Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2012

Kveðið gegn kúgun og stríði

 

Mitt fólk er fólk sem fær ei neins að njóta,

sem níðingar og valdsmenn pynta og skjóta.

Það fólk sem berst við kúgun allra alda

og alla þá sem ljúga sig til valda.

 

Mitt fólk er gott og frelsi er þess krafa

þó fjöldann af því búið sé að grafa,

er böðlar höfðu blóð úr æðum sogið

og brytjað það við stærsta sláturtrogið.

 

Því böðlar slíkir birtast víða á jörðu

sem bera í sér vítis meinin hörðu.

Þeir hatursfræjum sá um lönd og lýði

og lúta anda þeim sem veldur stríði.

 

Svo vígbúnað og vopnaskak þeir hylla

og vilja sátt og friði í heimi spilla.

Af þeirra völdum þjóðir frelsi glata,

í þeirra veröld býðst það eitt - að hata.

 

Svo öll við berjast gegn því valdi verðum

sem vill að þessi heimur bregði sverðum.

Sem keðjuverkun ofbeldis vill efla

og alla leiki á dauðans borði tefla.

 

Við megum ekki götur þeirra ganga

sem gera aðra réttlausa og svanga,

sem fólkið vilja fá að kúga og meiða

og fjöldann inn í sláturhúsin leiða.

 

Á öllum tímum - eftir sönnum rökum,

er okkur þörf að snúa saman bökum.

Því fórnarlömbin eru alltaf tekin

úr okkar hópi og beint í dauðann rekin.

 

Við megum ekki lúta sálar syfju

og síðan falla blinduð í þá gryfju,

að hugsa ekki og sýna breytni bráða

því blóðhundarnir fá þá öllu að ráða.

 

Og veröld okkar verður öll að skilja

að verksummerkin hvergi er hægt að dylja,

því kynslóðanna reynsla er rauð í sárið

og raunasagan lengist við hvert árið.

 

Ýtum því ei undir ranga siði,

eitt er best - að stuðla að sátt og friði.

Stríðsleikina stundum ekki í neinu,

stefnum burt frá þeim að marki hreinu.

 

Látum sverðin liggja kyrr í haugum,

leiðum þau ei framar sólgnum augum.

Drápsvopn öll með réttu ber að banna,

bölvun eru þau í heimi manna.

 

Stöndum saman - stríði gegn og vopnum,

stöndum saman - höldum vegum opnum.

Mætum hvergi í myrkur fylltu gjárnar,

munum hvernig ófrelsið þar járnar.

 

Samstaða er sverð í okkar höndum,

sigur vinnst ef hvergi deig við stöndum.

Þannig vopni á lofti hátt skal halda,

horfa fram - til nýrra og betri alda.

 

                  (RK- 2012)

 

                oooooOooooo

 

 

 

 

 


Að falla í stafi !

Nýlega var ég að lesa áróðurspésa frá lífeyrissjóðnum Stöfum og satt að segja féll ég í stafi yfir því hvað tekið var stórt til orða um hag vinnandi fólks af því að leggja framlag í lífeyrissjóði og það sérstaklega í séreignasjóði !

Þarna er talað um sólstafi, kjarnastafi og upphafsstafi....... um áþreifanlegan árangur, um stuðning, aðstoð, hjálp, úrræði og umfram allt náttúrulega traust !

" Gefðu ekki frá þér 2% kauphækkun " segja bæklingshöfundar eins og fólk sé að missa af auði og allsnægtum. En þarna er verið að tala um ósköp ómerkilegt ávinningsmál fyrir einstaka launamenn eins og gefur að skilja.

Launahækkanir á Íslandi hafa nú ekki verið neitt til að húrra fyrir og það um langan aldur. Það er pólitísk  " þjóðarsátt " fyrir því í efstu röðum þjóðfélagsins að kaup hækki sem minnst. Og forsvarsmenn hinnar líflausu og steingerðu verkalýðshreyfingar nútímans eru svo sannarlega í þeim hópi sem vill halda fast í láglaunastefnuna, enda eru þeir sjálfir á allt öðrum og betri launum.

En fyrir lífeyrissjóð er það auðvitað stórt mál ef allur fjöldinn greiðir framlag í sjóðinn. Þá eru forsvarsmenn sjóðsins að fá mikið fjármagn til að valsa með - en þegar þannig aflast er glatt á hjalla í Sjóðsbúðum og margt hægt að gera.

En það er hinsvegar aldrei gert neitt við slíka peninga í þágu fólksins að mínu áliti. Það hefur heldur aldrei verið hið raunverulega markmið þó því sé óspart hampað. Lífeyrissjóðir eru bara enn ein svikaleiðin til að arðræna fólk.

Það vantar heldur ekki hjá þessum andfélagslegu sjóðum, að boðið sé í sífellu upp á leiðsögn frá ráðgjöfum og sérfræðingum til að vísa fólki á bestu ávöxtunina með fé sitt, alveg eins og var í bönkunum fyrir hrun og er líklega enn í dag, þó umsvifin hljóti að vera orðin mun minni vegna þess hvað margir hafa tapað aleigunni vegna leiðbeininganna sem þeir fengu.

Fjármagn það sem lífeyrissjóðakerfið hefur sölsað undir sig hefur að mínu mati fyrst og fremst verið notað í fjárhættuspil og valdapólitíska fyrirgreiðslu.

Kerfið er blekking og svikamylla sem aldrei hefði átt að viðgangast. Það fé sem hefur verið haft af fólkinu í landinu í gegnum lífeyrissjóðakerfið er slíkt að vöxtum að ég tel vafasamt að nokkur annar opinber arðráns-óskapnaður komist þar í hálfkvisti þó af ýmsu sé að taka í þeim efnum.

Og ég vorkenni hálft í hvoru öllu þessu fólki sem vinnur fyrir þessa sjóði og ímyndar sér víst að það sé að vinna fyrir fólkið í landinu og velferð þess.

Það er nefnilega nokkuð langsótt að ímynda sér það, ekki síst þegar þær upplýsingar liggja fyrir sem sýna hvernig farið hefur verið með þetta fjármagn sem fólkið á með öllum rétti. Það er búið að spila milljörðum út og suður í alls kyns áhættusækni og vitleysu. Það hafa ekki verið neinir sólstafir yfir því sukki og tapast hafa gífurlegir fjármunir, allt á kostnað almennings í landinu.

En þegar minnst er á það við forsvarsmenn sjóðanna að þeir taki þátt í því að létta skuldaþrýstingi af heimilunum í landinu, er svarið " við megum ekki niðurfæra eignir sjóðanna !" Hvað voru þessir menn að gera þegar þeir spiluðu með þetta fé þannig að tapið er líkast til upp á fleiri milljarða ?

Voru þeir ekki að niðurfæra eignir sjóðanna og það með þeim andstyggilegu aðferðum sem markaðsgræðgin kallaði fram í þeim og öðrum ?

Voru þeir ekki að skerða verðskulduð eftirlaun þúsunda launþega að stórum hluta og spilla lífskjörum þeirra í ellinni sem því nemur ?

Getur nokkur lifandi maður sofið eina einustu nótt sem er sekur um slíkt ?

Það þarf engan að undra þó almennir borgarar í þessu landi falli í stafi yfir yfirgengilegri ósvífni þessara hrægamma sem stöðugt eru að reyna að ná í meiri pening frá fólkinu. Ég hef alla tíð verið andvígur lífeyrissjóðakerfinu eins og því var ungað út, enda varð mér snemma ljóst að það þjónaði ekki hag fólksins heldur þvert á móti. Það voru bláar hendur sem áttu mestan þátt í að skapa þennan umskipting og því miður drógust margir með og studdu það verk sem aldrei hefðu átt að koma þar nærri. En þeir voru nytsamir sakleysingjar sem áttuðu sig ekki á því að þeir voru orðnir að leiksoppum vondra afla.

Lífeyrissjóðakerfið er þjóðfélagslegt átumein og bölvað sem slíkt.

Vonandi kemur sá dagur á Íslandi, að hér verði hvorki til kvótakerfi né lífeyrissjóðakerfi mismununar, svívirðingar og arðráns.

Burt með hrægammana og hákarlana, þetta óþjóðlega andstyggðarhyski sem stendur í vegi fyrir fjölskyldulegum vænleika samfélagsins. Út með óloft og eitraðar gufur svikræðis og siðleysis af þjóðarheimili okkar, hleypum hreinu lofti og heilnæmu inn í stofur þess og líðum ekki lengur lífeyrissjóði sem eru engir lífeyrissjóðir heldur óseðjandi arðránsvélar.

Burt með mörgæsir mannvonskunnar og spillingu sérgæskunnar í þessu landi !

Við Íslendingar höfum engin efni á því að fóðra alla þessa hákarla sem hér hafa lifað í vellystingum árum saman á því að ræna okkur hin réttmætum ávinningi af erfiði okkar !

Tökum hvergi þátt í svínaríi, vinnum að því heilshugar að Ísland barna okkar megi verða land sem hægt er að vera stolt af !

 

 

 

 

 

 

 


Sjálfstæðisflokks-mörgæsin ?

Nú í vor var ég að horfa á einn af þessum frábæru náttúrulífsþáttum sem birtast sem betur fer nokkuð oft í sjónvarpinu, mörgum til fróðleiks og fagnaðar.

Þó mér þyki gott að lesa og fræðast af bókum, er oft  ágætt að fræðast af skjánum og einkum þegar fjallað er um merkileg efni eins og yfirleitt er gert í þáttum af þessu tagi. Þarna var sagt frá harðsóttu lífi ýmissa dýra sem lifa á heimskautasvæðunum og allt var efnið mjög áhugavert og fræðandi.

Ég horfði því á þennan heimskautalífsþátt af mikilli athygli og svo kom að því að sýnt var frá því hvernig mörgæsir fara að því að búa til hreiður sín.

Þær þurfa snjólausa jörð og svo hlaupa þær um og tína saman steina sem þær raða með sínum hætti þar til forsvaranleg hreiðurumgjörð er komin.

Ein mörgæsin var sérstaklega iðin við þetta verk, hljóp um allt og tíndi upp valda steina, en skammt frá hreiðurstað hennar stóð önnur og virtist bara hafa það fyrir stafni að góna út í loftið. En hún var ekki öll þar sem hún var séð, því jafnskjótt og sú duglega var búin að setja stein í væntanlegt hreiður sitt og rokin af stað til að sækja annan, labbaði þessi að hreiðrinu og tók stein þar til að nota við sína hreiðurgerð. Og þetta endurtók sig aftur og aftur uns sú arðrænda uppgötvaði hvað var í gangi og snerist til varnar sínu hreiðri, en hin sýndi engin merki þess að hún kynni að skammast sín !

Mér fannst þetta mjög athyglisvert - að sjá sérgæskuna afhjúpaða svona beint og vafningalaust í sjónvarpsþætti úr dýraríkinu, og víst gæti myndavélaraugað uppgötvað margt ef því væri snúið með svipuðum hætti að samsvarandi afhjúpun á tiltektum mannskepnunnar.

Ég horfði svo fast á þessa sérgæskufullu mörgæs, að það fór einhvernveginn svo að mér fór að finnast hún minna mig undarlega mikið á Bjarna Benediktsson. Ég veit ekki alveg hvað gerði það að verkum, þó ég hallist nú helst að því að það hafi verið vangasvipurinn og svo er Bjarni vissulega nokkuð dökkur til höfuðsins eins og mörgæsir eru.

Og það var alveg sama hvað ég nuddaði mér um augun, ég sá þetta svona. Mörgæsin minnti mig alltaf meira og meira á Bjarna Benediktsson.

Ég skildi bara ekkert í þessu. Nú var göngulagið ekki alveg það sama og sumt vissulega ólíkt með þessum tveim lífverum, en samt virkaði þetta svona á mig, svei mér þá !

Þetta varð skiljanlega til þess að ég hætti að horfa á þáttinn þar sem allt sem minnir mig á Bjarna og flokk hans er mér til leiðinda.

Ég vissi ekki áður að áhrifa Stóra-Þjóðarógæfuflokksins gætti svona sunnarlega á hnettinum !


Skurðgoð í Valhöll !

Nú er svo komið að nýtt skurðgoð hefur greinilega verið sett upp í Valhöll - í andlegum skilningi. Það er líklega staðsett við hliðina á öðru sambærilegu af fyrirbærinu Hrokkinkolli og sennilega fer best á því eins og staða mála sannar svo ekki verður um villst.

Ungir liðsmenn Stóra Þjóðarógæfuflokksins virðast nú sem óðast farnir að tilbiðja þetta nýja skurðgoð sitt og finna líklega í því þá svörun sem þeir frekast kjósa sér til handa. Við það forustuleysi sem hefur háð þeim að undanförnu, er skiljanlegt út frá pólitísku samhengi, að þeir taki nýju átrúnaðargoði tveim höndum. Svo nú má segja að ímynd Ólafs Ragnars Grímssonar sé tilbeðin í ákafa í Valhöll, musteri hinnar helbláu frjálshyggju !

Það er margt skrítið í veröldinni og ekki síður í þeim veraldarinnar skika sem Ísland er. Ef allt hefði verið með eðlilegum og réttlátum hætti og skilum eftir hrunið, hefði Guðni Ágústsson áreiðanlega ekki komið sólbrúnn í sínum hroka í sjónvarpið á kosninganótt og farið mikinn varðandi þjóðhagslega þýðingu þess fyrir Íslendinga að hafa Ólaf Ragnar áfram sem forseta.

Þá hefði þessi fyrrverandi varaformaður Framsóknarflokksins, sem ég vil kalla Litla Þjóðarógæfuflokkinn, einfaldlega látið lítið fyrir sér fara og sleppt því að vera að gera sig breiðan. Voru það annars ekki hann og flokksmenn hans sem tryggðu Stóra Þjóðarógæfuflokknum meirihluta á þingi til þjóðlegra ódáðaverka á árunum 1995 til 2007 ? Var það ekki sú forherta hagsmunaklíka sem þá var við völd sem fór með hag þjóðarinnar norður og niður ?

Svo koma svona dindlar fram, menn á háum eftirlaunum sem þeir eiga ekki skilið, kjaftfullir af sjálfumgleði og steigurlæti,  og þykjast bera umhyggju fyrir þjóðarhag ? Þar vantar ekki skrumið og skrúðmælgina í málflutninginn !

Ég segi bara fyrir mig - umhyggja slíkra manna er eitraðri og hættulegri fyrir þjóðina en flest annað. Ferill Guðna Ágústssonar á árunum 1995 til 2007 er í mínum augum slíkur, að hann mælir á móti honum sem trúverðugum talsmanni íslenskra þjóðarhagsmuna, og ég tel hollustu hans í þeim efnum í hæsta máta umdeilanlega. Hann var í ríkisstjórn á árunum fyrir hrunið og hvað gerði hann þar ? Baðaði sig í sviðsljósi fjölmiðlanna á öryggisvaktinni, virtist ekkert sjá annað í kortunum nema glóandi gull og milljarðaveltu eins og meistari hans Ólafur Ragnar ! Og svo þegar í ljós hefur komið, að um glópagull og svikaveltu var að ræða, virðist það fangaráð slíkra manna, fyrrverandi þungavigtarmanna í íslenskri pólitík, að láta eins og ekkert sé. Þeir halda víst að gildi þeirra sé áfram það sama og traust til staðar !

En svo er sannarlega ekki. Nei og aftur nei !

Hvort sem í hlut á Guðni Ágústsson, Halldór Ásgrímsson, Valgerður Sverrisdóttir, Davíð Oddsson, Geir H. Haarde, Árni Mathiesen, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir eða aðrir af þeim valdamönnum sem keyrðu þá pólitík sem leiddi til hrunsins, þá er sama niðurstaðan augljós í afstöðu almennings til þessara einstaklinga -  traustið er farið !

Sumir úr þessum hópi virðast hafa skilið þá niðurstöðu og láta lítið fyrir sér fara, aðrir reyna að láta sem allt í kringum hrunið sé og hafi verið þeim óviðkomandi, og það mætti vissulega ætla að Guðni Ágústsson væri einn af þeim.

Svo engilhreinn og saklaus var hann í sjónvarpinu á kosninganóttina þegar hann var að tala um þjóðarhagsmunina - eða eigum við að segja - gildin  sem gleymdust hjá ráðamönnum á öryggisvaktinni fyrir 2007  !

Við Íslendingar þurfum að hreinsa okkur frá þessari fortíð, óværunni og spillingunni sem réði þá, og þeim einstaklingum sem bera nöfn sem skapa óbragð í munni landsmanna og ógleði í hjartanu. Við þurfum að snúa frá pólitískum skurðgoðum og byggja upp eðlilegt þjóðhollt lýðræði í landinu.

Þeir sem hafa lifað í vellystingum valdsins og fitað sig í spillingu gamla tímans, eiga ekki og geta aldrei orðið leiðsögumenn þjóðarinnar inn í heilbrigða framtíð.

Þó að tiltekið skurðgoð verði tilbeðið ásamt fleiri slíkum í Valhöll í komandi tíð, verður sjálfsagt lítið við því gert, því skurðgoðadýrkun virðist sumum eðlislæg.

En ég el þá von í brjósti að heilbrigð hugsun vaxi að dáð og vilja meðal þjóðarinnar sjálfrar og hvar sem þjóðlega hugsandi fólk lifir og starfar í þessu landi og það verði til þess að kosnir verði hér til valda menn sem eru í raun og veru þjóðarinnar menn - fyrst og fremst og síðast, en ekki sveiflukenndir og óútreiknanlegir viðhlægjendur valdsins !

 

 

 


Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 21
  • Sl. sólarhring: 70
  • Sl. viku: 590
  • Frá upphafi: 365488

Annað

  • Innlit í dag: 18
  • Innlit sl. viku: 503
  • Gestir í dag: 18
  • IP-tölur í dag: 18

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband