Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2011
29.1.2011 | 19:58
Frá siðferði til siðleysis -
Hvernig er hægt að þurrka úr fólki allt siðferði og hverja ærutaug á fáeinum árum ? Margir hefðu haldið að slíkt væri ekki gerlegt hér á Íslandi en staðreyndirnar sýna að þetta var gert og það vitandi vits.
Fólki var mútað á ýmsa vegu, það fékk drjúgar sporslur út á hlýðni og þrælslund gagnvart valdhöfum og stóreignamönnum og það sem aldrei fyrr.
En fyrr en varði stóð þetta fólk ekki lengur á neinum föstum grundvelli. Það var til sölu, það gekk um með verðmiðann á sér. Það þurfti engar 300 milljónir til að kaupa það. Þrjátíu silfurpeningar dugðu í flestum tilfellum.
Og þannig var þetta fólk dregið út í meiri og meiri spillingu af stjórnvaldi, af flokksvaldi og kerfinu sem orðið var að ófreskju sem myrti sína eigin þjóð.
Valdaklíkan eftir 1991 fyllti hirð fylgjenda sinna af hroka og græðgi. Fjöldi fólks sem hefði átt að geta orðið hagsmunum Íslands að gagni, ánetjaðist hrokanum og græðginni svo á Davíðstímanum, að það varð á skömmum tíma sem þjóðvilltir umskiptingar - afætuhyski sem hugsaði um það eitt að blóðsjúga land sitt og þjóð í eiginhagsmunaskyni.
Hvernig gátu t.d. tiltekin hjón orðið svo gráðug sem raun virðist vitni bera ? Hvað gerði þau að fólki sem virtist alveg búið að tapa áttum þjóðlega séð og var að snúast um sjálft sig með mörg hundruð milljónir króna í spilinu ?
Hvað gerði það að verkum að þetta fólk þurfti svona óskaplega mikla peninga ?
Var kannski búið að láta allt of mikið með þau ? Það er víst ekki lengur bein tenging milli íþrótta og drengskapar þó svo væri löngum talið hér á árum áður. Og það vantaði ekki heldur að viðkomandi frú væri leidd fram á hið pólitíska svið á sínum tíma með miklum glæsilátum ? Var þessum hjónum kannski hampað svo mikið að þau þoldu það ekki ? Biluðu þar allar eðlilegar hugarfars-tengingar við eigið samfélag og fólkið í landinu ? Hvað gerðist eiginlega með þetta fólk ?
Og það eru fleiri, miklu fleiri sem það sama virðist gilda um - fólk sem margir bundu vonir við sem leiðtogaefni á ýmsum sviðum þjóðfélagsins, fólk sem hefði átt að geta vísað öðrum veginn til góðra hluta, manneskjur sem brugðust sjálfum sér og öðrum, hæfileikamiklar persónur sem á skömmum tíma hurfu bókstaflega inn í 100 % sjálfelskuferli. Andi Lúðvíks XIV gekk í ljósum logum um vaxandi ofurlaunaklíkur og margur þar virtist haldinn þeirri firru að hann væri Sólkonungurinn sjálfur sem allt ætti að snúast um.
Lög og reglur og samfélagskerfið í heild sinni - það átti bara að vera til að halda skrílnum í skefjum, menn sneru upp á sig og gáfu landslögunum langt nef og fingurinn að auki !
Margt það sem fyrir Davíðstímann var afgerandi talið til hins verra, varð allt í einu umpólað sem eitthvað gott og gilt. Sum siðagildi fóru beinlínis kollhnýs í meðförum þeirra sem með völdin fóru og áttu að leiða hjörðina. Svo var þeim endurvarpað ofan frá fílabeinsturni frjálshyggjunnar með spillandi áhrifum út í þjóðlífið.
Græðgi, siðleysi, hroki og viðbjóður fór stöðugt að lýsa sér meir í eðli og athöfnum og viðskiptalífið varð ein iðandi ormagryfja þar sem hver beit annan með eitruðum hætti. Ísland var þannig gert að daunillum seiðkatli yfirgengi-legrar fjármálaspillingar.
Þar var hafin til vegs með frjálshyggjunni sama þrælahaldshugsunin og hefur lamað heilu þjóðirnar í Afríku og víðar og gerir enn. Afleiðingarnar urðu þær að íslenska stjórnkerfið var alfarið rekið í sérhagsmunaskyni og fór að herja gegn velferð eigin þegna sem aldrei fyrr.
Bölvað sé slíkt stjórnkerfi, bölvað sé þing sem setur lög sem hindrar fólk í því að geta lifað mannsæmandi lífi. Bölvuð sé verðtrygging eignaraðalsins, kvótakerfið og annað sem stuðlar stöðugt að auknu misrétti í þessu landi.
Siðleysið var gert að skurðgoði fjölmargra með þessum rangindum, margir gerðu það að sínum átrúnaði fyrir tilverknað hinna illu stjórnvalda. Rétt gildi voru sett á hvolf og rænt og stolið í nafni hins öfuga frelsis frjálshyggjunnar.
Og enn er haldið fast um sérhvern ránsfeng og engu skilað til fólksins.
Enn hefur enginn íslenskur mafíósi iðrast eða snúið frá sínum illu gjörðum.
Það er allt við það sama, ekki síst í musterum Mammons, bönkunum sem voru pumpaðir upp með almannafé í sama hrokagírinn og fyrir hrun. Það hefði átt að láta þá alla sitja í sínu gjaldþroti því það var þjóðarbölvun að endurreisa þessi skrímsli siðleysisins.
Í öllum fjármálageiranum, í stjórnkerfinu og orkugeiranum, alls staðar spruttu fram gerendur glæframennskunnar til að ræna þessa þjóð auðlindum sínum, velferð sinni og framtíð. Frjálshyggjan opnaði á sérhverja svívirðu sem hægt var að drýgja og enginn þóttist þó vera að gera neitt rangt því siðleysið var við völd.
Og alltaf kemur meiri og meiri skítur í ljós !
Vinstri stjórnin sem nú situr og fékk nánast allan þennan skít yfir sig frá valdatíma íhaldsins, virðist í mörgu vera á þeirri ömurlegu leið að verða samdauna honum. Sá sem verður samdauna skít hættir að sjá þörfina á því að þrífa til. Maður spyr sjálfan sig, fullur af ógeði á íslenskum yfirvöldum og kerfinu öllu - hvernig gat og getur fólk, sprottið úr íslenskum jarðvegi, orðið svona gjörspillt ?
22.1.2011 | 11:43
Um dáðlaus þing í fortíð og nútíð
Þegar litið er til baka til þeirra ára þegar lýðveldi var stofnað á Íslandi, fer ekki hjá því að margur Íslendingurinn spyrji sjálfan sig þess hvort það hafi í raun verið rétt og skynsamlegt að rjúfa sambandið við Dani ?
Sú spurning hlýtur að leita á marga nú þegar fyrir liggur hvílíkir aumingjar hafa stjórnað íslenska ríkinu síðustu tuttugu árin og jafnvel lengur. Reyndar er það svo að við Íslendingur höfum ekki á öllum lýðveldistímanum eignast neinn leiðandi stjórnmálamann sem gæti flokkast undir það sem Englendingar kölluðu statesman í eina tíð.
Stjórnmálaleiðtogar Íslands hafa nánast allir verið frekar rýrir í roðinu og enginn þeirra hefur náð að vinna sér þá hollustu þjóðarinnar sem kallar á yfirgnæfandi stuðning meðal hennar. Enginn þeirra hefur náð að byggja um sig traust sem nokkru hefur numið utan eigin flokks.
Íslenska þjóðin hefur allan lýðveldistímann liðið fyrir forustuleysi !
Þjóðarhagsmunir hafa nánast alla tíð verið sem leikföng í höndum misviturra pólitíkusa, skopparakringlur skítmennskunnar í þessu landi !
Hugsun fyrir velferð almennings hefur aldrei verið í forgangi í málum og meðferð þjóðarfjár í höndum stjórnar og þings iðulega verið með endemum.
Þessvegna má alveg velta þeirri spurningu fyrir sér - til hvers hefur allt sjálfstæðisbrölt þjóðarinnar leitt, fyrst allur ávinningur af þeirri baráttu, hefur alltaf verið látinn skila sér til sérgæðinga kerfisins í stað alþjóðar ?
Ég er íslenskur sjálfstæðissinni og verð það sjálfsagt fyrir lífstíð, en ég get ekki varist því að hugleiða hverjir ávextirnir af langtíma baráttu séu í raun, þegar pólitíkin í landinu elur stöðugt fimmtu herdeild Júdasarhyggjunnar á sérhverjum sigri sem við vinnum og rænir hverjum ávinningi frá þjóðinni !
Á árunum eftir stríð, þegar við Íslendingar börðumst í bökkum og unnum eins og skepnur myrkranna á milli, sigldu Danir blásandi byr til vaxandi velsældar - og það ekki bara velsældar broddborgara heldur almenningsvelsældar.
Hér var öllum ágóða hinsvegar jafnóðum stýrt í sérhagsmunakerfið, en öllu tapi sturtað niður til almennings.
Það er orðið langt síðan Jón Ólafsson orti Íslendingabrag og talaði um dáðlausu þingin - dönsku Íslendingana ! En íslenskir forustumenn hafa - einkum á seinni árum - sýnt miklu verri birtingarmyndir mannlegs aumingjadóms en svokallaðir danskir Íslendingar áttu að hafa sýnt á sínum tíma. Jón hefði sennilega aldrei getað ímyndað sér, í þjóðlegum uppreisnarhug sínum, að slík lágkúra væri til.
Stjórnmálamennirnir höfðu reyndar ekki mikla tilfinningu fyrir grasrót þjóðfélagsins hér áður fyrr, en enn síður hafa þeir það nú. Liðið sem situr á þingi í dag er að mestu leyti lokaður saumaklúbbur sérgæskunnar. Þjóðarhagsmunir eða velferð alþjóðar er þar ekki neitt sem skiptir neinu höfuðmáli.
Bilið milli Jóhönnu Sigurðardóttur og Bjarna Benediktssonar er því ekki svo mikið þegar allt kemur til alls. Einnig má segja að munurinn á Steingrími J. og Geir Haarde sé talsvert meiri í orði en á borði.
Andstæðurnar milli hægri stefnu og vinstri stefnu eru orðnar mjög mistri huldar og oft erfitt að greina þar til vega. Hægri maðurinn á það til að sveigja talsvert til vinstri - í orði - þegar honum þykir það henta, og vinstri maðurinn getur orðið býsna hægrisinnaður - á borði - þegar hann er kominn í stjórn !
En í Danmörku voru mál tekin allt öðrum tökum en hér. Þar óx upp verkalýðshreyfing sem tekið var mark á og hafði oft góðum mönnum á að skipa.
Vinstri hreyfingin danska hélt mönnum við efnið - stefnt skyldi að þjóðfélagi velferðar - fyrir alla ! Hérlendis var hinsvegar í raun stefnt að þjóðfélagi velsældar fyrir fáa ! Og það var sannarlega séð til þess að enginn óverðugur kæmist í allsnægtabúrið !
Þegar við lítum yfir sviðið í ársbyrjun 2011, eftir hrun sem var miklu meira hrun fyrir Ísland en almennt er viðurkennt í dag, vitum við að ríkiskerfið með allt sitt eftirlit, var ekki að þjóna þjóðarhagsmunum á sinni vakt, sérhver skuggabaldur þess var að hygla sér og sínum - á kostnað okkar hinna. Sama var að segja um bankakerfið, sem þjónaði ekki þjóðinni af neinum heilindum.
Því segi ég - íslenskur sjálfstæðissinni - árið 2011, hver skyldi nú staða okkar sem þjóðar vera í dag, ef við hefðum aldrei skilið við Dani ?
Kannski sætum við í einhverjum dönskum stjórnmálaskít upp að hnjám, en dagleg lífskjör fólks yrðu að öllum líkindum umtalsvert betri.
Í dag sitjum við hinsvegar í íslenskum stjórnmálaskít upp fyrir haus og ekkert bendir til að þar verði mokað frá okkur - nema til málamynda.
Lífskjörin eru sem fyrr í lóðréttu falli og þjóðin hefur verið rænd af bönkum og stjórnvöldum stórum hluta eigna sinna. Lögreglan er enn sem fyrr notuð sem varnarlið sérhagsmunaveldisins og enn er að vísu sagt - með lögum skal land byggja - , en sú umsögn er orðin að algjörri efnisleysu og orðskrípi í dag.
Það virðist því sem stjórnmálamenn Íslands stefni í þjóðvillu sinni að því að gera 17. júní 1944 að sögulegum upphafsdegi ógæfu lands og þjóðar !
14.1.2011 | 19:37
Hvernig viljum við að Ísland barna okkar verði ?
Reykvíkingar hafa löngum verið ánægðir með sinn Elliðaárdal, enda hafa þeir mátt vera það, því dalurinn sá hefur verið mörgum til yndisauka og talinn sérstök náttúruperla sem beri að varðveita sem friðarreit til framtíðar í þágu borgarbúa.
Spurningin er hinsvegar kannski sú hvort svo verði áfram eða hvort eitthvað komi til sem kunni að breyta aðstæðum í dalnum svo að hann verði ekki samur á eftir ?
Það getur margt gerst sem tekur lítið mið af almannahagsmunum og ekki er langt síðan fram kom beiðni til borgaryfirvalda af hálfu félags múslima hérlendis, þar sem óskað var eftir leyfi til að byggja mosku í Elliðaárdal.
Sú beiðni var studd frösum fjölmenningarhyggju og trúfrelsis og í umræðu var látið í það skína að ef beiðnin yrði ekki samþykkt væri það að sjálfsögðu aðför að frjálsræði og jafnstöðu trúflokka.
Nú er það svo að Ísland er yfirlýst kristið land en jafnframt hefur það verið talið sjálfsagt að menn verði hér ekki fyrir aðkasti vegna trúar sinnar. Ég hygg að kjör kristinna manna í Saudi Arabíu, Pakistan og fleiri múslimaríkjum séu miklum mun ótryggari en kjör múslima hér, svo ég veit ekki til þess að þeir hafi yfir miklu að kvarta. En það er nú svo að það er hægt að misnota trúfrelsi eins og annað og um alla Evrópu standa menn frammi fyrir þeim vanda, að innflytjendur með aðra trú og aðra siði eru sífellt að ganga á lagið með ýmsum hætti.
Og hingað til hefur undanlátssemin verið vægast sagt heimskuleg.
Íslenska samfélagið er til dæmis enn sem fyrr grundvallað á þeim orðum Þorgeirs Ljósvetningagoða við kristnitökuna, að einn verði siðurinn að vera sem haldi þjóðfélaginu saman, því ef menn sameinist ekki um að halda þann sið muni friðurinn brátt verða úti.
Múslimar sem flust hafa til Íslands hafa vitað frá öndverðu að hér væri kristið samfélag og enginn hefur neytt þá til að ganga að þeim kostum sem fyrir hendi hafa verið. En svo virðist sem þeir færi sig stöðugt upp á skaftið og vilji breyta því sem fyrir er og gera íslenskt samfélag að einhverju útibúi frá heimalöndum sínum.
Í slíku framferði felst lítil hollusta gagnvart því landi sem tekið hefur á móti þeim með þeirri vinsemd sem kristnir menn mæta sannarlega ekki af hálfu múslima í þeim löndum þar sem þeir síðarnefndu eru í meirihluta.
Það er eins og yfirvöld í ýmsum Evrópuríkjum séu gjörsamlega blind gagnvart þeim hættum sem geta falist í vaxandi uppivöðslusemi og borgaralegu áreiti af hálfu hávaðasamra minnihlutahópa, sem vilja að allt fari eftir þeirra forskriftum.
Hefði Elliðaárdalurinn t.d. haldið áfram að vera það sama í augum Reykvíkinga, ef þar hefði risið moska með hátalarakerfi sem glumið hefði um nágrennið og kallað hina trúuðu til bæna fimm sinnum á dag ?
Hefði fólk unað sér þar áfram við þær aðstæður og kyrrðin og náttúrufriðurinn verið þar áfram fyrir hendi þegar svo hefði verið komið ?
Ég leyfi mér að efast um það og tel að nóg sé komið af undirlægjuhætti yfirvalda gagnvart svokallaðri fjölmenningu og niðurrifi þjóðlegra gilda, bæði hérlendis og erlendis.
Nú hefur, eftir því sem ég hef fregnað, verið hætt við að veita lóð undir moskuna í Elliðaárdalnum, og í staðinn hefur heyrst að hún eigi að rísa einhversstaðar við Rauðavatn. En við stöndum áfram og engu síður frammi fyrir ákveðnum hlutum sem taka verður afstöðu til og því fyrr því betra.
Spursmálið er einfaldlega þetta :
Ætlum við Íslendingar, - í okkar eigin landi - að láta aðra hafa fullt frjálsræði til að skapa hér þjóðfélagsaðstæður sem við sannarlega munum ekki vilja, þegar það fer að opnast fyrir okkur hvernig þær eigi að verða - eða ætlum við að vera vakandi, allsgáðir og ábyrgir fyrir framvindu mála ?
Hvernig sjáum við þá framtíð fyrir okkur sem við viljum að börnin okkar erfi ?
8.1.2011 | 14:27
Klappkór Icesave
Allir ættu að vita það núorðið hvernig Icesave fjármálagjörningurinn hefur farið með íslenska ríkið og þetta samfélag sem við höfum verið að reyna að halda uppi undanfarna áratugi. Þar var um að ræða fyrirbæri sem reyndist í raun tilræði við sjálfstæði og fullveldi okkar sem þjóðar.
Það er hinsvegar ekki jafn ljóst fyrir mörgum hvað Icesave þótti snjallt fyrirbæri árið 2007 - af þeim sem þóttust hafa best vit á íslenskum fjármálum. Staðreyndirnar tala hinsvegar sínu máli þó margur vilji nú sem minnst af þeim vita. Um áramótin 2007-2008 var niðurstaða sérstakrar dómnefndar sú að Icesave væri " bestu viðskipti ársins 2007 ". Í þessari dómnefnd sátu margir helstu " atgervisheilar " íslenskra fjármála. Það er kannski talandi vitnisburður um hugarfarið sem réði hjá því fílabeinsturna-fylgdarliði sem sat í þessari nefnd, að Jón Ásgeir Jóhannesson var valinn " viðskiptamaður ársins " !
Nú skulum við skoða ofurlítið hverjir sátu í þessari mjög svo einhuga Icesave gæðavottunarnefnd. Það fólk hlýtur að hafa talið að menn í íslenskum fjármálaheimi yrðu bara framvegis í því að telja peninga sem kæmu endalaust inn, sbr. gleiðgosaleg ummæli Sigurjóns bankastjóra á sínum tíma.
Í nefndinni sátu Ingólfur Bender frá greiningardeild Glitnis, Edda Rós Karlsdóttir frá greiningardeild Landsbankans, Svava Grönfeldt rektor HR, Ólafur Ísleifsson lektor við HR, Halla Tómasdóttir frá Auði Capital, Finnur Oddsson framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, Ágúst Einarsson rektor á Bifröst, Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson frá Saga Capital, Jafet Ólafsson frá VBS, Katrín Pétursdóttir frá Lýsi, Ásta Dís Ólafsdóttir dósent á Bifröst, Þorsteinn Þórgeirsson skrifstofustjóri efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins, Þórður Friðjónsson frá Kauphöll Íslands, Hafliði Helgason ritstjóri Markaðarins, Gunnar Ólafur Haraldsson formaður Hagfræðistofnunar, Friðrik Már Baldursson prófessor í HR, Hrund Rúdólfsdóttir framkvæmdastjóri hjá Milestone, Jón Þór Sturluson aðstoðarmaður viðskiptaráðherra, Guðjón Rúnarsson framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja og síðast en ekki síst Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins....................... !
Þetta er sérfróða fagfólkið sem myndaði klappkór "Icesave snilldarinnar " á hápunkti hættutímans fyrir efnahagsmál lands og þjóðar !
Hvar og hvernig skyldi þetta fólk vera staðsett í tilverunni í dag ?
Við vitum náttúrulega sitthvað um Vilhjálm Egilsson sem alltaf er að ráðleggja stjórnvöldum hvernig eigi að gera hlutina rétt, við vitum það sama um Ólaf Ísleifsson sem sparar ekki í útvarpi aðfinnslur og gagnrýni á þá sem eru að hans mati að gera rangt, við vitum að sumt af þessu liði er ennþá nákvæmlega þar sem það var. Það virðist enn talið trúverðugt - liðið sem myndaði klappkórinn fyrir Icesave gjörninginn !
Sumar konur hafa verið að segja að hrunið og allt í kringum það hafi eingöngu verið viðskiptalegum mistökum karla að kenna, konur séu miklu agaðri og gætnari í fjármálum og ef þær hefðu ráðið værum við í fínum málum í dag ?
En í klappkórnum eru nú samt nokkrar konur úr fjármálaheiminum og ekki virðast þær hafa skorið sig neitt úr, ekki fremur en háttsettar bankakonur o.s.frv.
Það sem hinsvegar vekur manni mestrar furðu, er að margt af þessu liði virðist aldrei hafa fyrir því að líta í eigin barm. Sumir í hópnum hamast í fjölmiðlum gegn ýmsu sem þeir virðast ekki síður sekir um sjálfir ! Og þetta fólk situr jafnvel í sömu stöðum og áður og þykist hafa sama trúverðugleika ?
Svo tala menn um að það þurfi að byggja upp nýtt Ísland - á að gera það með slíka klappkóra að undirstöðu ?
Nei, það verður engin heilbrigð uppbygging í þessu þjóðfélagi fyrr en spillingaröflin hafa verið sett opinberlega í gapastokk til siðferðilegrar endurhæfingar - ásamt klappkórum sínum !
Nýjustu færslur
- Endurreisn ómennskunnar !
- ,,Fylgiríki Bandaríkjanna ?
- Hin kratíska feigðarstefna Norðurlanda !
- Útþenslustefna Bandaríkjanna !
- ,,Nýja Kalmarsambandið og glóruleysisgangan !
- Litlar, leiðitamar þjóðir !
- Er herleiðing Flokks fólksins að hefjast..... ?
- Um tilhneigingar til frestunar lýðræðis ?
- Enginn friður, engir samningar, ekkert traust !
- Athyglisverð orð :
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 29
- Sl. sólarhring: 78
- Sl. viku: 598
- Frá upphafi: 365496
Annað
- Innlit í dag: 26
- Innlit sl. viku: 511
- Gestir í dag: 26
- IP-tölur í dag: 26
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bækur
-
: Fjörusprek og Grundargróður (2023) -
: Í norðanvindi og vestanblæ (2013) -
: Hjartað slær til vinstri - Úr minningaheimi Kalla í Nesbæ (2010) -
: Bræðingur og Brotasilfur (2004) -
: Þar sem ræturnar liggja (2004) -
: Út við ysta sæ (2000) -
: Frá fjöru til fjalls (1996) -
: Vísur frá Skagaströnd (1993) -
: Ljóð frá Skagaströnd (1991)