Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2011

" Mannréttindasókn kvennavaldsins " !

Upp úr 1970 eða þar um bil hófst mikil bylgja kvenréttindasóknar í hinum vestræna heimi, eftir talsverða ládeyðu þar á undan. Vígreifar menntakonur skrifuðu hverja bókina af annarri um kúgun konunnar og fundu karlpeningnum ekkert til afbötunar. Fram á umræðusviðið þustu hópar valkyrja sem létu sér fátt fyrir brjósti brenna og herjuðu á sérhvert yfirlýst vígi karlrembunnar af miklum krafti. Það átti ekki að láta sitja við orðin tóm

Konur eins og Betty Frieden, Germaine Greer, Susan Faludi og fleiri slíkar lögðu þar mörg vopnin til, þó sum hafi síðar reynst býsna tvíeggjuð svo ekki sé meira sagt. En það fór ekki á milli mála að konur vildu breyta þjóðfélögum sínum og jafna stöðu kynjanna með afgerandi hætti.

Leiðandi raddir innan raða þeirra bentu á fjölmörg afglöp karla í stjórnunar-málum landa og þjóða. Konur voru nefnilega á móti styrjöldum og ofbeldi.

Þær sögðust berjast fyrir mannvænni samfélagsháttum og fjölskyldulegum gildum. Heiminum væri lífsnauðsyn að bjargast úr þeim skítasporum sem valdabarátta og óþverrapólitík karla hefðu sett hann í. Þar væri ekki annað til bjargar en ný sýn og konur væru einar færar um að veita slíka sýn.

Þær bæru öðrum fremur fyrir brjósti lífsgildin góðu, sem hvergi ættu sér betri málsvara en þann sem kæmi fram í móðurlegum viðhorfum þeirra. Konurnar létu það óspart í ljós að ekki væri seinna vænna að bjarga veröldinni frá hinum ofbeldishneigðu karlrembum sem færu víðasthvar með völdin til bölvunar fyrir friðsælt og gott mannlíf.

Ákaflega margt sem finna mátti í stefnuskrám þeirra var gott og blessað og hefði líklega getað bætt heiminn töluvert ef því hefði verið fylgt eftir af fullum heilindum. En manneskjur þurfa nú ekki endilega að búa yfir heilindum þó að þær séu konur og hefur það víða komið átakanlega í ljós ekki síður en með karlana.

Eftir því sem konur áunnu sér meiri áhrif, kom nefnilega skýrar í ljós að þær voru flestar á höttunum eftir því sama og karlarnir. Þær vildu njóta þess að hafa völd eins og þeir, baða sig í sviðsljósum, vera stóru agnirnar í gerinu.

Eva var því ekki lengi í Paradís frekar en Adam karlinn !

Og nú sér maður í kvikmyndum samtímans konurnar vera farnar að njóta ávaxta sigra sinna í mannréttindasókninni. Þær slást eins og karlarnir, þær ganga um alvopnaðar eins og karlarnir, eru ofbeldisfullar eins og karlarnir og drepa eins og karlarnir !

Þær virðast hafa náð á þessu mikla menningarsviði fullu jafnræði við karlana í hlutverkum sínum nú til dags. Það eru ekki til þeir ósiðir og þau glæpaverk sem karlarnir frömdu á hvíta tjaldinu í gamla daga sem konurnar fá ekki að fremja þar núorðið og þær hoppa af fögnuði yfir því. Svo breyting mála er mjög svo sýnileg þó að erfitt sé vitaskuld að færa rök fyrir því að hún hafi bætt heiminn. Ofbeldi framið af konum á hvíta tjaldinu og í veruleikanum er nefnilega ekkert betra en samskonar verknaður karla hér áður fyrr. Má því segja að konurnar hafi gleymt hinum fögru stefnuskráratriðum  mannréttindasóknar  sinnar býsna fljótt og nú apa þær í flestu eftir öllu því versta sem þær úthúðuðu körlunum fyrir á hveitibrauðsdögum systrabandssóknar hugsjónanna fyrir betri heimi.

Það er því hægt í fúlustu kaldhæðni að segja : " Til hamingju konur, þið eruð sannarlega búnar að ná langt - þið eruð orðnar jafnokar karlanna - í óþverraverkunum !

Konur sitja nú víða að völdum, þær eru atkvæðamiklar á þjóðþingum, í ríkisstjórnum og valdastofnunum víða um heim. En hefur heimurinn skánað við þessi auknu völd þeirra ? Nei, síður en svo !

Konurnar hegða sér bara eins og karlarnir og eru þeim síst betri í spillingu og hrokahætti. Það væri þegar komið skýrt í ljós á mörgum sviðum ef aukin áhrif þeirra hefðu flutt með sér betri hluti inn í veraldarlífið, en því miður er því ekki að heilsa.

Móðureðli kvenna eykst ekki við aukin völd þeirra, kærleikur þeirra til lífsins sem þær ala af sér verður ekki meiri við það að þær fjarlægist frumhlutverk sitt. Kvennavöld bæta ekki þennan heim sem neinu nemur umfram það sem karlavöldin gerðu áður.

Manneskjan getur verið spillt, valdasjúk, drambsöm og illa gerð á allan hátt þótt hún sé ekki karlkennd út frá millifótaprýði sinni !

Illt hugarfar og slæm sálarinnrétting er ekki ástand sem skapast af kynferði. Konurnar bæta því ekki heiminn með því að fá völd og yfirráð og ástæðan er einfaldlega sú staðreynd að þær eru sem manneskjur upp og ofan á sama hátt og karlarnir. Þær geta að sjálfsögðu falið í sér sömu brestina og þeir og sömu röngu tilhneigingarnar. Valdið spillir þeim ekki síður en körlunum. Þær fengu bara ekki sömu tækifærin og þeir til að opinbera sínar brotalamir í þessum efnum hér áður fyrr.

En nú hafa konur víða sýnt hvernig þær bregðast við sem handhafar valds og ráðsmennsku og ekki er útkoman góð, hvorki fyrir þær sjálfar, maka þeirra, börn og skyldulið eða heiminn yfirleitt.

Uppsetning hugmyndafræði kvenréttindavaldsins upp úr 1970 var því að mestu leyti byggð á blekkingu, sem sést best á því að nú sitja konurnar fastar í sama skítnum og karlarnir og ástand mála er verra en fyrr, því þriðja kynið - " óspillta kynið " -  er ekki til !

 

 


Þankavíti þjóðleysunnar

Það eru og hafa verið í gangi afskriftir skulda af hálfu bankakerfisins gagnvart yfirleitt öllum þeim sem áttu einhvern þátt í hruninu. Allir eiga að fá niðurfellingu skulda nema venjulegt fólk, alþýða þessa lands. Allir svörtu sauðirnir virðast sannarlega fá blessun bankakerfisins til áframhaldandi rekstrar-svínarís og ehf skollabragða.

Aðeins hinir saklausu, hinir réttu og sléttu, hinir almennu borgarar, fá litla sem enga leiðréttingu, ekkert nema spark í rassinn frá valdsstjórn viðbjóðs og spillingar. Íslenskir ráðamenn eru í augum margra orðin síðasta sort og þeir sem þykjast vera til vinstri, hafa í raun verið að sýna sig litlu skárri en hægri sóðarnir sem steyptu hér öllu í rúst.

Af hverju skyldu þessar afskriftir eiga sér stað ? Jú, vegna þess að sama liðið er í bankakerfinu enn í dag, það er í skilanefndunum, það er í ráðuneytunum, það er í dómskerfinu og háskólunum, það er á þinginu og í ríkisstjórn, á Bessastöðum og allsstaðar þar sem skítlegt eðli getur vaxið og dafnað.

Alls staðar í stjórnkerfinu virðast nefnilega vera menn með skítlegt eðli, eins og eitt sinn var sagt af manni í stjórnkerfinu um annan mann í stjórnkerfinu - þó enginn skilji lengur hvað gat orðið svo sameðla mönnum til sundurþykkis ?

Samspillingarfélagar eru að forða félögum sínum frá skuldum og óreiðu, einkavæðingu andskotans og bruðli fortíðar, og hugmyndin er og hefur alfarið verið sú að láta þjóðina, almenning þessa lands, taka við syndagjöldunum.

Össur-aparnir sem sitja á þingi - eða liggja þar öllu heldur - eru til dæmis sammála um það !

Það er verið að afskrifa syndaregistur einkavæddu spillingarbankanna í núspillingarbönkum fjárglæframennskunnar. Og almenningur á að vera syndahafurinn og sektarlambið. Hann skal rekinn út á hraunbreiður hrunsins, út á eyðimörk allsleysisins, út á kviksand klafamennskunnar, af yfirstjórn ómennskunnar í þessu landi.

Enn sem fyrr eiga alikálfar auðvalds og ofríkis að vera feitir og fattir, Jón Ásgeir, Björgólfarnir, Halldór og Sigurjón, Gvendur í Brimi, Sigurður Einars og Hreiðar Már, Welding og vesalingahjörðin öll !

- Allt skal þetta áfram alið á hjartablóði þjóðarinnar, samkvæmt hinni svörtu forskrift sem gefin hefur verið út af aðalstöðvum spillingarkerfisins - blóthofi fjórflokksins - ríkinu sem var rænt frá fólkinu og kom í bakið á þjóðinni !

Íslenska þjóðin hefur nefnilega verið svívirt og rænd, svikin í tryggðum af eigin forustuliði, þar er enginn öðrum betri, hirðsveinar erlends valds á hverju strái.

Það er sama hvort maðurinn heitir Gissur eða Össur, hvort hann lifir á Sturlungaöld eða í samtímanum, sama eðlið er enn fyrir hendi - enn að þjóna undir sama valdið og forðum daga. Jarlstign eða ígildi þeirrar mútu er sjáanlega enn sem fyrr í boði.

Lítil þjóð norður í höfum á ekki að fá að njóta frelsis - hún skal verða svipt öllu sjálfstæði og ganga veg ánauðar, lúta hirðstjórum úr hópi Gissura og Össura komandi tíðar - alltaf verður nóg af slíkum þjónustumönnum hér sem annarsstaðar  - skutilsveinum skítmennskunnar !

Eru ekkert nema aumingjar í forsvari fyrir réttindum íslensku þjóðarinnar ?

 


Bylgju-Láfarnir og forherðing hugarfarsins

Á Bylgjunni, útvarpsrás sem er heyranlega mjög hægri pólitísk, hefur um nokkurt skeið mátt heyra Ólafa tvo fara mikinn í lýsingum á athöfnum ríkisstjórnarinnar og finna núverandi valdhöfum flest til foráttu.

Þessir Ólafar eru félagarnir Arnarson og Ísleifsson. Báðir hafa víst komið nokkuð við sögu sjálfstæðisflokksins sem ég kalla Stóra Þjóðarógæfuflokkinn eftir hrunið, og mætti þar af leiðandi draga þá ályktun að þeir væru ekki sérlega trúverðugir í dómum sínum um pólitíska andstæðinga, þó þeir reyni auðvitað að bregða yfir málflutning sinn blæju faglegs hlutleysis.

Það má hinsvegar heyra það glöggt að pólitískt ofstæki nær þar mjög víða í gegn og stundum með þeim hætti að ýmsir sem áður hlustuðu eru nú hættir því, þar sem þeim var farið að ofbjóða hvernig áróðurinn var settur fram.

Þetta er svona svipað því og þegar Eiríkur Bergmann Einarsson er að tjá sig um hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu eins og hlutlaus fagaðili, þó að gjörla sé vitað að hann er mjög hallur undir sambandið og hlynntur aðild að því.

Ólafar þessir báðir munu vera hagfræðingar að mennt og er það sú fræðigrein sem hefur verið hvað mest ofmetin á Vesturlöndum undanfarin mörg árin eins og Göran Persson benti réttilega á fyrir nokkru. Persson sagði þá að í grunninn snerist hagfræði að mestu um " common sense ", en ekki get ég nú fundið það hjá þessum áróðursdúetti Bylgjunnar. Það er líka mín skoðun að þjóðhagslega gagnslausari menn en hagfræðingar séu vandfundnir hérlendis sem erlendis.

Þetta eru fyrst og fremst málskrafsmenn sem gera þá kröfu í nafni menntunar sinnar einnar að vera teknir alvarlega en verkin tala ákaflega lítið í þeirra meðförum. Efnahagsmálin hafa líka tekið hverja kollsteypuna af annarri í landinu og að því er mér sýnist virðast þær verða þeim mun fleiri sem hagfræðingunum fjölgar.

Ólafur Ísleifsson var einn af þeim sem sat í dómnefndinni sem verðlaunaði Ice Save sem snjallasta viðskiptagjörning ársins 2007. Hann hefur reyndar ekki haft hátt um þá framgöngu sína, en telur sig samt greinilega færan um að dæma athafnir annarra. Hann talar þá um arfavitlaus vinnubrögð og fleira í þeim dúr. Hann er, að mínu mati, í hópi margra annarra Þjóðarógæfuflokksmanna, sem hafa sýnilega það helst í sigti að forherða hugarfar sitt og láta sem ekkert sé.

Ástæðan fyrir þeirri breytni er augljós, sannleikurinn er orðinn þessum mönnum svo beisklega óhagstæður, eftir hrun alls þess sem þeir hófu til skýjanna á sínum tíma, að þeir treysta sér ekki lengur til að horfast í augu við staðreyndir !

Það er því fangaráð þeirra að flýja í faðm blekkinganna og reyna með endalausum útúrsnúningum að tala sig frá fortíðinni !

Það er, að mínu mati, ógæfa Íslands hvað menn af þessu tagi hafa komist langt til áhrifa, því ég tel að þeir hafi sem fulltrúar frjálshyggju og auðvalds valdið gífurlegum skaða á samfélagi okkar í þjóðhagslegu tilliti.

Tækið sem kom þessum mönnum fyrst og fremst að notum í valdabrölti þeirra var sjálfstæðisflokkurinn. Flokksnafnið er ekki lengur hægt að skrifa með stórum staf, eftir skemmdarverk þau sem flokkurinn hefur unnið gagnvart sjálfstæði Íslands, og ég tel eðlilegast að nefna hann Stóra Þjóðarógæfuflokkinn.

Í þeim flokki hreiðruðu um sig flestir þeirra óíslensku eiginhagsmunaseggja sem óðu yfir allt fjármálakerfi landsins á forugum spillingarskóm á veisluárum frjálshyggjunnar og gáfu skít í alla þjóðlega velferð.

Svo þykjast þessir menn geta lagt út af málunum í dag og hafa auðvitað aldrei gert neitt rangt og hegða sér eins og þeir séu nýkomnir til landsins eftir 20 ára dvöl í Fjarskanistan - og náttúrulega yfir sig hneykslaðir á því ófremdarástandi sem hér er og skilja ekkert í því hvernig menn hafa hegðað sér hér - í saklausri fjarveru þeirra !

Þó að margir þeirra séu ekki lengur ungir menn, eru þeir greinilega með í kolli sínum þær " hreinu hugsanir " sem Morgunblaðið lofsöng sem mest á árunum fyrir síðari heimsstyrjöldina. Ég hef hinsvegar skömm á öllum mönnum sem eru svo sjálfselskufullir og dauðir fyrir öðru fólki, að líf þeirra snýst aðeins um mottóið - Ég um MIG frá MÉR til MÍN !

Láfaleikur Bylgjunnar er eitt ómerkilegasta fyrirbæri sem ég hef vitað til að notað sé í pólitískum tilgangi á íslenskum fjölmiðli - og eru þó vissulega mörg dæmi til á þeim vígstöðvum sem slæm eru. Einu sinni var talið til siðs á Íslandi að menn leiddu saman hesta sína í útvarpsþáttum - aðilar ólíkra skoðana tækjust þar á.

Bylgjan er ekki að bera neitt slíkt á borð fyrir hlustendur, enda greinilega hægri pólitísk útvarpsstöð sem glefsar sjáanlega ekki í eigendur sína og hagsmuni þeirra. Þar er sannarlega þjónað undir þá sem bylgjunum stjórna.

En seint hugsa ég að hægt verði að taka kjaftæði þeirra frjálshyggju-nafnanna á Bylgjunni sem gildisbært framlag til vörslusjóða sannleikans í okkar þjóðfélagi.

 

 

 


Leikmannsþankar um kirkjumál

Hver sæmilega upplýstur maður veit að kristin trú snýst um að eiga lifandi samfélag við Drottin Guð, Skapara himins og jarðar. Kristindómurinn er einfaldur boðskapur eins og Kristur setti hann fram og hefur alla tíð unnið sína mestu sigra í framsetningu þeirra manna sem hafa náð að skilja hann í einfaldleika hans, kærleika og sakleysi, og boðað hann þannig.

En Farísear og Saddúkear mannkynsins hafa um tuttugu alda skeið róið að því öllum árum að gera kristindóminn flókinn, að reyra utan um hann kreddur og kenningar, sem eiga lítið skylt við fagnaðarboðskap Frelsarans.

Þannig hafa það yfirleitt verið hinir drambsömu fulltrúar mannasetningarvalds kirkjunnar, metorðaprílarar hins falska himnastiga, sem hafa drepið vakningar og hreyfingar Anda Guðs í samfélagi þjóðanna.

Eitt sterkasta vopnið sem notað hefur verið gegn trúnni innan kirkjunnar er guðfræðin - tilbúin fræðigrein, sem endurspeglar mjög þá afleitu tilhneigingu manna að gera allt einfalt flókið. Einkum á slíkt við um menn sem hafa það mjög í sér að vilja teljast öðrum meiri.

Kirkjuvaldskerfið reisir enn í dag upp allskonar þröskulda skilyrða við heilbrigðri sannleiksleit mannssálarinnar, setur þar sem fyrr sín boð og bönn og ráðskast með fólk og frelsi þess. Forðum voru menn bannfærðir ef þeir vildu hugsa frjálst og brenndir á báli ef þeir fengust ekki til að hlýða hinu illa og óguðlega kirkjuvaldi. Guðfræðin leggur einlæga trúarþrá í hlekki kennisetninga og drepur smám saman andann í hverjum manni. Hún er sú andlega flatneskja fyrir mannssálina sem steingervingar kirkjunnar kenndu lengi vel að jörðin væri í efnislegum skilningi.

Kirkja sem stofnun verður alltaf andlaus. Hún verður bara framfærsluhæli fyrir preláta á allskyns embættisstigum, sem eyða tíma sínum í það að semja guðfræðilega kreddu-doðranta á milli þess sem þeir vasast í kirkjupólitískri valdabaráttu - oftast sjálfum sér til skammar og öðrum til skaða.

Menn geta ekki fylgt bæði guðfræðinni og Jesú. Farísearnir á dögum Krists gátu það ekki og enn síður geta fræðisjúkir kirkjustofnunarmenn það í dag, eftir að tuttugu alda framleiðsla guðfræði-doðranta hefur tekið trúna frá þeim, gert þá  dauða fyrir boðskap Frelsarans og fyllt þá lærdómshroka og kreddublindu !

Samt er það auðvitað svo að innan kirkjunnar hafa oft starfað mætir menn í prestastétt sem hafa gætt þess að glata hvorki jarðsambandi við fólkið í landinu né himintengingunni við Almættið. Það er ekki síst fyrir atbeina slíkra manna sem kirkjan lifir, þó að mikið vanti á að það líf sem hún býður, fullnægi heilbrigðri og vökulli trúarþörf einstaklingsins í þjáningafullum mannheimi.

En menn eins og t.d. biskuparnir Sigurbjörn Einarsson og Pétur Sigurgeirsson, munu trúlega jafnan eiga sinn stað í þjóðarsál okkar Íslendinga, sem ágætir kristnir kennimenn, trúir þeirri andlegu uppsprettu sem þeir voru vígðir til og helgaðir í þjónustu sinni.

En kirkjan hefur líka átt sína ógæfumenn, sem hafa með framferði sínu skaðað orðspor hennar á margan hátt. Nægir þar að nefna Ólaf Skúlason sem komst til æðstu valda og metorða innan kirkjunnar, þó margir hljóti að hafa vitað að sá skuggi hvíldi snemma yfir ferli hans sem hefði átt að hringja viðvörunarbjöllum.

En hver er fús til að þrífa skúmaskot kirkjunnar, þegar þörfin krefur sem aldrei fyrr ? Það er stór spurning og einhver orti þetta vísukorn þegar hún var til umræðu :

 

Ólafur Skúlason skæður var,

skildi við kirkjuna í rústum.

Sitthvað þarf burt að sópast þar,

en sérarnir snerta ekki á kústum !

 

Kirkjupólitík er engu göfugra fyrirbæri en önnur pólitík og hún gat lyft þeim manni upp í biskupsstól sem aldrei hefði þar átt að sitja. Ólafur Skúlason komst í þann sess með stuðningi margra kirkjunnar manna og annarra sem nú reyna sem mest að hvítþvo sig af allri fylgispekt við hann og vilja þar ekki lengur við neitt kannast.

Kirkjupólitísk forherðing er síst betri en landsmálapólitísk forherðing, eins og sést hjá mönnum sem sitja á alþingi í dag - flestir fyrir sjálfa sig, en fáir sem engir fyrir þjóðina. Andleg vesalmennska ræður víða för !

Og það vantar víst ekki að það er stöðug valdabarátta í gangi innan kirkjunnar, meðal annars sækja konurnar þar fram í þeim anda sem þeim vill oft fylgja, og vilja fara að fá sinn biskup. Andstaðan við Karl biskup innan prestastéttarinnar er þannig líka að hluta til fyrir hendi vegna þess að hann er karl.

Þó er sú staðreynd enn verri, að í gegnum afskipti sín af málum Ólafs Skúlasonar hefur biskup sýnt sig vera heldur lítinn karl og vandræðalegan.

Þar virðist því miður hafa sýnt sig í ákvarðanatöku dómgreindarskortur sem ekki er ásættanlegur í vinnubrögðum æðsta manns kirkjunnar. Biskup verður að geta róið kirkjuskipinu áfram með öruggu áralagi þó andi á móti.

 

Enginn Allrason orti nýlega þessa vísu :

 

Nú er Karl í kröppum dans,

klerkar vilj´ann snáfi.

Kveiktu elda í kirkju hans

Kölski gamli og Láfi !

 

Slíka elda verður að slökkva og vinna að sáttum sem skapað geta traust. Kirkjan þarf að vera hafin yfir dægurþras og allt sem flokkast undir það að skemmta skrattanum. Kirkjan á ekki að vera karlakirkja eða kvennakirkja - eða neinskonar vettvangur kynjabaráttu eða metorðaslags - hún á að vera kirkja fólksins í landinu - andlegt friðarheimili þjóðarinnar !

Guðfræðin þarf að víkja en hin einfalda trú að ríkja - því sá boðskapur sem Kristur flutti okkur börnum jarðar, er eilíflega í fullu gildi.

Þar er hugsvölun, uppfyllingu og frið að finna, og þeir sem vilja taka að sér hirðisstarf innan kristinnar kirkju, þurfa að skilja að það er í raun eitt mest krefjandi starf sem nokkur maður getur tekið að sér - ef hugsað er til þess að rækja það eins og vera ber.

Ábyrgðarhlutur hirðis sem vanrækir starf sitt er því mikill gagnvart Almættinu !

Kristin trú er allt annað og miklu meira en það sem hin manngerða stofnun sem kennd er við hana - býr yfir. Hvernig sem prestarnir eru og reynast, þá er Jesú Kristur hinn sami í dag sem í gær og um alla framtíð.

Hann er aflgjafi hinnar hreinu kenningar sem kemur frá himnum -  guðfræðin er hinsvegar ekki af þeirri uppsprettu  !

 

 

 

 

 

 

 


" Píslarvottur sjálfstæðisflokksins " !

" Loksins, loksins ! "  á Kristján Albertsson að hafa sagt þegar Vefarinn mikli frá Kasmír kom út.  " Loksins, loksins " má nú segja þegar sjálfstæðisflokkurinn er að koma sér upp sínum fyrsta píslarvotti !

Það var vissulega tími til kominn að þessi flokkur eignaðist einhvern sem hefði látið eitthvað í sölurnar fyrir að tilheyra honum - já, með húð og hári og andlegu innvolsi ef eitthvað er. Yfirleitt hafa innvígðir og innmúraðir flokksmenn bara notið góðs af því að vera í flokknum, enda eru ekki svo fáir í honum einmitt af þeirri ástæðu einni saman.

Þessi yfirmáta sjálfhverfi flokkur hefur lengstum verið svo önnum kafinn við að búa til píslarvotta sem ekki hafa tilheyrt honum, að það virðist aldrei hafa hvarflað að mönnum þar að tímabært væri að þeir kæmu sér upp einum slíkum heimafyrir. Flestir sem lesið hafa mannkynssöguna vita hvað það er mikil nauðsyn fyrir hvern þann málstað sem standast þarf tímans tönn - að eiga píslarvott !

Af hverju skyldi kaþólska kirkjan vera enn við lýði eftir 2000 ár ?

Það er áreiðanlega ekki síst vegna þess að hún var svo forsjál að koma sér snemma upp píslarvottum. Hún gerði meira að segja í því sjálf að gera suma að píslarvottum, eins og til dæmis Jóhönnu af Örk. Síðan voru þessir píslarvottar gerðir að andlegum sendiherrum í þjónustu kirkjunnar út um allar jarðir undir heilagri gráðu, útgefinni af páfanum sjálfum. Jafnvel afteknir andstæðingar urðu þannig dýrlingar kirkjunnar !

Kannski er sjálfstæðisflokkurinn að koma sér upp andlegum sendiherra, kannski er að koma fram píslarvottur sem verður ákallaður í framtíðinni af afturhaldi og frjálshyggjuliði komandi tíma, og styrkir flokkinn.

Páfakirkjan og sjálfstæðisflokkurinn eiga áreiðanlega ýmislegt sameiginlegt !

Þeir vinstrimenn sem sjálfstæðisflokkurinn gerði að píslarvottum hér áður fyrr með ofsóknum og yfirgangi voru náttúrulega ekki píslarvottar í réttum anda og ekki nothæfir sem slíkir. En píslarvotturinn sem flokkurinn er sjáanlega að reyna að koma sér upp núna er af allt öðru sauðahúsi. Frá sjónarmiði Valhallar - páfadóms flokksins - er hann trúlega ekta !

Ýmsir hægri menn tala nú um að í hönd fari fyrstu pólitísku réttarhöldin í þessu landi ?  Það er greinilegt að ýmsar aðfarir gagnvart vinstri mönnum hér á árum áður, af hálfu hægrisinnaðrar valdstjórnar, eru ekki taldar með !!!

Pólitísk réttarhöld eru líklega bara í gangi ef hægri menn eru ákærðir um eitthvað, sem er að vísu nýlunda hérlendis, því yfirleitt hafa þeir komist upp með alla skapaða hluti.

En landsdómsmálið er merkilegt á margan hátt. Þar á að hefja réttarhald sem færa á sönnur á sekt eða sakleysi þess sem fyrir sökum er hafður. Ef viðkomandi telur sig saklausan ætti hann að fagna rannsókn og réttarhaldi sem ætti þá að sýna fram á sakleysi hans, en nei, viðkomandi verður beiskur og reiður og sýnir með viðbrögðum sínum talsvert annan mann en margir töldu að hann hefði að geyma. Landsdómur átti sem sagt að vera enn eitt fyrirbærið í kerfi okkar sem aldrei átti að grípa til. Enn eitt öryggisnetið um hagsmuni þjóðarinnar sem væri tóm blekking og héldi engu og þjónaði aðeins þeim tilgangi að telja almenningi trú um að hann byggi við eðlilegt borgaralegt öryggi !

Það sýndi sig líka, að þegar menn ákváðu að grípa til þessa laga-ákvæðis, vissi enginn hvernig með það skyldi fara. Enginn var þar bundinn af hugsun um réttlæti eða virðingu fyrir eðlilegum framgangi laga. Allir voru hinsvegar rígbundnir af flokkshagsmunum og pólitík. Og afleiðingin varð auðvitað sú, að alþingi varð sér enn eina ferðina til skammar sem þjóðþing Íslendinga !

Samfylkingin hugsaði aðeins um eitt, að bjarga sínum ráðherrum undan sekt eða sýknu landsdóms, en til þess að það væri ekki eins augljóst og ella, var fjármálaráðherranum sleppt við ákæru. Kratar þorðu hinsvegar ekki að gera málið að engu, með því að forða forsætisráðherranum líka. Hann er því einn látinn axla ábyrgð og fyrir sökum hafður.

Það getur samt ekki talist neitt óeðlilegt við það þó að forsvarsmaður og ábyrgðarmaður ríkisstjórnar sem talin er hafa brugðist þjóðinni, sé ákærður fyrir vanrækslu í starfi. Það vita það allir sem vit hafa, að allir fjórir ráðherrarnir hefðu átt að svara fyrir verk sín frammi fyrir landsdómi, og verði Geir fundinn sekur þar, verður sú sekt í hugum manna bundin við þau öll fjögur sem í hlut eiga. Flokkspólitísk atkvæðagreiðsla á þingi bjargar þar engum undan dómi þjóðarinnar, en skömm alþingis verður því meiri.

Fyrrverandi forsætisráðherra á að fagna því að fá að svara máli sínu fyrir landsdómi. Hann á að verja mál sitt þar og gera það eins og maður, en ekki væla í fjölmiðlum eins og hann sé píslarvottur allra píslarvotta !

Það er í sjálfu sér ekkert nýtt að erfitt sé að bera kostnað af málaferlum á Íslandi og ekki hafa sjálfstæðismenn bætt um það með því að reyna sem mest að þrengja gjafsóknarréttinn. Þeir hafa mér vitanlega aldrei verið áfram um það að venjulegt fólk geti leitað réttar síns fyrir dómstólum.

En ef það er þungbært kostnaðarlega fyrir fyrrverandi formann sjálfstæðis-flokksins að reka sitt mál, geta menn ímyndað sér hvernig það væri fyrir réttan og sléttan Jón út í bæ !

Það er þó kannski með vissum hætti á þjóðar vitorði, að forustumenn sjálfstæðisflokksins hafi alltaf virst vera svo til félausir menn. Að minnsta kosti hafa þeir aldrei verið mikið fyrir félagslegar samstöðulausnir á málum, sem ganga nú oftast út á það að allir leggi eitthvað til í sameiginlegan framkvæmdasjóð lands og þjóðar. En kannski kemur þar nú til annað en beint féleysi !

Mér finnst hinsvegar geislabaugurinn falla nokkuð illa að höfði verðandi píslarvotts sjálfstæðisflokksins, ef hann telur sig þurfa að leita til almennings eftir fjárstyrk varðandi landsdómsmálið.

Hvernig er það annars, getur sjálfstæðisflokkurinn ekkert gert fyrir manninn eins og maðurinn er búinn að gera margt fyrir flokkinn og flokksmenn ?

Er ekki hægt að taka upp sérstakt Geirsauragjald innan flokksins meðan á þessum málaferlum stendur eða er kannski ætlast til að aðrir en flokksmenn borgi brúsann fyrir - " píslarvottinn " ?

 

 


Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 138
  • Sl. sólarhring: 184
  • Sl. viku: 707
  • Frá upphafi: 365605

Annað

  • Innlit í dag: 134
  • Innlit sl. viku: 619
  • Gestir í dag: 134
  • IP-tölur í dag: 132

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband