fyrst og fremst hvalreki til árása á kirkjuna og geta menn hugleitt hverskonar hvatir liggja þar að baki.
Það er að sjálfsögðu alltaf möguleiki á því að andlega sjúkir menn geti hreiðrað um sig í valdakerfum hér og þar og ekkert sem segir að slíkt geti ekki átt sér stað í kirkju. Ólafur Skúlason mun hafa verið sjúkur maður af þessu tagi og hefði þurft að leita sér hjálpar fyrir löngu. En hann var ekki tilbúinn að fara þá leið og viðurkenna að hann hefði hneigðir sem leiddu hann afvega.
Í stað þess stóð hann fast á því að verið væri að ofsækja hann og margir virðast hafa viljað trúa því í lengstu lög að hann væri saklaus. Ólafur var líka mörgum þeim kostum búinn sem gerðu það mjög erfitt að hægt væri að afhjúpa hann. Hann var slyngur málafylgjumaður, hafði mikið áhrifavald og kunni til fulls að nýta sér það, fæddur leikari og átti yfirleitt sviðið þar sem hann lék.
Það er greinilegt að staða hans innan kirkjunnar hefur verið mjög sterk og jafnframt hefur hann notið mikils álits í hinu opinbera valdakerfi ríkisins.
Við skulum ekki gleyma því að hann var fjórum sinnum sæmdur Fálkaorðunni og heiðraður með ýmsu móti lengi vel. Menn gátu ekki ímyndað sér að hann væri annað en hann gaf sig út fyrir að vera, enda mun gervið nánast hafa verið fullkomið.
Í Ólafi Skúlasyni hafa því vafalítið búið tveir menn og annar þeirra að minnsta kosti líklega viljað vita sem minnst af hinum.
Það er hreint ekki svo lítið sem má læra af þessu máli og í stað þess að þvæla um einhverjar " góðar minningar " ætti núverandi biskup að taka af skarið og vinna að málinu innan kirkjunnar undir leiðarorðinu - aldrei aftur !
Kirkjan þarf nú sem aldrei fyrr á öruggri stjórnarhönd að halda og þó að enginn efist um að Karl biskup sé góðmenni má hvorki hann né kirkjan við því að gunguskapur ráði för í þessu máli.
Kirkjan þarf skörung í forsvar með skýran hug, mann sem leiðir kirkjuna með augun á hreinni sýn henni til handa. En er einhver slíkur maður til innan presta-stéttarinnar, það er kannski spurning dagsins ?
Konur þær sem hafa verið þolendur í málum þessum sem kennd eru við Ólaf Skúlason, eiga alla samúð skilið og einkum ber að virða hugprýði og sálarstyrk Sigrúnar Pálínu Ingvarsdóttur, sem aldrei lét bugast þó mikið væri á hana lagt.
Megi þetta mál verða þjóðinni áminning um það, að sérhver manneskja er einstök og dýrmæt og á skilið að fá hlustun og vernd yfirvalda þegar nauðsyn krefur. Þjóðin öll þarf þess líka með að sameinast undir leiðarorðinu - aldrei aftur !
27.8.2010 | 19:25
Að loknum tvö hundruð pistlum
Frá því ég hóf að rita hugleiðingar mínar í pistilformi á bloggsíðu þessari 3. apríl árið 2007 hef ég - að meðtöldum þessum pistli birt tvö hundruð slíka.
Skiljanlega hafa pistlar þessir fjallað um ýmis efni og mjög margir um þær hamfarir sem skekið hafa íslenskt samfélag, eftir að andvaralaus yfirvöld settu hér allt um koll með margföldu ofeldi á alikálfum.
Ég býst við að þeir séu allnokkrir sem hafa þá skoðun, að umfjöllun mín um þá sögu hafi verið býsna neikvæð, því það er landlægur ósiður á Íslandi að hafa helst samúð - annaðhvort með sjálfsköpuðum aumingjum eða gjörspilltum glæframönnum.
En sannleikurinn er hinsvegar sá, að ég hef ekki getað skrifað nógu harða pistla um þá hluti sem hér gerðust, því til þess brestur mig hreinlega orðaforða.
Það sem gerðist og allt svikræðið við þjóðarhagsmuni í því sambandi er líka ólýsanlegt í hæsta máta. Þar var djöfullinn sannarlega í essinu sínu.
Það munu í það minnsta líða 50 ár áður en menn munu gera sér grein fyrir öllum skítnum sem stjórnvöld hrúguðu hér upp á Davíðstímanum - ef það verður þá nokkurntíma hægt að skilja það skaðræði til fulls.
En aðalástæðan fyrir pistilskrifum mínum er það sjónarmið sem kemur fram í einni af snilldarvísum Káins sem hljóðar svo :
" Fyrir því lítið hef ég haft
heimsku minni að flíka.
En þegar aðrir þenja kjaft
þá vil ég tala líka ! "
Og það er ein af gjöfum frelsisins, hins lýðræðislega frelsis - að menn hafa málfrelsi. Menn eiga að geta sagt skoðun sína skýrt og skilmerkilega og það hef ég alla tíð gert í mínu lífi. Það skiptir svo miklu að menn séu sjálfum sér samkvæmir og níðist hvorki á eigin manndómi né rétti annarra.
Það er nefnilega ekki mikils virði fyrir menn að standa á löppunum, ef þrælseðlið ræður hugarfari þeirra og blóðmark þess er á sál þeirra. Ég hef séð og hitt nokkra sem þannig er ástatt með og mér hefur jafnan fundist það vera eitt af því ömurlegasta sem ég hef upplifað.
Menn sem gera sjálfa sig að söluvöru eru meinvörp allrar mannréttindasóknar.
Sjónarmið mín hafa aldrei verið föl og ég hef staðið á sannfæringu minni alla tíð af fremstu getu. Ég hef einfaldan smekk og vil bara fylgja því sem rétt er.
Pistlar mínir sýna hvernig ég er og þeir eru ekki lagaðir að geðþótta eins eða neins - ég vil bara fá að segja mína skoðun þegar aðrir eru með kjaft !
Ég hef líka einfalt ráð til handa þeim sem hafa lesið pistla mína og orðið illir út af þeim sumum hverjum, eins og ég hef dæmin um. Þeir eiga bara að hætta að lesa þá - þeir eru ekki skrifaðir fyrir slíka lesendur, ekki fyrir neina heilaþvegna áhangendur pólitískra pestarflokka, - þeir eru skrifaðir með lesendur í huga sem hafa manndóm í sér til að geta hugsað frjálst og lagt sjálfstætt mat á málflutning. Ég legg mína tvö hundruð pistla fúslega í hendur slíkra lesenda og treysti þeim til að meta rök mín og ræður með vitrænum og sanngjörnum hætti.
Fólk af því tagi er fólkið sem varðveitir íslenska andann í brjósti sér og mun bjarga þessari þjóð okkar frá afleiðingum hins langa valdatíma Stóra Þjóðarógæfuflokksins ef einhver getur gert það.
Ég er þakklátur slíkum lesendum því ég veit að manneskjur af því tagi dýrka ekki Mammon og halda tryggð við allt sem gott og göfugt er í mannlífinu.
Og mannkynið á von meðan slíkar manneskjur eru til og Ísland þar af leiðandi líka.
20.8.2010 | 19:31
Ísland - Brussel - Ankara !
Þeir menn eru til hérlendis sem vilja mynda samfylkingu fyrir því að koma Íslandi inn í svokallað Evrópusamband og láta í veðri vaka að þeir telji það þjóðlega hagkvæmt fyrir okkur. Grunar mig þó eins og fleiri að annað liggi að baki afstöðunni og þar sé í raun ekki tekið mikið mið af því hvað þjóðinni sé fyrir bestu. Útþensla Evrópusambandsins á seinni árum hefur vakið mörg spurningarmerki og jafnvel gamlir gallharðir stuðningsmenn sambandsins eru sumir langt frá því að vera vissir um hvert stefni og hvort stefnan sé skynsamleg.
Forustusauðir breska Verkamannaflokksins fengu mikla gagnrýni frá ýmsum öflum heima fyrir meðan þeir sátu þar í valdastólum, vegna þess að þeir þóttu löngum of leiðitamir innan sambandsins, en ekki virðist David Cameron ætla að verða þar gæfulegri en Gordon Brown. Hann hefur til dæmis látið í ljós þá skoðun að hann sjái ekkert að því að Tyrkjum sé veitt innganga í sambandið.
Ég held að menn viti ekki hvað þeir eru að fara þegar þeir tala svona. Í fyrsta lagi eru Tyrkir ekki Evrópuþjóð, í öðru lagi eru þeir trúarlega, menningarlega og mannréttindalega á allt öðru tilverustigi en þjóðir Evrópu og í þriðja lagi verður Evrópusambandið allt annað fyrirbæri en það er, eftir inngöngu þeirra. Tyrkir eru rúmlega 70 milljónir og að opna öll hlið fyrir þá inn í Evrópu er hættulegur verknaður, vægast sagt !
Af hverju voru hlið Vínarborgar ekki opnuð fyrir þeim strax 1683 í umsát þeirra um borgina, ef gefa á þeim allt eftir í dag ? Var sú kynslóð Evrópubúa sem þá var uppi að sýna heimsku með því að verjast árásum þeirra og þykjumst við kunna betur á málin núna ? Ætli því sé ekki öfugt farið.
Valéry Giscard d´Estaing fyrrum Frakklandsforseti verður seint vændur um hollustuleysi við Evrópusambandið, en hann hefur samt varað við inngöngu Tyrkja í sambandið og gengið svo langt að segja að hún muni þýða endalok þess. Það er því nokkuð annað hljóð í honum en hinum reynslulitla breska Cameron. En það er enginn vafi á því að 70 milljónir Tyrkja munu breyta Evrópusambandinu og Evrópu að sjálfsögðu líka.
Áherslur sambandsins munu gjörbreytast og taka mið af blönduðum ávöxtum og sá kokkteill verður eitraður fyrir Evrópu. Evrópusambandið mun breytast í Evrabíusambandið, þar sem Tyrkir verða lykilaðilar í því að opna Brusselbatteríið fyrir stórauknum áhrifum múslimaheimsins.
Þetta sér Giscard d´Estaing en Cameron er eins og kálfur sem er nýleystur út í vorið. Hann er sem ölvaður af nýfengnum völdum og virðist sjá Tyrki eins og píslarvotta sem lagðir hafa verið í einelti. En gamli franski stjórnmálarefurinn sér betur og honum líst ekki á framvinduna.
Við Íslendingar höfum ekkert inn í Evrópusambandið að gera og þaðan af síður er okkur hollt að gerast aðilar að Evrabíusambandi - þegar og ef það verður til. Hættan á því að svo geti farið er fyrir hendi og sú " nauðgun Evrópu " má ekki undir neinum kringumstæðum eiga sér stað !
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:41 | Slóð | Facebook
3.8.2010 | 18:22
Hvað varð um Sjálfstæðisflokkinn ?
Styrmir Gunnarsson fyrrverandi Moggaritstjóri, kom fram með eftirfarandi spurningu fyrir nokkru í pistli í sunnudagsblaði Moggans : " Hvað varð um verkalýðsflokkana ? "
Það er athyglisverð spurning og það mættu eflaust fleiri spyrja svo og það sennilega á mun sterkari forsendum en Styrmir Gunnarsson.
Fróðlegt var að lesa pælingar ritstjórans fyrrverandi varðandi þetta viðfangsefni. Hann er í það fyrsta einn af þeim sem telur að Sjálfstæðisflokkurinn hafi verið verkalýðsflokkur, sem hann auðvitað aldrei var, þó margir í verkalýðs-hreyfingunni hafi vissulega þjónað undir hann. En það gerðu þeir fyrir flokkinn en ekki hreyfinguna sem slíka.
Verkalýðsflokkarnir í almæltri umræðu voru yfirleitt flokkarnir til vinstri, svonefndir A-flokkar, Alþýðuflokkurinn og Alþýðubandalagið. Fyrir 1956 var Sósíalistaflokkurinn mjög í forsvari fyrir launafólk og þar á undan Kommúnistaflokkur Íslands.
Á sínum fyrstu árum reyndist Alþýðuflokkurinn óneitanlega góður skjöldur fyrir hagsmuni verkalýðsins, en sennilega hefur þó enginn flokkur hérlendis barist jafn vel fyrir hagsmunum launafólks og Sósíalistaflokkurinn gerði á sínum tíma, enda flykktist verkafólk undir merki hans og studdi hann óspart.
Meginsókn íslenskrar verkalýðshreyfingar var því eðlilega undir forustu þessara vinstri afla og öll framfaraspor til almenningsheilla í þessu landi voru yfirleitt leidd af þeim. Sjálfstæðisflokkurinn fór ekki að hreiðra um sig innan verkalýðsfélaga fyrr en hann taldi sig neyðast til þess vegna þess hvað verkalýðshreyfingin var orðið mikið afl.
Þá fóru hægri sinnaðir menn að koma sér þar fyrir og gera kröfur um " faglega launabaráttu " sem þýddi í raun að verkalýðshreyfingin mætti ekki vera róttæk og pólitísk og auðvitað síst af öllu rauð.
Hún átti að þeirra hyggju bara að vera svona einhverskonar stofnun sem hægt væri að sveigja og beygja eftir hentugleikum. Svo átti hún náttúrulega að forðast að styggja þá sem með völdin fóru, en það voru auðvitað oftast og ekki síst hægri menn. Menn af þessu sauðahúsi þjónuðu forréttindastéttum þá eins og nú og gerðu nákvæmlega ekkert fyrir almennt launafólk.
En þeir hinir sömu töluðu jafnan fjálglega um Sjálfstæðisflokkinn sem verkalýðsflokk sem þeir sögðu að leitaði " faglegra lausna " í öllu fyrir verkafólk landsins. Um það er aðeins hægt að segja - að öllu má nú nafn gefa !
Þannig hegðuðu sér menn sem virtust fullkomlega sáttir við að leika hlutverk hundanna undir borðinu sem biðu eftir því einu að beinum væri fleygt í þá.
Það ætti þó ekki að vefjast fyrir neinum heilvita manni sem kynnir sér liðna tíma og verkalýðsbaráttuna, að Sjálfstæðisflokkurinn var aldrei og gat aldrei orðið verkalýðsflokkur. Það getur enginn þjónað tveim herrum og það hefur alltaf legið fyrir hvaða hagsmunum Sjálfstæðisflokkurinn hefur þjónað og þjónar enn.
En Styrmir Gunnarsson, einn helsti þjónustumaður Sjálfstæðisflokksins um langt skeið, spyr hinsvegar um verkalýðsflokkana ?
Og það virðist hann gera í tilbúinni einfeldni manns sem var um langtíma skeið inni í miðju valdaspilinu, en þykist samt ekki vita það sem hann ætti klárlega að vita !
Það er eins og hann finni nú til þess sem Íslendingur, að það vanti eitthvað inn í þjóðlífið, eitthvað sem verið hafi en sé ekki lengur, það vanti í raun sannan verkalýðsflokk sem þjóni hagsmunum fólksins í landinu !
Það skyldi þó aldrei vera ?
Í öllu falli er það athyglisvert að maður eins og Styrmir Gunnarsson skuli fara að pæla í þessu og velta því fyrir sér. Það má því kannski segja að lengi sé von með suma.
Á sínum tíma fór séra Gunnar Benediktsson að hugleiða þjóðfélagsmál djúpt og ærlega af innri þörf og gerðist eftir það sannfærður sósíalisti.
Jónasi frá Hriflu þótti það illt afspurnar og sagt er að hann hafi spurt séra Gunnar út í þessi sinnaskipti hans. Gunnar á að hafa svarað : " Nú, ég fór að hugsa ! "
Þá svaraði Jónas: " Það var slæmt. Þú áttir aldrei að fara að grufla út í þetta !"
Nú þætti mér ekki ólíklegt að einhver forustumaður Sjálfstæðisflokksins hefði þegar sagt við Styrmi Gunnarsson : " Þú ættir ekkert að vera að grufla í þessu !"
En þar með er ekki sagt að þessar hugarins pælingar geti leitt Styrmi Gunnarsson inn á brautir sósíalisma og verkalýðshugsjóna. Það er af og frá að svo geti farið. Til þess er maðurinn allt of langt leiddur í gagnstæða átt.
Samt álít ég að virða megi það að nokkru hjá mönnum, þegar þeir slysast til að vera það einlægir við sjálfa sig og aðra, að þeir leyfa sér að hugleiða hluti sem geta komið flokknum þeirra illa !
Nýjustu færslur
- Endurreisn ómennskunnar !
- ,,Fylgiríki Bandaríkjanna ?
- Hin kratíska feigðarstefna Norðurlanda !
- Útþenslustefna Bandaríkjanna !
- ,,Nýja Kalmarsambandið og glóruleysisgangan !
- Litlar, leiðitamar þjóðir !
- Er herleiðing Flokks fólksins að hefjast..... ?
- Um tilhneigingar til frestunar lýðræðis ?
- Enginn friður, engir samningar, ekkert traust !
- Athyglisverð orð :
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 8
- Sl. sólarhring: 57
- Sl. viku: 577
- Frá upphafi: 365475
Annað
- Innlit í dag: 8
- Innlit sl. viku: 493
- Gestir í dag: 8
- IP-tölur í dag: 8
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bækur
-
: Fjörusprek og Grundargróður (2023) -
: Í norðanvindi og vestanblæ (2013) -
: Hjartað slær til vinstri - Úr minningaheimi Kalla í Nesbæ (2010) -
: Bræðingur og Brotasilfur (2004) -
: Þar sem ræturnar liggja (2004) -
: Út við ysta sæ (2000) -
: Frá fjöru til fjalls (1996) -
: Vísur frá Skagaströnd (1993) -
: Ljóð frá Skagaströnd (1991)