Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júní 2013

Nokkur orð í minningu HEMMA GUNN !

Þá er sú stund komin er hin sögufrægu orð Edwins M. Stantons um Abraham Lincoln látinn, eiga við Hermann Gunnarsson, Hemma Gunn, hinn þjóðkunna íþrótta og fjölmiðlamann okkar Íslendinga - „ Now he belongs to the ages !".

Þegar fréttin um lát Hemma barst, fannst manni strax persónulega að maður hefði orðið fyrir missi. Það var eitthvað sem sagði manni - í gegnum einlægustu kennd hinnar samíslensku þjóðartilfinningar, að við öll, landsins börn, hefðum misst góðan vin !

Hemmi kom nefnilega inn á íslensk heimili ár eftir ár sem einstakur vinur og gladdi unga sem aldna. Uppátæki hans og smitandi lífsfjör var vítamínsprauta fyrir þjóðina. Mér vitanlega hefur enginn einn maður glatt eins marga í gegnum fjölmiðla landsins með jafn hreinum hætti og hann. Hann hafði alveg einstakan hæfileika til að vera hjartanlega hress og einlægur.

Það var einmitt þessi hjartans einlægni sem gerði honum kleyft að eiga viðtöl við lítil börn og fá þau til að tjá sig um lífsviðhorfin, drauma sína og hugleiðingar, með yndislegum hætti. Þessi viðtöl Hemma við börn eru og verða sérstakar perlur í þjóðlegu menningarsafni okkar Íslendinga.

Og þegar Hemmi ræddi við gamalt fólk, kom þessi mikla hlýja hans og umhyggja ekki síður fram í öllu viðmóti hans. Eins var hann afskaplega innilegur og gefandi við alla sem áttu við fötlun að stríða og hafði hugheila samkennd með þeim.

Hann reyndi í stuttu máli sagt að gera öllum lífið með einhverjum hætti bærilegra.

Ég hallast að því að hann hafi í gegnum þætti sína og framkomu kennt fjölda fólks nýtt samskiptamynstur. Kennt fólki að láta í ljós væntumþykju sína með faðmlagi og sýnilegum kærleika. „ Verið góð við hvort annað ´´ sagði hann oft í lok þátta sinna og undirstrikaði þannig eitt kjarna-atriði alls mannlífs ?

Þótt hann hafi dáið fjarri ættlandi sínu, vitum við að Ísland var í hjarta hans hvar sem hann var. Hann varð ekki gamall maður, en hann fékk að kveðja sem sá maður sem hann var. Það er ekki slæmt hlutskipti að fá að fara þannig.

Nú er þessi ástsæli vinur okkar allra kominn heim í íslenska mold og fær að hvíla þar í friði eftir dýrmætt dagsverk.

Þegar ég heyrði að hann væri látinn, sat ég um stund hljóður fram í eldhúsi og hugsun mín snerist einkum um það hvað hann gat glatt marga á sinni ævileið. Svo fæddist þessi kveðjuvísa:

Fyrir gefinn gleðibrunn

góð er sagan bæði og kunn.

Orða má fyrir allra munn :

„ Ástarþakkir, Hemmi Gunn ! ´´

*************************

 


Er forgangsmálið - endurheimt forréttinda ?

„Það fer margt af þjóðlífs meið

um þingsins bekki,                                                   

en  víða endar valdaskeið

með vondum hnekki.

Og staðreynd kunna lífs á leið

ég löngum þekki,

að sumir eiga silfurskeið

en sumir ekki ! ‘‘

Ríkisstjórn „Simma silfurskeiðar" virðist nú sýna opinskátt hvað legið hefur að baki hástemmdum hugmyndum hennar um hjálp við skuldsett heimili !

Það var varla búið að koma stjórninni á koppinn, þegar hafist var handa við að bjarga kvótagreifum og stórútgerðum frá því að leggja sitt til samfélagsins. Þetta minnir óneitanlega á bandarískar kosningar, þegar auðhringirnir sem leggja stórfé í kosningasjóði stóru flokkanna, rukka strax inn endurgjaldið. „ Nú erum við búnir að hjálpa ykkur, nú er komið að ykkur að hjálpa okkur ! ´´ Og skuldsettu heimilin í landinu sem „Simmi silfurskeið" virðist ætla að bjarga með forgangshraði, eru sem sagt kvótaaðalsóðulin, greifafjölskylduhreiðrin, - og í sem skemmstu máli sagt - öll LÍÚ- sérgæðingasamsteypan ?

Það er söguleg staðreynd, að Framsóknarflokkurinn hefur um nokkurt skeið gengið flokka fremst fram í kosningum með þau vopn í höndum að viðhafa lýðskrum og hástemmd kosningaloforð.  Virðist þar á bæ hugsað fyrst og síðast um að ná völdum og áhrifum - jafnvel með slíkum vinnubrögðum - en skeytt minna um málflutning ábyrgðar og efnda !

Það hafa vissulega ýmsir unnið kosningasigra í pólitískri sögu, hérlendis sem erlendis, með því að notfæra sér nytsama sakleysingja og trúgirni þeirra og tala slétt inn í vonir manna um betri tíð og blóm í haga ! En slík vinnubrögð hefna sín yfirleitt og þeir stjórnmálaforingjar og flokkar sem hafa hagað sér þannig, hafa oftast endað slíka vegferð rúnir trausti og hlaðnir skömm og svívirðu !

Það er samt sem áður mjög skiljanlegt, að landsmenn velti því fyrir sér hvaða væntingar þeir geti haft á sæmilega vitrænum grunni til nýrra stjórnvalda varðandi réttarbætur til almennings, eftir öll fjárglæfraverkin sem framin voru gegn almannahag fyrir hrunið og í kringum það ?

En því miður er ríkisstjórn „Simma silfurskeiðar" ekki sérlega trúverðug og virðist óneitanlega taka mið af ýmsu sem þótti í góðu gildi fyrir hrun og líklega sækir hún stjórnar-fyrirmynd sína þangað. Til dæmis er dýralæknir í stjórninni eins og þá. Reyndar hefði ég talið að sporin ættu að hræða í þeim efnum. Þó að menn geti verið ágætis dýralæknar er ekki þar með sagt að þeir séu réttir menn í að stjórna fagráðuneytum sem eru langt frá þeirra sérsviði. Og þó að dýralæknar hafi eflaust ágæta þekkingu á atferli dýra og hvernig þau leysa úr sínum vandamálum, ættu þeir ekki að taka of mikið mið af þeirra aðferðum, að minnsta kosti ekki sem ráðherrar. Það er t.d. ekki skynsamlegt í málum að taka mið af mannýgu nauti sem setur undir sig hausinn og vill stanga alla andstöðu niður. En stundum mætti halda að dýralæknar sem sest hafa í ríkisstjórn hafi þá mynd fyrir sér þegar á móti blæs og hugsi sér jafnvel að vinna hvern slag með slíkum bola-brögðum ?

Afturgengið hrunsvald var heldur ekki það sem beðið var um í kosningunum, en Framsókn er hinsvegar þess eðlis í dag að hún getur ekki starfað með neinum aðila nema íhaldinu og leggst gjarnan undir það, nema kannski í ferilskráar-spursmáli um forsætisráðherrastólinn !

Skuldsett heimili í landinu, fyrir utan forréttindaheimilin, verða greinilega enn um sinn að bíða sinnar lausnartíðar. „Simmi silfurskeið" er líklega að glíma við það verkefni núna - að íhuga vandlega, hvernig hann eigi að fara að því að skella sér í loforðum hlaðinn riddarabúninginn ?

Hvernig hann eigi að hefja burtreið sína gegn verðtryggingu og öðrum ógnum sem fjármála-aðallinn í landinu hefur búið til, með dyggri aðstoð þings og stjórnar á umliðnum árum, til heftingar almennri velferð í landinu ?

En takið eftir, Simmi þarf að heyja þessa burtreið við eigið lið ! Hann er skilgetið afkvæmi þeirra forréttinda sem blómstra þar sem auður er í garði og gull á hverju strái ! Það er því ekkert undarlegt að menn spyrji, er hann líklegur til slíkrar framgöngu, eru orð hans fyrir kosningar líkleg til að eiga samhljóm í gerðum hans eftir kosningar ?

Maðurinn hefur fengið völdin sem hann þráði, út á hástemmd kosningaloforð sín, og er orðinn forsætisráðherra landsins, eftir einn skemmsta stjórnmálaferil sem um getur að því takmarki.  Og spurning dagsins er auðvitað kýrljós, fellur hann í gamalgróið spillingarfar eða tekur hann hugsanlega á málum með nýjum og farsælum hætti fyrir land og þjóð ?

Framganga ríkisstjórnarinnar varðandi veiðileyfagjaldið og sýnileg áfergja innan hennar til að keyra LÍÚ-lausnarkröfuna í gegn, er sannarlega ekki til þess fallin að auka trú almennings á heilindi „Simma silfurskeiðar" og samstarfsmanna hans í stjórninni gagnvart leiðréttingarmálum sem snerta almenna velferð !

Það mun sýna sig hvernig þau mál fara og ekki er ég sérlega bjartsýnn í þeim efnum. En þó hallast ég að því, að menn muni  - að lokum - læra það af biturri reynslu, að best sé að dýralæknar sinni sínu fagi, og forréttinda fæddir menn reyni ekki að leika neinar þjóðhetjur heildarhagsmuna eða varpi sér í hnakk sem einhverjir sólskinsriddarar fyrir almennri velferð ?

 

 

 

 


Góður vinur kvaddur !

Þann 18. maí sl. lést elsti vinur minn Gissur Ó. Erlingsson á 105. aldursári !

Þar fór merkur maður af þessum heimi og kem ég til með að sakna hans mikið.

Við ræddum mikið saman í síma til margra ára, ræddum um sögu, bókmenntir, stjórnmál og allt sem okkur þótti áhugavert.

Mér fannst oft sem ég væri hreint út sagt beintengdur við söguna þegar ég ræddi við Gissur því hann sagði mér frá mörgu sem hann hafði sjálfur upplifað og mér fannst vera nokkuð langt frá í tíma, svo sem Alþingishátíðinni 1930.

Gissur var afkastamikill þýðandi og kynni okkar hófust fyrir það að ég tók eftir því að hann hafði þýtt óvenju margar bækur sem höfðuðu sterkt til mín.

Fór mig að langa mikið til að hitta þennan mann og leitaði ég hann uppi í höfuðborginni og strax þá fundum við að við áttum ýmislegt sameiginlegt á áhugasviðunum. Fyrsta bókin sem hann þýddi var hin ógleymanlega saga The Keys of the Kingdom ( Lyklar himnaríkis ) eftir A. J. Cronin. Hún var kvikmynduð með Gregory Peck í aðalhlutverkinu.

Þessa bók les ég og hugleiði reglulega því hún er hafsjór fróðleiks um það hvernig fólk er og getur verið, hvernig mannleg samskipti þróast og vaxa að göfgi eða vaxa ekki neitt. Í stuttu máli sagt, þessi saga er alltaf að segja mér eitthvað meira en ég vissi áður. Gissur þýddi líka Roberts sjóliðsforingja eftir Thomas Heggen, en þar er húmorinn í fullum gangi. Sú bók var líka kvikmynduð en myndin stendur sögunni langt að baki að mínu mati.

Þær eru áreiðanlega hátt á annað hundraðið bækurnar sem Gissur hefur þýtt og margar þeirra eru mikið framlag af hans hálfu til menningarlegs mannþroska hérlendis. Hann þýddi á síðustu árum bókina Ríkisstjórann eftir Howard Fast sem er ævisaga John Peter Altgelds, en enginn vildi gefa hana út vegna þess að hún var ekki talin ýkja gróðavænleg. En bókin sú lætur engan mann ósnortinn sem hefur sæmilega óspillt blóð í æðum.

Gissur þýddi líka Togarasögu sem segir frá kjörum breskra sjómanna á togurum hér við land. Þar fræðist maður um margt sem þarflegt er að vita. Sú þýðing er líka óútgefin.

Gissur þýddi svo - síðast en ekki síst - ýmis öndvegisrit fyrir Aðventista-söfnuðinn og þar ber hæst að mínu mati Deiluna miklu eftir Ellen G. White.

Ég kveð Gissur vin minn með mikilli virðingu og þökk og læt hér fylgja með vísur sem ég sendi honum skömmu eftir efnahagshrunið, en okkur fannst báðum sem þá hefði illa verið staðið að verkum af stjórnvöldum á öryggisvakt fyrir íslenska þjóð.

 

Til vinar míns Gissurar Ó. Erlingssonar.

Ort 10.12.2008.

Illa er komið okkar málum,

aldni vinur minn.

Uggur hefur sótt að sálum,

sé ég það og finn.

 

Öryggið sem áður fyllti

alla er farið nú.

Rotinn hópur rændi og spillti,

rýrði þjóðarbú.

 

Ömurlegt er allt það gengi,

- enda hrópað: Svei !

Helst því líkt sem hefur lengi

herjað Sikiley.

 

Verst þar okkur vitnið gefa

vítisþræla gjöld.

Þó að reyni þjóð að sefa

þýlynd yfirvöld.

 

Sökin þar er sökin mesta,

sjá það fleiri brátt.

Eftirlitsins augu bresta

oft á margan hátt.

 

Viljaleysi og værð þar getur

villt um skyldusvar.

Enginn stóð sig öðrum betur,

allir brugðust þar.

 

Yfirvöldin öll þar sváfu,

undu sér við draum.

Með því illu gengi gáfu

græðgis lausan taum.

 

Gerðir þeirra  undiroka

alla velferð hér.

Ár sem fóru öll í hroka

ægja mér og þér.

 

Því er nú á okkar eyju

engin gróskutíð.

Spurning lífs í spennitreyju,

sparkað vinnulýð.

 

Niðjar okkar á því kenna,

er sú myndin stríð.

Arðránið mun á þeim brenna

alla þeirra tíð.

 

Fjöregg þjóðar frelsis hefur

fengið meðferð þá,

sem um gjöldin synda krefur,

síst því neita má.

 

Þó að skapað skuldahelsið

skaði Íslands kyn,

þjóðin má ei missa frelsið

miðstjórnar í gin.

 

Þjóðin má ei glata glóru,

ganga á seiðinn villt,

hugar blekkt í björgin stóru,

Brussel-órum fyllt.

 

Ef að staðan okkur gefur

eðli mútufúst.

Verður allt sem unnist hefur

íslensk brunarúst !

 

***********

 

 

 

 

 

 

 


Hugað að íslenskum rótum !

Við Íslendingar erum sannarlega undarleg þjóð og margbrotinn söfnuður !

Við höfum þraukað í gegnum aldir harmkvæla og hörmunga, oftast eins og hangandi á hálmstrái fornrar frægðar og enn erum við síspilandi út mikilmennsku af inngróinni minnimáttarkennd.

Það er eins og Jón Hreggviðsson skríði þá fram í okkur öllum og ríði húsum í okkar sálarbyggðum og kveði rímur við raust !

Og þó að sumir Íslendingar þykist heimsborgarar miklir og tali af fyrirlitningu um þröngsýnan torfkofahugsunarhátt og nesjamennsku, skína jafnvel í gegnum slíkan og þvílíkan gorgeir erfðir sem eiga kannski rætur í eyjarnefnu á Breiðafirði eða jafnvel einni lítilli þúfu norður í landi !

Í átthagana andinn leitar segir í kvæðinu og þangað leitar klárinn sem hann er kvaldastur er líka þekkt viðkvæði. Við eyðum kannski hálfri ævinni og vel það í þá sígildu baráttu að koma okkur fyrir einhversstaðar og uppgötvum svo á stund sigursins og uppskerunnar að við eigum í raun heima á allt öðrum stað.

Þá er það kannski einhver afdalur sem dregur eða einhver hundaþúfa út við hafið, þar sem afi og amma áttu kannski heima, þar sem einhverjar óljósar minningar í sálarlífinu eiga upphaf sitt og þangað leitar hugurinn - ekki síst þegar líða fer að ævikveldinu !

Og við Íslendingar erum svona upp til hópa - allir með einum eða öðrum hætti, að leita eigin upphafs, leita í eigin kviku, leita að því sem skiptir okkur mestu. Við finnum þetta þegar aldurinn fer að færast yfir okkur, þegar við höfum eltst við blekkingar meginhluta ævinnar, hlaupið á eftir vindinum og tilbeðið skurðgoð síbreytilegs og síversnandi tíðaranda. Þá loks sjáum við að það vantar einhvern  sálarhrópandi kjarna í lífsmyndina !

Þá finnum við allt í einu að okkur langar heim, heim í heiðardalinn, heim með slitna skó. Þá er það heimur pabba og mömmu, heimur afa og ömmu, sem togar, höfnin sem við lögðum frá út á lífshafið mikla, endur fyrir löngu.

Gamlar heimaslóðir öðlast nýtt líf og margt fólk sem er að verða gamalt, virðist halda að það finni æskubrunninn aftur með því einu að snúa heim og hlynna að því besta sem hugurinn geymir og einu sinni var. En það er auðvitað ekki svo, en samt er það oftast óviðráðanleg hvöt sem rekur okkur til bernskuslóðanna, til móts við okkar eigin rætur.

En það er kominn annar tími sem talar með nýjum hætti og kynnir nýja siði, og það er náttúrulega allt breytt og lífið sem skipti okkur svo miklu þegar við vorum á æskuskeiði, fólkið okkar, gömlu ástvinirnir sem voru þá til staðar allt í kringum okkur, þetta dýrmæta skyldulið, er farið og hefur kvatt og kemur aldrei aftur.

Og við sitjum eftir með minningarnar sem lifa í okkur og með okkur, og því fer svo hjá okkur flestum að við teljum okkur njóta þeirra best þar sem þær urðu til, í gamla dalnum eða á ströndinni við ysta haf.

Og lífssagan spinnur nýja og nýja kafla utan um okkur meðan við erum hér, uns við hverfum líka inn í víddina sem bíður okkar - eins og þeir sem á undan eru gengnir.

Vonandi skiljum við flest eitthvað eftir sem gagnast getur niðjum okkar á þeirra vegferð og hjálpað þeim til að greina vörður á leið til lífshamingju og lífsfyllingar.

Við Íslendingar erum svo fáir, að við ættum þessvegna að geta verið sem ein fjölskylda og slíkt næst best fram með því að vökva hinar þjóðlegu rætur, hin sameiginlegu erfðabönd, sem eru hin þjóðlegu blóðbönd okkar allra !

Þarf ekki höfuðtakmark lífs okkar að vera að hlynna að öllu því sem getur gert samfélag okkar heilbrigðara og okkur að betri manneskjum meðan við erum hér ?

 

 

 

 


" Örlætisgjörningur ? "

Fyrir nokkru horfði ég á fréttir í sjónvarpi og var þar kynnt niðurstaða úr svonefndum Baugsmálum og ósköp fannst mér nú afraksturinn lítill eftir allt stappið árum saman. Það er augljóst mál að þjóðin hefur ekki grætt neitt á þessum miklu málaferlum en fróðlegt væri að vita heildar launasummu lögfræðinga eftir þetta fargan því hún hlýtur að vera stjarnfræðileg !

En þar sem ég sat og hlustaði á þessar fréttir, heyrði ég orð sem ég hafði ekki heyrt áður, en það var „ örlætisgjörningur " !

Það kom fljótt í ljós að þetta var einskonar lagatæknilegt orð yfir þjófnað !

Og eins og skilja má, er þetta orð bara notað þegar „fínir aðilar"  brjóta lög og reglur. Þeir stela nefnilega ekki þessir menn, ónei, þeir ganga bara fram í örlætisgjörningum gagnvart sjálfum sér og öðrum !

Þetta þykja víst oft svo kurteisir og flottir menn, að allt réttarkerfið liggur eiginlega hundflatt fyrir þeim og virðist dást að þeim í bak og fyrir, enda eru lögfræðingar þeirra ekkert slor !

En þessi glansmynd er ekki ekta og veruleikinn er allur annar, hvað sem reynt er til að „hagræða"  sannleikanum, enda eiga svikahugtök aldrei samleið með því sem satt er og rétt.

Huliðsblæja hræsninnar dugir oftast skammt gagnvart þeim sem vilja sjá og skilja hvað er í gangi og neita að beygja sig fyrir blekkingum og svínaríi.

Það er rangt að loka augunum fyrir því sem sjáandi fólki ber að sjá !

Þegar eignum almennings eða þjóðar er stolið er það kallað að  „einkavæða"   og þegar stolið er innan úr fyrirtækjum sem eru í raun gjaldþrota, til að hygla vinum og vandamönnum er það sem sagt kallað „ örlætisgjörningur" og þá er örlætið auðvitað á annarra kostnað, yfirleitt lands og þjóðar !

Þetta er ekkert nýtt í sögunni. Það hafa alltaf verið til menn sem hafa talið það sjálfsagðan hlut að fara frjálslega með almannafé. Cató gamli sem uppi var um 200 árum fyrir Krist og var með kostum og göllum nokkuð samkvæmur sjálfum sér, sagði um samtíð sína „ þegar einhver stelur frá nágranna sínum fer hann í fangelsi og hlýtur refsingu, en sá sem stelur af almannafé er klæddur purpura og gulli !"

Á þessu sjá menn kannski hvað maðurinn hefur þroskast mikið á þessum 2200 árum sem liðið hafa frá þessum ummælum Catós um samtíð sína !

Það er gamalt áróðursbragð að búa til hugguleg hugtök yfir vonda hluti. Eitt sinn var talað um extermination þegar átt var við ákveðinn verknað, en það þótti ekki nógu gott orð og minna óþægilega á hugtök eins og extermination camps, svo tekið var upp hugtakið termination, en það ónáðaði líka samvisku einhverra, svo tekið var upp hugtakið abortion en með því þóttust menn ná niðurstöðu sem truflaði engan !

Við Íslendingar féllum svo í nokkuð sambærilega gryfju og fórum að tala um fóstureyðingu, svona í svipuðum dúr og talað er um sorpeyðingu.

En rétta orðið er auðvitað fósturdeyðing því það er verknaðurinn sem hér um ræðir. Það er nefnilega ekki verið að losa sig við eitthvað rusl eða fjarlægja eitthvað slíkt, það er verið að deyða saklausasta líf sem til er !

Eins er það þegar talað er um örlætisgjörning þegar menn eru einfaldlega að fremja þjófnað !

Af hverju er ekki talað um hlutina á einfaldan og ærlegan hátt ?

Hverjir hafa svona mikinn hag af því að umvelta slíkum og þvílíkum hugtökum og gera þau hlutlaus, ópersónuleg, flöt og ósönn ?

Það skiptir miklu að fólk sé vakandi fyrir því hvernig hugtök eru notuð og geri sér grein fyrir þeim blekkingabrögðum sem viðhöfð eru hverju sinni.

Það virðist alltaf vera nóg til af aðilum sem kjósa að þrífast á því öllu öðru fremur að beita blekkingum og svikræði í samfélagslegri framgöngu sinni.

Slíka aðila ber að varast, og þeir sem tala um örlætisgjörninga í staðinn fyrir þjófnað eða fjalla um hluti með sambærilegum hætti, eru að mínu mati í hópi þeirra sem standa falskt og rangt að málum.

 

Auðga sig á illu stigi

ýmsir menn á hverjum degi.

En þjóðfélag sem þrífst á lygi

það er ekki á góðum vegi !


Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 3
  • Sl. sólarhring: 131
  • Sl. viku: 809
  • Frá upphafi: 356654

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 641
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband