Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2013

" Brusselhannað bland í poka " !

Það er ljóst að Samfylkingin varð ekki guðbjartur flokkur, enda í engu við því að búast að flokkur sem hefur það sem höfuðmál að selja sjálfstæði okkar úr landi hafi eitthvað ljós yfir sér. Reyndar hef ég ekki skilið hvernig Guðbjartur Hannesson getur verið í þeim flokki eða til dæmis Jóhann Ársælsson ?

Kannski eru einhverjar séraðstæður á Skaganum þess valdandi að menn vita ekki hvað þeir gjöra ? Ragnheiður Ríkarðsdóttir, sem líka er af Skaganum, vildi mörgu breyta og virtist sjá þörfina fyrir slíkt þegar hún var í Bandalagi Jafnaðarmanna á sínum tíma. En svo var hún skyndilega hlaupin yfir til afturhaldsins og síðan hefur hún unað hag sínum vel og er löngu orðin sátt við aðstæðurnar í þjóðfélaginu, þó þær hafi versnað mikið síðan hún vildi mörgu breyta ! Svona getur nú sumt af þessu fólki verið sem telur sig hafa miklar hugsjónir um mannréttindi og jöfnuð um tvítugt, en fellur svo fljótlega frá öllu slíku fyrir vaxandi kröfum hagsmunagæslunnar !

En nú liggur fyrir að Árni Páll Árnason er bókaður, karaður og koppsettur sem fullgildur formaður Evrópusambandsinnaflokksins !

Þar sýnist svo sem allt í fullkomnu samræmi, formaðurinn virðist hæfa flokknum og flokkurinn formanninum. En það er þó ekki víst að Árni Páll verði farsæll formaður til lengdar, til þess er hann sennilega of umdeildur í þjóðfélaginu og jafnvel innan flokksins. Þegar hann fer að láta til sín taka, er líklegt að leiðir hans muni liggja um ýmsar stóra hrauns breiður stjórnmálanna og vafasamt hvort ratvísi hans og stjórnmálaleg hæfni verði búin undir slíka þolraun. Ég er á því að Árni Páll muni ekki safna vinsældum og trausti í embætti formanns Samfylkingarinnar, hvorki meðal þjóðarinnar eða innan flokksins.

Þar munu draga úr framgangi brotalamir í hans persónugerð og brotalamir í flokksgerðinni og hygg ég að innan þriggja ára eða svo muni hvorttveggja vera búið að sanna sig fyrir flestum.

Ég hef áður sagt það og segi það enn, að það er undarlegt hvað Samfylkingin hefur átt erfitt með það allt frá byrjun, að koma sér upp dugandi formanni  !

Og í mínum huga hefur þessi síðasta tilraun í þeim efnum mistekist eins og þær fyrri. Í raun og veru er þessi flokksnefna nánast eins og einhverskonar Brusselhannað bland í poka. Það virðist algerlega undantekning ef einhver manneskja í forustuliðinu getur tjáð sig með skýrri þjóðlegri tilvísun, og það er eins og þar sé gengið svo stíft á kjötkatlaseiðinn erlendis frá -  að innanlandssýnin tapist alveg og hafi ekkert vægi !

Það virðist því hreinlega ekki vera neinn jarðvegur í Samfylkingunni fyrir stórbrotinn, þjóðlegan forystumann ! Mér finnst líklegasta skýringin á því vera, að þegar einhver flokkur stefnir bara að því að vera kommissaraflokkur eða stjórnvaldsleppur fyrir annað vald, gerir það möguleikana litla á því að eitthvað heilsteypt, hugsjónaríkt og gott geti hafist þar á legg !

Tækifærissinna-svipmótið á flokksliðinu er yfirþyrmandi áberandi í öllu tilliti.

Samfylkingin er ekki þjóðlegur flokkur og verður það seint og þó að Guðbjartur Hannesson hefði verið kosinn formaður, hefði það ekki breytt miklu.

Flokkurinn er bara ekki með þá þjóðlegu og ættjarðarlegu tengingu sem þarf að vera fyrir hendi, svo að víðtækt traust á honum geti skapast í samfélaginu.

Það skiptir því engu sérstöku máli hvort yfirkommissarinn heitir Árni Páll eða Guðbjartur - ef það liggur fyrir, að línudansinn sé fyrirskipaður frá Brussel !

 

 

 


Reiknað með Valhallaralgebru !

Jón Magnússon heitir maður sem á nokkuð litríkan feril að baki eins og flestir vita. Hann virðist þó helst telja sér það til gildis sjálfur að vera hæstaréttarlögmaður og  hafa í eina tíð verið  alþingismaður " Sjálfstæðisflokksins " !

Ekki sé ég að þetta tvennt þurfi eitthvað sérstaklega að vera til að auka manngildi ef ekki kemur meira til, en það er önnur saga.

En Jón þessi virðist líka vera mikill reiknimeistari og nú nýverið reiknaði hann út hvað Steingrímur J. Sigfússon væri búinn að kosta þjóðina sem forsvarsmaður í ríkisfjármálum og fékk það út að það væru um 80 milljarðar króna !

Þetta birti Jón svo á bloggi sínu ásamt því að tala þar um meint afglöp Steingríms, svo sem varðandi Icesave-málin, Sjóvá, BYR, VBS, Saga Capital, Askar Capital o.s.frv.o.s.frv, og telur hann hagsmuni Íslands hafa verið stórlega fyrir borð borna í afskiptum ráðherrans af öllum þessum málum ?

En bíðum við, af hverju beinast hinir óviðjafnanlegu reikningshæfileikar Jóns eingöngu að því að afhjúpa Steingrím J. Sigfússon sem einhvern böðul íslenskra þjóðarhagsmuna ? Er dæmið ekki miklu stærra og þarf ekki svona töluglöggur maður að fara dýpra í saumana á þessu ?

Er þá ekki rétt að skoða bakgrunn allra sem að þjóðar misferlismálunum hafa komið og finna til dæmis út hvar þeir hafa lengstum verið til húsa í pólitískum skilningi ? Hver er t.d. ferill hinna alræmdu útrásarvíkinga og voru þeir kannski allir meira og minna innvígðir og innmúraðir flokksmenn í VG - eða kannski annarsstaðar ? Hverjir voru forsvarsmenn þessara fyrirtækja sem Jón áfellist Steingrím svona mikið fyrir að vera að endurreisa eða leggja til fé vegna þess að þau voru orðin félaus og af hverju voru þau orðin félaus ? Hvað var gert við fjármagnið sem í þeim var ?

Hverjir stjórnuðu Sjóvá, BYR, VBS, Saga Capital og Askar Capital og öllum þessum nornakötlum, voru það kannski allt einhverjir fjárglæframenn úr VG - eða ef til vill annarsstaðar frá ?

Þarna er verðugt verkefni fyrir reikningsheila á borð við hinn litríka mann Jón Magnússon, þetta á hann allt að geta kannað og reiknað svo út hvað hver og einn í þessum hópi hefur kostað íslensku þjóðina og hagsmuni hennar !

En kannski vill Jón Magnússon ekki kanna þetta neitt frekar, og satt að segja er það grunur minn að áhuginn á því viðfangsefni sé hverfandi lítill í hans huga ?

Mér finnst meira að segja ekkert ósennilegt að hann vilji bara að tiltekinn maður sé ljóti karlinn í spilinu, og þó að spilið hafi verið þreytt án þátttöku hans, fyrir og í Hrunadansinum, skuli hann fá skömmina af því og það fullútreiknaða !

Það virðist vera með Jón Magnússon eins og svo marga aðra hægri menn, að það fer svo mikið fyrir " sjálfstæðismanninum " í þeim, að maður sér varla bóla á Íslendingnum ! Og vissulega er það dapurlegt mál, því einu sinni var sagt " Íslendingar viljum við allir vera !¨

Ég hygg líka, að Jón yrði betri reikningsmaður ef hann reiknaði meira á þjóðlega vísu, út frá réttum þjóðarhagsmunum, en minna á flokkslega vísu út frá flokkshagsmunum !

Sum valdaöfl í þessu landi hafa haft hátt að undanförnu varðandi niðurstöðuna í Icesave- málinu og talið sér sigurinn í því máli mjög til tekna og jafnframt reynt að sýna fram á hvað aðrir hafi reynst Íslandi illa í því máli !

Því er til að svara, að hefði samstjórn afturhalds og Framsóknar ekki knúið fram einkavæðingu bankanna á sínum tíma, bankanna sem aldrei voru borgaðir en bara afhentir auðvaldi þessara flokka til afnota, hefði auðvitað aldrei orðið um neitt Icesave mál að ræða !

Í þeim gjörningi liggur allt Isesave-farganið og þessir flokkar geta aldrei svarið það af sér, að þeir sköpuðu forsendur Icesavemálsins ásamt margskonar fjármála-spillingu í þessu landi, með ábyrgðarlausri þjónustu sinni við sérútvalda alikálfa sína ! Tólf ára samfelld stjórn þeirra á þjóðarbúinu var meginástæða efnahagshrunsins ! Sennilega færu reikningar yfir þjóðarkostnað þess tímabils hærra en í 80 milljarða ef rétt væri að slíku uppgjöri staðið !

Ef Framsóknarflokkurinn er t.d. að fá einhvern uppslátt út á Icesavemálið núna, þykir mér týra, því hann átti fullan þátt í að koma þeim umskiptingum á koppinn í upphafi sem stóðu að þeim gjörningi og þeirri þjóðhættulegu stöðu sem skapaðist í kjölfarið. Því má ekki gleyma og rétt skal vera rétt !

Formaður flokksins talar nú um hefja sókn, en hann var í svo mikilli vörn fyrir skömmu að hann flýði úr sínu kjördæmi og bauð sig fram annarsstaðar til þess að geta verið nokkurn veginn viss um að komast inn á þing !

Það skyldi þó aldrei vera, að þeir flokkar sem skiptu bönkunum á milli sín hér um árið, með tilheyrandi heljarafleiðingum fyrir land og þjóð, yrðu verðlaunaðir af kjósendum í vor ?

Þá færi Valhallaralgebra og aðrar reikningskúnstir hægri manna vafalaust á hæsta stig aftur, þar til dæmið endaði síðan með öðru syndafalli sem yrði verra því fyrra !

 

 

 

 

 


Lífskjör í lóðréttu falli !

Á Íslandi hækkar allt nema launin ! Verðbólgan og verðtryggingin sjá fyrir því að lánardrottnamafían þenst út og græðir á öllu, ekki síst eigin skammastrikum !

Unga kynslóðin er öll komin á ævilangan skuldaklafa vegna námslána og íbúðarkaupa og afgangurinn af þjóðinni er í svipuðum kröggum.

Stökkbreyttu lánin hafa séð fyrir því og marglofaðar úrbætur hafa að mestu verið í skötulíki ! Það er níðst á gamla fólkinu og þeim sem minnst mega sín ár eftir ár, þvert á það sem lofað hefur verið. Svikaferli ráðamanna er orðinn rótfastur liður í íslenskri pólitík og þar hefur líka stökkbreyting átt sér stað á seinni árum !

Atvinnurekenda-aðallinn og verkalýðssvikararnir standa stöðugt einhuga að loginni " þjóðarsátt " varðandi það að halda launum niðri. Þar eru aldrei neinir bjargvættir að verki, bara uppskrúfaðar, tilklipptar ímyndir, búnar til af keyptum fjölmiðlapennum ! Eftir að burgeisarnir lögðu undir sig yfirstjórn ASÍ er sama hugsunin beggja vegna hins uppsetta og yfirlýsta samningaborðs.

Í dag mætti halda að ASÍ stæði fyrir Atvinnurekendasamband Íslands, en þannig skila verkin sér á þeim bæ. Enda heitir svokallaður forseti þar nafni sem þýðir kóngur ! Fyrr á tíð voru kóngar hér og kóngar þar, að viðbættum aðli og klerkastétt, en hið almenna fólk átti sér enga málsvara.

Svo hófst baráttan mikla fyrir réttindum fólksins, alþýðunnar, verkalýðsins !

Þá voru afrekin stóru unnin og mörgu góðu komið til leiðar. En þegar miklir sigrar voru í höfn, hófst uppdráttarsýkin og fimmtuherdeildar vinnubrögðin innan verkalýðshreyfingarinnar.  Spillingin komst inn fyrir véböndin með öll sín tækifærissinnuðu viðhorf og eituráhrif frá hægri !

Og nú eigum við nóg af verkalýðssvikurum sem maka krókinn á kostnað fólksins en gera ekkert að gagni fyrir það. Þar er um siðlausar afætur að ræða sem naga þjóðarmeiðinn og allt sem heilbrigt er ofan í rót. Og hreyfingin mikla, hreyfing fólksins, er löngu orðin svipur hjá sjón !

Þar er öllu spillt sem byggt var upp af fyrri kynslóðum við ærna erfiðleika á síðustu öld. Þar eru engin varnarþing lengur fyrir fólkið.

Þegar öll framfærsla og allt vöruverð hækkar en launin standa í stað, eru launin í raun og veru að lækka, og þau hafa lækkað mikið síðan ákveðið var með þegjandi samþykki allra í yfirmafíu kerfisins að afleiðingar hrunsins skyldu lenda á almenningi þessa lands. Ríki og sveitarfélög hækka stöðugt allar álögur á fólk og skeyta engu um hag þess og skuldir heimilanna vaxa dag frá degi vegna þess stjórnleysis og þeirrar kerfisbölvunar sem hlýtur að ríkja í landi þar sem yfirvöldin eru ekki að vinna fyrir fólkið - þjóðina !

Klíkur í ráðuneytum og sveitarstjórnum fara sínu fram í ósátt við alla grasrót !

Við almennir Íslendingar eigum enga forsvarsmenn, enga þjóðskörunga, enga sanna talsmenn fyrir þjóðarhagsmunum, enga sem tala fyrir hugsjón almennrar velferðar í þessu landi. Þessvegna er alltaf stagast á Jóni Sigurðssyni því eftir að hann hvarf úr þessum heimi hefur enginn komið fram sem hefur mælst eitthvað í þjóðlegri manndómsmælingu í líkingu við hann. Síðan höfum við bara átt nokkra skítsæmilega forustumenn, fjölmarga miðlunga og varla það, og helling af aumingjum !

Nú stefnir Stóri Þjóðarógæfuflokkurinn til valda aftur og sá litli er kokhraustur líka ! Ábyrgðarþungi hrunsins hefur aldrei fallið á þessa flokka og þeir hafa ekki axlað eitt eða neitt, bara gagnrýnt vægðarlaust hvernig þeir sem hafa verið að reyna að moka skítinn út eftir þá hafa staðið sig.

Og auðvitað hafa þeir aðilar ekkert staðið sig sérlega vel, enda skíturinn búinn að hlaðast upp í 18 ár og orðinn kerfisfastur út um allt. Og svo eru Þjóðarógæfuflokksmenn hér og þar í lykilstöðum, margir reiðubúnir til að bregða fæti fyrir þá sem eitthvað vilja reyna til að bæta braginn.

Og nú vildu forsvarsmenn þessara ógæfuflokka helst bera fram vantraust á sitjandi ríkisstjórn rétt fyrir kosningar í von um að drýgja sína stöðu !

Og það er talað um af hálfu liðsmanna þar um hyski í borgarstjórn og allir eru sekir nema sökudólgarnir !

Aldrei fæ ég skilið hversvegna Litli Þjóðarógæfuflokkurinn kastaði ekki gamla nafninu um leið og þáverandi forustulið hans varð að skammast frá stýrinu, það auma lið sem þjónaði alfarið undir Foringjann í Stóra flokknum og spilaði sig og þjóðina út á gaddinn ! Það nafn verður aldrei endurheimt að neinu gildi í líkingu við það sem það var áður en H Á - karlinn náði völdum í flokknum !

H Á - karlinn sá var náttúrulega með innviði sem smellpössuðu við Stóra Þjóðarógæfuflokkinn, enda slitnaði ekki slefan milli hans og Foringjans þar !

Allt þetta lið í Stóru og Litlu Þjóðarógæfunni var og er í raun á móti því að venjulegt fólk búi við sæmileg lífskjör. Það vill að fáir hafi allt og fjöldinn lítið sem ekkert. Það á enga samleið með almenningi í þessu landi !

Það vill lífskjör almennings niður, það vill koma fólkinu og hag þess á kné.

Þessvegna er verðtrygging við lýði í þessu landi, lagasetning sem snýr öfugt við öllu jafnræði, öllum mannrétti og öllu réttlæti. Lagasetning sem er til skammar og var einungis sett til að tryggja hag hinna ríku, tryggja hag blóðsuguliðsins í landinu, tryggja fjármálavaldið fyrir afleiðingum eigin glæpaverka, svo hægt væri að velta skuldum og skaða yfir á bök almennings !

Það er hinn gamli yfirdrottnunarandi sem þarna er að verki, hann býr í þessu stórauðuga arðránsliði og lifir með því, sá illi andi sem stefnir stöðugt að kúgun, mismunun og þrælahaldi í þessum heimi !

Það er treyst á að fólk sé búið að gleyma hamförum hrunsins, það er treyst á að menn muni ekki lengur hvernig þetta var og hverjir áttu og eiga skömmina !

Nú á allt að verða gott aftur ef hrunsarkitektarnir komast bara á ný til valda ?

Ef íslenska þjóðin leiðir slíka bölvalda aftur til valda í næstu kosningum er henni sannarlega ekki viðbjargandi !

 

 

 


Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 69
  • Sl. sólarhring: 117
  • Sl. viku: 638
  • Frá upphafi: 365536

Annað

  • Innlit í dag: 65
  • Innlit sl. viku: 550
  • Gestir í dag: 65
  • IP-tölur í dag: 63

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband