Bloggfærslur mánaðarins, mars 2015
25.3.2015 | 20:47
Skurðgoðin snúa til baka !
Nú á tímum þykir víst flest meira spennandi og skemmtilegra en að vera kristinn. Og þeim virðist fara fækkandi sem aðhyllast kristindóm og þora að kannast við það. Þjóðfélag okkar í dag er orðið svo frjálslynt og víðsýnt og fordómalaust, að þeim virðist stöðugt fjölga sem hafa enga fordóma nema þá gagnvart kristinni trú !
Þjóðin okkar sem hefur fram undir það síðasta sent kristniboða til þriðja heims landa til að boða það sem kallað hefur verið fagnaðarerindið, þjóðin sem átt hefur gegnheila menn eins og Ólaf Ólafsson og fleiri slíka á trúboðsakrinum, virðist nú í mörgu telja það best sér til vaxtar og viðgangs að aðhyllast á ný trú á stokka og steina.
Þjóðin okkar hlær og gerir grín að myrkhræðslu fólks á liðnum tímum, draugatrú og hindurvitnum, galdrafári og geggjun á ýmsum sviðum, en allt þetta á sér fulla samsvörun í yfirstandandi tíma, sem á þó vera svo upplýstur að aldrei hafi svo menntað mannkyn tórt á þessari jörð !
Hvað með orkusteinana sem seljast grimmt og eiga að fela í sér allskyns krafta fólki til hjálpar í lífinu ? Hvað með öll húðflúrin sem eiga að vernda fyrir illum öndum og ég veit ekki hvað ? Hvað með sambandið við geimverurnar og orkuna frá Snæfellsjökli ? Hvað með kaup á fokdýru lituðu vatni sem á að lækna öll mein ? Hvað með svokallaða Ásatrú sem virðist í einhverri uppsiglingu hér og talar fyrir því sem var aflagt fyrir þúsund árum vegna þess að það þótti ekki lengur forsvaranlegt í siðuðu mannfélagi ? Hvað með Harry Potter delluna og galdrafárið í kringum þá einskisverðu uppdiktun ? Hvað með trú á álfa og tröll, trú á kýklópa og kentára löngu liðinna alda Tolkien-átrúnaðinn allan ?
Hvað með alla heilunarsérfræðingana og reikimeistarana sem bjóða lausnir á nánast öllu því sem stendur fólki fyrir þrifum ? Hvað með yogaafbrigðin sem eiga að vera allskonar aflstöðvar fyrir fólk og gera það að gangandi kraftaverkum ? Hvað með Búddista-kenningarnar sem eiga að friða og gera fólki fært að slaka algerlega á ? Hvað með indversku leiðirnar sem Gunnar Dal og fleiri hafa boðað sem kraftbirtingu nýrra hluta í mannlífinu o.s.frv.o.s.frv.o.s.frv. Af hverju er Indland þá ekki fyrir löngu búið að taka sér afgerandi forustu í andlegum málum heimsins fyrir tilverknað slíkra kraftbirtinga - í stað þess að vera úthrópað um allar jarðir fyrir svívirðileg nauðgunarmál ?
Þetta allt og margt fleira hefur verið innleitt á síðustu árum í íslenskt mannlíf í áður óþekktum mæli og ef það væri það sem það er sagt vera, til gildis og góðs fyrir alla, ætti þjóðfélag okkar líklega að vera nánast frítt við alla óværu í dag ! En hvar sjást merkin um að öll þess mikla innspýting ætlaðra gæða í okkar þjóðmenningu hafi orðið til góðs ?
Hjátrú varðandi orkusteina og húðflúr er að mínu viti bara endurtekning sögunnar á gömlum, blindum kennisetningum sem aldrei hafa haft neitt í farteskinu nema blekkingar og kaupmennsku. Og allt það sem hefur verið upp talið hér að framan eru í raun stykki í það púsluspil afvegaleiðingar sem farið hefur hamförum um Vesturlönd á síðustu áratugum undir merki Laodíkeu undir mannréttindasóknar-merkinu mikla, sem er ekkert nema gunnfáni þess tíma sem opnar að fullu glötunarleiðina til hins endanlega dauða !
Og rétttrúnaður nútímans, sem á yfirborðinu er sagður helgaður frjálslyndi, víðsýni og fordómaleysi, er auðvitað langt frá öllum þessum í sjálfu sér - ágætu viðmiðum. Yfirlýstur rétttrúnaður er aldrei neitt af þessu. Hann felur það alltaf í sér að vera afturhaldssamur, þröngsýnn og umburðarlaus. Hann er alltaf stefna sú sem hyllir óbreytt ástand status quo.
Rétttrúnaðarelíta hvers tíma hefur alltaf hrópað út yfir samtíð sína í upphöfnum hroka sjálfsins: Við höfum náð hæsta punkti mannlegs þroska, við höfum staðsett okkur nákvæmlega þar og verðum þar áfram ! En ekkert af mannsins hálfu - eins og sér - er eða getur verið varanlegt. Það liggur í sjálfu sér ljóst fyrir því maðurinn er ekki varanlegt fyrirbrigði og getur aldrei orðið það í eigin mætti. Tilvera mannsins er honum jafn mikill leyndardómur í dag og hún hefur alltaf verið. Hann veit ekkert með vissu um tilgang tilveru sinnar !
Hann kemur og veit ekki hvaðan, hann er og veit ekki hversvegna, hann fer og veit ekki hvert ?
21.3.2015 | 10:11
"Á ég að sýna ykkur mann ?"
Ég ætla að fara hér nokkrum orðum um feril manns sem hét John Jay McCloy og var Warren-nefndarmaður með meiru. McCloy fæddist árið 1895 og lést 1989, komst sem sagt á tíræðisaldur, svo sú umsögn hefur ekki átt við hann sem segir þeir sem guðirnir elska deyja ungir !
John McCloy er sagður hafa verið meðal námsmaður í skóla, en snemma lært það vel að komast bærilega af innan um elítusyni bandaríska þjóðfélagsins. Hann tók þátt í fyrri heimsstyrjöldinni og hlaut nokkurn frama þar, en að því loknu lauk hann laganámi sínu í Harvard. Hann hóf síðan þjónustuferil sinn sem lögfræðingur og þegar kom fram yfir 1933 starfaði hann mikið á vegum fyrirtækja í Þýskalandi nazismans og var lögfræðilegur ráðunautur efnahringsins I. G. Farben. Hann varð því vel kunnugur þýskum málefnum á þessum tíma og inn á gafli hjá mörgum valdamiklum þýskum aðilum. Hann réðst síðan í þjónustu bandarísku ríkisstjórnarinnar árið 1940. Á vegum stjórnarinnar starfaði hann sem ráðgjafi fyrir Stimson hermálaráðherra, en McCloy var republikani eins og hann.
Í apríl 1941 var McCloy gerður að nokkurskonar aðstoðar hermálaráðherra . Hann átti sem slíkur mikinn og kannski mestan þátt í að setja um 110 þúsund japanska bandaríkjamenn í fangabúðir eftir Pearl Harbor og þar átti hann fulla samleið með Earl Warren sem oftar. Sumir hafa fullyrt að þessi aðgerð hafi verið versta brot sem framið hafi verið á borgaralegum réttindum manna í Bandaríkjunum allt frá þrælahaldstímunum. Menn voru reknir frá heimilum sínum fyrirvaralaust og öll mannréttindi þeirra afnumin í einni svipan.
Ferill McCloy á þessum árum sýnir í öllu að hann var mjög hægrisinnaður og jafnvel grunaður af sumum um að vera haldinn kynþáttafordómum. Réttindi almennra borgara eða lýðræðisleg gildi virðast ekki hafa skipt hann miklu máli. Hann mun hafa sagt á fundi með J. Edgar Hoover og Francis Biddle í febrúar 1942 : The Constitution is just a scrap of paper for me ! (Stjórnarskráin er bara pappírssnifsi í mínum augum ! )
Í mars 1947 var McCloy skipaður forseti Heimsbankans og gegndi hann þeirri stöðu fram í júní 1949. Í september það ár var hann svo gerður að fyrsta aðalumsjónarmanni Bandaríkjanna í Þýskalandi og var í þeirri stöðu fram í ágúst 1952. Í því starfi virðist hann hafa gengið mjög hart fram í því að náða stríðsglæpamenn nazista eða stytta fangelsisdóma þeirra.
Þar gleymdi hann ekki fyrri iðnaðargreifum og gömlum málvinum eða skyldmennum þeirra, svo sem Friedrich Flick, Martin Sandberger og Alfred Krupp. Hann sá líka til þess að Flick og Krupp fengu eignir sínar aftur í hendurnar og stæðu réttir eftir stríðið þrátt fyrir allt það sem þeir höfðu aðhafst á þeim árum. Það eitt segir töluvert mikið um einstaklinginn John McCloy !
Martin Sandberger (1911-2010) var ógeðslegur nazista-fjöldamorðingi og hvet ég menn til að skoða það efni á netinu sem fjallar um andstyggilegan ódáðaferil hans. McCloy náðaði þennan mann án þess að depla auga og ég vil benda mönnum á þá staðreynd að faðir Sandbergers var áður einn af forstjórum I. G. Farben og sem slíkur einn af vinum McCloys frá fyrri tíð !
McCloy náðaði einnig þá Joseph Dietrich og Joachim Peiper, sem höfðu verið dæmdir í fangelsi fyrir stríðsglæpi, m.a. fyrir aðild sína að Malmedy fjöldamorðunum, þar sem hátt í hundrað bandarískum föngum var slátrað með vélbyssuskothríð í Ardennasókninni, sbr. sláandi atriði í kvikmyndinni Battle of the Bulge. McCloy virðist ekki hafa haft mikla tilfinningu fyrir því sem þar gerðist og greinilega kosið að horfa framhjá þeim voðaverkum og náða þessa stríðsglæpamenn. Hann náðaði líka Ernst von Weizsacker háttsettan nazista, sem var meðal annars aðstoðar utanríksráðherra nazistastjórnarinnar og foringi í SS. Með því ávann hann sér líklega enn frekari velvilja meðal hægri afla í Vestur Þýskalandi og sér í lagi gömlu hástéttanna, en McCloy var alltaf nokkuð gjarn á að sleikja sig upp við slíkt slekti eins og þekkt er með menn sem gangast umfram allt fyrir efnislegum ávinningi og heimslegri upphefð.
Löngu síðar veitti Richard von Weizsacker (1920-2015) forseti Vestur-Þýskalands 1984-1990, McCloy stöðuréttindi heiðursborgara í Vestur-Þýskalandi, en Richard þessi var náttúrulega sonur Ernst von Weizsackers og launaði hann McCloy fyrir greiðann við pabba gamla með þeim hætti. Richard von Weizsacker sat svo áfram eftir sameiningu þýsku ríkjanna sem forseti Þýskalands frá 1990 til 1994 og þá var trúlega allt komið í gamla góða farið aftur, að mati manna eins og hans og McCloy.
Allt bendir til þess að McCloy hafi tafið mál og hindrað skýrslugerð um það sem var í gangi í Auschwitz þó vitnisburðir um það væru þá farnir að vera mjög afgerandi. Er erfitt að skilja hvað honum hefur gengið til með því nema gefa sér það að hann hafi í raun og veru verið á einhverri svipaðri línu og Henry Ford í viðhorfum sínum gagnvart Gyðingum !
McCloy er líka talinn hafa haldið verndarhendi yfir fjöldamorðingjanum alræmda Klaus Barbie (1913 - 1991) meðan hann gat og mun honum þó hafa verið vel kunnugt um böðulsferil hans í Frakklandi undir hernámi Þjóðverja og glæpaferil hans í heild. Það mál er mjög undarlegt og óhreint í alla staði. Barbie var hjálpað og honum gert kleyft að flýja til Bólivíu og koma sér fyrir þar. Hann var þar síðan hjálplegur við ýmis handarviðvik sem hentuðu böðli af hans gerð og meðal annars er sagt að hann hafi aðstoðað við að handsama Ché Guevara sem síðan var myrtur. Barbie er sagður hafa hrósað sér af því að hafa átt þátt í því verki. Hann var seinna framseldur til Frakklands af nýjum yfirvöldum í Bólivíu og lést þar í fangelsi, óþokki til hins síðasta.
McCloy var stjórnarformaður Chase Manhattan Bank frá 1953 til 1960 og sat sem stjórnarformaður Ford-stofnunarinnar 1958-1965. Hann gætti víða hagsmuna Rockefeller-ættarinnar, enda á þeirra snærum frá unga aldri og alla tíð síðan. Seinna varð hann svo ráðgjafi forsetanna John F. Kennedys, Lyndon B. Johnsons, Richard Nixons, Jimmy Carters og Ronalds Reagans. Oft var hann mikill áhrifavaldur á bak við tjöldin og ekki síst á ætluðum valdatíma Jimmy Carters, sem fékk eiginlega aldrei að vera sjálfstæður forseti, meðal annars vegna mikillar afskiptasemi baktjaldahákarla eins og McCloys.
McCloy fékk að sjálfsögðu hin og þessi heiðursmerki um ævina fyrir dygga þjónustu við þjóðina ! Rétt eftir morðið á Kennedy þann 6. desember 1963, sæmdi Johnson forseti hann til dæmis Frelsisorðu Forsetans með sérstökum heiðri og geta menn velt því fyrir sér hvað hefur legið þar að baki !
McCloy var náinn vinur Allen Dulles, enda tengdur skuggaheimi leyniþjónustunnar frá fyrstu tíð, og gekkst fyrir hans orð að sagt er inn á The lone gunman theory varðandi Kennedymorðið, en sú niðurstaða þjónaði alfarið hagsmunum ráðandi afla í því máli. Fyrst hafði McCloy að sögn verið efagjarn á þá skýringu á tilræðinu, en honum var náttúrulega gert það ljóst frá fyrstu hendi hvað honum bar að gera og McCloy var alltaf maður sem tók rökum !
McCloy starfaði víða fyrir hinar Sjö systur, alþjóðlegan hring risaolíufélaganna, fyrirtæki og samtök eins og Exxon og OPEC. Vegna langtíma þjónustu sinnar í þessu og öðru var stundum vísað til hans sem The Chairman of the American Establishment !
Margt fleira í svipuðum dúr mætti segja um þennan mann og óhreina mjölið í ævipoka hans, en athyglisverðast er að þessi maður, með þennan feril að baki, var talinn af Johnson forseta, öðrum mönnum hæfari til að þjóna réttlætinu við rannsókn morðsins á Kennedy ! Ég vil hinsvegar segja að allur ferill McCloys hafi verið gangandi vitnisburður um ákveðinn stuðning við allt sem var ekki í anda John F. Kennedys !
Þau Bandaríki sem McCloy vildi sjá og viðhalda voru áreiðanlega allt önnur Bandaríki en Kennedy sá fyrir sér í sinni framtíðarhugsjón. Þar mun himinn og haf hafa skilið á milli viðhorfa. Ég fæ heldur ekki á nokkurn hátt séð að réttlætið hafi skipt John McCloy miklu máli í þessi rúmlega níutíu ár sem hann fékk að valsa um hér á jörð, enda þjónaði hann að mínu mati allt öðrum og verri málstað.
Það er trú mín að heimurinn hafi ekki gott af mönnum eins og John McCloy og því færri sem þeir eru þeim mun betra sé það fyrir lífið á jörðinni. Sumir eru einfaldlega þannig gerðir og gera sig þannig að þeir verða seint öðrum til blessunar !
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:15 | Slóð | Facebook
14.3.2015 | 12:06
Um allra lægða land !
Ísland er sannarlega sannkallað lægðaland. Það á ekki bara við þegar veðurlagið er annarsvegar, heldur gildir það um nánast alla hluti í tilveru okkar, ekki síst hin síðari ár. Við höfum búið við stöðugar efnahagslægðir allan þann tíma sem við höfum þóst vera sjálfstæð og afleiðingar þess hafa meðal annars verið þær að velferð okkar hefur jafnan verið í algeru skötulíki. Hinn sígildi samanburður við hin norðurlöndin hefur aldrei verið marktækur og byggst eingöngu á áróðri og lygi.
Efnahagslægðin 2008 var svo djúp að í raun og veru kaffærði hún þjóðarskútuna um tíma og enn er það reyndar mikil spurning hvort það hripleka fley sé komið úr kafi og stjórnhæft sem slíkt ? Gripdeildirnar í fjármálakerfinu voru slíkar að það er ekki á færi venjulegs fólks að skilja það sem átti sér stað mitt í öllu eftirlitinu !
Sú skaðvæna lægð sem keyrði íslensku þjóðina þar í kaf orsakaðist frekast af því að yfirmannahluti áhafnarinnar, hinn borðalagði hlunnindahópur, sá sem réð stefnu og stýri, bar ekki á nokkurn hátt eðlilega ábyrgð og umhyggju gagnvart heildarhagsmunum þeirra sem um borð voru og áttu líf sitt undir því að þjóðarskútunni væri siglt af fyllstu gát um úfið málahaf þeirrar veraldar sem aldrei er til friðs.
Seðlabankinn fór líklega í sína dýpstu lægð á þessum tíma og var þó sagður vera undir snilldarstjórn, samkvæmt háværu mati þeirrar gullkálfamafíu sem hefur aldrei virst vita neitt um lífskjaralægðir í landi þessu, þó hún hafi valdið þeim flestum !
Og það eru lægðir á vinnumarkaði sem birtast skýrast í því að hálaunastéttir eiga að fá kauphækkanir þegar eftir því er óskað, en venjulegum launþegum er sagt svo gott sem að éta skít. Það er hið sígilda stef frá tímum Joe Hills sem hefur alltaf ráðið í almennum kjaramálum á Íslandi : Work and pray, live on hay, you´ll get pie in the sky when you die !
Og það er alveg sama hvort talsmaður atvinnurekenda ber nafnið Víglundur Þorsteinsson eða Þorsteinn Víglundsson eða eitthvað annað ; alltaf er sama viðkvæðið uppi við ef venjulegir launþegar vilja fá einhverja kauphækkun. Þá er það alltaf almætti sérgæskunnar sem talar. Þá er sagt með miklum áhyggjusvip, að allt muni fara í bullandi verðbólgu og lífskjörin detta niður úr öllu valdi. Og þannig er alltaf talað af hálfu þessara sérhagsmunahöfðingja þegar þeir koma í opinberri umræðu inn á hin margniðursöxuðu lífskjör okkar, venjulegs launafólks í þessu marghrjáða lægðalandi, þessi lífskjör sem eru Norðurlandaskömm !
Efnahagslægðastefnan er og hefur lengi verið allsráðandi í þessu landi. Öllum gróða hefur jafnan verið stýrt inn í einkadilka en tapi sturtað niður til almennings. Og þessvegna er sú staða tilkomin í landinu að sumir vita ekki aura sinna tal en aðrir lifa við hungurmörk. Og sú staða hefur verið búin til og sköpuð af ráðnum hug af forhertum íslenskum sérréttindaaðli í miklu meiri mæli en áður, á síðustu tuttugu árunum eða svo. Enda voru þeir hnútar þá hnýttir í þeim efnum sem seint verða leystir ef ekki verður almennilega tekið á málum í gegnum samtakamátt fólksins í landinu !
Þeir hnútar segja okkur einfaldlega að þjóðleg velferð er ekki á dagskrá hér og hefur reyndar aldrei verið síðan við þóttumst verða sjálfstæð. Það hefur ávallt snúist allt um velferð hinna fáu, fjármagnsgreifanna. Hinar græðgisfullu og óseðjanlegu blóðsugur ganga fyrir í öllu. Þær fá stöðugt að sjúga lífsblóðið úr æðum lands og þjóðar með viðvarandi leyfi valdhafanna.
Og hugsunarháttur þeirra sem gegna mestum hlutverkum í þjónustunni við þessar afætur kom til dæmis í ljós í vikunni þegar formaður Stóra þjóðarógæfuflokksins sagði í raun í fjölmiðlum að með því að koma til móts við kvótagreifana styddi hann þjóðina best !
Hverjir þóttust styðja þjóðina best með því að liðsinna þeim sem mest sem sköpuðu lægðina djúpu 2008 ? Það er alltaf sama óræktarhugsunin að baki, að halda því fram að hagsmunir heildarinnar felist í margfaldri offóðrun hinna fáu sem eiga að njóta alls !
Við getum haldið áfram að tala um lægðir, lægðir í siðferði og heiðarleika, lægðir í mannlegum samskiptum og sálarlífi, lægðir í stéttarlegri samstöðu og góðum gildum. En það sem veldur mestu er sú alkunna staðreynd sem sannast svo víða að - það sem höfðingjarnir hafast að, hinir ætla sér leyfist það !
Eftir höfðinu dansa limirnir og þegar höfuðið er sýkt af allskyns villukenningum sem leiða til ófarnaðar er hætt við að stjórnin á þjóðarskútunni sé og verði afleit. Það hefur sannast með dýrkeyptum hætti í gegnum allar þær lægðir sem herjað hafa miskunnarlaust á þessa þjóð undanfarin ár. Og þar eru þær sem skapaðar hafa verið af mannavöldum verstar allra !
Eiga börnin okkar að erfa þessa stöðu, eiga börnin okkar að búa allt sitt líf við óstöðugleika og óöryggi vegna þess að sumir eiga að fá allt og aðrir sem minnst ? Á íslenskt lýðræði áfram að vera afskræming þess sem það ætti að vera, á allt sem getur verið gott og ærlegt í stjórnarfari alltaf að vera í skammarlegu skötulíki hér ?
Enn ganga lægðir yfir landið og mál er að linni. Ómar Ragnarsson talar í einni bók sinni um ljósið yfir landinu. Það ljós þurfum við að láta lýsa okkur til þjóðlegrar velferðar, því annars er íslenskt samfélag dauðadæmt !
11.3.2015 | 21:59
Plebejar Bandaríkjanna !
Löng er hún orðin baráttusaga svertingja fyrir sjálfsögðum og eðlilegum mannréttindum í Bandaríkjum Norður Ameríku. Þar sannast enn í dag að frelsi í orði er ekki frelsi á borði. Það er margt í þessum efnum þannig á vegi statt í meintu höfuðríki frelsisins að marga myndi setja hljóða ef þeir vissu hina raunverulegu stöðu.
Víða í suðurríkjunum virðast enn í valdastöðum menn sem gætu hugarfarslega verið fæddir um 1840, og þarf kannski ekki endilega suðurríkin til. Hvítir rasistar og fasistar eru margir í Bandaríkjunum og þeir eru líkast til staðráðnir í því að í þessu Rómaveldi nútímans skulu þeir vera hinir ráðandi patrísear, nú og framvegis. Í augum slíkra rudda verða svartir menn víst seint taldir til manna !
En mannréttindi eru réttindi allra manna óháð litarhætti, og varla er hægt að segja að maðurinn sé kominn mjög langt á þroskavegi sínum meðan hann þverskallast við að virða svo augljós sannindi. Og það er mikil þörf á því að taka eftir því hvernig orð og gerðir fara saman, jafnt hjá valdstjórn og einstaklingum varðandi þessi mál sem og önnur, því orð sem engar gerðir fylgja eru oftast lítilvæg og meining þeirra innantóm þegar vel er að gáð.
Á sama tíma og talað er opinberlega mjög fjálglega um Martin Luther King jr., Rose Parks, Jesse Owens, Joe Louis og fleiri þekkta svarta einstaklinga, og hvað allt þetta fólk hafi staðið sig vel við að brjóta niður apartheid-múra bandarísks þjóðfélags hér fyrr á árum, er margt sem segir okkur að víða virðist það ennþá eiga nokkuð langt í land í Júessei að viðurkenna mannréttindi svartra til jafns við hvíta !
Og athyglisvert er að helst virðist svörtu fólki vera hampað og það nafngreint þegar það er látið. Það leiðir hugann að gömlu slagorði þarna vestra í frelsinu, enginn indíáni er góður fyrr en hann er dauður ! Oft eru þessi ummæli rakin til Philip Sheridans hershöfðingja, en oft reynt að milda þau og umorða. Enginn veit náttúrulega lengur hvað Sheridan hefur í raun og veru sagt í þessu tilfelli,en menn eins og hann og Custer og fleiri slíkir voru alkunnir indíánadráparar og því finnst mér hreint ekki ólíklegt að viðkomandi maður hafi sagt þetta svona og meint það fullum fetum.Í mínum augum hafa menn eins og hann og Custer aldrei verið sérlega virðingarverðir sem slíkir.
Sú meining sem í umræddum orðum felst rímar því að minni hyggju alveg forsvaranlega við feril Sheridans hershöfðingja. Allir sem eitthvað hafa kynnt sér söguleg sannindi vita hvernig Bandaríkjamenn fóru með indíána hér áður fyrr og Sandlækur og Undað Hné segja enn sína sögu. Og kannski er það nálægt hugsun margra enn í dag þarna fyrir vestan að á líkan hátt og var með indíána sé dauður svertingi öllu betri en lifandi svertingi ?
Og stundum spyrja sumir af einfaldleik hjartans, af hverju eru svona margir svertingjar í Bandaríkjunum, hvaðan komu þeir ? Jú, þeir eru flestir afkomendur ánauðugs fólks sem var flutt inn í bandaríska frelsið til að vinna þar sem þrælar ! Þessu fólk var rænt í átthögum sínum, oftast í Vestur Afríku og flutt nauðugt yfir hafið til að þræla fyrir hvíta fólkið sem hafði brotist til frelsis frá sínum bresku kúgurum nokkru fyrr. Svertingjarnir voru fluttir inn af nákvæmlega sömu þjóðfélagsöflum og nú í dag vildu frekast óska þeim öllum aftur til Afríku.
Það var allt í lagi meðan hægt var að þrælka þá á fyrri tíma vísu, en nú eru plebejarnir orðnir svo margir að þeim verður ekki haldið niðri á sama hátt og áður og patrísear rasisma og fasisma í Bandaríkjunum sjá nú hvernig þeirra eigin stefna hefur fært þeim heim veruleika sem þeir eiga óskaplega erfitt með að horfast í augu við.
En réttlæti sögunnar skal fá og mun fá sinn framgang þó hægt miði enn um stundir. Svertingjar eiga sinn fulla rétt sem bandarískir borgarar og hann verður þeirra um síðir. Hvíta hægrimafían mun tapa þar að lokum og fá í þeim ósigri sínum fullt endurgjald fyrir græðgi sína fyrr á árum og alla þá ómennsku þrælahaldskúgun sem þá viðgekkst og er og verður ævarandi skammarblettur á bandarísku stjórnarfari.
Til þess eru vítin að varast og apartheid stjórnarfar hvort sem er í Suður Afríku eða Bandaríkjunum eða annarsstaðar á þessari jörð, má ekki og á ekki að líðast. Húðlitur mannsins skiptir engu, blóðið er rautt og felur í sér sama lífið í öllum mönnum hvar sem er í heiminum og það líf ber að vernda og virða, jafnt æsku sem elli. Með þeim hætti einum öxlum við þá ábyrgð að vera manneskjur !
Stjórnmál og samfélag | Breytt 19.3.2015 kl. 20:11 | Slóð | Facebook
4.3.2015 | 20:09
Fasisminn í Evrópu var ekki hreinsaður út 1945 !
Sumir halda að gjörðir Hitlers og Mussolinis hafi verið afmáðar með þeim 1945. En því fer fjarri. Þessir mannkynsbölvaldar teygðu sig langt inn í framtíðina í ýmsum efnum og á ýmsum stöðum með framferði sínu. Á Spáni ríkti til dæmis valdhafi svo til út árið 1975 sem þeir komu til valda á sínum tíma, fasistaforinginn Franco.
Hitler og Mussolini komu lýðveldisstjórninni á Spáni fyrir kattarnef í gegnum Franco með efnahagslegum og hernaðarlegum stuðningi. Og hversvegna var ekki brugðist við þeim afskiptum erlendra ríkja með neinum haldbærum hætti, til dæmis á vettvangi Þjóðabandalagsins ?
Skýringin á því er ósköp einföld, þó að mörgu hafi löngum verið tjaldað til að hylja hana og gera málið flókið. Fasisminn fékk að gleypa Spán vegna þess að svörtum öflum í fjármálaheimi Evrópu, þótti lýðveldisstjórnin í landinu of mikið til vinstri.
Og breskir og franskir ráðamenn létu sér það vel líka og sköpuðu þannig forsendur fyrir áframhaldandi ágang og þrýsting einræðisherranna, sem að lokum leiddi til síðari heimsstyrjaldarinnar. Það er t.d. athyglisvert að stjórn Francos var viðurkennd af breskum og frönskum stjórnvöldum áður en borgarastyrjöldinni var formlega lokið. Það sýnir hvert viljinn stefndi. Svo mikill var ákafinn í London og París að fagna þessum nýju valdhöfum á Spáni.
Reyndar hafa stjórnvöld í Bretlandi og Frakklandi alltaf reynt í gegnum handbendi sín á baráttuvelli sagnfræðinnar að reka fleyg varðandi alla söguskoðun milli borgarastríðsins á Spáni og heimsstyrjaldarinnar síðari, vegna þess að öll skoðun sem beinist að því að tengja atburðarásina saman lítur svo illa út fyrir þau, en sem betur fer hefur aldrei tekist að múlbinda alla menn með slíkum hætti.
Það var heldur engin tilviljun að heimsstyrjöldin síðari braust út svo að segja strax að lokinni æfingunni ! Einræðisherrarnir - og þá sérdeilis Hitler töldu sig vita vissu sína um undansláttarliðið í London og París. Það sem gerðist varðandi Spánarmálin staðfesti allt fyrir Hitler sem gerðist í samningunum í Munchen.
Og það hefur sjálfsagt ekki vantað að Franco hafi viljað fara í stríðið með þessum einkavinum sínum, en Spánn var samt ekki beint í kjörstöðu til þess eftir borgarastríðið. Spænski einræðisherrann ákvað því að fara varlega og bíða átekta þrátt fyrir mikinn þrýsting frá Öxulveldunum. Hann sendi bara herafla gegn Sovétríkjunum, 45.000 manna herdeild, sem ýmis öfl í Bretlandi og Frakklandi reiknuðu honum áreiðanlega ekki til syndar. Tíundi hver maður af þessu liði sem kallaðist bláa hersveitin féll á Austurvígstöðvunum.
Í október 1940 skipaði Franco nýjan utanríkisráðherra í stjórn sína, Suner, æstan fasista og fylgismann Þjóðverja, í stað Atienza sem talinn var hlynntur Bretum. Þegar framvindan í stríðinu fór hinsvegar að sýna vaxandi sigurlíkur bandamanna, taldi Franco nauðsynlegt að setja Suner frá og það gerði hann í september 1942 og setti Jordana greifa sem utanríkisráðherra í hans stað, en hann var íhaldssamur og hægfara og talinn bresk-sinnaður eins og Atienza.
Franco lét safna nafnalistum um Gyðinga á Spáni og síðan var sérlegur öryggisráðgjafi hans gerður að sendiherra í Þýskalandi þar sem hann gat persónulega afhent Himmler þessa lista. Þannig fengu nazistar upplýsingar frá fyrstu hendi um þá borgara á Spáni sem teldust óæskilegir í heimi þeirrar nýskipunar Evrópu sem Hitler ætlaði sér að standa fyrir.
Eftir ósigur Þjóðverja voru hinsvegar flest gögn sem sönnuðu samvinnu spánskra yfirvalda við Hitler eyðilögð en þessum gögnum tókst af einhverjum ástæðum ekki að eyða. Þau bera vitni um hvernig var að málum staðið og sýna gleggst hvað hefði orðið ráðandi stefna á Spáni ef öxulveldin hefðu beðið hærri hlut.
En að því kom sem betur fer, og fyrr en flesta grunaði, að sigurganga Þjóðverja stöðvaðist og staða mála í stríðinu fór að verða æði tvísýn. Ekki þurfti að velta vöngum yfir sigurgöngu Ítala því hún komst aldrei af stað. Og brátt töldu glöggir menn sig sjá ýmis teikn þess að Þýskaland nasismans myndi bíða ósigur og ekki þarf að efa að á þeim tímapunkti hefur Franco hrósað happi yfir að hafa ekki hlaupið í slaginn með þessum vinum sínum og fyrri vopnabræðrum.
En hefði það gerst hefði fasisminn getað endað sitt skeið á Spáni í stríðslok og Franco verið skolað niður í klósett hins sögulega réttlætis á svipuðum tíma og Hitler og Mussolini. Það hefði líkast til orðið enn meiri Evrópuhreinsun ef álfan hefði losnað við þá alla þrjá á þeim tíma, Der Fuhrer, Il Duce og El Caudillo !
Nýjustu færslur
- Endurreisn ómennskunnar !
- ,,Fylgiríki Bandaríkjanna ?
- Hin kratíska feigðarstefna Norðurlanda !
- Útþenslustefna Bandaríkjanna !
- ,,Nýja Kalmarsambandið og glóruleysisgangan !
- Litlar, leiðitamar þjóðir !
- Er herleiðing Flokks fólksins að hefjast..... ?
- Um tilhneigingar til frestunar lýðræðis ?
- Enginn friður, engir samningar, ekkert traust !
- Athyglisverð orð :
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.1.): 49
- Sl. sólarhring: 49
- Sl. viku: 839
- Frá upphafi: 365466
Annað
- Innlit í dag: 38
- Innlit sl. viku: 715
- Gestir í dag: 36
- IP-tölur í dag: 36
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bækur
-
: Fjörusprek og Grundargróður (2023) -
: Í norðanvindi og vestanblæ (2013) -
: Hjartað slær til vinstri - Úr minningaheimi Kalla í Nesbæ (2010) -
: Bræðingur og Brotasilfur (2004) -
: Þar sem ræturnar liggja (2004) -
: Út við ysta sæ (2000) -
: Frá fjöru til fjalls (1996) -
: Vísur frá Skagaströnd (1993) -
: Ljóð frá Skagaströnd (1991)